4.6.2009 | 21:44
Vorferð á Vatnajökul - þriðji dagur.
Það var byrjað að létta til á hvítasunnudag, einkum á norðaustanverðum Vatnajökli og því ákveðið að fara í Kverkfjöll þar sem fjórir leiðangursmenn ætluðu að vera við mælingar í nokkra daga.
Vélarhlífin var tekin af Súkkunni til að auka kælingu en ég kem að því máli síðar í sérstökum pistli.
1. Færið var gott á miðjum jöklinum og áð þegar komið var inn í heiðríkjuna sem ríkti á norðaustanverðum jöklinum.
(Hægt að stækka myndirnar og láta fylla út í allan skjáinn með því að smella á þær í tveimur áföngum. Númera myndirnar eftir röð, talið að ofan.
2. Brátt blasti "djásnið í kórónu landsins" við, - ekki amalegt að stansa á nokkrum stöðum, bara til að taka myndir og njóta útsýnisins.
Á næsteftstu mynd er stefnt niður að Kverkfjöllum og horft til norðurs yfir Efri-Hveradal með Herðubreið í baksýn.
Kverkfjöll eru þriðja hæsta fjall landsins, rísa 1920 metra yfir sjávarmál.
3. Útsýnið er líka mikið til vesturs yfir Dyngjujökul og Trölladyngju.
4. Skálinn efst í fjöllunum er lítill en stendur á fallegum stað.
Þar var áð og haldið í sleða- göngu- og snjóbílsferðir um nágrennið.
5. Frá skálanum blasir við eystra lónið í fjöllunum, sem hlaut nafnið Gengissig þegar það fór að sýna mönnum kúnstir við ris og sig, líkt og íslenska krónan.
Fyrir tíu árum stóð þannig á að íshrafl var við fjörur og á fjörum vegna íshruns í lónið en innan um íshraflið glytti í sjóðandi hveragöt.
6. Þannig var það ekki núna en samspil íss og jarðhita bauð samt upp á sjónarspil.
7. Gufurnar stíga upp úr hverasvæðinu með Vatnajökul í baksýn.
8. Lónið fylgir íslensku krónunni um þessar mundir og hefur lækkað í því.
9. Farið var til mælinga í Efri-Hveradal sem er stórkostlegur staður að öllu leyti. Horft er til norðurs í gegnum hamrahliðið sem markar skil Neðri- og Efri-Hveraalds. Mælingamenn eru neðst á myndinni.
10. Horft til suðurs eftir Efri-Hveradal.
Fólk stendur í gufunni frá hverunum á botni dalsins en fjær sést í norðurenda lónsins innst í dalnum og Vatnajökull gnæfir yfir í baksýn.
Lónið hvarf alveg í nokkur ár en kom aftur.
Það má kalla Kverkfjöll og Grímsvötn systur að því leyti að hvergi í veröldinni sést eins stórfenglegt sjónarspil átaka elds og íss.
Í ljóðinu "Kóróna landsins" er þetta erindi um Kverkfjöll:
Endalaus teygir sig auðnin, svo víð, -
ögrun við tækniheim mannsins.
Kaga við jökul með kraumandi hlíð
Kverkfjöll í hillingum sandsins.
Ísbreiðan heyr þar sitt eilífa stríð
við eldsmiðju darraðardansins.
Drottnandi gnæfa þau, dæmalaus smíð,
djásnið í kórónu landsins.
Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firrð,
friður og kyrrð.
Athugasemdir
Stórkostlegt!
Sigurður Jóhann (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 01:46
Eru ekki góðir virkjanamöguleikar þarna?
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.6.2009 kl. 15:09
Æðislegt.
Þessi mynd með litla jeppanum hverasvæðinu og herðubreið í baksýn er mögnuð.
Ari (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.