Lada Sport, vanmetinn tímamótabíll.

250px-Lada_Niva_1a250px-Ladaniva

 

 

 

 

 

 

 

Þegar Lada Sport kom til Íslands 1976-77 sló hann strax í gegn hér. Raunar var nafnið rangt, - Ísland er eina landið í heiminum þar sem þetta nafn er notað. Alls staðar annars staðar heitir hann sínu rússneska nafni, Lada Niva.

Þetta var frábært sölutrix hjá umboðinu en svona eftir á að hyggja, ber bíllinn þetta nafn með rentu ef það er haft í huga að Lada Sport var fyrsti SUV-bíllinn í heiminum miðað við það hvernig hugtakið SUV, Sport Utiliity Vehicle, varð til.

Sport-hlutinn í SUV vísar nefnilega til þess að þessi bílar voru með þróaðri fjaðrabúnaði, sjálfstæðri fjöðrun og gormum, og síðar með sjálfberandi byggingu.

Allt þetta hafði Lada Sport til að bera, 13 árum áður en næsti bíll af þessum toga, Suzuki Vitara, kom á markað með gormafjöðrun að framan og aftan. Það er eftirtektarvert að Vitaran var með nákvæmlega jafn langt á milli hjóla og Ladan, sjálfstæða fjöðrun að framan og heilan ás með gormum að aftan.

Vitaran var hins vegar á grind þannig að Lada Sport var þróaðri að því leyti. 1976 var mesti lúxusjeppi Bandaríkjanna, Jeep Wagoneer, á grind með blaðfjöðrun að aftan og framan.

Lada Sport var oft kallaður "hinn rússneski Range Rover, en Range Rover hafði verið tímamótabíll á sínum tíma, sjö árum fyrr, - fyrstu jeppinn með gormafjöðrun allan hringinn og útliti og þægindum fólksbíls, en torfærueiginleikum alvörujeppa, háu og lágu drifi og góðri veghæð. Ladan var með sídrif eins og Range Rover.

Hann sló þó breska lúxusjeppanum við tæknilega séð með sjálfstæða fjöðrun að framan og sjálfberandi boddí.

Lada Sport var á pappírnum með þróaða vél miðað við þann tíma sem hann kom fram, með yfirliggjandi kambás. Ég átti þess kost að reynslu aka Lada Sport þegar nokkrir voru fluttir inn hingað fyrir 7-8 árum eftir langt hlé.

Ég hlakkaði til. Átti margar góðar minningar frá fyrri árum og það var búið að endurbæta nokkra hluti, til dæmis að láta afturhlerann opnast alveg niður að stuðara og setja á hann mengunarbúnað svo hann stæðis ESB staðla.

En þetta varð algert sjokk. Hin "þróaða" vél var með eins grófan gang og dísilvél. Maður steig á bensíngjöfina og ekkert gerðist, - steig fastar og þá kom allt í einu urrandi kraftur sem jókst síðan ekkert þótt vélin væri látin snúast meira.

Allt í einu áttaði maður sig á því hve miklar framfarir höfðu orðið á 20 árum, því að Lada Sport er nokkurn veginn alveg eins, hvort sem árgerðin er 1976 eða 2009. Samið hávaðinn og grófa hljóðið í vél og driflínu og frá hjólunum á grófum vegi.

Lada Sport framleiddur enn í dag og ekkert lát á vinsældum hans í heimalandinu. Hann var og er ótrúlega góður torfærubíll, með hátt og lágt drif, góða veghæð og litla skögun.

Sverrir vinur minn Kr. Bjarnason tróð undir sinn bíl 31 tommu dekkjum og ég veit um einn sem troðið hefur verið undir 33ja tommu dekkjum.

Samt er Lada Sprt með furðu lágan þyngdarpunkt og nokkrum sentimetrum lægri en hann er breiður.

 Í gamla daga var hann með hæstu jeppum undir kviðinn, 36sm, en á 2000 árgerðinni var kominn hvarfakútur sem lækkaði þessa hæð, - þó án þess þó að það kæmi að sök. Hann er enn með hæstu bílum undir kviðinn.

Þessi bíll eyddi alltaf talsverðu bensíni og gerir enn. Þegar hann er borinn saman við Suzuki Vitara styttri gerðina frá tíunda áratugnum koma í ljós merkilegir yfirburðir Lödunnar í heildarhönnun.

Með því að hafa varahjólið undir húddinu og enga sérstaka grind skapast ótrúlega mikið farangursrými afturí, ca þrefalt stærra en á Súkkunni. Miklu lægra var undir kviðinn á Súkkunni vegna grindarinnar og samt var hann hærri bíll en Ladan vegna þess hve mikið rými sparaðist á Lödunni með sjálfberandi boddíi.

Um gæðamuninn þurfti hins vegar ekki að deila, það var himinn og haf á milli grófleikans í Lödunni og léttleikans og gæðanna hjá þeim japanska.

Bílaleiga ein gerði tilraun til að leigja þann rússneska út um 2000 en gafst strax upp þegar ökumenn lentu í vandræðum með lausa rúðuupphalara, húna og fleira, sem losnaði strax á Lödunni.

Gæðin,, sem voru svo sem aldrei neitt óskaplega mikil í sovét, höfðu hrunið niður um leið og Sovétríkin. Ég veit ekki hvort gæðin hafa stigið aftur upp á við.

En það er merkilegt að hönnunin á Lada Sport er enn einhver sú besta á jeppa (SUV) af þessari stærð í heiminum. Ég skal játa að ég hef alltaf verið veikur fyrir þessum bíl. Það er hægt að fá hann 50 sm lengri með fimm dyr og meira farangurspláss. Ef bara það væru nú Japanir sem framleiddu hann !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég keyrða Lada Sport nokkrum sinnum og fannst mér vanta í hann vökvastýri, vöðvastýrið var of þugnt fyrir mig.  Bara það að leggja í stæði gat kostað, næstum því gigt í handleggjum og öxlum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.3.2009 kl. 02:39

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

"þungt fyrir mig" átti að standa í síðustu athugasemd. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.3.2009 kl. 02:41

3 Smámynd: Aðalbjörn Leifsson

Ég átti Lödu Sport '94 hún var mjög oft "LÖD" í gang! En komst allt sem aðrir bílar komust ekki. Algjör freðmýrar-drossía.

Aðalbjörn Leifsson, 24.3.2009 kl. 05:39

4 Smámynd: Sævar Helgason

 Skemmtileg og fróðleg umfjöllun um hinn merka jeppa Lada Sport-  Ómar.

Lada sport var afbragðs ferðabíll - bæði í byggð sem óbyggðum. Sem smájeppi hreint afbragð.  Sjálfur átti ég 3 stk í röð á 15 árum. Keypti alla nýja. En það voru gallar. Einn var stýrið sem var mjög þungt. Annar var einstaklega lélegt lakk og ytriryðvörn á boddýi. Talsverður innri hávaði.  Vélin var fremur endingarlítil.  Væru þessir ágallar lagfærðir- þá kæmist Lada sport í röð hinna bestu smájeppa-finnst mér.

Sævar Helgason, 24.3.2009 kl. 08:44

5 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

þetta voru góðir bílar, ég átti 92 árgerð af sport og var hann góður jeppi eyddi miklu.  Ég hef oft sagt og mikið grín gert af mér fyrir vikið að Lada hafi verið besti bíll sem framleiddur hefur verið miðað við verð og gæði þar sem verðið á Lödu var gott og stóð Ladan vel fyrir sýnu.  Ég hef átt 8 Lödur í gegnum tíðina og hef verið ánægður með þá alla.  Gæða bílar. 

Þórður Ingi Bjarnason, 24.3.2009 kl. 08:57

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Einhverntíma heyrði ég að ef kippt væri hressilega í hann úr festu, þá skekktist hann allur vegna "grindarleysisins"

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.3.2009 kl. 10:21

7 identicon

Vel hannaður bíll en illa smíðaður og að mörgu leyti óvandaður. Átti þrjá - módel 1983, 1979 og 1995 (í þessari röð). Með því að stilla drifbúnaðinn almennilega var hægt að losna við nánast allan titring. Ef gætt var að því að herða á tímakeðjunni reglulega entist vélin betur og var ekki eins hávær. Og bráðnauðsynlegt var að skipta um framstóla bæði til þess að sitja betur og hærra í bílnum og einnig til þess að auðvelda umgengni afturí. Með þessum lagfæringum var þetta úrvalsferðabíll á vondum vegum - fyrir lítið fé. Suður í Evrópu var bíllinn seldur með Peugeot diselvél. Synd að hann skuli ekki vera á markaði lengur.

Árni Ólafsson (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 11:22

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er rétt hjá þér Gunnar. Nú er búið að létta mikið í honum stýrið.

Ómar Ragnarsson, 24.3.2009 kl. 16:01

9 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Það má bæta því við að grindin er níðsterk. Ég velti eitt sinn Lödu Sport á miklum hraða og eftir að hann hafði rúllað nokkra hringi gekk ég ómeidd út úr flakinu. Sumir aðrir bílar hefðu lagst saman.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 24.3.2009 kl. 19:57

10 identicon

Sæll Ómar. sammála þér um Löduna. Ég átti þrjá slíka og var mjög ánægður með þá. Bilanatíðnin var nánast engin. Það eina sem þurfti að passa var að strekkja reglulega á tímakeðjunni. Ef það var vanrækt brotnuðu sleðarnir og strekkaraklossinn. Þetta var fimm mínútna verk. Eina ástæðan fyrir því að ég hætti við Löduna var hvað það var þröngt aðgengi í aftursætið þegar maður var kominn með börn.Ég var á vélasýningu í Búkarest í Rúmeníu fyrir tveimur árum og skoðaði þá fimm dyra bílinn og leist mjög vel á hann. Hann var með túrbínu en ekki var gefinn kostur á prufuakstri svo að ég veit ekki um afl og viðbragð í akstri. Gæti vel hugsað mér að eiga einn slíkan.

Kveðja. Þorvaldur Ágústsson

Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband