Gamalkunnugt fyrirbæri.

Hver þingmaður á Íslandi hefur 1,57% atkvæða á bak við sig. Þó ekki ef framboð fær minna en 5% fylgis. Þá getur fylgi, sem annars gæfi 2-3 þingmenn, orðið ónýtt. Þetta, ásamt fleiri hamlandi atriðum, veldur því að óhemju erfitt er að koma að einhverri endurnýjun í íslenskum stjórnmálum nema í gegnum stærstu flokkana.

L-listinn hefur haft fylgi í skoðaakönnunum sem hefur verið nálægt sem svarar einu þingsæti. En þetta er svo langt frá því sem þarf, að aðstandendur listans hafa tekið þá óhjákvæmilegu ákvörðun að hætta við.

Borgarahreyfingin hefur haft sem svarar tveggja þingmanna fylgi en líka verið fjarri því að komast yfir þröskuldinn.

Íslandshreyfingin mældist með allt að 4% fylgi eða yfir fylginu í kosningunum 2007 en tók þá rökréttu ákvörðun um daginn, þegar það virtist stefna í fjögur lítil framboð, að draga sig til baka. Flest Íslandshreyfingarfólkið gekk í Samfylkinguna um leið og hreyfingin varð að og tókst að hafa umtalsverð áhrif á þá stefnu, sem samþykkt var á landsfundinum.

2007 var því hafnað að Íslandshreyfingin fengi að taka þátt í almennum kosningaumræðum í ljósvakamiðlum nema það byði fram í öllum kjördæmum og það var ærið verk að setja saman og raða fólki á framboðslista með 132 frambjóðendum og safna um tvö þúsund meðmælendum á þeim tveimur vikum sem liðu frá stofnun flokksins til fyrstu umræðna, sem hann fékk að taka þátt í.

Annað gamalkunnugt fyrirbæri dúkkar nú upp, sem sé það að stóru flokkarnir fái stefnumál nýrra framboða lánuð.

Þrír af fjórflokkunum tóku aðalmál Þjóðvarnarflokksins að láni 1956 og drógu þar með úr honum tennurnar, en á móti má segja að hann hafi náð óbeinum árangri.

Veturinn 2006-2007 tók Samfylkingin upp "Fagra Ísland" sem síðan kom þó fyrir lítið að öðru leyti en því að taka fylgi frá þeim tveimur flokkum sem kenndu sig við græna stefnu.

Eftir þær kosningar kom í ljós að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerði stóriðjustefnuna að úrslitaatriði í gegnum Sjálfstæðisflokkinn og síðar í gegnum Framsóknarflokkinn í núverandi stjórn.


mbl.is Hættir við þingframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Ég var hissa á að Íslandshreyfingin skyldi ganga inn í Samfylkinguna án þess að gera að því skóna að fá 2  möguleg þingsæt sem samningsskilyrði.

Fullyrt er að Íslandshreyfingin hafi haft umtalsverð áhrif á stefnu Samfylkingarinnar sem samþykkt var á landsfundinum. Þetta er hægt að draga í efa þar sem engar sannanir liggja fyrir um það svo sem greining á atkvæðagreiðslu. Má vera að staðkunnugir geti vitnað um það að fullyrðingin sé rétt.

Er Össur ekki enn þá að hnoðast í með álver í Helguvík?  Einhverja orku þarf í það?

Ef Borgarahreyfingin ýtir eitthvað við atvinnuleysingjum og illa stöddu fólki og er með allgott fólk í framboði er hún komin á fljúgandi pólitíska ferð.

Niðurstaða mín er því þessi; Fólk skyldi varast að hætta við Alþingisframboð nema að vel athuguðu máli og alls ekki semja sig inn í stjórnmálaflokka nema hafa eitthvað fast í hendi svo sem þingsæti eða haldbærar samþykktir sem farið er eftir.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 3.4.2009 kl. 21:54

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Íslandshreyfingin kom svo seint til liðs við Samfylkinguna að prófkjör voru búin.

Hvað mig snerti persónulega hefði hvort eð er aldrei verið mögulegt fyrir mig, algjörlega eigna- og auralausan mann, sem búinn er að eyða öllu sínu og meira en það í vonlausa kvikmyndagerð, að fara í prófkjör.

Viðbót okkar við græna fólkið í Samfylkingunni skilaði sér í mælanlegum árangri. Aðeins örfáum atkvæðum munaði að samþykkt yrði tillaga um að við Íslendingar sæktum um aukna mengunarkvóta við næstu alþjóðlegu samningagerð í loftslags- og mengunarmálum.

Ómar Ragnarsson, 4.4.2009 kl. 00:52

3 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Ómar, ég hefði svo sannarlega vilja sjá þig á Alþingi Íslendinga og hefðir þú ekki verið friðhelgur fyrir lánadrottnum þar, ef þú hefðir passað þig að fara ekki út þegar þeir væru á ferðinni? Haft með þér nesti!!

En að slepptu öllu gamni, þá hefur þú verið feyki duglegur og frumlegur í þínum störfum, haldið ýmsum þjóðargersemum til haga og ég held að þjóðin eigi þér ýmislegt að þakka.

Gangi þér alltaf sem best.

Bestu kveðjur

Þorsteinn H. Gunnarsson, 4.4.2009 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband