Vantar P-núll leiðina og lagaúrskurð.

Í Morgunblaðsgrein nýlega lýsti ég þremur leiðum sem mætti bjóða framboðum upp á í kosningum varðandi hvernig þau röðuðu á lista sína og byðu kjósendum upp á mismunandi leiðir í kjörklefanaum til að hafa áhrif á uppröðun listanna. Leiðirnar voru þessar:

Leið 1: Núverandi skipan: Töluleg röðun flokksins vegur þyngst og mikinn atbeina kjósenda þarf til breytinga.

Leið 2: Framboðið birtir ótölusetta þá röð frambjóðenda, sem það mælir með en kjósendur eru einráðir í kjörklefanum um að raða á listann.

Leið 3: Framboðið birtir óraðaðan lista, kannski settan upp í stafrófsröð, samkvæmt slembiröðun eða blöndu af þessu tvennu og kjósendur eru alráðir um röðunina.

Ég hafði hugsað mér leið 2 sem hugsanlega aðferð sem Sjálfstæðisflokknum hugnaðist. Í fróðlegu erindi um þetta á borgararfundi í Iðnó kallaði Þorkell Helgason þessa leið P-núll.

Ég sakna þessarar leiðar í frumvarpinu um breytingu á kosningalögum, sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi.
Ég óttast tvennt:

Sjálfstæðisflokkurinn leggist gegn frumvarpinu og notaði vöntun á þessum möguleika sem ástæðu. Það ættu þeir þó ekki að geta gert, því að auðvitað ættu þeir að geta lagt fram breytingartillögu sem um P-núll leiðina.

Stjórnarflokkarnir haldi áfram að draga það að fá óyggjandi lagalegan úrskurð um það hvor 2/3 hluta atkvæða eða einfaldan meirihluta þurfi í þessu máli á þingi og niðurstaðan verði sú, að vegna óvissum þetta mál verði það ekki afgreitt á þessu þingi.

Stjórnarflokkarnir gætu þá notað þetta sem afsökun fyrir því að málið hljóti ekki framgang og kennt Sjálfstæðisflokknum um það.

Ég vil fá meiri festu á ákveðni í þetta mál svo að ekki sé hægt að efast um það að staðfastur vilji sé fyrir því hjá stórnarflokkunum að koma þessari lýðræðisbót á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Formenn allra þingflokkanna, nema Sjálfstæðisflokksins, hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um persónukjör og fyrsta umræða um frumvarpið hófst í dag, miðvikudag.

Samkvæmt frumvarpinu ráða stjórnmálaflokkarnir því sjálfir hvort þeir bjóða upp á óraðaða lista í hverju kjördæmi fyrir sig.

Einfaldan meirihluta þarf til að samþykkja þetta frumvarp á Alþingi, enda var ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki samþykkja það:

Frumvarp um persónukjör.

Þorsteinn Briem, 4.3.2009 kl. 21:14

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samkvæmt upplýsingum Þorkels Helgasonar greinir lögfróða menn á um hvort einfaldan meirihluti þurfi. Þetta atriði hef ég bloggað um áður.

Nú er stjórnin búin að sitja tæpan mánuð og hefði átt að vera búin að því að láta kveða upp úr með þetta.

Ómar Ragnarsson, 4.3.2009 kl. 21:17

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í greinargerð með frumvarpi til laga um kosningar til Alþingis, Lögum nr. 24/2000, segir meðal annars:

"Í 6. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999, er enn fremur áskilið samþykki aukins meiri hluta atkvæða til að breytingar verði gerðar á ákvæðum kosningalaga um kjördæmamörk og tilhögun á úthlutun þingsæta, sbr. einnig síðari málsgrein þessarar greinar og 6. og 107.–109. gr. frumvarps þessa.

Að þessum ákvæðum frátöldum er hins vegar lagt í vald almenna löggjafans að ákveða hvert atkvæðamagn þurfi til afgreiðslu mála á Alþingi. Skv. 67. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, ræður afl atkvæða úrslitum mála, en skv. 2. mgr. 64. gr. s.l. er engin ályktun lögmæt nema meira en helmingur fundarmanna, þeirra er atkvæði greiða, ljái henni atkvæði sitt.

Almennt dugir því með öðrum orðum einfaldur meiri hluti til að breyta öðrum ákvæðum kosningalaga en að framan greinir.
"

Frumvarp til laga um kosningar til Alþingis.

Óraðaðir listar í alþingiskosningum falla hvorki undir kjördæmamörk né tilhögun á úthlutun þingsæta.

Þorsteinn Briem, 4.3.2009 kl. 21:24

4 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Ég hefði persónulega talið betra að nota næsta kjörtímabil til að vinna þetta mál betur, mér finnst þetta flausturslega unnið, og tíminn er knappur.

Svona stórar breytingar, sem eiga að vera til góðs, þarf að ígrunda vandlega og helst þarf að hafa víðtæka samstöðu innan allra flokka um svona mál.

En ég er ekki ósammála þessum breytingum í sjálfu sér, tel bara tíman of stuttan til að hægt sé að vinna þetta vel.

Eiður Ragnarsson, 4.3.2009 kl. 23:34

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrirhugðar breytingar á kosningalögunum eru eins litlar og hugsast getur. Þær fela aðeins í sér heimild framboða til að ráða sjálf hvað ráði uppröðun á lista þeirra og skylda ekki neinn til neins.

Afnám 5% þröskuldsins felst í að nema burt eða breyta einni tölu í kosningalögum og stjórnarskrá, en því miður ætlar þingið ekki að gera neitt í þeim efnum.

Ómar Ragnarsson, 5.3.2009 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband