Þekkt trix sem svínvirkar.

Það er þekkt trix að framkvæma fyrst og sjá síðan til hvort nokkru verði um þokað. Símastaurinn, sem settur var upp í mynni Ásbyrgis án þess að leyfi hefði fengist fyrir því, er mjög lítið og léttvægt dæmi um slíkt. Enginn vandi að fjarlægja hann án spjalla. 

Margfalt stærra dæmi er í gangi í Helguvík. Þar eru framkvæmdir á fullu við gerð kerskála þótt ekki hafi enn fengist leyfi fyrir háspennulínum sem flytja eiga orku til fyrirhugaðs álvers í gegnum mörg sveitarfélög.

Þaðan af síður liggur fyrir hvaðan orku verður á endanum hægt að fá fyrir þetta álver plús stækkun álversins í Straumsvík, en þessa orku verður að fá í mörgum sveitarfélögum og jafnvel með því að virkja Neðri-Þjórsá.

DSCF0542

Fyrir norðan er búið að eyða milljarði í trausti þess að bygging álvers á Bakka verði ekki stöðvuð.

Alcoa hefur gefið út að álverið verði að verða minnst 340 þúsund tonn, og engan veginn er víst hvort og hvaðan orka eigi eftir að fást til þess.

En í trausti þess að búið sé að eyða þetta miklum peningum og að Orkuveitan nyrðra er tæknilega gjaldþrota verður málið keyrt áfram eins og kostur er.

Búið er að bora þrjár borholur við Leirhnjúk með því að segja að þær séu við Kröflu en ekki Leirhnjúk.

Einnig hafin tilraunaborun í Gjástykki þótt engin leyfi liggi þar fyrir til borana.

IMG_0426DSCF0606

Myndirnar hér við hliðina eru teknar í Gjástykki í fyrra.

Á myndum þar fyrir neðan má sjá veg, sem ruddur var með jarðýtu á sínum tíma þvert í gegnum nýrunnið hraun í stað þess að leggja veginn utan við hið nýja hraun eða aka ofaníburði í vegarstæðið í stað þess að valda óafturkræfum spjöllum. 

DSC00230

 

Alcoa lofaði í upphafi að álver á Bakka þyrfti ekki að verða nema 240 þúsund tonn.

Þegar ég dró það fastlega í efa og taldi þetta aðeins sama bragðið og beitt hafði verið út af álveri á Reyðarfirði, sem fyrst átti bara að verða 120 þúsund tonn, átaldi blaðafulltrúi félagsins mig harðlega fyrir það.

Bragð Alcoa hreif bæði fyrir norðan og austan og nú getur fjölmiðlafulltrúi Alcoa annað en viðurkennt að ég hafði rétt fyrir mér allan tímann.

Við Trölladyngju hafa verið framkvæmd mikil umhverfisspjöll á sérstæðum ferðamannastað án þess að Skipulagsstofnun, hvað þá Umhverfisstofnun eða Umhverfisráðuneytið hafi fengið neitt um það að segja.

Spjöllin eru slík að það tæki því varla að láta virkjun þarna fara í mat á umhverfisáhrifum.

Múlavirkjun á Snæfellsnesi varð miklu stærri en leyft hafði verið. Sömuleiðis Fjarðarárvirkjun eystra.

Með hverju máli styrkist hefðin fyrir því að skjóta fyrst og spyrja svo, framkvæma fyrst og halda síðan áfram, vegna þess að hvort eð er verði ekki aftur snúið.

Þetta trix hefur svínvirkað og einn ræfils símastaur, sem hægt er að fjarlægja fyrir norðan, er hlægilegt smámál miðað við umfang hliðstæðra mála sem hafa verið í gangi og verða áfram í gangi.


mbl.is Verða að fjarlægja símastaur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill hjá þér Ómar.

Sverrir Guðmundsson (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 22:46

2 identicon

Ómar þú gleimir þínum spjöllum í kárahnjúkum flugvöllurinn sem þú gerðir á melnum og draslið sem þú skildir eftir .

Brynjólfur Erlingsson (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 02:06

3 identicon

Góðan dag Ómar.

 Þóttist þekkja Subaru Fþ 400 sem er á myndinni hjá þér, þessi subaru var í eigu bónda hér í Mýrdal í nær 25 ár, svolítið sérstakt á sjá hann aftur, var mjög kær eiganda sínum og gerði það gott í þessi ár.

Kveðja, Sæunn  Sigurlaugsdóttir

Sæunn (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 10:34

4 identicon

Sæll Ómar,

Þetta er alveg rétt allt sem þú bendir á í pistilinum þínum, þetta hefur því miður verið landlægt hjá okkur Íslendingum að framkvæma fyrst og spyrja svo. Þetta er líka ein af stóru ástæðunum fyrir því af hverju kreppan skall á Íslandi með slíkum styrk og raun ber vitni, við höfum nefnilega líka stundað að eyða fyrst og  þéna svo og það gengur aldrei til lengdar.

Ég bý núna í Danmörku og það er ótrúlega mikill munur á viðhorfi fólks til eyðslu hér og heima á landinu kalda. Ég get tekið sem dæmi að ég ek um á 20 ára gömlum Opel sem virkar alveg hreint ágætlega, eyðir ekkert mjög miklu (ek svona 16 km. pr. líter) og er greiddur. Bíllinn er verðlaus öðrum en mér þannig að meðan hann gengur og fær skoðun mun hann verði í akstri fyrir mig. Aldrei hef ég verið spurður af Dana af hverju ég skipti ekki um bíl, en íslenskir gestir spyrja flestir hvort ekki sé hægt hér í Danaveldi að fá svona bílalán eins og á Íslandi, það sé gjörsamlega ómögulegt að láta sjá sig á svona gömlum bíl....

Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 17:00

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gaman að heyra hvaðan Subaruinn er kominn. Ég hef notað hann í snatt vegna kvikmynndagerðar fyrir norðan og hann hefur verið alveg yndislegur.

Á svona bíl fóru Helga, kona mín, og Jónína, dóttir mín, í Ljómarallið 1983 og urðu fyrstar íslenskra kvenna til að komast í mark í alþjóðlegri rallkeppni.

Bíllinn var sá eini sem var bókstaflega ekkert breytt fyrir rallið en stóðst þó þessa raun.

Beint úr rallinu fórum við bræðurnir, Jón og ég, í aldeilis óborganlegt erlent jepparall þar sem aðrir bílar voru jeppar á 33-35 tommu dekkjum.

Við náðum samt besta tímanum á öllum sérleiðum nema einni !

Þessi gerð bíla er að mínum dómi sterkbyggðustu bílar sem smíðaðir hafa verið, miðað við þau not sem þeir voru hannaðir fyrir. Blogga kannski betur um Subaruinn síðar.

Ómar Ragnarsson, 25.5.2009 kl. 19:28

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Brynjólfur Erlingsson talar um "spjöllin" sem ég hef gert á flugvelli á Kárahnjúkum og "draslið" sem ég hafi skilið eftir.

Hann endurtekur kæruna, sem lögð var fram á hendur mér í beinni útsendingu í sjónvarpi nokkrum dögum fyrir kosningar 2007 þar sem ég var ekki til andsvara. Í sjónvarpsfrétt í kjölfarið var talað um að við þessu gæti legið tveggja ára fangelsisvist.

Var það tilviljun að komið var með þetta fram rétt fyrir kosningar?

Ég var síðan kallaður til meira en klukkustundar yfirheyrslu og skýrslugerðar hjá rannsóknarlögreglunni á Egilsstöðum og gerði 2o blaðsíðna skýrslu með fjölda mynda sem send var til Umhverfisstofnunar.

Hálfu ári seinna lauk þessari mjög svo ítarlegu rannsókn með bréfi sem ég fékk frá sýslumanni þess efnis að málinu yrði ekki haldið áfram, því að ekkert saknæmt athæfi hefði fundist.

Þetta hef ég upplýst oftar en einu sinni þegar þetta mál hefur borið á góma en Brynjólfur lætur sér ekki segjast heldur heldur áfram að dreifa ósönnum og rakalausum óhróðri.

Sá sem fyrst kom fram með þetta mál má þó eiga það að hann bar fram formlega kæru sem varð til þess að málið var klárað.

Hvað gengur þér til, Brynjólfur, að halda þessu máli áfram á þann hátt sem þú gerir? Finnst þér sómi að því fyrir þig? Veistu yfirleitt eitthvað hvað þú ert að tala um?

Ómar Ragnarsson, 26.5.2009 kl. 17:59

7 identicon

Ómar, þú hefur gert grein fyrir þessu máli oftar en einu sinni og það hlýtur að vera óþolandi að sitja undir svona áburði endalaust, sérstaklega þar sem þetta mál var skoðað af óháðum aðila (sýslumanni) og niðurstaðan var sú að þetta var ósannur áburður frá upphafi til enda.

Held samt að Brynjólfur sé að tala um þetta mál af vanþekkingu frekar en illgirni, án þess þó að ég viti eitthvað um það. Þetta sýnir kannski best hve erfitt er að hrekja ásakanir þegar þær koma fram. Ásakanir af þessum toga eru oft fyrsta frétt, en þegar málið er leiðrétt og menn hreinsaðir af ásökununum þá eru þær fréttir oft ekki eins áberandi og fara því framhjá mörgum sem muna oft bara fyrstu fréttina af málinu. Ætti að vera ábending til fjölmiðlamanna um að fara sér hægt og vinna sína heimavinnu áður en fréttin er send í loftið. 

Ríkisútvarpið er einstaklega slæmt að þessu leyti. Fréttir byrja oft á "þetta er hitt var/er ólöglegt/siðlaust..." eða "Þessi er hinn er vanhæfur/braut lög..." og svo kemur ásökunin "þegar hann/hún..." Og loks síðast kemur svo "þetta er segir XX lektor á Bifröst," "aili í nefnd einhvstaðar" eða eitthvað. Engir fyrirvarar slegnir, bara ásökuninni slengt fram. Og svo er náttúrlega ekki getið um að viðkomandi sem hafður er fyrir fréttinni sé pólitískur andstæðingur þess sem er borinn sökum eða hafi tengls við þá sem hafi einhverra hagsmuna að gæta. Þetta er ótrúleg fréttamennska að mínu mati. Skoðun eins manns er gerð að fyrirsögn án þess að gætt sé að því að umfjöllunin sé hlutlaus.

En hvernig er með Subaruinn??? Endilega settu inn meiri upplýsingar um þennan bíl. Þessir Subaru bílar eru algjör snilld, sérstaklega þessi gömlu. Lág bilanatíðni og ótrúleg ending. Væri gaman að fá þitt sjónarhorn á Subbann. 

Jonni (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband