3.4.2009 | 00:57
Sýndarveruleiki Sjálfstæðisþingmanna.
Í allan vetur hefur kraumað óánægja um alla kima þjóðfélagsins vegna þess ástands sem samfelld stjórnarseta Sjálfstæðisflokksins í átján ár samfleytt átti mestan þátt í að skapa. Krafan um uppgjör á öllum sviðum hefur brotist fram í búsáhaldabyltingunni sem hefur bæði beinst að því að skipta um lið inni á leikvellinum, í flokkunum og stjórnkerfinu, og breyta leikreglunum.
Hið síðastnefnda hefur verið samofið öðru eftir að þingmönnum hefur mistekist í 65 ár að gefa þjóðinni stjórnarskrá sem stæðist kröfur nútímans.
Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins virðast hins vegar hafa búið sér til eigin heim, byggðan á sama sýndarveruleikanum og "gróðærið" mikla var byggðt á.
Þeir afgreiddu á "glæsilegum" landsfundi þá niðurstöðu að ekkert væri athugavert við stefnuna, reglurnar eða lögin.
Þeir bjuggust við því að með landsfundinum kæmi fylgisaukning eins og eftir landsfundinn fyrir tveimur árum, en í staðinn dalar fylgið, sem er einstakt. Nú er það 24,5% en var yfir 40% á sama tímapunkti fyrir tveimur árum.
En skilaboðin frá kjósendum sem í þessu felast virðast ekki ná í gegn. Þvert á móti telja Sjálfstæðisþingmennirnir greinilega að engu þurfi að breyta varðandi stjórnarfarið nema einni skitiinni lagagrein. Öllum öðrum hugmyndum um lýðræðisumbætur skuli kastað. Ef það verði ekki gert, megi aðgerðir til bjargar heimilum og fyrirtækjum bara bíða áfram.
Þeir mega ekki til þess hugsa að valdið sé fært nær fólkinu heldur skuli málþóf og þvingaðir notaðar á þinginu til að koma í veg fyrir þingviljann, sem speglar viðhorf minnst 76% þjóðarinnar ef marka má fylgi annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn lifir enn í þeim heimi sem lengi hefur verið íslenskur veruleiki þar sem þessi mikla "fjöldahreyfing", sjálfur Flokkurinn með stórum staf, er ómissandi í lykilaðstöðu sem allir verði að lúta áfram líkt og verið hefur.
Hve langur tími þarf að líða þar til þjóðinni tekst að koma þessum firrta Flokki í skilning um þann veruleika sem hann getur ekki horfst í augu við?
26 sjálfstæðismenn á mælendaskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér kemur ekkert á óvart að þú skulir sýna eðli þitt, með því að vilja gefa skít í eðlilega umræðu um svo mikilvægt atriði sem stjórnarskrá Íslands. Þú hefur, í mínum huga, aldrei haft neitt ofar á dagskránni en sjálfan þig. Það er stutt í fasismann í þér!
Halldór Halldórsson, 3.4.2009 kl. 01:14
Takk fyrir pistilinn Ómar, ég er sammála öllu sem þú skrifar hér að ofan og hlýt þá líka að vera fasisti. Það verður bara víst að hafa það.
Steingrímur (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 01:27
Á fyrri hluta 20. aldar sögðu t.d. Mússólíní og Hitler að það þyrfti að grípa til "sérstakra aðgerða" í stjórnarskrármálum vegna "sérstakra aðstæðna"! Kjósendur urðu himinlifandi og færðu öll raunveruleg völd til þeirra í "frjálsum" kosningum. Ég held t.d. að Ómar hafi alveg sérstakt dálæti á Ítalíu og Mússólíni.
Halldór Halldórsson, 3.4.2009 kl. 01:47
Halldór: munurinn er að öll völd eru nú hjá flokkunum, og það er verið að reyna að færa völdin frá þeim en ekki til. Samkvæmt því ætti Sjálfstæðisflokkurinn að vera Mussolini - ekki öfugt.
Einar Jón, 3.4.2009 kl. 05:59
Hvernig stendur á því að í hvert skipti sem ég les eða heyri ummæli á borð við það sem Halldór lætur út úr sér hér þá er það einhver sem er hliðhollur Sjálfstæðisflokknum?
BB (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 08:54
Frábær grein hjá þér Ómar, hjartanlega sammála þér
(kaus Sj.fl. síðast, gerist ekki aftur næsta áratuginn hið minnsta).
