9.6.2009 | 18:21
Kristinn, - góður !
Við gömlu sjónvarpsfélagarnir Eiður Guðnason og ég, höfum haft sitthvað við málfar fjölmiðlamanna og annarra að athuga í pistlum okkar. Eiður hefur þó verið margfaltl iðnari við kolann og er full þörf á málfarspistlum hans.
Í frétt á mbl.is í gærkvöldi var talað um að hústökufólk hefði yfirgefið iFríkirkjuveg 11. Mikið hlýtur húsið að hafa orðið einmana á eftir. Þessi sífellda notkun á sögninni að yfirgefa þegar fólk fer eitthvað er hvimleið.
Fólk yfirgefur orðið allt, yfirgefur lönd sem það fer frá, yfirgefur bílinn ef það stígur út úr bílnum, yfirgefur heimili sitt ef það fer úr húsi og yfirgefur bæ sinn ef það skreppur bæjarleið. Hvernig er það, er fólk hætt að fara nokkurn skapaðan hlut?
En það má líka geta þess sem vel er gert. Í síðdegisútvarpinu nú rétt áðan fór Kristinn R. Ólafsson rétt einu sinni enn á kostum í pistli sínum um kaup Maílendinga (A.C. Milan) á knattspyrnumanninum Kaka.
Pistlar Kristins eru í sérflokki hvað snertir fjörlegan stíl, efnistök og orðaval og ekkert vantaði upp á það í þetta sinn. Gott ef ég kalla mig ekki bara pollara hér eftir í staðinn fyrir púllara, en púllari er nafn sem notað hefur verið yfir fylgismenn Liverpool sem Kristinn R. kallaði einfaldlega Lifrarpoll.
Ég minnist enn með ánægju stórkostlegs pistils sem Kristinn flutti eitt sinn um líkkistusmíði á Spáni. Ég vona að hann geymi þann pistil og aðra í sama gæðaflokki.
Athugasemdir
Mbl.is í dag:
Dauðadómum úthlutað í Súdan
Þorsteinn Briem, 9.6.2009 kl. 21:35
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 22:04
Ætli það hafi verið biðröð við "úthlutunina". Kannski færri komist að en vildu?
Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 07:50
Síða Eiðs er þakkarverð, ekki veitir af nú þegar fólk gjörsneytt máltilfinningu virðist fá að leika lausum hala, aðhaldslaust hjá öllum fjölmiðum.
Kristinn er þó fögur fjóla í flórunni (þó undanrennan hans fari reyndar alltaf örítið fyrir brjóstið á mér)
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 09:40
Sammála því að Kristinn er snillingur hvað þetta varðar.
Hann hefur líka fært okkur ýmis nýyrði, svo sem leiktíð (í stað keppnistímabil).
Hann er hinsvegar ekki óskeikull. Mér skilst að hann hafi innleitt orðskrípið Börsungar, yfir þá sem eru frá Barcelona (endilega leiðréttið mig, ekki vil ég hafa hann að rangri sök...)
Kunningi minn frá Barcelona botnar ekkert í þessu orði og finnst það ekki við hæfi. Hér er betra orð: Barsar. Það fer bæði betur í íslensku máli og tengist "originalinum": Barça.
Íþróttafréttamenn: prófið þetta!
Þorfinnur (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 16:16
Enginn er óskeikull. Kristinn fór rangt með orðtakið að "skjóta einhverjum ref fyrir rass" og notaði annað sagnorð en að "skjóta", man þó ekki hvaða orð það var.
Þetta er mjög á skjön við færni Kristins í íslensku en það fer mjög í vöxt hjá íslenskum fjölmiðlamönnum að fara rangt með íslensk ortök og málshætti.
Ómar Ragnarsson, 10.6.2009 kl. 21:05
Æ, það er rétt hjá þér, Ómar... Hér fór ég skakkt á skeiðinu... með refinn... Andsk.! Svitna alveg niðrí tær, hjartað hleypur af stað á 150 slaga hraða og ég blygðast mín. Fór í textann hjá mér aftur að skoða þetta, trúði þessu ekki. En jú, þarna var þetta glappaskot! Segi þetta ekki í hálfkæringi enda er það mér mikið keppikefli að reyna að gera þetta sem best. Auðvitað veit ég að maður notar sögnina að skjóta um refinn og rassinn... Það eina sem ég get borið fyrir mig er að þetta sé í senn mismæli og pennaglöp. Skil ekki hvernig þetta hefur gerst. Hér hafa vírarnir víxlast í mér, einsog Spánverjar segja. Kannski ekki furða: undirritaður hefur nú (stríð)alið manninn suðrá Spánarheiði í ein 35 ár. Vinur er sá er til vamma segir. Þakka þér því þarfa ábendingu! Tek í lurginn á mér. Fyrirgef ekki sjálfum mér þetta. Ég er nefnilega soddan ekkisins nánostrari. Umrætt Spánarspjall um Kaká var 4'53 mínútur að lengd. Það tekur mig minnst 5 – 6 klukkustundir að setja saman pistil sem þennan; stundum jafnvel lengur, með gagnasöfnun, skrifum, lestraræfingum, upptöku og hljóðklippingu því að ég skila þessu tilbúnu til útsendingar... (stend meiraðsegja í því að lækka andardrátt ef mér finnst ég verða of hávær á innsoginu). Og ég hefði átt að hafa nægan tíma og fjölmörg tækifæri til að rekja augu og eyru í þetta... En stundum verður maður sjónlaus, heyrnarlaus, vitlaus...
Þakka þér í leiðinni vinsamleg orð í minn garð að öðru leyti.
Orðið Barsar sem Þorfinnur leggur til í athugasemd sinni er prýðilegt. Börsungarnir mínir sosum líka. Ég mun fyrst hafa leyft mér að nota það í útvarp 30. janúar 1984, sé ég í mínum kokkabókum. Menn mega hinsvegar ekki taka slíka orðasmíð of alvarlega. Þetta var nú mest til gamans gert, alveg einsog Spánarspark, sparktíðarlok, sparkspæingar, týspakir trukkfræðingar, húðarboltahetjurnar, Nývangur, sandlægjur, sólsleikjur eða frakkaklæddur hreðjaflíkari..., svo að ég tilfæri nokkur orðskrípi úr pistlum mínum. Þegar nýyrðið Börsungar varð til hafði ég Sturlunga í huga enda væru fótboltamennirnir einskonar afkomendur Börsu: strákar á stuttbuxum að elta bolta...
Þú minntist á galgopaskraf mitt um líkkistur. Ég geymi flesta mína pistla, alveg frá þeim fyrsta 25. maí 1981, og man eftir tveimur sem tengjast kistum: Sé að annar var settur saman 7. nóvember 1983 um spænskan hugvitsmann sem hafði fundið upp neyðarbúnað á líkkistur svo að kviksettir gætu látið vita af sér. Margrét Indriðadóttir, þáverandi fréttastjóri, sagði mér síðar að hún hefði velkst lengi í vafa um hvort hún ætti að láta útvarpa honum því að hún hefði ekki verið viss um viðbrögð hlustenda. Hinn pistillinn er merktur 3. ágúst 1995. Hann fjallaði um spænskan smið sem hafði hannað litskrúðugar líkkistur og umhverfishæfar enda ættu útfarir að vera gleðilegar því að flestir tryðu því að hinir látnu hefðu horfið til betra heims. Ekki væri heldur vert að vera að skemma þennan (heim) með því að grafa kistur úr efnum sem ekki eyddust að öllu leyti í náttúrunni.
Með bestu kveðju,
Kristinn R. Ólafsson í Madríd
PS: Takk fyrir frábæran Bölmóðsblús. Og ekki er Saga Jóhönnu verri...
Kristinn R. Ólafsson (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 13:30
...rekja í fyrra skeyti er auðvitað ásláttarvilla... J-inu ofaukið... Skal tekið fram af gefnu tilefni... Kristinn R.
Kristinn R. Ólafsson (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 13:38
Vinur er sá er til vams segir :) held ég að sé rétt hjá mér.
Jóka (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 20:21
Við Jóka höfum bæði á réttu að standa. Tvær útgáfur eru til af þessum málshætti, ef marka má Íslenzka málshætti, í samantekt Bjarna Vilhjálmssonar og Óskars Halldórssonar, frá Almenna bókafélaginu, MCMLXXXIX
Á bls. 357 stendur og í þessari röð:
Vinur er sá er til vamma segir
Vinur er sá sem til vamms segir
Ég ákvað að tilfæra fyrra tilbrigðið.
Kristinn R.
Kristinn R. Ólafsson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 08:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.