Tæknin skal valta yfir náttúruna.

_MG_9076_MG_9089_MG_9169_MG_9177

Fór í dag í myndatökuflug yfir Leirhnjúk og Gjástykki sem eru næst á lista yfir svæði sem á að virkja fyrir álver í 70 kílómetra fjarlægð. Hef áður bloggað um það að þetta svæði eigi engan sinn líka í heiminum.

Þetta er eini staðurinn í heiminum þar sem hægt er að upplifa og sjá myndir af því hvernig Ameríka fór frá Evrópu og hraun kom upp í gjánum sem mynduðust og til varð nýtt land.Myndirnar voru teknar í níu eldgosum sem þarna urðu 1975-84. 

Þarna hafa alheimssamtök um ferðir til mars valið sér æfingasvæði fyrir marsfarana á svipaðan hátt og Askja var valin fyrir tunglfarana 1967.Leirhnjúkur-Gjástykki er því merkilegra en sjálf Askja.

En það mun ekki stöðva virkjanafíklana í að fara inn á þetta svæði og breyta því í iðnaðarsvæði með borholum, gufuleiðslum, háspennulínum og stöðvarhúsum svipað og gert var á Hellisheiði.

Aðferðin er útsmogin. Í skýrslum um framkvæmdina er hallandi land samhliða Leirhnjúkim svonefndur Vítismór, ekki kennt við hnjúkinn, sem er skammt frá, heldur við Kröflu.Það er sem sé ekki verið að virkja við Leirhnjúk heldur Kröflu á máli Landsvirkjunar. Þess vegna geta landsmenn verið rólegir. Þetta er Kröfluvirkjun, sama virkjun og var reist á áttunda áratugnum.  

Hinni lúmsku aðferð var beitt við Ingólfsfjall fyrir nokkrum árum.Stór gryfja uppi á fjallinu var skilgreind sem sama gryfjan neðst í hlíð þess.Með þessari aðferð má þess vegna allt eins fara með gryfjurnar eftir Ingólfsfjalli og allt norður í Þingvallavatn og alltaf eru þetta sömu gryfjurnar.  

Hægt er að stækka myndirnar hér á síðunni með því að tvísmella á þær.Á efstu myndinni er horft norður eftir Leirhnjúki, sem er syðst á 15 kílómetra langri sprungu sem gaus á í Kröflueldum.

Á næstefstu myndinni sést norðurendi Leirhnjúks og næsti gígur fyrir norðan hann.

Á þriðju myndinni, þeirri næstneðstu er sprengigígurinn Víti næst okkur, en þar var boruð mikil hola í fyrra með tilheyrandi spjöllum. Fjær er ný hola þar sem fer fram fyrsta djúpborun í heiminum og þar á bak við er Leirhnjúkur. 

Á neðstu myndinni erum við komin nær borholunni og sjáum vel afstöðu hennar til Leirhnjúks.Samt heitir þetta ekki borun við Leirhnjúk heldur tilheyrir þetta Kröflu á máli Landsvirkjunar.

Á Íslandi má finna mörg háhitasvæði sem þegar er búið að bora á, svo sem við Kröfluvirkjun þarna fyrir sunnan. Það að bora þessa merku holum einmitt á þessum stað er hins vegar mikilvægt fyrir virkjanafíklana. Á móti heimsundrinu Leirhnjúkur-Gjástykki dugar ekkert minna en að tefla frægastu borholu heimsins. Síðan koma hinar borholurnar á eftir í röð meðfram Kröflueldasvæðinu, frægasta borholuröð veraldar.  

Tæknin skal valta yfir náttúruna og þá möguleika að gera svæðið ósnortið að margfalt dýrmætara svæði, meira að segja á mælikvarða tekna af því sem ferðamannasvæðis og eins frægasta undurs Íslands og heimsins. 

Nýlega var í Morgunblaðinu heilsíðugrein um djúpborunina. Ekkert um umhverfisáhrifin. Tæknin heillar jú alla og náttúruundrið, sem fórna á fyrir þetta, skiptir ekki máli.  

Við Friðþjófur Helgason flugum líka í dag yfir Þeystareyki, Bjarnarflag og Kröflu. En þessar þrjár virkjanir nægja ekki hófsemdarmönnum heldur verður líka a taka eina svæðið sem öfgamenn eins og ég vilja þyrma. Hófsemdarmenn geta að sjálfsögðu ekki hugsað sér að skilja neitt eftir handa öfgamönnum. 

