Brekka er merkileg jörð.

Að Brekku í Núpasveit bjó ein merkilegasta kona sem ég hef kynnst, blessunin hún Guðrún, ásamt dugnaðar eiginmanni sínum. Þau tóku við jörðinni á brún eyðingar vegna jarðvegseyðingar og sandfoks. Með nánast berum höndunum réðust þeir til bardaga við eyðingaröflin og var melgresið drjúgt vopn í höndum þeirra.

Þegar þau byrjuðu var stundum sandskafl við dyrnar eftir sandstormana. Ég tók viðtal við Guðrúnu sem lagði allt sitt í þessa baráttu og keypti sjálf Landgræðsluflugvélina árum saman til að sá úr lofti yfir jörðina.

Guðrún talaði af langri og djúpri reynslu um þátt Íslendinga sjálfra í eyðingu jarðvegs og gróðurs og var ómyrk í máli.

Hún kvaðst geta grátið yfir því að heyra í þeim sem rækju enn fé inn á Mellöndin á Mývatnsöræfum og héldu þeirri firru fram að féð græddi landið upp með því að skíta á það.

Á þessum árum ræddi ég einnig við Böðvar Jónsson á Gautlöndum, sem þráaðist í mörg ár við að láta taka við sig viðtal. Hann hafði hólfað sína jörð niður líkt og Gunnar Jónsson á Daðastöðum, nágranni Guðrúnar, og tekist með stýrðri og takmarkaðri beit að fá fram allt í senn, meiri fallþunga fjár og stóraukin afköst beitilandsins.

Böðvar sagðist ekki þora að láta vita um árangur sinn af ótta við að verða fyrir aðkasti frá bændum sem teldu aðferðir Böðvars varpa rýrð á aðra bændur.

Sem betur fer er þetta liðin tíð að öðru leyti en því að enn er beitt á Mellöndin 22 árum eftir að ég fór með fulltrúum Landgræðslunnar yfir þau og fjallaði um þessa beit í sjónvarpi.

Brekka er merkileg jörð vegna sögunnar sem hún segir um hetjuskap skörungsskonu og baráttu hennar sem á erindi við okkur enn í dag. Það er ekki sama hvernig vegur er lagður um þessa jörð.


mbl.is Eignarnám Vegagerðarinnar ógilt í Hæstarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk kærlega fyrir þetta blogg! Og falleg orð í garð ömmu minnar og ættaróðals! :o)

Guðrún Hulda Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 21:28

2 identicon

Kæri Ómar, hjartans þökk fyrir hlý orð í garð foreldra minna og Brekku í Núpasveit.

Inga Þ. Ingimundardóttir (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 08:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband