29.3.2009 | 01:12
Heiður sem fer hljótt.
Hversu mörgum dálkmetrum og klukkustundum af fjölmiðlaefni skyldi hafa verið eytt í umfjöllun um grátlegan útgang á miðborg Reykjavíkur síðustu misserin ?
Þess vegna skýtur það skökku við að þegar Reykjavíkurborg fær eftirsótt alþjóðaverðlaun í harðri samkeppni við helstu borgir heims fyrir hreinsun og endurreisn borgarinnar á síðasta ári er ein frétt á innsíðu Fréttablaðsins það eina sem ég ég orðið var við að birst hafi í íslenskum fjölmiðlum um þetta.
Jakob Frímann Magnússon miðborgarstjóri tók við verðlaununum fyrir hönd borgarinnar og sagði að verðlaunin væru fyrst og fremst viðurkenning á störfum framkvæmdasviðs borgarinnar og nefndi nöfn Hrólfs Jónssonar og Guðmundar Vignis Óskarssonar í því sambandi.
Auk nafns Jakobs Frímanns má nefna nafn Ólafs F. Magnússonar, sem strax í upphafi borgarstjórartíðar sinnar nefndi þetta mál sem dæmi um það að verkin yrðu látin tala enda miðborgarmálin honum kær. Fyrir það var hann hæddur og gert svo mikið veður út af því þegar hann réði Jakob Frímann sem miðborgarstjóra, að í frægu Kastljósviðtali við Ólaf fékk ekkert að komast að.
Við starfi Ólafs sem borgarstjóri tók Hanna Birna Kristjánsdóttir og mér finnst rétt að halda því sérstaklega til haga að í þessum máli og fleirum hefur náðst mikilsverð samstaða með meirihluta og minnihluta í borgarstjórn sem er báðum aðilum til sóma og nauðsynlegt fyrir borgarstjórnina almennt til að endurheimta traust á borgarfulltrúum sem rýrðist í sviptingunum hlaustið 2007 og vorið 2008.
Heiður þeim sem heiður ber.
Athugasemdir
Þetta er ótrúlegt, ég vissi ekki að alþjóðleg skammarverðlaun væru veitt. Það er von að fjölmiðlar fari hljótt með þetta.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 29.3.2009 kl. 01:48
Síðan hvenær varð það skammarlegt að hreinsa miðborgir og viðurkenningar fyrir slíkt "skammarverðlaun"?
Ómar Ragnarsson, 29.3.2009 kl. 21:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.