10.4.2009 | 22:51
Erfið færð ?
Ég var að koma suður Holtavörðuheiði um áttaleytið. Þar er að vísu ekki mikið skyggni og norðan strekkingur, og vegurinn þakinn snjó, en skaflar eru þar litlir og með ólíkindum finnast mér fréttir um að ökumenn hafi átt í verulegum vandræðum þarna og lent í óhöppum, hvað þá að þarna teljist vera "erfið færð."
Ég var á minnsta bílnum, sem nú er í umferð á Íslandi, en að vísu ágætlega hátt undir hann og vegna þess að vélin er fyrir aftan afturhjólin er gripið það gott á afturhjóladrifinu að ekki hefur þurft að negla hjólbarðana þar.
Færðin getur hins vegar verið "erfið" fyrir fólk sem lendir í vandræðum í hvaða snjóföl sem er.
Slæmt veður á Holtavörðuheiði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar. Ég ákvað að skreppa hringinn í vikunni og var að þvælast í Mývatnssveit á fimmtudaginn. Þegar ég ók inn á planið hjá N1 þá mætti ég einum flottasta jeppa sem ég hef séð lengi, gömlum rússajeppa með blæju, upphækkaðan og á stórum dekkjum. Sá gamli var eitthvað bilaður en hann var dreginn af öðrum jeppa. Ég þóttist þekkja ökumanninn í rússajeppanum.
Ég er hjartanlega sammála þér með að reyna að aka á sem smæstum bíl, enda fór ég þennan hring á litlum smábíl og fór létt með. Engin þörf að nota tveggja tonna jeppa til að flytja hundrað kíló af mannakjöti, eins og einhver góður maður hefur bent á. Hringvegurinn var auður allan hringinn og engin þörf á nagladekkjum, sem ég var þó á. Hugsa að ég aki ekki á negldum eftir þennan vetur.
Ég geri ráð fyrir að þú hafir skottast þetta á honum litla rauð, en sért með tröllajeppa til handagagns þegar á þarf að halda og það er bara í fínu. Ég er bara samt alveg rosalega forvitinn um þennan rússajeppa, hvaða græja er þetta? Getur þú sagt okkur eitthvað frá því?
Sagan segir að þú sért með bíla parkeraða á öllum helstu flugvöllum landsins til að grípa í ef á þarf að halda. Veit ekki hvað er til í því.
Bílaútgerðin þín er algjör snilld og fílósófían á bak við hana er eitthvað sem ég get skrifað upp á. Ég rakst á Suzuki jeppa í vetur á Háaleitisbraut sem ég hélt að væri til sölu (félagi minn er einmitt að leita að svona gömlum Suzuki) en miðinn í glugganum var ekki til sölu miði heldur bara upplýsingamiði um bílinn sjálfan. Nú er hann að velta fyrir sér Suzuki Jimny, nema hann rekist á einn góðan Fox eða Samurai. Hefur þú heyrt eitthvað um Jimny?
Jonni (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 19:26
Ég skal að gamni blogga um þessa tvo bíla sem þú nefnir. Súkkan er minnsti jöklajeppi landsins en rússann hef ég haft nálægt Mývatnsflugvelli vegna kvikmyndagerðar minnar um Leirhnjúk-Gjástykki.
Hann var búinn að standa þarna í vetur ónotaður, enda aðeins til taks vegna kvikmyndagerðarinnar, og kominn var raki í kveikjukerfið. Þess vegna þurfti að kippa honum í gang. Undir kvöld var hann farinn að ganga eðlilega.
Ef á þarf að halda er hægt að fara á honum í jöklaferðir eins og kom í ljós þarna.
Jimny er næsta stærð fyrir ofan Fox og því um 150 kílóum þyngri að jafnaði. Samt er hann það léttur að á 33ja tommu dekkjum fer hann nokkurn veginn allt það sem ætlast má til af jöklajeppa.
Fox eða Samurai hafa ekki sést auglýstir til sölu síðustu ár, þvílíkir gimsteinar eru þessir bílar.
Ómar Ragnarsson, 11.4.2009 kl. 21:00
Get látið fylgja með að ég sá sjálfskiptan Jimny ´99 módel til sölu bak við Suzuki-umboðið fyrr í kvöld. Aðeins ekinn 109 þúsund kílómetra og verðið hagstætt.
Ómar Ragnarsson, 11.4.2009 kl. 21:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.