Enn langt í land fyrir Framsókn.

Oft vill það brenna við að samanburður á fylgistölum í kosningum nær ekki lengra aftur en til síðustu skoðanakannana eða næstu kosninga á undan í stað þess að horfa lengra aftur.

Alla síðustu öld var Framsóknarflokkurinn með vel yfir 20% fylgis, komst hvað eftir annað yfir 25% og náði hæst 28% 1967.

1999 var fylgið rétt yfir 18% og var 17,7% 2003, í bæði skiptið neðan við 20 prósentin. Flokknum var refsað grimmilega fyrir 12 ára slímsetustjórn sína með Sjálfstæðisflokknum í kosningunum 2007 og datt út úr stjórn, en Sjálfstæðisflokkurinn slapp fyrir horn.

Núna er Sjálfstæðisflokknum loks refsað harðlega og þótt Framsókn komist uppundir 15% atkvæða er það langt fyrir neðan hið hefðbundna fylgi hans alla síðustu öld fram að 1995.

Það er því enn mikið verk að vinna fyrir efnilegan formann hans, sem kastaði flokknum skemmtilega í gegnum endamarkið á síðustu dægrum kosningabaráttunnar.

Og í stað þess að miða fylgi Vinstri grænna við síðustu skoðanakannanir er réttara að horfa aðeins lengra aftur í tímann og skoða næstum þreföldun þingmanna flokksins á skammri ævi hans.

Samfylkingin hefur verið á svipuðu róli frá stofnun sinni og á þau timamót að vera orðinn langstærsti flokkur landsins fyrst og fremst að þakka afhroði Sjálfstæðisflokksins og því að Framsókn hefur ekki náð sinni fyrri stærð.

Og tímamótameirihluti Sf og Vg byggist á því hvernig Vg hefur sótt í sig veðrið jafnt og þétt á síðustu tíu árum.


mbl.is Upphafið að endurreisn flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Jónsson

Ég er sammála því sem þú segir, Ómar.
Mér þótti mjög merkilegt að sjá Guðmund Steingrímsson spurðan að því í sjónvarpssal, hverja hann teldi skýringuna á því að kjósendur hefðu einungis refsað Sjálfstæðisflokknum en ekki Framsóknarflokknum.
Það er náttúrlega alrangt, Framsóknarflokknum var refsað grimmilega í síðustu kosningum fyrir þann afglapahátt að setjast enn eitt kjörtímabilið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og sú svipa smellur enn á flokknum, þrátt fyrir að aðeins hafi dregið úr höggþunganum.

Stefán Jónsson, 26.4.2009 kl. 09:07

2 identicon

Borgarahreyfingin og Vinstri Grænir eru sigurvegarar í þessum kosningum það er klárt. Sigur Samfylkingar í ljósi stærðar hennar fyrir kjördag er ekki svo mikill .Það verður ekki sterk stjórn undir forustu Samfylkingar og Vinstri Grænum því þeir hafa ekki nema34 þingmenn sem er ekki sterkur meirri hluti í þessu umhverfi sem þjóðin býr við í dag. 

Framsóknarmenn  með sitt  nýja fólk geta vel við unað með góðan varnarsigur því það er ekki svo langt síðan að þeir fóru í frí frá vondri stjórnarsettu til margra ára. Sjáfstæðisflokkurinn honum var refsað mjög veggna stöðu mála almennt á landinu og Frjálslyndi flokkurinn honum var eytt sem kemur mér ekki á óvart því flokkurinn undir stjórn Guðjóns Arnars og hans fylgisveina komu þessari þróun af stað  með formlegum hætti á landsfundi flokkins árið 2007 því miður. 

Ég vil senda sigurvegurunum í þessum kosningum xO og xV til hamingju með glæsilegan sigur í þessum kosningum og Borgarahreyfingin sannaði að það er hægt að gera þetta án peninga sem er mjög góð auglýsing fyrir lýðræðið og eiga þeir heiður skilin.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 10:13

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fimm atkvæða meirihluti á þingi er mjög hæfilegur við venjulegar aðstæður því að reynslan sýnir að mikill meirihluti verður oft til þess að fleiri stjórnarþingmenn telja sig hafa efni á því að stökkva út undan sér og þar með kemur meira los á stjórnarmeirihlutann.

Sterkar stjórnir hafa oft haft veikan meirihluta. Viðreisnarstjórnin hafði veikan meirihluta alla tíð og vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar 1988-91 hafði einn allra veikasta meirihluta sögunnar en sat þó til enda kjörtímabilsins.

Andrúmsloftið við þessar kosningar var gerólíkt því sem við þekkjum frá fyrri tíð hvað snertir viðhorf fólks til fjármuna og meðferðar þeirra. Á því byggist góður árangur Borgarahreyfingarinnar með sína hugsjónaríku og ódýru kosningabaráttu sem hefði verið óhugsandi 2007 var einmitt það sem heillaði svo marga nú.

Borgarahreyfingin valdi sér hárrétta nafnið sem vísaði til borgarafundanna í vetur og tengslanna við Búsáhaldabyltinguna.

Borgarafundirnir byggðust á mikilli öldu sem fór um þjóðfélagið og fékk mikla umfjöllun fjölmiðla, þannig að segja má að þar hafi Borgarahreyfingin byrjað að há sína kosningabaráttu.

Ég þykist vita hvaða vinna liggur að baki flokksstofnun og framboði og tók í byrjun þátt í undirbúnings- og þreifingafundunum sem haldir voru á undan framboðinu.

Margt af því fólki sem þar lagði hönd að verki, svo sem Lilja Mósesdóttir og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lét síðan til sín taka á öðrum vettvangi fyrir þessar kosningar.

Ég óska Borgarahreyfingarfólkinu til hamingju með árangur gríðarlegrar vinnu og þrautseigju sem liggur að baki.

Ómar Ragnarsson, 26.4.2009 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband