14.5.2009 | 21:19
"Tímabundin höft", - gamalkunnugt stef.
Þegar Íslendingar höfðu sólundað feiknarmiklum gjaldeyrisinnistæðum sínum erlendis á mettíma 1947 þurfti að setja á "tímabundin gjaldeyrishöft" á meðan þjóðin væri að komast í gegnum vandræðin sem hún hafði komið sér í.
Næstu fimm ár á undan varð krónan alltof hátt skráð rétt eins og í "gróðærinu" 60 árum síðar og haldið uppi fölskum lífskjörum og neyslu í kjölfar stríðsins.
Þrátt fyrir mestu hlutfallslegu Marshallaðstoð, sem nokkur þjóð fékk, voru gjaldeyrishöftin slík 1948-1959 að höftin nú blikna í samanburðinum.
Lungann af tímabilinu fram yfir 1990 voru hér meiri höft en í nágrannalöndunum enda krónan lengst af skráð of hátt á sama tíma og verðbólgan gerði íslensku krónuna 2200 sinnum minni miðað við danska krónu en hún hafði verið 1920.
Margt var reynt. 1959 var reynt að fara niðurfærsluleið, lækka allt verðlag í landinu, en auðvitað hélt það ekki nema eitt á, það varð að fella gengið. 1961 hækkaði kaup eftir verkföll um 13% og stjórnin felldi gengið um 13% á móti.
1967 var gengið fellt tvisvar. Hannibal Valdimarsson forseti ASÍ missti út úr sér að gengið hefði verið fellt "hreint og drengilega" og í framhaldi af því söng ég lag úr söngleiknum Mary Poppins:
"Fella gengið hrika-ganta-gríðaryndislega /
gæti kannski sumum fundist hljóma ruddalega /
en Hannibal vill gera þetta hreint og drengilega: /
Fella gengið hrika-ganta-gríðaryndislega!"
Á áttunda áratugnum færðist gengisskrípaleikurinn í vöxt með alls konar tilbrigðum, reynt að fela gengisfallið með því að láta gengið "síga", og nefndist það "gengissig".
Halldór E. Sigurðsson reyndi að breiða yfir gengisfellingar með því að segja að nefna þær "hratt gengissig" eða "gengissig í einu stökki."
Þjóðarsáttin 1989 skapaði fyrsta tækifærið til að koma þessum málum í alemnnilegt horf með því að kæfa verðbólgudrauginn.
Nú er enn erfiðara fram undan en oftast fyrr en hins vegar aldrei eins áríðandi að við Íslendingar komum okkur loksins á svipað ról og aðrar þjóðir með stöðugt efnahagslíf og gjaldmiðil.
Gaman væri ef okkur tækist það á aldar afmæli viðskilnaðarins við dönsku krónuna og upphafs vandaræðagangsins með gjaldmiðilinn.
Þaulsetin gjaldeyrishöft | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fellum við bara ekki Evruna líka ef okkur verður leyft að taka hana upp, líkt og við felldum bankana þegar okkur gafst tækifæri til að stunda "frjáls" viðskipti erlendis....?
Ómar Bjarki Smárason, 14.5.2009 kl. 23:21
Sæll Ómar. EKki er nóg rætt um Dollar og NAFTA. En Evran og Evrópubandalagið hinsvegar sett upp á stall. Það kæra sig ekki allir um Evru þó. Þetta mætti skoða:
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/840117/
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/877297/
EE elle (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 23:33
Evran á eftir að gefa eftir,of hátt skráð fyrir t.d. Íra og s-Evrópulöndin.
Hörður Halldórsson, 15.5.2009 kl. 00:00
Ef við hefðum látið íslensku krónuna fylgja dönsku krónunni eins og Færeyingar gera hefði margt farið á annan veg síðan 1920.
Ómar Ragnarsson, 15.5.2009 kl. 00:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.