28.3.2009 | 13:33
Tekinn upp þráður frá áttunda áratugnum.
Í kjölfar olíukreppunnar 1979 setti Bandaríkjastjórn reglur um meðaleyðslu þeirra fólksbíla sem framleiddir væru í Bandaríkjunum.
Tekin var upp svonefnd EPA-mæling sem síðar hefur fengið hliðstæðu í ESB sem EU-mæling.
Þá er með eftirlíkingu eftir daglegum akstri fundið út hve miklu bílar eyða að meðaltali, annars vegar í innanbæjarakstri og hins vegar í þjóðvegaakstri.
Fundið er út meðaltal sem er líklega talan sem Bandaríkjastjórn miðar við nú.
Bandarískum bílaframleiðendum tókst að komast fram hjá lögunum upp úr 1983 þegar þeir nýttu sér það að pallbílar og sendibílar voru undanþegnir lögunum og fóru að framleiða sem mest af þeim og eins fjölbreytta og hægt var.
Ég vel árið 1983 sem upphafsár þess þegar þessi stefna var sprengd í loft upp, bæði í Bandaríkjunum og að nokkru leyti líka í Evrópu, því að þá komu fram fyrstu svonefndu SUV-bílarnir, sem á íslensku hafa verið nefndir fjölnotabílar.
Það voru Chrysler Voyager, Jeep Cherokkee og Renault Espace. Með öflugri markaðssetningu og með því að búa til tískubylgju tókst bílaframleiðendunum að eyðileggja sparnaðarviðleitnina og þessi tískubóla náði hámarki í tákni sínu, Hummer, sem þar að auki endurspeglaði hernaðardýrkun Bandaríkjamanna.
Evrópumenn og Japanir hafa verið langt á undan Kananum í þessum efnum.
Nú eru framleiddir 4ra manna bensínbílar á borð við Toyota Aygo sem eyða allt niður í 4,6 lítrum í blönduðum akstri, og hægt er að kaupa talsvert stærri dísilbíla sem eyða álíka miklu.
Sparneytnasti bíll heims, Smart dísil, eyðir 3,4 lítrum að meðaltali, og það sem meira er, eyðslan í bæjarakstri er aðeins 3,9 lítrar eða um 30% minni en hjá sparneytnustu bensínbílunum.
Hér ber þess að geta að á Íslandi er tíu stigum lægri meðalhiti en er í heiminum og notaður er sem staðall á þessu sviði. Þess vegna eyða bílar meiru hér á landi en tölurnar segja til um, einkum bensínbílarnir á veturna.
Birti hér mynd fyrir ofan mynd af Smart , sem er 2ja manna bíll, og bílnum mínum, Fiat 126, sem er 4ra manna bíll og er ódýrasti bíll á Íslandi, kostaði fjögurra ára gamall 110 þúsund krónur kominn á götuna.
Hefur farið í alla landshluta og líka um hálendið.
Eiga að komast lengra á bensínlítranum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.