Kannski verður viðeigandi tónlist við myndina "Sköpun jarðar og ferðir til mars" sem ég er að basla við að gera "Bölmóðsblús" sem er að finna í tónlistarspilaranum hér vinstra megin.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú bind ég mestar vonir við kvikmyndina Draumalandið. Hún er frumsýnd á besta tíma rétt fyrir kosningar. Læt mér detta í hug að færri muni kjósa D og B eftir að hafa horft á hana.

Annars er margt fólk á Íslandi sem kallar landið sitt nápleis og drullusker.

Árni Gunnarsson, 4.4.2009 kl. 16:31

2 Smámynd: Brattur

Það er alltaf verið að plata okkur með því að kalla hlutina ekki sínum réttu nöfnum... Gott að hafa menn eins og þig Ómar til að upplýsa okkur um klæki bragðarefanna... Landið okkar er gríðarlega fallegt en allt of margir sem hafa þá skoðun að það megi gera hvað sem er við það... takk fyrir að halda áfram að berjast við ofureflið og að upplýsa okkur...

Brattur, 4.4.2009 kl. 16:47

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það er svo ríkt í virkjanasinnum að vilja græða NÚNA !  Þeir sjá einhverja aura í hyllingum og skulu ná þeim og það strax.  Ef menn klóruðu sér nú í kollinum nokkra stund og hugsuðu 100 - 200 ár fram í tímann.  Hversu mikil verðmæti eigum við í ósnortinni náttúru sem er einstök í heiminum ?  Ferðaþjónustan á eftir að aukast gríðarlega á næstunni og það er hún sem við eigum að huga að.  En þá verðum við að STOPPA virkjanadraslið því það kemur enginn til að skoða það.

Og hvernig væri svo að selja útlendingum orku á sama verði og íslenskum garðyrkjubændum ?

Stundum skil ég ekki hvað Íslendingar eru vitlausir. 

Anna Einarsdóttir, 4.4.2009 kl. 17:10

4 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Verður ekki næsti stórskandall í fjármálum þjóðarinnar gjaldþrot Landsvirkjunnar. Bíð bara eftir því. Þá mun allur orkugeirinn lenda í uppnámi sem ekki einus inni ég veit hvernig endar : )

Gísli Ingvarsson, 4.4.2009 kl. 17:44

5 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Ég hef aldrei komið á öræfi en orðið vitni að náttúruspjöllum á láglendi fólgnu í skurðgreftri sem var dásamaður af öllum. Af hverju eru allir fuglar hættir að syngja við Skollatjörn?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 4.4.2009 kl. 19:33

6 identicon

En nú er það stefna Samfylkingarinnar að reis álvar þar nyrðra og vaða yfir þau svæði sem þú nefnir Ómar. Rann ekki Íslandshreyfingin þín inn í þann flokk á dögunum, eða varð aldrei neitt úr því, man það ekki.

Björn (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 09:46

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Okkur tókst, ásamt grænum samherjum okkar í Samfylkingunni að koma talsverðu til leiðar í stefnu flokksins á landsfundi hans.

Fengum það meðal annars inn að stefna skyldi að grænu hagkerfi með sjálfbærri þróun og jafnrétti kynslóðanna.

Hætta ágengri orkunýtingu (rányrkju, eins og nú viðgengst á Reykjanesskaga).

Friða allt svæðið milli Vatnajöklus og Mýrdalsjökuls þar sem hafa verið uppi áætlanir um sex virkjanir.

Fella tillögu um að Íslendingar kæmu aftur krjúpandi á hnjánum og bæðu um undanþágur frá mengunarkvóta á næstu ráðstefnu um loftslagsmál.

Ástæða þess að enn er stefnt að álverum í Helguvík og á Bakka er einfaldlega sú að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa meirihluta á þingi og gera þessi álver að úrslitaatriði, fyrst Sjálfstæðisflokkurinn gagnvart Samfylkingunni og nú Framsóknarflokkurinn gagnvart minnihlutastjórninni.

Þess vegna er höfuðatriðið að koma þessum fyrrum stjórnarflokkum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki niður í minnihluta þingfylgis.

Ómar Ragnarsson, 5.4.2009 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband