3.5.2009 | 16:26
Höldum í foreldrisnafnasiðinn.
Þegar litið er yfir nöfn þeirra sem fara til Moskvu sést í hnotskurn atriði, sem sýnist ekki stórt, en er þó eitt af því sem við Íslendingar getum verið stoltir af á þessum tímum þegar okkur veitir ekki af slíku.
Þar á ég við íslenska nafngiftasiðinn að hver einstaklingur kenni sig við foreldri sitt en ekki ætt. Þessi siður hefur lúmska þýðingu hvað snertir huglæg áhrif.
Á tímum jafnréttisbaráttu er ekki fólgið jafnrétti í þeim erlenda sið að kona taki upp ættarnafn manns síns við giftingu. Íslenski siðurinn tryggir jafnrétti kynjanna að þessu leyti en felur hins vegar í sér annað misræmi, þá hefð að hver einstaklingur kenni sig við föður.
Þetta er arfleifð karlaveldis og ekki skynsamlegt því að móðernið er mun áreiðanlegra. Þegar Heiðar Helguson varð þekktur bæði hér og erlendis, hljómaði nafn hans í fyrstu svolítið framandi hér heima en nú sést að slík nöfn venjast bara mjög vel.
Ég verð alltaf stoltur erlendis þegar ég reifa íslenska nafnasiðinn á þessum nótum og sé og finn þá aðdáun sem hann vekur oft, þegar maður les út úr andliti viðmælandans: "Af hverju er þetta ekki svona hjá okkur?"
Að sjálfsögðu á fólki að vera það frjálst hvort það vill taka upp ættarnöfn, sem mörg hver eru falleg og auk þess byggð á aðstæðum sem gera þau eðlileg.
En eðli máls samkvæmt getur þróun í þá átt orðið til þess að drepa hinn frábæra íslenska nafnasið smám saman.
Önnur lúmsk hætta steðjar að íslenska nafnasiðnum, en það er sú venja sem hefur smám saman myndast, að skíra börn tveimur nöfnum. Við það vill nafn foreldrisins falla út, samanber fréttina um fólkið sem fer til Moskvu.
Hvers son er Friðrik Ómar ? Það kemur ekki fram frekar en venjulega en hann er reyndar Hjörleifsson.
Mér þykir vænt um að í fréttinni er greint frá föðurnöfnum annarra þátttakenda en það eru ekki allir sem vita um fullt nafn þeirra. Sumir blaðamenn hefðu látið nægja að nefna Heru Björk og sleppa föðurnafninu.
Það var að yfirlögðu ráði til að styðja foreldrisnafnasiðinn að öll börn okkar hjóna, sjö að tölu, heita einu nafni hvert Ég hefði gjarna vilja ganga lengra og kenna þau öll við móður sína. En þá hefði strax myndast sá blær á nöfnum þeirra að móðir þeirra væri einstæð móðir.
Þetta er að breytast hægt og bítandi sem betur fer og ég kemst alltaf í gott skap við að heyra nöfn eins og Lóa Pind Aldísardóttir og Heiðar Helguson.
Það er skiljanlegt að þegar nöfn einstaklings og foreldris eru algeng sé bætt við öðru nafni svo alnafnarnir verði færri. Jón Þ. Ólafsson, Gylfi Þ. Gíslason, Árni Páll Árnason, Olga Guðrún Árnadóttir en ekki Jón Ólafsson, Gylfi Gíslason og Guðrún Árnadóttir.
Bræðurnir Arnór og Ólafur Hannibalsson þurfa þess ekki með.
Með því að fleiri taki upp móðurnöfn verður minni þörf á að hafa eiginnöfnin fleiri en eitt.
Það verður ævinlega að huga fyrst og fremst að hagsmunum barnanna við nafngiftir en stundum finnst mér foreldrar ekki taka nægt tillit til þess.
Á leið til Moskvu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála þér. Eitt nafn auk föður- eða móðurkenningar nægir. Þannig var það hér í upphafi. Eða hvernig hljómar: Egill Smári Skallagrímsson ?
Reynir (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 16:49
Hér á Klakanum er einungis spurt um kennitölu en ekki nafn.
Og Jón Guðmundarson Jónínuson er beinlínis bjánalegt nafn en mér skilst að Hagstofan leyfi ekki að skrá nafnið svona:
Jón Guðmundar- og Jónínuson.
Þorsteinn Briem, 3.5.2009 kl. 18:10
... eða Jón Guðmunds- og Jónínuson.
Þorsteinn Briem, 3.5.2009 kl. 18:13
Ég er ekki að tala um að nöfn beggja foreldrana fylgi eiginnöfnum heldur að eðli málsins samkvæmt hvað snertir öryggi feðrunarinnar sé eðlilegra að kenna sig við móður en föður en ekki öfugt eins og nú er.
Ómar Ragnarsson, 3.5.2009 kl. 22:32
Ég var nú bara að benda á þetta bjánalega atriði hjá Hagstofunni.
Hins vegar getur fólk skrifað hér nafnið sitt á marga vegu, kennt sig við föður sinn, móður sína, bæði föður og móður, notað eitt, tvö eða þrjú skírnarnöfn, og jafnvel ættarnafn eða ættarnöfn.
Fólk þarf einungis að kannast við undirskrift sína á pappírum og öllum er sama hvort þú skrifar Ómar Ragnarsson, Ómar Þ. Ragnarsson, Ómar Þorfinnur Ragnarsson eða bara XYZ.
Hér skiptir kennitalan öllu máli, eins og þú sért gyðingur í útrýmingarbúðum, og alls staðar þarftu að hafa hana á takteinum. Þú ert bara númer og Guð hjálpi þér ef þú gleymir kennitölunni þinni. Þá ertu búinn að vera. Ekki lengur til.
Þorsteinn Briem, 3.5.2009 kl. 23:11
Einn vinur minn í den varð fyrir því óláni að öll skilríki hans brunnu í eldsvoða og hann varð að búa við það í marga mánuði að fá þau ekki endurnýjuð. Þá hétu kennitölur nafnnúmer.
Hann var ósáttur við þetta og sagði við mig: "Mér finnst það helvíti hart að þeir skuli bara umgangast mig eins og einhverja bíldruslu og klippa af mér nafnnúmerin!"
Ómar Ragnarsson, 4.5.2009 kl. 13:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.