Halldór ætti nú að taka lyfin sín, losna við ofsóknarbrjálæðið.
S.H. (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 10:34
Sæll Ómar.
Það er huggun harmi gegn að fíflum á Íslandi hefur þó fækkað úr 40% í 24,5%.
Ég held að Halldór Haldórsson ætti að fara varlega í það að tala um Hitler og Mussolini því engum flokki hefur verið stjórnað af jafn miklu einræði og Sjálfstæðisflokknum í tíð skítadreyfarans með Jesúkomplexana sem flutti sinn svanasöng á síðasta landsfundi flokksins. Vonandi verður það síðasti landsfundurinn að eilífu.
Áherslur Sjálfstæðisflokksins voru í hanstíð: Foringi - flokkur- skítt með þjóðina. BURT MEÐ ÞENNAN HELVÍTIS FOKKING FLOKK
Alli, 3.4.2009 kl. 10:38
Takk Ómar fyrir þessa grein, ég er mjög sammála þér og alveg til í að bætast í þennan"fasistahóp" sem Halldór er að tala um hér fyrir ofan. Bara verst að það séu ennþá 25% þjóðarinnar sem ætla að kjósa þennan sjálfstökuflokk eftir allt svínarí sem hefur komið fram. Alveg óskiljanlegt!
Úrsúla Jünemann, 3.4.2009 kl. 11:34
Halldór er búinn að gleyma því að til eru ljósmyndir af "frægum" leiðtogum sjálfstæðismanna þar sem þeir marsera um Reykjavík í búningum nýnasista. Það er engin ástæða til að telja upp nöfn þeirra hér en óneytanlega jafnast þetta komment Halldórs á við það að skíta í buxurnar og sitja svo sæll og glaður í "kökunni".
Jón Garðar (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 12:36
Vinsæll er Árni með víni,
von er því að hríni,
hann gapti þar og gól,
sem galinn í ræðustól.
Þorsteinn Briem, 3.4.2009 kl. 13:01
Nokkuð sammála þér Ómar en jafnframt finnst mér eðlilegt að mál eins og stjórnlagaþing og stjórnarskrárbreytingar fái mikla og góða umræðu. Hvort hún sé 'góð' hjá liðinu í sjálfstæðisflokknum ætla ég ekki að tjá mig um.
Langar einnig að kasta frá mér því sem ég hef stundum spáð í. Ég hef í raun aldrei skilið hvers vegna það megi aldrei breyta þessari stjórnarskrá okkar. Vissulega er mikilvægi plaggsins ótvíræð en enn mikilvægara finnst mér hvað í plagginu stendur en einungis plaggið sjálft.
Stjórnarskrá okkar er í raun ekki okkar, ekki samin sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður og ekki af íslensku fólki. Hún kemur beint frá Danmörku árið 1874 og tókum við hana nánast beint upp við stofnun okkar lýðveldis 1944. Lögin eru þó mörg samin vel fyrir 1874 og bera mörg þeirra keim af aðstæðum í heiminum eftir Napóleonstyrjaldirnar og áhrifa Vínarkonsertsins svokallaða eru augljós. Ekki það að margt þar hafi endilega verið óskynsamlegt heldur er ég að benda á hversu gömul þessi viðhorf eru og að þau eru ekki endilega okkar.
Einhver sagði að það væri löngu tímabært að við sköpuðum okkar eigin stjórnarskrá sem miðar við íslenskar aðstæður og það sem megi kalla íslenska siðferðisvitund. Ég er eiginlega alveg sammála því.
Guðgeir (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 13:14
Flott og sönn grein hjá þér Ómar um síminnkandi einræðissinnaðan, valdasjúkan, siðspilltan, auðvaldssinnaðann, úrelltan, vonlausan og draugfúlan stjórnmálaflokk. Þeirra tími mun ekki koma ( aftur á næstunni ) !
Stefán (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 13:19
Stjórnlagaþing er einn af þeim þáttum sem fram komu í umræðunni um úrlausnir í íslensku samfélagi. Einhverjir settu málefnið á stefnuskrá, og fyrir einhverja er stjórnlagaþing lausn á stórum málum. Nú er ég ekki að segja að það megi ekki breyta stjórnarskránni, sjálfsagt má gera það, en ég efast stórlega um að slík breyting sé 1-2 milljarða virði. Ég get alveg séð fyrir mér einhverskonar hliðarþing sem situr í mjög takmarkaðan tíma, þar sem farið er yfir stjórnarskrána með sérfræðingum og síðan farið yfir þá þætti sem þyrfti að skoða í breytingarátt. Slíkt hliðarþing, getur verið sett á laggirnar með sjálfboðaliðum, auk Alþingismönnum, svo og völdum sérfræðingum. (Meiga gjarnan hafa mismunandi áherslur).
Sigurður Þorsteinsson, 3.4.2009 kl. 13:30
Nú er ég flokksbundinn sjálfstæðismaður, hef verið um langa hríð en verð að segja að ánægja mín með þann flokk hefur dalað talsvert, ef þannig má að orði komast. Hinsvegar finnst mér gallinn vera sá að það eru hreint engin framboð sem eitthvað púður er í. Bjarni Harðar geysist fram á sjónarsviðið með kjaftinn í hánorður eins og hans er von og vísa. VG menn virðast vera að tapa sér í stressi vegna þess að þeir geta ekki haldið fram "ef við værum við völd" eins og söngurinn þeirra hefur verið undanfarna áratugi. Gefum þeim samt aðeins séns. Framsókn fetar eins og venjulega þennan miðjuveg sem enginn getur sætt sig við, ekki einu sinni þeir sjálfir. Alveg burtséð frá hræsninni sem þeir halda fram bæði við sjávarútvegsstefnuna og hvaða stígur var fetaður að núverandi efnahagsástandi. Og Samfylkingin...talandi um hræsnara. Þverneita að taka neina ábyrgð á neinu, sama þótt þeir hafi átt aðild að síðustu ríkisstjórn. Sjallana kýs ég ekki aftur í bráð.
Svo það sést að mér finnst ekki vera mikil framtíð á meðan núverandi flokkakerfi er við lýði. Einstaklingskosningar strax!
Heimir Tómasson, 3.4.2009 kl. 14:31
En endilega fá fleiri komment frá þessum Halldóri sem kom þarna fyrstur Gaman að svona hófsemdarmönnum.
Heimir Tómasson, 3.4.2009 kl. 14:32
Frumvarp um breytingu á kosningalögum fjallar um það að framboðum sé gefið leyfi til að bera fram óraðaða lista svo að kjósendur ráði fái að ráða röðinni beint og milliliðalaust í kjörklefanum,
Breytingin felur í sér algert lágmark, því að þau framboð sem vilja hafa þetta óbreytt hjá sér mega gera það áfram.
Persónukjör er þrautreynt hjá öðrum þjóðum, ekkert flókið við það né neitt það sem kallar á langdregnar umræður um það.
Það að vilja þessar einföldu lýðræðisumbætur kallar Halldór Halldórsson fasisma. Undarlegt það.
Stuðning minn við þetta kallar Halldór einhvert persónulegt hagsmunamál mitt. Ég get ekki séð að hverning það getur staðist. Ég er hvergi í framboði við þessar kosningar og vil bara að ég fái aukið frelsi í kjörklefanum sem kjósandi. Það er víst fasismi líka eða hvað?
Ómar Ragnarsson, 3.4.2009 kl. 15:40
Ég hélt reyndar að eitt af einkennum fasisma væri alger skortur á öllum kosningum yfirhöfuð....
Heimir Tómasson, 3.4.2009 kl. 20:57
Fasismi hvað?!?
Það er undarlegur óvilji yfirvalda hins svokallaða lýðræðislands að koma á alvöru lýðræði og alvöru vali um fólk. Það er búið að velja fólkið. Það eina sem við fáum að gera, af þeirra náð, og eins og heimskir og hlýðnir sauðir, er að velja flokka og skítlegt og stórhættulegt flokkavald.
Nei við flokkum sem raða fólkinu í flokkunum. Það er flokkavald. Það eru kjósendur sæm ættu að raða í klefunum og það ætti að standa. Það er lýðræði. Og lýðræði virkar vel í venjulegum löndum.
EE elle (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 22:39
Spurning hvað er venjulegt land. Er Ísland venjulegt land? Ekki hefur mér sýnst það.
Heimir Tómasson, 3.4.2009 kl. 23:02
Nei, akkúrat það sem ég meinti, Heimir.
EE elle (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 00:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.