19.3.2009 | 22:53
Bandaríkjaforseti leikur sér með fyrirtæki.
Bandarískur kollegi Vilhjálms Egilssonar myndi kannski koma í sjónvarpsviðtal og segja þetta:
"Bandaríkjaforseti á ekki að leika sér með fyrirtæki. Hann á ekki að hneykslast yfir því þótt innstu koppar í búri fyrirtækja skammti sér drjúgan bónus og arð heldur þakka fyrir það að þeir vildu frekar leggja fé sitt í áhættusamt fyrirtæki heldur en í miklu öruggari og betri fjárfestingu annars staðar.
Í þessu máli skiptir það engu þótt fyrirtækið hafi fengið drjúga fjárhæð frá ríkinu til þess að fara ekki á hausinn.
Almenningur hefði tapað mest á því ef fyrirtækið hefði verið látið rúlla og því er höfuðatriði að fyrirtækið starfi áfram þjóðinni til heilla með bestu hugsanlegu stjórnendur við stýrið.
Nauðsynlegt er að fjármálasnillingarnir fáist til að leggja sitt af mörkum í fyrirtækjarekstri í stað þess að missa þá annað vegna þess að þeir geti grætt meira annars staðar. Án snjalls fólks sem viðheldur gangverki atvinnulífsins er þjóðfélagið dauðadæmt."
Hér heima gildir svona röksemdafærsla líka. Hér eiga Kristján Loftsson og hans líkar að fá umbun fyrir að leggja sitt af mörkum til HB Granda í stað þess að taka sitt út úr því, skilja það eftir á vonarvöl og fjárfesta annars staðar og græða miklu meira þar.
Þegar vel gengur eiga þeir að fá ríkulega umbun vegna hinnar miklu áhættu sem þeir taka með því að eiga hlut í áhættusömum fyrirtækjarekstri. Þegar illa gengur er ekki skynsamlegt að þeir tapi á því að hafa tekið áhættuna, heldur eiga þeir líka að fá umbun þá vegna þess að ef það gerist ekki fara þeir annað með peningana.
Síðan er höfuðatriði að ríkið stuðli að því beint og óbeint að Kristján Loftsson verði studdur við það að halda úti hvalveiðum við landið, hafi efni á því og hafi helst sem mest upp úr því. Það kemur honum ekkert við þótt hætt sé á milljarða tap hjá útflutningsfyrirtækjum af því að útlendingar hætti að kaupa af þeim vegna hvalveiðanna.
Fólkið sem vinnur á gólfinu hjá HB Granda verður að gera sér grein fyrir áhættunni sem fylgir því að reka svona fyrirtæki og taka á sig launaskerðingu þegar illa gengur. Aðeins þannig er hægt að halda nógu miklu fé inni í fyrirtækinu til þess að hægt sé að greiða nógu háar arðgreiðslur til hinna ómissandi eigenda.
Atvinnurekendur reiðir Jóhönnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vilhjálmur Egilsson og Kristján Loftsson hafa nú karlmannlegar raddir og gaman að heyra þá tala saman.
Þorsteinn Briem, 19.3.2009 kl. 23:28
Haha :)
Alltaf gaman ad svona kaldhædni. Ég hélt fyrst ad thér væri alvara Ómar.
Gott ad vita ad áfram skrölti hann thó thrjú hjól séu undir bílnum.
H. Valsson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 13:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.