12.6.2009 | 22:54
Þjóðaratkvæðagreiðslur, - til hvers?
Í fréttum útvarps í kvöld var greint frá þeirri ætlan að setja lög um það að meirihluti Alþingis geti ákveðið að fram fari þjóðaratkvæðagreiðslur um einstök mál.
Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé alveg grútmáttlaust frumvarp þar sem er hvergi nærri komið til móts við þær kröfur sem gerðar eru á okkar tímum um að auka lýðræði.
Í mörgum nágrannalöndum eru í gildi lög sem gera ákveðnum minnihluta kjósenda eða þingmanna kleift að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilsverð mál.
Tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslna er að ná fram beinu lýðræði í mikilsverðustu málum þar sem opnað er fyrir leið framhjá þeim helsta galla fulltrúalýðræðisins að fólkið framselur vald sitt til fulltrúa sinna og gerir þá að millilið, sem oft fer á svig við þjóðarviljann.
Sem dæmi um þetta mætti nefna nokkur mál: Aðildina að NATÓ, EFTA og EES, Kárahnjúkavirkjun og fjölmiðlalögin. Í öllum þessum málum réði meirihluti þings för og lagðist gegn því að þau væru lögð beint í dóm þjóðarinnar.
Ef hliðstæður kæmu upp myndi meirihluti þings einfaldlega ekki taka þjóðaratkvæðagreiðslu í mál og í málum, þar sem þjóðin væri sammála þingmeirihlutanum hefði hvorki hún né þingmeirihlutinn áhuga á því að leggja þau mál að óþörfui dóm þjóðarinnar.
Síðast, árið 2003 felldi meirihluti þingsins einfaldlega tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun.
Sú tillaga sem nú er borin fram mun reynast jafn máttlaus og ákvæðin í stjórnarskránni um Landsdóm sem aldrei hafa komið til framkvæmda.
Upptalning mín á málum sem hefði átt að leggja beint í dóm þjóðarinnar segir ekki neitt um afstöðu mína til þessara mála. Ég get þess vegna upplýst það nú að ég var fylgjandi aðild að NATÓ, EFTA og EES, en andvígur Kárahnjúkavirkjun og fjölmiðlalögunum.
Þótt ég persónulega hefði auðvitað verinn feginn því að hin þrjú fyrstnefndu mál voru ekki borin undir dóm þjóðarinnar og þeim þar með teflt í tvísýnu hef ég ætíð talið að slík stórmál heyri beint og milliliðalaust undir þjóðina sjálfa og sjálfsagt að láta í minni pokann fyrir dómi hennar.
Ég vísa í Moggaviðtal frá í apríl 2007, sem fyrir sérkennilega tilviljun hangir uppi á vegg í innanlandsflugsafgreiðslu F. Í. á Reykjavíkurflugvelli þar sem ég sagði um það sem þjóðaratkvæðagreiðslur ættu að fjalla: "Allt sem þjóðina varðar"
Athugasemdir
já
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.6.2009 kl. 00:01
Stjórnarskrá Íslands 16. grein
,,Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.´''
Segir þessi grein ekki að það átti að bera undir forsetan á ríkisráðfundi eftir að skrifað var undir ICE-save samninginn sem dæmi? Þetta ákvæði er væntanlega til að forsetin geti sett sig inn í mikilvæg mál strax sem verða má svo hann geti metið það hvort hann samþykkti lögin um Ice-save ef þau yrðu samþykkt á Alþingi.
Hér sendi ég líka þessa grein úr stjórnarskráni sem fræg var þegar forsetinn hafnaði fjölmiðlalögunum. Ég hef ekki en fengið að kjósa um þau lög sem málið snérist um.
26. grein
,,Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu. ''
Ríkistjórnin er að tala um að þingið geti sent mál í þjóðaratkvæði til að fá ráðgefandi niðurstöðu hvað þjóðin vil. Það þýðir að henni ber ekki að fara eftir vilja þjóðarinar í slíkum þjóðaratkvæðagreiðlum. Þetta hjal tel ég vera gert til að friða þjóðina á fölskum forsendum og þegar og ef kæmi að samþykkja ESB aðild þá er ekkt í lögunum sem segir að alþingi eigi að fara eftir vilja þjóðarinar.
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
B.N. (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 10:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.