Fleiri heilsíðuauglýsingar óskast.

Mikil er gæska Rio Tinto. Svo er að ráða af heilsíðuauglýsingu fyrirtækisins í Mogganum að golfvöllur Hafnfirðinga hafi legið undir skemmdum vegna vatnsleysis.

Er það með ólíkindum í bæjarfélagi sem státar af stærsta ferskvatnsfljóti Reykjanesskagans.

Rio Tinto hefur nú komið Hafnfirðingum til bjargar með því að gauka að þeim vatni úr Kaldá eftir að búið er að nota það í Straumsvík. Niðurstaða heilsíðuauglýsingarinnar: Því meiri stækkun álversins, því fleiri gjafir, því meiri dýrð endurnýjanlegra og hreinna orkulinda.

Enn ein sönnun þess sem nú hefur verið gert að reglu á Íslandi: Það er ekki hægt að leggja vegi, koma á GSM-sambandi, brúa ána, reisa iþróttahús, svo að nefnd séu nokkur nýleg dæmi, nema fyrst verði reist álver og virkjað fyrir þau.

Meira að segja það bæjarfélag sem ríkast er af fersku vatni á Íslandi við bæjardyrnar, getur ekki nýtt það nema fyrst verði álverið stækkað og virkjað fyrir það.

Ég er með tillögur að tveimur heilsíðuauglýsingum frá Rio Tinto til viðbótar um gæði vatns og lands sem fyrirtækið nýtir fyrir framleiðslu sína, annars vegar til aukinnar orkuöflunar hér á landi og hins vegar við nám á hráefni til álframleiðslunnar.

Fyrri auglýsingin verði um heita vatnið, sem skapar jarðvarmaorku fyrir aukna álvinnslu á suðvesturhorni landsins, meðal annars fyrir stækkað álver í Straumsvík. Þar verði rakið, að í kjörfar virkjanaframkvæmda austan Reykjavíkur sé nú þegar svo komið að 40 daga á ári standast loftgæði í Reykjavík ekki kröfur Kaliforníubúa. Einnig að viðbótarvirkjanir á jarðhita fyrir aukna álvinnslu endast ekki nema í nokkra áratugi og eru því ekki endurnýjanleg orka.

Sýnd verði virkjunarsvæði Bitruvirkjunar, við Sogin hjá Trölladyngju, Krísuvík og í Eldvörpin, bæði fyrir og eftir virkjun, og dýrðaróður kveðinn um gæði loftsins sem leggja mun frá Bitruvirkjun yfir Hveragerði íbúum til yndisauka.

Í síðari auglýsingunni verði greint frá gæðum vatna og jarðvegs á vinnslusvæðum báxítnáma Rio Tinto í öðrum heimsálfum sem og lífskjörum og hollustu fólksins sem þar býr.

Eftir að hafa séð síðari auglýsinguna fæst kannski betri vitneskja um það hvers vegna haft var á orði í breska þinginu fyrir rúmum áratug að Rio Tinto væri sóðalegasta fyrirtæki í heimi.

Kannski er það allt á misskilningi byggt og Rio Tinto hreinasta og göfugasta fyrirtæki heims þar sem hvarvetna gefur að líta, jafnt í Ástralíu sem á Íslandi, sama dýrðaróðinn til fyrirtækisins og dásamaður er á golfvelli Hafnfirðinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Er það satt að Kaldá sé leidd til Straumsvíkur?

Ásgeir Rúnar Helgason, 23.5.2009 kl. 21:34

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sú Kaldá sem rennur um kílómetra leið frá Kaldárhnjúkum vestur fyrir Kaldársel, er aðeins örlítill hluti hinnar raunverðulegu Kaldár, sem rennur neðanjarðar og fellur til sjávar við Straumsvík.

Sagt er að forðum hafi sjómenn getað lagt að landi og fengið sér ferskt vatn án þess að fara í land, með því að dýfa fötum í sjóinn upp við land og sigla aftur út.

Ómar Ragnarsson, 23.5.2009 kl. 21:47

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Straumsvík dregur nafn sitt af hinum gríðarlega straumi ferskvatns Kaldár, sem þar beljar fram úr hrauninu út í sjóinn.

Ómar Ragnarsson, 23.5.2009 kl. 21:51

4 identicon

Vatnsleysuströnd bar nafn með rentu.

En í sambandi við góðgerðir og gottgjörelsi: Ef það er ekki Bjöggi sem stendur í gustukaverkum á okkur aumum, þá er það Landsvirkjun, Alcoa eða Alcan eða Impreglio. 

Áfram Ómar! 

Rómverji (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband