Óperuhúsin og Þingvellir.

Nú þarf í eitt skipti fyrir öll að nota rétta tækni til að finna út hvar hinn íslenski allsherjargoði stóð til að segja upp lögin, - og nota það til þess sem kalla mætti hljómburðarfornminjafræði. Það eru nefnilega ófundnar fleiri minjar á Þingvöllum en gripir sem eru að finnast nú.

Hvað tengir óperuhús heimsins við Þingvelli? Jú, á þessum samkomustöðum skiptir það höfuðmáli hvort þeir, sem þar eru saman komnir, heyri í ræðumönnum, heyri og sjái það sem fram fer.

Ég hef komið á hinn forna þingstað Gulaþing við Gulafjörð í Noregi þar sem stóð fyrirmynd hins íslenska Alþingis. Þar komu menn saman í skeifulaga rjóðri sem hallaði í áttina að staðnum, þar sem menn fluttu mál sitt. Aðstæður voru ekki ósvipaðar þeim sem eru í samkomuhúsunum í Stykkishólmi og á Ólafsvík.

Ég er ekki viss um að búið sé að rannsaka nógu vel hvar allsherjargoði stóð á Þingvöllum og hvar áheyrendur hans stóðu þegar hann sagði upp lögin svo að allir heyrðu.

Það var örugglega ekki á þeim stað sem lýðveldið var lögtekið 1944 vegna þess að við þá athöfn voru öll lögmál um hljómburð brotin, forseti Alþingis sneri sér út yfir þingheim á svæði sem hallaði niður frá honum án þess enduróms sem verið hefði ef hann hefði snúið sér í átt til þingheims í brekkunni fyrir ofan hann undir hamravegg Almannagjár.

Lögfesting lýðveldisins fór fram á stað sem hafði enga vörn gegn vindum eða regni, sem taka verður tillit til á Íslandi.

Tillaga mín er þessi: Fáum einn eða fleiri af bestu hljómburðarsérfræðingum heims, söfnum saman fólki sem aðhefst svipað og gerðist á þingi forðum og finnum út hvar og hvernig þing var háð, miðað við þær upplýsingar og rannsóknir sem hægt er að styðjast við.


mbl.is Fornminjar koma í ljós á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar

Ég sá athugasemdina þína og datt í hug að senda þér þessa tengingu á gamla frétt af vef Þingvalla.

http://www.thingvellir.is/frettasafn/nr/178

Einar (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 12:09

2 identicon

Hef líka komið til Gulaþings. Fannst merkilegast hvað aðstæður allar eru svipaðar á Gulaþingi og í Þórsnesþingi. Nánast eins. Þinghóllinn í Gulaþingi er þó ósköp lítill.

Gunnar (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband