24.5.2009 | 21:38
Færa girðinguna og burt með runnann.
Hvarvetna í borginni má sjá viðleitni umferðaryfirvalda til að halda í hemilinn á óstýrilátum vegfarendum, þessum íslensku vegfarendum, sem fara oftlega aðeins að eigin geðþótta, hvað sem reglum líður.
Á Laugavegi, Hringbraut og fleiri tvískiptum götum hefur orðið að reisa víggirðingar á miðjum götum til að koma í veg fyrir gangandi fólk hætti lífi sínu með því að fara yfir götuna hvar sem er í stað þess að nenna að ganga 50-100 metrum lengri vegalengd og fara yfir á gangbraut.
Víggirðingar þessar hindra útsýni þeirra, sem beygja þurfa til vinstri eins og út af Hringbraut inn á Birkimel og út af Laugavegi upp í Bolholt.
Tvær meðfylgjandi myndir sýna útsýni bílstjóra, sem er á leið vestur Hringbraut og ætlar að beygja til vinstri inn á Birkimel.
Umferðararkitektar eða yfirvöld láta þessar girðingar fylgja miðju grasreinar til að þjóna fagurkerasjónarmiðum.
Við Birkimel hefur líka verið komið upp stórum runna vegfarendum til yndisauka.
Bæði girðingin og runninn góði trufla útsýni þeirra sem þurfa að beygja til vinstri og vélhjól getur auðveldlega falist á bak við hið blinda horn eins og sést af meðfylgjandi myndum, einkum þeirri efri.
Þegar fagurkerasjónarmið útlitshönnuða stangast á við öryggi vegfarenda hefði ég haldið að öryggið ætti að vera sett í fyrirrúm, mannslífið að vera dýrmætara en mannvirkið, í þesstu tilfelli girðingin og runninn.
Þetta er hægt að gera á slysstaðnum við Birkimel með því að hnika girðingunni til hliðar til hægri, séð frá bílstjórum sem beygja þurfa, og láta hana vera við brún graseyjunnar en ekki inni á henni miðri.
Þótt engin graseyja liggi meðfram girðingunni í átt að næstu ljósum, sem eru þarna skammt frá, skiptir það ekki máli. Á graseyjunni eiga hvort eð er engir að vera á gangi.
Sömuleiðis gerir græni runninn ekkert gagn nema vera augnayndi.
Bílstjóri, sem þarf að haga akstri sínum þannig að ekki skapist lífshætta, hefur enga þörf fyrir það að dást að runna þessum eða láta hann trufla útsýni sitt.
Hann hefur mesta þörf fyrir að sjá sem best umferðina sem kemur á móti honum.
Það skal tekið fram að í ofangreindum pistli enginn dómur lagður á nýlegt slys þarna sem kann að hafa orðið af allt öðrum orsökum.
Athugasemdir
Af því þú skrifar mikið um íslenskt mál - eru hemlar á vegfarendum? Væri ekki betra að segja - .....hafa hemil á....... en "Hvarvetna í borginni má sjá viðleitni umferðaryfirvalda til að halda í hemilinn á óstýrilátum vegfarendum"? Annars er þetta vafalaust rétt hjá þér þó ég sjái ekki á myndunum hvernig á að fela mótorhjól þarna!
Ragnar
Ragnar Eiriksson (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 21:57
Svo gæti sólin líka hafa verið að trufla ökumann bílsins.
Óli (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 22:08
það á hreinlega að loka þessari beygjuakrein.. hún þjónar litlum sem engum tilgangi því ef farið er hringtorgið á suðurgötu og svo örðum hvorum megin við hótel sögu er málið leyst...
Óskar Þorkelsson, 24.5.2009 kl. 22:12
Hárrett, Ragnar. Vildi gjarna breyta þessu í "...að hafa hemil á...", en er hins vegar búinn að álpast til að skrifa þetta og er ekki viss um að orðalagið "...að halda í hemilinn á..."sé beinlínis rangt, samanber máltækið "...að hafa taumhald á..."
Ef ég hefði sagt: "...hafa taumhald á..." hefði verið hægt að spyrja hvort vegfarendur væru með beisli uppi í sér.
Nú hafa bílar tekið við af hestum og komnir hemlar í stað beislistauma. Hef bara gaman af þessu héðan af.
Ómar Ragnarsson, 24.5.2009 kl. 22:51
Alveg sammála. Svona girðing er líka þegar ekið er austur Laugaveg, frá gatnamótum Kringlumýrarbrautar, og til stendur að beygja til vinstri upp Bolholtið (eða inn innkeyrslu gamla Sjónvarpshússins). Þar þurfa ökumenn sérstaklega að hafa fyrir því að gæta að sér umfram það sem venjulegt er, líkt og þarna við Birkimelinn. - Ekki sammála Ragnari að ekki sé hægt að fela mótorhjól þarna, líklega hefði mátt taka mynd aðeins lengra frá.
Annars eru svona "umferðarmannvirki" víða til trafala í kerfinu. Oft einsog sveinsstykki í múrverki eða smíðum, en ekki með umferðina í huga.
Gott dæmi er uppeldisgatan mín, Háaleitisbraut, sem nú er orðin einsog stórsvigsbraut með stórskrýtnum, óþarfa beygjum. Ungir ökumenn, sem eiga það til að fitla of við bensínfótinn eflast örugglega við svona aðstæður, auðvitað enn "skemmtilegra" að glanna við svona aðstæður. Þannig snýst þessi furðulega gatnagerð bara uppí andhverfu sína.
Þorfinnur (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 23:25
Ómar komdu og fylgstu með þessum ösnum sem eru að eyðileggja fyrir og koma óorði á alla hina . Bæði þá sem eru á mótorhjólum og þessum bíltíkum með sem framleiða allan hávaðann þegar þeir eru í kappakstri hér á Hringbrautinni. Lætin byrja um kl 11 á kvöldin og standa að minnsta kosti til kl 1-2 á nóttinni. Ég bý á Framnesvegi og finnst alveg nóg um lætin og skil ekki hvernig fólk getur búið við allan þennan hávaða. Ég er sjálfur aðdáandi fallegra tækja, bæði bíla og hjóla, en það sem gengur á fyrir þessum drengjum á götum Reykjavíkur gengur út yfir allt velsæmi. Það er að verða stórhættulegt að fara yfir Hringbrautina á kvöldin sérstaklega syðri akbrautina. Lokaðu þessum beigjuakreinum og það er nokkuð víst að hraðinn eykst. En ég er sammála þessu með runnana burt með þá bæði þarna og annars staðar. Eitt enn, á þessum stað eru umferðarljós hvað um þaug, eru þaug kannski óvirk eða ekki virt.
Magnús Steingrímsson (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 23:45
Ég hef átt heima meira og minna við Háaleitisbraut síðan 1972 og tel að brautin sé best í núverandi ástandi. Finnst hraðinn hafa minnkað til muna og vera hæfilegur miðað við þá miklu umferð eftir götunni og yfir hana sem ávallt er.
Búið er að klippa íbúagötuna að sunnanverðu í tvennt og laga aksturlagið um hana.
Nú er Háaleitisbrautin 30 km gata sem þýðir að hver sá sem fer yfir 60 missir skírteinið ef upp kemst.
Hún er að sínu leyti svipuð Þórsgötunni sem einnig er krókótt til þess að hægja á umferð þar.
Það verða alltaf einhverjir sem hleypa gæðingum við hvaða aðstæður sem er. Þeir hafa ekki afsökun fyrir því hér innanborgar þegar fyrir hendi eru lokaðar keppnisbrautir eins og Kvartmílubraut og Rallkrossbraut.
Það er hlutverk lögreglu að sjá um eftirlit með því að lögum sé fylgt. Það starf er í algjöru lágmarki og er víst fjársvelt svo að aldrei sér maður lögregluna skipta sér af alltof hægum akstri á stofnbrautum eða af því að nota ekki stefnuljós.
Ómar Ragnarsson, 25.5.2009 kl. 00:14
"Það er hlutverk lögreglu að sjá um eftirlit með því að lögum sé fylgt. Það starf er í algjöru lágmarki og er víst fjársvelt svo að aldrei sér maður lögregluna skipta sér af alltof hægum akstri á stofnbrautum eða af því að nota ekki stefnuljós."
Hvernig er það þarna uppi á Skerinu, er ekki leyfilegt að skrifa niður bílnúmer og senda inn með viðeigandi kvörtun til lögreglunnar?
Hér í Bandaríkjunum (breytilegt eftir fylkjum/bæjarfélagi) má senda inn kvörtun og ég veit að hér í bænum mínum virkar það þannig að ef sami bílstjórinn fær 3 kvartanir eða fleiri er málið skoðað og hlutaðeigandi fær hugsanlega slæman punkt tengdum við ökuleyfið, ávítingu eða sekt (eftir því hver verknaðurinn er).
Frá útlöndum (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 02:36
Sæll Ómar og takk fyrir þetta - og margt fleira. Af því að fólk almennt hér á landi fylgist með því sem þú talar og skrifar um þessi mál og fleiri, þá spyr ég mig þeirrar spurningar, hvort það gæti ekki haft góð áhrif á umferðar"menningu" landans, ef þú myndir verja nokkrum bloggpistlum beinlínis og markvisst að sambærilegum atriðum og þessum í hönnun umferðarmannvirkja og hættulegum aðstæðum, sem hægt er að laga með litlum tilkostnaði í sjálfu sér? Nefni hér sem dæmi, að þú og nokkrir fleiri athugulir einstaklingar höfðu árum saman bent á að erlendis eru s.n. leiðbeinandi hraðamörk, þar sem aðstæður bjóða ekki upp á að nýttur sé hámarkshraði á viðkomandi braut, áður en þau voru tekin upp hér. Nú eru slík leiðbeiningarskilti loksins komin upp víða í þjóðvegakerfinu og áreiðanlega til stórra bóta, þótt betur mætti standa að kynningu þeirra af hálfu t.d. Umferðarstofu. Hennar helsti tilgangur virðist hinsvegar vera að stuðla að innheimtu sekta til að tryggja sér fjármagn. - En hönnun dýrra umferðarmannvirkja hérlendis virðist oft og einatt markast af tilraunastarfsemi, án þess að umferðaröryggi og greið umferð komist þar í efsta áherslustig. Tilraunir segi ég og minni á, að í nágrannalöndum okkar er búið að finna góðar lausnir á ýmsum útfærslum slíkra mannvirkja og í því efni - eins og svo mörgum öðrum - þurfum við ekki að finna upp hjólið. Endurtek því í lokin að margir myndu fagna því ef þú, Ómar, myndir taka þessi mál skipulega fyrir á þessum vettvangi á næstunni. Það er tekið mark á því, sem þú segir, það er ástæðan.
Dr. Hook. (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 07:12
Á gatnamótum Garðastrætis og Vesturgötu er dæmi um svona fagurkerasjónarmið útlitshönnuða, eins og þú kallar það, Ómar. Við þjónustumiðstöð aldraðra er trjágróður ofan á hleðslusteinum við annan enda gangbrautar sem byrgir sýn gangandi og akandi vegfarenda og skapar hættu. Um helgar eru þessir runnar á horninu aðallega notaðir sem öskubakki, ruslatunna og salerni. Tek líka undir með Magnúsi varðandi þessi mótorhjól sem gefa frá sér ærandi hávaða. Það virðist ekkert eftirlit vera með hávaðmengun frá þessum skrímslum.
Jóhannes (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 09:06
Loka fyrir þverun Hringbrautar við bakaríið.
Þeir sem eiga erindi þarna geta faið hringtorgið og svo meðfram Hótel Sögu.
ÞEssi ráðstöfun dygði.
Vil EKKI taka burt gróður, ekki er nægjanlegur gróður í Rvík og skjólið sem þetta gefur er þó nokkuð.
Ómar, hér voru aðstæður sem eru erfið við að fást. Hjólið kemur úr vesturátt þegar Sólin er lágt á lofti og því er líkt og þú þekkir, úr fluginu, erfitt að sjá mjótt farartæki.
Mið´æjaríhaldið
fastheldinn á þá örfáu runna sem ná að lifa í rokinu víðsvegar í Miðborginni og nágrenni.
Bjarni Kjartansson, 25.5.2009 kl. 09:19
loksins kom einhver sem er sammála mér, takk fyrir þetta Bjarni.. þessi gatnamót eru algerlega óþörf og því ætti að loka þeim.
Óskar Þorkelsson, 25.5.2009 kl. 10:16
Hárrétt Ómar og þarfur pistill. En það er annað háttalag í umferðinni sem ég hef meiri áhyggjur af en það er símanotkun undir stýri án handfrjáls búnaðar. Það er alltof algengt að sjá fólk talandi í síma án handfrjáls búnaðar og alveg niðursokkið í samtalið. Mestanpart sýnist mér þetta vera ungt fólk og nokkrum sinnum hef ég séð fólk vera að skrifa SMS undir stýri á góðri silgingu á Miklubraut/Vesturlandsvegi.
En, smá dæmi af símanotkun. Við hjónakornin skruppum norður í land í síðustu viku. Þegar við fórum aftur suður byrjuðum við að athuga símanotkun þegar við fórum frá Blönduósi. Til að gera langa sögu stutta; hver einasti flutningabílstjóri sem við mættum var í símanum! Nema einn, hann var með farþega og talaði með miklum handsveiflum hægri handar við farþegann.
Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 10:39
Þversögnin í umferðaröryggi felst oft í því að bætt útsýni og almennt aukin öryggistilfinning stuðlar oft að verra öryggi, því þar sem mönnum finnst þeir öryggir, þar keyra þeir hraðar og eru almennt meira varir um sig. Hringtorg eru dæmi um þetta, þau eru tiltölulega örugg samgöngumannvirki því fólki líður illa á þeim.
Mætti ég ráða þessu mundi ég frekar reyna færa hringbrautina á þessum stað í átt til þess sem þekkist í sambærilegum stofnæðum á Norðurlöndunum, fremur en að breyta henni enn frekar í átt til hraðbrautar í íbúðarbyggð. Ein útfærslan væri að fækka akreinum, setja danskar hljólreiðabrautir á hvora hlið og strætóakrein í áttina niður í bæ. Síðan mundi ég fjölga gróðri fremur en hitt. Best litist mér raunar á grænan blett með háum trjám í miðjuna, spurning hve raunhæft það sé hér á landi.
Pawel Bartoszek (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 10:40
Pawel,
Þessi kenning með hringtorgin virkar, en ekki alltaf. Mig grunar að það sé mjög katastrófísk þumalputtaregla að ætla að byrgja ökumönnum sýn. Ég er sammála því að það eigi að taka niður skeiðvellina þar sem það er hægt, en það verður algjörlega að gefa mönnum séns á því að vera meðvitaðir um umhverfið.
Einn flötur á þessu með útsýnisskerðinguna er að það skiptir máli hvort hluturinn sem byrgir sýn sé manngerður eða náttúruleg fyrirstaða. Ef ökumenn keyra inn í umferðarmannvirki þar sem er búið að viljandi þrengja sjónsviðið, þá held ég að stundum treysti menn mannvirkinu, og hætti að passa sig sjálfir: "Hey þetta er svona sjálfvirk beygja, bara veggir hérna, ég elti bara beygjuna og drekk kaffibollann minn. Þeir hljóta að vita hvað þeir eru að gera."
Kristleifur Daðason (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 11:24
Sæll Kristleifur og takk fyrir þetta,
Vitanlega er það ekki svo að skert útsýni auki alltaf öryggi, ég er ekki að mæla með því að speglar inn á stofnbrautir þar sem útsýni er slæmt verði fjarlægðir. Hins vegar eru mannvirki stundum vísvitandi gerð þannig að menn sjái verr, mörg hringtorg eru einmitt með hól í miðjunni af þessum ástæðum, tll að ökumenn hægi alltaf á sér, í stað þess að rjúka í gegn þegar þeir sjá að torgið sé autt.
Ég er til dæmis ekki viss um að í umræddu tilfelli sé skyggnið þess eðlis að aðstæður hvetji til varkárni eða ekki, sem hlýtur að vera lykilspurningin.
En almennt séð þá langaði mig bara benda á að nauðsynlegt væri að fá smá balans í þessa umræðu, Það er nefnilega ekki svo að ef ökumenn fengju að hanna vegakerfið sjálfir þá mundi öryggi þeirra aukast. Þá mundi flestir vilja hafa tvíbreiða vegi með góðu skyggni og aragrúa af mislægum gatnamótum sem allóvíst er að mundi leiða til heildafækkunar slysa.
Pawel Bartoszek (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 13:57
Gallinn við það að loka þessari leið og beina umferðinni suður Suðurgötu og síðan vestur Brynjólfsgötu eða Guðbrandsgötu er sá að þrjú fjölmennishús eru þarna með tilheyrandi bílastæðum og gangandi umferð sem takmarkar möguleikana á því að auka umferð þar.
Áður en slíkt væri gert teldi ég að reyna ætti að bæta aðstæður á gatnamótum Birkimels og Hringbrautar, til dæmis með færslu grindverks og runna og hugsanlega með breyttum umferðarljósum þar sem einungis mætti taka vinstri beygju með beygjuljósi og umferðin á móti þá með rautt ljós á móti sér, kvitt og klárt.
Það myndi minnka afköst gatnamótanna en hugsanlega auka öryggið.
Ómar Ragnarsson, 25.5.2009 kl. 15:05
Get bætt því við, svona í lokin, að móðir Þorfinns átti hlut að því sem fulltrúi í umferðarnefnd 1986 að breyta Háaleitisbrautinni og setja á hana gönguljós á tveimur stöðum. Það var upphaf þess að gera svonefndar húsagötur eða vistvænar götur á borð við Þórsgötuna.
Hún var aftur í þeirri nefnd borgarinnar sem breytti brautinni í borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar og tók líka í gegn gatnamót Fellsmúla og Háaleitisbrautar.
Það kostaði 30 milljónir og kom fram gagnrýni á það. Þess má geta til samanburðar að aðeins peningalegt tjón af einu banaslysi er meira en 200 milljónir króna.
Ómar Ragnarsson, 25.5.2009 kl. 19:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.