11.3.2009 | 21:49
Rétt stefna og verðlaunaverð.
Það hefur verið hljótt um borgarstjórn Reykjavíkur miðað við alla þá umfjöllun sem borgarmálin fengu eftir að REI-málið dundi yfir. Síðan í fyrra hafa önnur mál yfirskyggt borgarmálin en líka má nefna það að í borgarstjórn hefur skapast samvinna um meginlínur sem er að mínu mati bæði til sóma fyrir meirihlutann og minnihlutann.
Það hefur verið bent á að málefni sveitarfélaga séu ólík landsmálum að því leyti að í meira en 90% sveitarstjórnarmála séu málavextir þannig að ekki þurfi að koma til ágreinings um þau. Góðu heilli virðast bæði meirihluti og minnihluti hafa tekið saman höndum um að stýra borginnni sem best á þessum erfiðu tímum.
Það vantaði ekki gagnrýni á allt og alla á umbrotatímunum í borgarstjórninni en mér finnst vert að þakka það sem vel er gert.
Það gleður mig sérstaklega að sjá að þrátt fyrir kreppuna eigi ekki að láta miðborgina drabbast niður og að húsin sem svo mjög var deilt um á sínum tíma verði reist. Í því máli var ég sammála Ólafi F. Magnússyni og hans samherjum í því máli.
Síðan er gleðiefni að borgin skuli hafa verið tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna vegna tiltekta og aðgerða undir stjórn röggsams miðborgarstjóra, Jakobs Frímanns Magnússonar.
Það gleður mig líka að sjá þriðja aðilann, sem lagði hönd á plóg og hann ekki svo lítinn við stofnun og í baráttu Íslandshreyfingarinnar, Margréti Sverrisdóttur, láta til sín taka á sviði jafnréttismála sem formaður Kvenréttindasambands Íslands auk starfa á vegum Háskólans og borgarstjórnar.
Og nú verð ég þess áþreifanlega var að Ósk Vilhjálmsdóttir, sem átti ekki svo lítinn þátt í stofnun Íslandshreyfingarinnar kemur sterk inn í starfi í Samfylkingunni.
Miðborgin fær andlitslyftingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.