4.3.2009 | 21:08
Nokkurs konar líknardráp, ótrúlega algengt.
Líknardráp er stórt orð, vandmeðfarið og fólk veigrar sér við að nefna það eða fjalla um það. Ætla mætti að þetta sé sjaldgæft fyrirbrigði en ég held að svo sé ekki, heldur miklu algengara en við viljum viðurkenna.
Að minnsta kosti þekki ég alveg ótrúlega marga sem hafa staðið frammi fyrir því að þurfa að taka ákvörðun um síðustu metrana í lífshlaupi sinna nánustu. Kannski er það ekki skilgreint sem beint líknardráp en um stigsmun en ekki eðlismun að ræða.
Það er erfitt að standa frammi óundirbúinn frammi fyrir spurningunni um það hvort nota eigi ítrustu tækni til þess að framlengja líf manneskju sem á sér sannanlega ekki minnstu von um lengra líf nema þá í meðvitundarlausu dái.
Mér finnst skorta á fræðslu um þetta viðfangsefni, sem allir geta lent í að standa frammi fyrir.
Tökum einfaldasta dæmið. Afkomendur hins sjúka ræða einslega við lækna og hjúkrunarlið um ástand hins dauðvona manns, segjum að það sé faðir. Öllum er ljóst að hann liggur banaleguna og að hann geti jafnvel kvatt hvenær sem er.
Ástandið er orðið þannig að honum er algerlega haldið gangandi með tækninni einni, dælingu í æð og svo framvegis. Hinn dauðvona maður er að mestu leyti í móki og erfitt að átta sig á því hversu mikla meðvitund hann hefur. Stundum liggur hann meðvitundarlaus dægrum saman en stundum bráir nokkur augnablik af honum.
Samkvæmt eigin reynslu og samtölum við aðra, sem hafa reynt svipað, spyrjar læknar oft afkomendurna um það hvað þeir vilji gera, hversu langt þeir vilji ganga, því að þeir hafi fyrst og fremst um það að segja.
Nú er það þannig að ég tel það óskaplega mikinn ábyrgðarhluta að taka ákvörðun sem snertir lífslengd fólks, sama í hvaða ástandi það er. Ég tel einnig mjög erfitt að setja sig í spor hins sjúka og leggja dóm á það hve mikla meðvitund hann hafi í raun og hvaða mælistiku skuli leggja á "lífið" sem hann lifir undir þessum kringumstæðum, leggja mat á gildi hugsanlegra tilvika sem hann skynjar í hljóðlausum, slitróttum og mók-kenndum augnablikum.
"Hann veit ekki hvar hann er," er sagt. "Hann er í rugli og út úr heiminum." En hver getur dæmt nákvæmlega um slíkt annar en sá sem er í slíku ástandi?
Mjög oft er sá sjúki deyfður svo mjög að hann þjáist ekki. Hann getur ekki lengur gefið til kynna hvort þetta svokallaða líf hans, stundum bara eitt og eitt augnablik í senn dag frá deg,i sé einhvers virði.
Ég vil fara mjög varlega í það að leggja mat á það.
Niðurstaðan í tilfellinu sem er grunnur þessa bloggs, var sú að vegna skorts á reynslu afkomendanna við svona aðstæður væri skynsamlegast að treysta hinu reynda starfsfólki, læknum og hjúkrunarliði til að meta það hvenær það þjónaði augljóslega engum tilgangi að framlengja dauðastríðið sem var afar langdregið og gat orðið miklu langdregnara ef tækninni til framlengingar yrði beitt til hins ítrasta.
Við treystum okkur ekki til að taka svona afdrifaríka ákvörðun fyrir jafn nákominn ættingja, annað foreldra okkar.
Við sátum yfir hinum sjúka af eins mikilli alúð og unnt var og sýndum með því að okkur væri annt um hinn sjúki missti ekki af neinu augnabliki, sem hann gæti verið með meðvitund og hugsanlega fundið fyrir nærveru sinna nánustu.
Það hefði hugsnlega verið hægt að láta hann kveðja fyrr þegar langar stundir liðu án þess að hann hefði meðvitund. En ef það hefði verið gert, hefði með því verið komið í veg fyrir að hann fengi tækifæri til þess að kveðja að lokum á alveg einstakan hátt og kóróna líf sitt með því.
Á hverjum degi lengi vel hafði hann stunið upp: "Rallið er ekki búið fyrr en það er búið" og þannig varð það í hans tilfelli.
Við ákváðum að þegar fagfólkið tæki af skarið myndum við líta á það sömu augum og atvik sem væri ekki á okkar valdi. Við töldum okkur ekki hafa reynslu né vald til að velja okkur dag sem hentaði okkur öllum svo að við gætum öll verið viðstödd andlátið.
Ég hygg að best væri að enginn þyrfti að lenda í þeirri aðstöðu að hafa vald til að stytta líf einhvers, hvort sem það líf er með meðvitund eða ekki. En nútíma tækni gerir þetta því miður mun algengara en ætla mætti.
Mitt ráð er þetta: Förum varlega í að leggja dóm á líf, sem er á mörkum lífs og dauða eða við vitundarmörk og hröpum ekki að því að taka ákvarðanir sem varða líf eða dauða. Munum að dauðadómur er endanlegur og óafturkræfur.
Þegar óhjákvæmilegt er að taka af skarið og augljóslega vonlaust að viðhalda lífsmarki er skynsamlegast að láta reynt og gott fagfólk um það að ákveða hvenær það verði að taka draga úr þeim aðgerðum og taka úr sambandi þau tæki og tól sem viðhalda tilgangslausu dauðastríði.
Athugasemdir
Vissulega er þetta alltaf erfitt, þrátt fyrir að læknar og annað fagfólk sé búið að gefa út þá yfirlýsingu að ekkert líf sé framundan hjá þessum einstaklingi. Ég er hlynnt líknardauða undir vissum kringumstæðum, en auðvitað þarf að gæta vel að því að það sé ekki misnotað.
Þegar eiginmaður minn háði sitt dauðastríð fyrir tæpum tveimur árum tók það mjög skamman tíma og það kom aldrei til þess að ég hugsaði um líknardauða, ég var ekki komin á það stig. En ég veit fyrir víst að hefði það dregist í marga mánuði þá hefði ég hugsað mig um, sérstaklega vegna þess að við vorum búin að tala um það.
Við höfðum sömu skoðun á líknardauða. Hvorugt okkar vildi þurfa að liggja lengi og þjást, vitandi það að ekkert var framundan, nema dauðinn hvort sem var og hvorugt okkar vildi liggja lengi algjörlega út úr heiminum tengd vélum og tækjum. Ber okkur ekki skylda til að verða við síðustu ósk deyjandi manneskju ?
TARA, 4.3.2009 kl. 22:15
Vilji hins deyjandi vegur sjálfsagt eitthvað en í flestum tilfellum liggur slíkt ekki fyrir enda kannski erfitt fyrir nokkurn mann að planleggja slíkt fyrirfram án þess að vita nánar í hverni ástand hans á eftir að vera.
Ómar Ragnarsson, 4.3.2009 kl. 22:38
Mjög þörf umræða og nauðsynleg þó viðkvæm sé. Fræðsla um það hvernig líkami veiks einstaklings undirbýr dauða á náttúrlegan hátt er afar nauðsynleg.
Þegar aldraður veikur einstaklingur hættir að geta innbyrgt fasta fæðu og hættir að geta drukkið vökva sem borinn er að vörum. Það tel ég vera merki um undirbúningur fyrir brottför.
Ég tel það vera álitamál að gefa veikum einstaklingi vökva í æð á lokastigi, nema að gefa þurfi verkatillandi lyf.
Að fá fagleg ráð við slíkar aðstæður hlýtur ávalt að vera mjög mikilvægt, en auðvitað eru aðstæður mismunandi í hverju tilfelli fyrir sig.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 4.3.2009 kl. 23:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.