Skrýtið að þurfa að segja jafn einfaldan hlut.

Er það ekki dæmalaust að þurfa að segja jafn einfaldan hlut á fundi sjálfs Viðskiptaráðs að ef menn eyði meira en þeir afla, ár eftir ár, endi það illa? Þetta þurfti Steingrímur J. Sigfússon þó að segja, svo barnalega einfalt sem það kann að hljóma, og það að gefnu tilefni, því miður.

Dæmin blasa við:

Árum saman var hér viðvarandi stórkostlegur viðskiptahalli. Samt var alltaf talað um hið frábæra góðæri.

Árum saman jukust skuldir heimila og fyrirtækja og margfölduðust. Samt var góðærið talið pottþétt.

Árum saman var haldið uppi alltof háu gengi krónunnar sem skapaði viðvarandi halla hjá sjávarútveginum, sem mætt var með margföldun skulda. Samt var alltaf talað um hið dásamlega góðæri. "Sjáið þið ekki veisluna?" spurði fjármálaráðherrann vantrúarmennina á þingi.

Árum saman komust viðskipta"snillingar" upp með það að skálda viðskiptavild og skammta sér tugi og hundruð milljarða sem aldrei voru til nema á pappírum. Útvegsmenn skálduðu virði þorskvóta upp í hæðir til að geta slegið út á hann meiri og meiri lán og margir þeirra fluttu þau verðmæti úr landi. Samt var þetta talið eitt af táknum hinnar fullkomnu fiskveiðistefnu og "hagræðingar" í rekstrinum í góðærinu.

Árum saman hefur verið tekið þrefalt meira af orku upp úr háhitasvæðum en þau afkasta til frambúðar. Samt er alltaf talað um endurnýjanlega orku og sjálfbæra þróun og ákveðið að halda áfram á sömu braut og herða á ferðinni.

Fyrir nokkrum árum kom fram í skýrslu frá Viðskiptaráði að við þyrftum ekkert að sækja til Norðurlandanna í viðskiptamálum, - við stæðum þeim svo miklu framar. Nú er ekki lengur talað um þann hluta góðærisins á íslandi sem byggist á andlegum yfirburðum landans.

Nei, barnaskólalærdómur úr munni ráðherra yfir hausamótum snillinga hefur tekið við.


mbl.is Of mikil eyðsla endar illa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband