4.4.2009 | 07:44
Þótti ekki frétt í gær.
Þegar ég heyrði sagt frá því í fréttum RUV klukkan fjögur í gær að Obama væri með áætlun þess efnis að útrýma kjarnavopnum í heiminum fannst mér það einhver merkilegasta frétt sem ég hefði heyrt frá því að ég man eftir mér fyrir rúmum sextíu árum.
Ég bjóst því við frekari útslistun á þessu í næstu fréttum ljósvakamiðlanna og síðan um kvöldið. Af því varð þó ekki. Svo virtist sem fréttamaðurinn sem lét fréttina í té í fjögurfréttunum hefði verið sá eini sem áttaði sig á stærð þessarar fréttar.
Tilvist kjarnavopna sem eytt gætu öllu lífi á jörðinni hefur í raun verið mesta ógn sem steðjað hefur að mannkyninu síðustu fjörutíu árin og mesta ógn sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir frá upphafi vega. Lögmál Murphys þess efnis, að geti eitthvað farið úrskeiðis muni það gera það fyrr eða síðar, lætur nefnilega ekki að sér hæða.
Enn er í fersku minni hve litlu munaði í Kúbudeilunni árið 1963 að allt færi í bál og brand, en hljóðara hefur verið um þá staðreynd að enn minna munaði 1983 þegar bilun í viðvörunarbúnaði Sovétmanna sýndi kjarnorkuárás frá Bandaríkjunum og það var aðeins hetjuskapur rússnesks starfsmanns sem kom í veg fyrir að gereyðingarstríði væri hleypt af stað.
Fékk hann meira að segja bágt frá yfirmönnum sínum vegna þessa.
Svonefnd Stjörnustríðsræða Reagans þótti fréttnæm á sínum tíma. Þó fjallaði hún ekki um útrýmingu kjarnavopna heldur um varnir við þeim. Sú hugmynd Reagans ein var hindrun fyrir tímamótasamkomulagi á fundinum í Höfða 1986.
Svo samdauna eru menn orðnir því að lifa með möguleikanum á gerðeyðingarstríði að smáfréttir á borð við leit að erlendum smákrimma þóttu stærri í gær og ræða Obama ekki þess virði að vera sögð.
Hyggst beita sér fyrir heimi án kjarnavopna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég tók eftir þessu líka og finnst það mikil gleðifrétt. Hann má þó búast við mikilli andspyrnu þeirra fjársterku aðila sem hagnast á hergagnaframleiðslu. Þeir toga í spotta víðar en í Bændaríkjunum. Einnig er gott að sjá að hann viðurkennir að stjórnvöld í Washington hafi sýnt bandamönnum sínum (og eflaust fleirum) hroka og vill bæta þar úr. Þetta veit á gott.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 08:43
Ekki undarlegt að þér hafi fundist þetta ein merkilegasta frétt sem þú hafðir heyrt. Ég get tekið undir það og þurfti að lesa það sem þú skrifaðir aftur. Og hugsaði: Er hann í alvöru að meina þetta? Hafði ekki heyrt neitt um fréttina og ÞAÐ ER MERKILEGT.
EE elle (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 15:22
Þetta voru undursamlegar fréttir. Það virðist sem stórmenni hafi sest að í Hvíta húsinu í Washington, loksins. Ég fagna þessum hugmyndum Baracks Óbama - tel að orð sem þessi séu til þess fallin að bæta geðið í alþjóðasamskiptum. Good luck!
Baldur Gautur Baldursson, 4.4.2009 kl. 15:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.