Liður í sókn inn á einstakt svæði.

DSCF0726DSCF0799DSCF0590IMG_0399DSC00196IMG_0400IMG_0408DSCF0791DSCF0788DSC00191DSC00202Sókn virkjana inn á svæðið, þar sem gaus í níu gosum í Kröflueldum 1975-84 heldur áfram. Svæðið frá Leirhnjúki norður um Gjástykki er landslagsheild sem á engan keppinaut í heiminum.

Þar má sjá hvernig Ameríka færðist í vestur og Evrópa í austur á myndum sem teknar voru á þessum tíma, svo sem einu myndinni í heiminum þar sem sést hvernig jörðin rifnar og hraunið kemur upp eins og hnífsegg sem ristir jörðina í sundur. Í dag væri hægt að ganga um allt þetta svæði og upplifa þetta með því að fara á sömu staði og myndirnar voru af með ljósmyndir eða kvikmyndir í litlum DVD-spilurum.

Hluti þessa svæðis heitir Vítismór norður og austur af Leirlhnjúki. Hér fyrir ofan sjáum við ferðafólk sitja í Vítismó og horfa yfir að Leirhnjúki þar sem gaus bæði í Mývatnseldum 1724 og síðan í Kröflueldum. 

Þetta svæði á nú að gera að iðnaðarsvæði, líku því sem við sjáum á Hellisheiði.

Þarna er viðkvæmt land, hraun, mosi, rauðamöl, þýfi og mói, samber nafnið Vítismór, en Víti er frægur sprengigígur úr eldunum 1724 er þarna rétt hjá, sjá mynd hér fyrir neðan, nr. 5 talið að ofan.  

 Heimssamtök áhugafólks um marsferðir hefur valið sér svæði þarna til að æfa komandi marsfara á sama hátt og tungfarar æfðu sig í Öskju 1967.

Hér fyrir ofan vinstra megin má sjá hvernig hraun kom upp 1984 úr  sprungu í Gjástykki, breiddist út og rann jafnvel niður aftur.

Ameríka er vinstra megin, Evrópa hægra megin og þessi staður á sér engan keppinaut í heimi, vegna þess að þarna voru teknar einu myndirnar í heiminum af því hvernig jörðin gliðnar og opnast og hraunið kemur upp eins og glóandi hnífsblað sem stækkar og stækkar og lengist.  

Með því að hafa með sér gögn inn á svæðið má upplifa sköpun Íslands , sköpun jarðar á einstæðan hátt.  

 

Hér að ofan til hægri má sjá hvernig iðnaðarsvæðið sækir að Leirhnjúki úr suðri og uppi á brekkunni er borhola þar sem gengið var of langt inn á svæði sem marsfarar munu ekki æfa á innan um leiðslurnar, holurnar, vegina og stöðvarhúsin. 

Hér fyrir neðan sést síðan stóri borinn við gíginn Víti. Leirhnjúkur blasir við framundan og frá Leirhnjúki hefur þessi stóri bor blasað við eins og tákn um það hvernig eigi að fara fyrir þessu einstaka svæði.

Vítismór er á milli Vítis og Leirhnjúks og nýjasta borholan í Vítismó er á rauðlituðu svæði vinstra megin á myndinni og blasir að sjálfsögðu við úr öllum áttum.

Þetta svæði er þegar skilgreint sem iðnaðarsvæði og virkjanamenn fara um það með því hugarfari að það skuli verða eins og svæðið rétt fyrir sunnan, sem sést hér til hægri. 

Með því að umturna þessu svæði og gera það að iðnaðarsvæði með blásandi borholum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum, vegum og háspennulínum verða unnin hrikalegri náttúruspjöll en þótt slíkt yrði gert í Öskju vegna þess að Leirhnjúkur-Gjástykki er eini staðurinn í heiminum þar sem sjá má svona vel og upplifa hvernig sköpun Íslands, - Virkjanaaðdáendur segja að ferðafólk komi fyrst og fremst á þessar slóðir til að skoða virkjanamannvirki.

Samkvæmt því myndi Yellowstone í Bandaríkjunum loksins blómstra þegar þar verður sótt inn á sama hátt og hér er gert með bora og stórvirk tæki. 

Reiknað er með að 30 megavött af orku muni fást úr Gjástykki. Það mun gefa rafmagn sem samsvarar 20 störfum í álverinu á Bakka.

Reiknað hefur verið út af þekktum kunnáttumönnum að virðisaukinn fyrir þjóðfélagið í álverum sé nær þrefalt minni en við sjávarútveg og ferðaþjónustu.Menn eru sem sagt reiðubúnir til að fórna Gjástykki fyrir sem svarar sjö störfum á Bakka í 70 kílómetra fjarlægð.

Í Yellowstone koma 2 milljónir manna á ári hverju og stór hluti þeirra kemur til að upplifa skógarelda, sem þar geysuðu fyrir 20 árum og hægt er að fræðast um af myndum, meðal annars í sérstöku setri með safni og bíósal. 

Allt frá Leirhnjúki, sem er hér skærgulurhægra megin fyrir ofan, norður í Gjástykki gætu menn fræðst um og upplifað sköpun jarðar og setur við Kröflu með bíóhúsi og safni yrði heimsfrægt og gæti þess vegna dregið tugþúsundir ferðamanna hingað og veitt hundruðum vinnu, hér í sjálfu byggðarlaginu sem og annars staðar. 

En menn eru  spenntari fyrir örfáum störfum í verksmiðju í 70 kílómetra fjarlægð.

Á tveimur myndum er horf yfir mosaalandslag í Vítismó í áttina yfir að Leirhnjúki og á myndinni þar fyrir neðan til suðurs í átt að Kröflu.

Kröflueldarnir geta haft víða skírskotun því að þeir voru mjög líkir Skaftáreldunum 1783 og því mætti tengja þetta tvennt saman, Kröfluelda og Skaftárelda,  í fræðslu- og ferðamannamiðstöðinni og allri þjónustu við ferðamenn sem hingað kæmu hvaðanæfa að úr heiminum til að sjá "Sköpun jarðar."

Raunar gætu verið tvær miðstöðvar sem hétu þessu nafni, - önnur hér og hin á Kirkjubæjarklaustri, þar sem myndefnið einstæða yrði nýtt til að gestir gætu upplifað sköpunina sem hið eldvirka Ísland er svo gott dæmi Neðsta myndin er tekin við það svæði þar sem hópur vísindamanna valdi sér æfingasvæði fyrir ferðir til mars.

Svörtu hraunstraumarnir, sem streymdu niður úr gígunum sem hlóðust upp í Kröflueldum voru eldrauðir á sínum tíma eins og sést svo vel á kvikmyndum og ljósmyndum frá árunum 1981-84.

Á myndinni þar sem er horft yfir Leirhnjúk sést enn rjúka úr gossprungunni frá Kröflueldum. Búið er að leggja göngustíg úr timbri sem stendur á hælum líkt og gert hefur verið í Yellowstone. Þar hafa menn lært hvernig hægt er að stýra ferðamannastraumi án þess að hann valdi spjöllum.  

Hið eldvirka Ísland er eitt af helstu undrum veraldar. Nú stendur til að virkja allt sundur og saman á fjórum háhitasvæðum norður og austur af Mývatni fyrir álver á Bakka.

Eitt þessara fjögurra svæða er Leirhnjúkur-Gjástykki.

Þeir sem vilja virkja þetta allt segjast vera hófsemdarmenn en eins og fyrri daginn verða ég og skoðansystkin mín stimpluð "öfga-umhverfisfólk" fyrir að reyna að þyrma einu af þessum fjórum svæðum eins og ég hef gert í þessum pistli.

  

 


mbl.is Djúpborun í Vítismóum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Það verður að fara að setja bremsu á þessa virkjanadelllu alla saman. Ég er farinn að verða skelfingu lostinn yfir þessari átroðslu Landsvirkjunar sem að hefur alla tíð hegðað sér eins og ríki í ríkinu.

Heimir Tómasson, 24.3.2009 kl. 15:42

2 identicon

„Heimssamtök áhugafólks um marsferðir hefur valið sér svæði þarna til að æfa komandi marsfara á sama hátt og tungfarar æfðu sig í Öskju 1967.“

Bíddu við, hún er vonandi löngu liðin sú tíð að við Íslendingar að liggjum hundflatir fyrir því að einhverjir Bandarískir marsfarar vilja koma hingað og æfa sig einn sumarpart eins og tunglfarar gerðu 1967.  Svona þjónkunnar og þrælslundarfar hélt ég að tíðkast ekki lengur.

Og í tilefni af þessum 2 milljónum ferðamanna sem þú vilt fá hingað til að traðka niður hálendið okkar og koma í veg fyrir að þar ríki sú kyrrð og friður sem nú ríkir – enn – þótt  einstaka afmörkuð jaðarsvæði séu tekin til orkuöflunar svo byggðir haldist út um land:

„Farþegaflug ferðamannaiðnaður og vöruflug, þ.e. flug frá og til Íslands og innanlands nemur um 4.2 milljónum tonna af CO2, sem er svipuð og losun, 16 álvera á CO2 eins og þau eru hér á landi. Hvert tonn af áli sem framleitt er á Íslandi eða 790 þúsund tonn með raforku úr vatnsorku í stað raforku úr jarðeldsneyti sparar andrúmsloftinu 13,2 tonn af koltvísýringi. ( 790 þúsund x 13,2 CO2 ) = 13.2 milljóna af CO2 sparnaður á hnattræna vísu. „

Ef við fjórföldum ferðamannastrauminn hingað til lands þannig að þessar tvær milljónir komist hingað þá verður mengunin vegna farþegaflugsins álíka mikil og mengun 64 álvera!

Mengun 64 álvera og auk þess 2 milljónir skærlitra, skræpóttra ferðamanna á jeppum, rútum, fjórhjólum, vélsleðum um víðernin okkar. 

Telur þú virkilega að það séu betri skipti?

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 16:23

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hér er talað í öðru orðinu um að "kyrrð og friður" ríki og í hinu að nauðsynlegt sé að virkja á "jaðarsvæðum". Hefur Sigurjón komið að Hellisheiðarvirkjun og upplifað "kyrrðina og friðinn" sem þar ríkir"

Mér er það ekkert keppikefli að 2 milljónir ferðamanna komi hingað til lands. Raunar þyrfti ekki nema lítið brot af því að koma í Mývatnssveit til þess að miklu meira væri upp úr því að hafa en álverið á Bakka getur fært Mývetningum. Ég nefni þessa tölu aðeins til að sýna að ef menn hugsa bara um peningana eina er hægt að fá þá inn á annan hátt en með því að rústa landinu.

Sjálfur hef ég komið tvívegis í Yellowstone og ekki séð að verið sé að traðka þar allt niður.

Sigurjón telur "þjónkunar- og þrælshugarfar" ráða því þegar þeir sem koma í Öskju upplifa staðinn enn betur fyrir það að þetta var sá staður á jörðinni þar sem tunglfarar gátu helst áttað sig á því hvernig það væri að koma til tunglsins.

Var það þá ekki "þjónkunar- og þrælshugarfar" sem réði ferðinni þegar við lánuðum Höfða undir leiðtogafundinn og fáum síðan ferðamenn til að skoða staðinn til að upplifa þennan fund?

Ómar Ragnarsson, 24.3.2009 kl. 16:53

4 identicon

Þarna er stórkostlegu svæði stefnt í hættu og rétt að þakka þér fyrir að draga athygli fólks að þessu. Ég hef grun um að Íslendingar viti einfaldlega ekki hvað er verið að eyðileggja þarna fyrir norðan því þeir eru ekki nógu duglegir að heimsækja svæðið.

Páll Ásgeir (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 17:13

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samkvæmt nýlegri vandaðri bók um 100 undrum veraldar er hinn eldvirki hluti Íslands á þeim lista en ekki Yellowstone. Helmingur ferðamanna í Yellowstone kemur þangað frá öðrum heimsálfum en Ameríku.

Það er lengra frá New York til Yellowstone en frá París til Íslands. Flestir ferðamenn sem kæmu til Íslands myndu koma frá Evrópu. Þær tugþúsundir Evrópubúa sem fara alla leið yfir Atlantshafið og áfram langleiðina yfir Bandaríkin til Yellowstone ættu völ á miklu styttra ferðalagi til Íslands á merkilegra svæði.

Það myndi þýða sparnað varðandi útblástur.

Vatnsorka Íslands er langt innan við 1% af óvirkjaðri vatnsorku heimsins. Þess vegna er rangt að setja dæmið alltaf þannig upp að í stað vatnsorkuvers á Íslandi komi kolaorkuver erlendis.

Hvað um alla hina miklu óvirkjuðu vatnsorku annarra landa?

Ómar Ragnarsson, 24.3.2009 kl. 17:16

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Flug á þátt í 12% mengunar í samgöngum í heiminum. Landsamgöngur 75%.

2005 var iðnaður á Íslandi með tvöfalt meiri mengun en samgöngur.

Ómar Ragnarsson, 24.3.2009 kl. 17:28

7 identicon

Sorglegt...bara sorglegt. Nú stendur til að vinna sömu níðingsverkin í Krýsuvík og í Sogunum í Trölladyngju.

Ellert Grétarson (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 19:06

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu menga allir eitthvað alla daga, hvort sem þeir eru í vinnu í sinni heimabyggð eða skemmtiferðalagi, til dæmis erlendis.

Milljónir manna sem búa í Bandaríkjunum og Evrópu ferðast í tvo klukkutíma á dag til að komast í og úr vinnu, til dæmis í einkabílum, og í mörgum tilfellum einn í hverjum bíl.

Og sama er uppi á teningnum hérlendis. Sumir búa til að mynda í Hveragerði en vinna í Reykjavík og fara daglega á milli þessara staða, til dæmis í einkabílum.

Þorsteinn Briem, 24.3.2009 kl. 19:07

9 identicon

Sæll Ómar, flottar myndir hjá þér. Ef auka á ferðamennsku þarf að láta ferðamennina borga inn á náttúruundrin, þeir gera það í Bandaríkjunum, minnir að það sér um 20 dollarar fyrir bílinn og gildir í viku. Fyrir þennan pening má svo byggja upp aðstöðu eins og er í Yellowstone og fleiri stöðum. Ég verð að vera sammála þér með jarðhitavirkjanirnar, þessar röraflækjur eru mikið lýti á náttúrunni.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 21:07

10 identicon

Góðan daginn Ómar, langaði að benda þér á myndbrot sem ég var að setja inná Youtube sem sýnir flottar myndir af hálendi íslands(svæðið í kringum kárahnjúka) teknar úr Ítalskri þyrlu sem var í vinnu við uppsetningu snjóflóðavarnagarða í neskaupstað. En í lok verksins fóru þeir í útsýnisflug með starfsmennina og einn þeirra tók þetta video, þetta er í tveimur hlutum:

Hluti 1: http://www.youtube.com/watch?v=tq2Bz2d9KMM 

Hluti 2: http://www.youtube.com/watch?v=ogI-Yg6IGPA 

Hlynur Sveinsson (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 22:29

11 identicon

Sæll Ómar.

Sammála flestu sem þú nefnir í þessari færslu.
Það sem mig langar hins vegar að bæta við er þetta.

Fólk almennt er ekki að skilja mikilvægi svæða sem eru einstök.
Sýn margra Íslendinga er sú að landið sé stórt og nóg sé af fallegum stöðum sem hægt sé að skoða.
Ekki skipti máli þó einn og ein "blettur sé tekinn undir iðnað eða orkumannvirki.
Með svona hugarfari þá hætta menn að gera kröfur um vönduð vinnubrögð eða fyrirhyggju við nýtingu lands.
Ein af myndunum sem þú ert með á síðunni sýnir borplan suð-austan Vítis.
Þetta hefur örugglega verið mjög þægilegur staður fyrir borholur en ef myndin er skoðuð með opnum huga þá má sá að þarna hefur verið unnið hrikalegt skemmdarverk.
Þegar planið var sett niður hefur örugglega enginn verið að hugsa um slíkt.
Hið jákvæða á þessum stað er þó að holur, lagnir og plan má fjarlægja og veðrun sér svo um að fela tjónið á nokkrum áratugum.

Öflun jarðhitaorku hefur fleygt gríðarlega fram á síðustu árum.
Skáborun hefur opnað möguleika á að staðsetja borplön á svæðum sem ekki hafa hátt fagurfræðilegt eða verndargildi, teygja má holurnar langar leiðir inn í vinnsluhluta jarðhitageymis.
Ef menn hugsuðu bara jafn langt og leggðu vinnu í að skipuleggja betur með náttúrunni þá má líklega nýta orku á svæði eins og Vítismó eða Leirhnúk með viðunandi hætti.
Það sem nú þegar hefur verið gert er hins vegar ekki til mikillar fyrirmyndar.
Um Gjástykki er það sama að segja.
Hugsanlega getur farið saman einhver vinnsla og verndun einstæðrar náttúru svæðisins,  en því miður sýnist mér að töluvert vanti enn upp á hugmyndaflug skipuleggjenda svo slík framkvæmd sé réttlætanleg.  
 

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 23:32

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Borplanið rétt ofan við Víti er að vísu ekki sjáanlegt sjálft neðan frá þeim stað sem ferðamönnum er stýrt inn á, en eins og sést er borað beint niður.

Ef myndin er stækkuð (tvísmellt á myndina) sést betur hvað þetta er vond framkvæmd.

Af hverju var ekki skáborað þannig að hægt væri að þyrma þessum gíg?

Þetta er í 600 metra hæð yfir sjó og gróður allur mjög viðkvæmur.

Myndu menn fara svona með Kerið í Grímsnesi ?

Nei, þá yrði allt vitlaust.

Ómar Ragnarsson, 25.3.2009 kl. 00:29

13 identicon

Í málflutningi þínum þar sem þú leggst gegn allri nýtingu orkuauðlinda okkar, daðrar þú samt opinskátt við það, að svona mætti nú gera og svona, og svona til að sýna ferðamönnum hve stókostlegt og einstakt landið lokkar er, og það er það. Til að eitthvert vit sé í þessum hugmyndum sem þú varpar fram þarf hins vegar milljónir af ferðamönnum til að standa undir þeirri uppbyggingu og rekstri, sem þú nefnir.  Þegar þér er svo bent á þá margfalt meiri mengun sem þeir valda með komu sinni og skemmdir vegna átroðnings og mannvirkja, sem óhjákvæmilega þarf að byggja svo hægt verði að taka á móti þeim, þá slærð úr og aftekur að auking ferðamannastraumur sé það sem þú óskar.  Hvernig eigum við þá að sækja framávið?

Ég tel þó að auka megi ferðamannastrum til landsins, eitthvað, án þess að fórna of miklu af þeirri einstæðu upplifun sem hálendi landsins, víðernið, einmannaleikinn og kyrrðin veita þeim sem þangað sækja.  Eðli málsins samkvæmt er samt þarna sú þverstæða að því fleiri ferðamönnum sem við ætlum að „selja“ þessa upplifun, þeim mun meira göngum við á hana og eyðum henni þar til ekki verður hægt að komast um hálendið án þess að í sjónmáli séu skræpóttir túristar á einhverjum hávðamengandi, eiturspúandi faratækjum.  Þar með er hálendið ónýtt í þeim tilgangi.

(Hellisheiðin er auðvitað slys, en hvar voru þeir sem mest njóta af þeirri orku sem þangað var sótt, þið Reykvíkingar, þegar sú stefna var mörkuð og það af ykkar fólki í OR.  Er nema von að t.d. Austfirðingum og  Húsvíkingum svíði undan forræðisyfirgangi ykkar nú, sem leyfðuð orkuöflun á Hellisheiði og Nesjavöllum, í ykkar eigin þágu, þegjandi og hljóðalaust?)

Ég tel líka að nýta megi, og beri, aðrar auðlindir landsins eins og orkuna án þess að fórnað sé of miklu af öðrum, eins og hálendinu til að eiga handa okkur og afkomendum okkar og gestum. 

Öfgar í hvora áttina sem er, eru skaðlegar og auk þess handónýtar sem umræðugrundvöllur.  Þessi umræða þarf að fara fram af sanngirni skynsemi og virðingu fyrir sjónamiðum allra. 

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 09:36

14 Smámynd: Sigurjón

,,Af hverju var ekki skáborað þannig að hægt væri að þyrma þessum gíg?"

Ég held að svarið við þessu sé það, að þetta er tilraunarhola, sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi svo ég bezt veit og það er sumsé byrjað á því að bora beint, áður en farið er í að bora skáholu.  Auk þessa er mun auðveldara og ódýrara að bora beint, m.a. þarf ekki stefnuborara, það þarf ekki að gírómæla og fleira í þeim dúr.  Fóðringar eru mun traustari í beinni holu og svo mætti lengi telja...

Sigurjón, 25.3.2009 kl. 12:33

15 Smámynd: Sigurjón

Ég verð að leiðrétta misskilning hjá mér.  Myndin af bornum sýnir ekki svæðið eða borinn sem djúpborunarverkefnið er við.  Þarna er um að ræða jarðborinn Jötunn sem boraði við Víti.  Reyndar var þessi hola skáboruð og það er ekki hægt að sjá á myndum hvort bor er í skáborun eður ei, nema holan sé skáboruð frá upphafi og þá boruð ,,beint á ská".  Venjulega eru skáboraðar holur beinar fyrstu 300 metrana og svo er farið í kickoff til að byggja upp halla og stefnu.  Holuferillinn er því boginn.

Sigurjón, 25.3.2009 kl. 15:59

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Leggst gegn allri nýtingu orkulinda okkar." Ég er nú búinn að hafa atkvæðisrétt og prívatskoðanir á nýtingu orkulinda okkar í hálfa öld. Þessar virkjanir hef ég samþykkt, talið frá Reykjanestá:

Reykjanes.

Eldvörp. (Ekki viss hve langt er komið)

Svartsengi.

Þrengsli. (Ekki byrjað)

Hellisheiði.

Hverahlíð. (Ekki byrjað)

Ljósafoss.

Ég er fylgjandi nýtingu vindorku ef að því er staðið að vandlega athuguðu máli og yfirvegun.

Írafoss.

Steingrímsstöð. (Sé eftir því)

Búrfellsvirkjun.

Sultartangavirkjun.

Hrauneyjafossvirkjun.

Sigölduvirkjun.

Búðarhálsvirkjun. (Ekki byrjað)

Smyrlabjargaárvirkjun.

Straumfjarðarárvirkjun.

Mjólkarárvirkjun.

Blönduvirkjun.

Kröfluvirkjun.

Bjarnarflagsvirkjun. (Ef hún hefur ekki áhrif á Hveraröndina)

Þarna eru fjórar virkjanir sem ég leggst ekki gegn þótt það eigi eftir að virkja.

Ég er samþykkur virkjun vindorku að vandlega athuguðu máli með heildarskipulag yfir landið allt til hliðsjónar. Þetta er alveg ógert.

Núna framleiðum við fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum til venjulegra nota innanlands og mestallrar þeirra orku hefur verið aflað með virkjunum sem ég hef samþykkt.

Síðan er sagt: "Þú ert á móti rafmagni" og hér að ofan: "Þú ert á móti allri nýtingu orkuauðlinda okkar."

Ómar Ragnarsson, 25.3.2009 kl. 16:14

17 Smámynd: Sigurjón

Því miður verður vindorka líklega aldrei alvöru valkostur hér á landi.  Ástæðan er sú að vinorkuver þurfa mjög þröngt bil af vindhraða til að vinna af einhverju viti.  Sá hraði er sjaldgæfur hér á landi, þ.e. annað hvort blæs hér of mikið eða of lítið.

Sigurjón, 25.3.2009 kl. 17:44

18 identicon

Ég bið þig hér með forláts hafi ég gert þér upp skoðanir sem þú ekki hefur.  Ekki er ég nú samt fyllilega sannfærður um að ef þær virkjanir sem á listanum þínum eru, væru að fara í framkvæmd nú, þá fengju þær samþykki þitt.  Það að ég tók svo sterkt til orða á sér líkleg þær rætur að síðan þú fórst að beita þér opinberlega í náttúruverndarmálum hefur hávær andstaða þín við „flest“? virkjunaráform síðustu ára verið afar fyrirferðarmikil og skelegg.  Og sama virðist hvert menn hafa beint sjónum sínum þá er eins og þar séu einmitt um að ræða algjör einsdæmi á veraldarvísu að þínu mati.  Stundum dettur manni í hug drengurinn sem hrópaði úlfur, úlfur þar til hætt var að taka mark á honum.

En meginkjarninn í mínum athugasemdum  hér á síðunni og víðar er sá að ég hef ekkert síður áhyggjur af og tel jafnvel að enn meiri náttúruvá sé yfirvofandi við stóraukna fjölgun ferðamanna til Íslands en þó nýttar verði orkuauðlindir til orkufrekrar atvinnustarfsemi, af skynsemi og hófsemd, á svæðum, sem verið hafa í áratuga svelti og þarfnast einhverrar kjölfestustarfsemi.

Mannlíf og staðbundin menning sem lifað hefur og þróast í árhundruð á sama staðnum ætti að njóta vafans og setja á válista og vernda með öllum ráðum, ekkert síður en náttúruna.

Mesta skynsemi liggur í að fara hinn gullna meðalveg og nýta af hófsemd alla kosti sem landið býður upp á svo framfarir, eðlileg velsæld og sambærileg lífsskilyrði og tækifæri bjóðist, ekki bara á suðvestur horninu, heldur um allt land.   

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband