Útúrsnúningur sérfræðings Landsvirkjunar.

Með þessu bloggi fylgja nýjar myndir frá siglingu minni á gúmmítuðru fyrir nokkrum dögum út í þrjá hóma Folavatns.

P1010199

Efsta myndin sýnir Folavatn og Kelduárlón í baksýn. 

Þetta fallega vatn með Snæfell á eina hönd og Eyjabakkajökul á aðra  er í mati á umhverfisáhrifum talið hafa mikið verndargildi og er einstætt hvað það snertir, jafnvel á heimsvísu, hve mikill gróður er þar svo nálægt jökli og í svona mikilli hæð, 664 metrum yfir sjávarmáli.

 

Í sjónvarpsfrétt um Folavatn í kvöld sagði sérfræðingur Landsvirkjunar að Kelduárlón væri svo ómissandi sem miðlunarlón vegna þess að 25% af vatni Kárahnjúkavirkjunar kæmi frá Hraunaveitu, en lónið er hluti þeirrar veitu.

P1010369

 

Sérfræðingurinn fær þessa tölu út með því að telja Jökulsá í Fljótsdal til Hraunaveitu. Það hefur hentað Landsvirkjun að kalla virkjun Jökulsár Hraunaveitu síðustu ár til þess að fá almenning til að gleyma því að Jökulsá í Fljótsdal er virkjuð og tekið vatn af stórkostlegum fossum hennar.

 Upphaflega átti Kárahnjúkavirkjun að felast í því að sökkva annars vegar Hjalladal og mynda Hálslón með 1500 gígalítra miðlun og Eyjabökkum með miðlunarlóni upp á 500 gígalítra. Þetta hefði samtals gefið 2000 gígalítra. 

P1010377

 

 Síðan fundu menn út að vegna þess að Jökulsárnar tvær voru tengdar með jarðgöngum var hægt að stækka Hálslón upp í 2100 gígalítra og auka með því miðlunargetuna svo að Hálslón gæti annað því eitt og sér ef með þyrfti.

Það er í meginatriðum gert þannig, að Hálslón með sína 2100 gígalítra er notað frá október til maí til að miðla vatni fyrir virkjunina, en þegar Jökulsá í Fljótsdal kemur inn í vorleysingum og fer yfir 115 rúmmetra rennsli útvegar hún ein Kárahnjúkavirkjun afl, en ekkert rennsli kemur þá frá Hálslóni, sem er látið fyllast.

P1010384

 

Kelduárlón er í Hraunaveitu, sem er virkjun Kelduár og Grjótár fyrir austan Eyjabakka pg Jökulsá í Fljótsdal og miðlunargeta þess á að vera aðeins 60 gígalítrar eða um 3,5% af miðlunargetu Hálslóns.

 

Það er því útúrsnúningur og rangfærsla að nefna töluna 25% í þessu sambandi hvað snertir Kelduárlón og notin af því. Eða hvernig getur lón, sem hefur aðeins 3,5% af miðlunargetunni dugað fyrir 25% af vatnsmagni Kárahnjúkavirkjunar?

P1010372

 

P1010404

 

Það er rétt hjá sérfræðingi Landsvirkjunar að flóð sem geta komið síðari hluta sumars og á haustin verða stundum stærri en göngin geta afkastað og þá getur hækkað í lóninu, þótt göngin séu opin.

 

Vegna hlýnunar veðurfars geta svona flóð komið síðar á haustin en áður og gefa þá viðbótarvatn í gegnum göngin sem aftur minnkar þörfina á miðlun.

 

P1010404

 En þetta er bara einfalt reikningsdæmi. Finna þarf stærsta mögulega flóð og reikna út hve mörgum metrum Kelduárlón þarf að vera neðar til þess að borð sé fyrir báru með þessa hækkun. Það geta varla verið nema örfáir metrar.

Hæðirnar sem um ræðir eru þessar: Hæð á yfirfalli Kelduárstíflu er 669 m.y.s.

Folavatn er 663 m. y. s. Munurinn er 6 metrar. 

Kannski þyrfti að færa yfirborðið niður í 661 metra til að geta mætt hugsanlegum haustflóðum.

Kelduárstífla er 27 metra há og ég er því að tala um ca. 8 metra af þessum 27 metrum.   

 

P1010405

Landsvirkjun hefur í raun viðurkennt að ekki var þörf á Hraunaveitu með því að sleppa austasta hluta hennar, svonefndri Sauðárveitu.

Ástæðan er miklu meira rennsli í ánum en reiknað var með vegna þess að áætlanirnar gerðu ráð fyrir kuldaskeiði en nú er og verður hlýnandi veðurfar.

Þetta kemur fram á þrennan hátt:

1. Gríðarlegt vatnsmagn fer fram af yfirfalli Káralhnjúkastíflu miklu lengri tíma en gert var ráð fyrir. Þetta skiptir þó ekki máli varðandi miðlunargetuna heldur eftirtallin tvö atriði:

2. Haustin eru hlýrri en áður, veturinn kemur síðar og Hálslón er lengur fullt en ella.

3. Vorin eru hlýrri en áður og það byrjar að renna fyrr og meira í lónið en reiknað var með.

Ég er aðeins að fara fram á að miðlun Kelduárlóns verði minnkuð úr því að nema sem svarar 3,5% af miðlunargetu Hálslóns ofan í það að hún verði ca 1%. Mismunurinn nemur 2,5% af miðlunargetu Hálslóns, en fyrrgrreind hlýnun veðurfars veldur því að miðlun úr Kelduárlóni er í raun óþörf.

Eða hvernig gátu menn rekið virkjunina á fullri orku í allan vetur og vor þegar Kelduárlón var ekki til?

Kelduárstífla er komin og komi hér kuldaskeið, sem engum vísindamanni dettur í hug, væri hægt að grípa til hennar og sökkva þá Folavatni af nauðsyn. Eins og nú er þjónar eyðilegging Folavatns engum tilgangi, skapar ekki einasta kílóvatt eða eitt einasta starf.

Ég geri þá sjálfsögðu kröfu til stjórnar Landsvirkjunar að hún taki þetta mál fyrir í ljósi breytts veðurfars og aðstæðna áður en Folavatni verður sökkt.

Það á að vera hægt. Yfirstjórnandi framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun hefur tjáð mér að í stað þess að stoppa hækkun lónsins í 664 metrum vegna framkvæmda og frágangs, muni verða stoppað í ca 662,5.

 

P. S. Getur einhver fróður maður giskað á hvaða fugl getur átt stóra hreiðrið sem sést á þriðju mynd, talið að ofan?  Biðst afsökunar á því að sama myndin rataði tvisvar inn á bloggsíðuna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Himbrimahreiður ?

Þetta var ansi merkilegur málflutningur hjá landsvirkjun í kvöldfréttunum.  en ekki trúði ég honum... 

Óskar Þorkelsson, 6.7.2009 kl. 23:29

2 identicon

Ómar.

Þú átt miklar þakkir fyrir þær upplýsingar sem þú ert að færa okkur !

Verkfræðingamafían hjá Landsvirkjun breytist ekkert, því það eru hagsmunir verkfræðingamafíunar sem þarf að uppfylla en ekki þjóðarinnar !

JR (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 23:35

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hyllist ekki til að nota orð eins og verkfræðinga"mafía" þótt ég eigi nú rökræðu við verkfræðing. Margir verkfræðingar eru mætir og góðir menn og ekki hægt að alhæfa um þá.

Rétt eins og rithöfundar og tónskáld eiga erfitt með að breyta verkum sínum eiga verkfræðingar og stjórnmálamenn oft erfitt með að breyta sínum verkum, þótt aðstæður og forsendur hafi breyst.

Þetta er mannlegt en ekki stórmannlegt.

Ómar Ragnarsson, 6.7.2009 kl. 23:46

4 identicon

Álftin hlýtur að eiga þetta hreiður.

Baldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 23:53

5 identicon

Ómar þarna ertu á heimavelli og færir fín rök fyrir máli þínu. En finnst þér ekki eðlilegt

að við nýtum orkuauðlindir landsins í góðri sátt áfram til að til að þær og hinir undirstöðuatvinnuvegirnir, sjávarútvegur og landbúnaður ásamt ferðaþjónustu geti

staðið undir mannsæmandi lífskjörum? Ekki veitir okkur af gjaldeyrisöflun á þessum síðustu og verstu tímum.

Sigurður Ingólfsson (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 10:39

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvað köllum við góða sátt Sigurður? Halldór Ásgrímsson talaði alltaf um að við þyrftum að ná sátt um kvótakerfið en hann vildi ekki breyta því. Er það kannski slík sátt sem þú ert að tala um og þá sé aðalatriðið að þeir séu sáttir sem krefjast orkunnar?

(og borgi þá svona 28 aura fyrir kílóvattstundina.)

Árni Gunnarsson, 7.7.2009 kl. 11:01

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tillaga mín kemur ekki í veg fyrir að "við nýtum orkuauðlindir landsins í góðri sátt..."

Drekking Folavatns er óþörf nema hér komi kuldaskeið. Á meðan hlýviðrisskeið ríkir og spáð er auknum hlýindum getur það ekki talist "góð sátt" að drekkja þessu vatni án þess að skapa eitt einasta kílóvatt eða eitt einasta starf."

Virkjanasinnar hafa fengið það fram að gera Hraunaveitu með risastíflu og sjö kílómetra löngum göngum. Samkvæmt tillögu minni geta þeir dáðst að sköpunarverki sínu, Kelduárlóni, þótt þeir láti það ekki vaða yfir Folavatn.

Ég hélt að "góð sátt" fælist í því að þessi tvö vötn stæðu þarna hlið við hlið, Kelduárlón þó talsvert stærra.

En virkjanamenn sjá enga aðra "sátt" en þá að valta á þessum slóðum með skollituðu vatni sínu yfir hið tæra Folavatn með einstæðu lífríki sínu.

Ómar Ragnarsson, 7.7.2009 kl. 11:20

8 identicon

Það er stórmunur á að samþykkja að virkja skynsamlega eða setja sig upp á móti öllu sem fyrirhugað er að gera.  Allar virkjanir hafa einhver náttúruspjöll í för með sér. Er ekki atvinnuleysi, fátækt og landsflótti það versta sem getur hent okkur ?

Sigurður Ingólfsson (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 11:32

9 identicon

Það er nú bara vafa undirorpið hvort að þessi virkun muni nokkurn tímann borga sig. Það er sama vafa háð hvort að það verður einhver jökull eftir þegar/ef hún færi að gera það. Það er rætt í alvöru að jöklar Íslands hverfi að mestu á næstu 80 árum og að 180 ár gætu verið í að ekkert sé eftir. Það þýðir að vatnsrennslið verður mun meira en ætlað var. Hún verður þa´ekki afllaus virkjunin á meðan. Enda veitir ekki af, átti hún ekki að borga sig upp á 40 árum áður en að álið lækkaði??

Og kuldaskeið???? Við erum núna að upplifa lágmarks sólargeislun í reglulegri 11-12 ára sveiflu sólar. Á lágpunktinum er búið að slá fullt af hitametum. Nú er sú gamla farin að auka afl, þannig að það er bara búist við hlýnun. Það gerist ekki á einum degi, því að jörðin eltir ferilinn. En að fara sökkva lynglendum út af kuldaspá, það er nú svolítið ...FREKT.

Ætli að það sé ekki nær að setja stoðir undir eitthvað annað en þetta? 

Jón Logi (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 13:44

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef ekki sett mig "upp á móti öllu sem fyrirhugað er að gera". Ég fagna gerð Búðarhálsvirkjunar og geri aðeins þær kröfur til virkjana á Hellisheiði að þær séu ekki byggðar á rányrkju. Berst eins og er aðeins gegn einni virkjun af fimm, Bitruvirkjun, sem þar að auki myndi aðeins endast í stuttan tíma.

Ég hef samþykkt eftirtaldar virkjanir síðan ég komst til vits og ára: Írafossvirkjun, Steingrímsstöð, Andakílsárvirkjun, Múlavirkjun, Mjólkárvirkjun, Blönduvirkjun, Skeiðsfossvirkjun (myndi þó ekki gera það nú), Lagarfossvirkjun, Smyrlabjargaárvirkjun, Búrfellsvirkjun, Sultartangavirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Vatnsfellsvirkjun, Búðarhálsvirkjun, Svartsengisvirkjun, Nesjavallavirkjun, Hellisheiðarvirkjun, virkjun í Þrengslunum og Hverahlíðarvirkjun.

Ég tel það ekki skynsamlega virkjunarframkvæmd að hækka miðlunarlón sem alls engin þörf er á að hækka. Þótt öll hverasvæði og öll vatnsföll Íslands yrðu virkjuð myndu störfin í sex risaálverum sem framleiddu 2,5-3,0 milljónir tonna aðeins skapa störf í álverunum fyrir 2% af vinnuafli landsins.

Hvernig dettur mönnum í hug að slíkt bruðl með svo litlum ávinningi geti bægt burtu "atvinnuleysi, fátækt og landflótta"? Hvar á að finna störf handa meira en 90% af vinnandi fólki eftir að allri náttúru landsins hefur verið fórnað fyrir langdýrstu störf sem hægt er að skapa?

Ómar Ragnarsson, 7.7.2009 kl. 13:49

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bæta má við Kröfluvirkjun sem ég setti mig alls ekki upp á móti. Eins og er er ég hins vegar að berjast fyrir því að þyrma Leirhnjúki-Gjástykki vegna þess að hægt er að skapa margfalt fleiri störf ef því svæði er þyrmt heldur en ef það er virkjað.

Ómar Ragnarsson, 7.7.2009 kl. 13:51

12 identicon

Sæll Ómar,

Eins og ég sagði strax finnst mér rök þín um að þyrma Folavatni mjög sterk.Það voru líka rökin gegn því að sökkva Eyjabökkum og allir standa í þakkarskuld að það var ekki gert. En mitt álit og langflestra er að Kárahnjúkavirkjun er eitt fárra vitrænna framkvæmda síðustu ára. Alltaf er unnt að finna mótrök,samanber hér að ofan að Vatnajökull hverfi eftir 80-100 ár.Það hættir þó líklega ekki að rigna. Þú mátt ekki eingöngu líta á störfin sem skapast í álverunum, það er salan á rafmagninu frá virkjuninni sem skiptir ekki minna máli. Það er auðlindin. Og öll afleiddu störfin, viðskiptin í kringum þetta. Og ekki verður það þjóðarbúinu hollt að þeir hjá Landsvirkjun sitji með hendur í skauti. Það er mikilvægt að það fyrirtæki haldi ótrautt áfram. Hér er fróðlegur linkur http://www.nypa.gov/facilities/niagara.htm um virkjun Niagara fossa, frægustu fossa heims og hvernig rennsli árinnar er nýtt ( tvínýtt ) Auðvitað er það svo alltaf umdeilanlegt hvað miklu landi og hvar það land er,sem fórnað er undir uppistöðulón. Með kveðju

Sigurður Ingólfsson (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 15:47

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

„Vatnsföll á Íslandi skiptast sem kunnugt er í tvennt, bergvatnsár og jökulár. Bergvatnsár skiptast aftur í tvennt, dragár og lindár. Langmest af virkjanlegu vatnsrennsli í landinu er í jökulám.“

(Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í eðlisfræði, á Vísindavefnum.)

Hvers vegna eru ekki fleiri vatnsföll nýtt í eigin farvegi frekar en með uppistöðulónum?


Uppistöðulónin fyllast smám saman af jökulleir og jöklabréfum og allir jöklar hér verða horfnir eftir tvo mannsaldra, þar á meðal Vatnajökull, þriðji stærsti jökull heims.

Þá standa eftir gríðarstórar virkjanir og raflínustaurar úti um allar koppagrundir, sem tröll sem dagað hefur uppi, ítem svakalegar styttur af Frikka Sóf í anda Kim Il-sung.

Og afkomendur Sigurðar Ingólfssonar senda bæklinga út í heim: Komið og sjáið!

Og klinkið streymir í kassann.

Eða þannig sko ...

Þorsteinn Briem, 7.7.2009 kl. 18:02

14 Smámynd: Óskar Þorkelsson

hvaða hreiður er þetta Ómar ?

Óskar Þorkelsson, 7.7.2009 kl. 18:10

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Völundur Jóhannesson, sem er þaulkunnugur á austurhálendinu telur, að þetta sé gamalgróið álftahreiður, svo gamalt að það hefur smám saman orðið svona stórt og hátt.

Ómar Ragnarsson, 7.7.2009 kl. 19:42

16 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Þetta er álftahreiður, held ég.

Úrsúla Jünemann, 7.7.2009 kl. 21:36

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú reynir að rugla fólk í ríminu Ómar en lætur þér ekki duga einfaldar og auðskildar upplýsingar sem birtust frá upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar á þínu eigin bloggi, fyrir nokkrum dögum síðan, sjá HÉR  Þar sagði hann eftirfarandi:

"Kelduárveita og tilheyrandi lón eru nauðsynleg

  • Um 25% af vatninu til Fljótsdalsstöðvar kemur um Jökulsárveitu úr Jökulsá í Fljótsdal og Hraunaveitu en um 75% úr Hálslóni. Kelduárlón er stærsta lónið í Hraunaveitu og eina miðlunarlónið þar. Landsvirkjun hefur þegar ákveðið að fresta byggingu austasta hluta Hraunaveitu, svonefndri Sauðárveitu, sökum þess að hlýnandi veðurfar getur leitt til þess að hún reynist óþörf.
  • Þar sem Kelduárlónið er eina miðlunarlónið á Hraunasvæðinu er það undirstaða stýringar á vatni þaðan.
  • Vatnið úr Kelduárlóni hægir á niðurdrætti í Hálslóni yfir veturinn en það eykur nýtni hverflana í stöðinni. Af þeim sökum hefur þetta mannvirki mun meiri áhrif á orkugetu Fljótsdalsstöðvar en rými lónsins segir til um, en í lóninu rúmast um 60 Gl sem er um 3% af rými lóna Kárahnjúkavirkjunar.
  • Kelduárlón gegnir auk þess lykilhlutverki við að nýta vorflóð á Hraunasvæðinu sem er nauðsyn á þeim tíma þegar lægst er í Hálslóni og söfnun þar mikilvæg.
  • Þá er ótalið að Kelduárlón tekur þegar svo ber undir við flóðum í Kelduá sem oft eiga sér stað í leysingum framan af vetri. Lónið dregur þannig úr flóðum á Héraði og hættunni á tilheyrandi skaða."

Þorsteinn Hilmarsson 

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.7.2009 kl. 22:55

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í upptalningunni hjá þér Ómar, um þær virkjanir sem þú hefur verið meðmæltur, nefnir þú Blönduvirkjun. Ég man eftir fréttainnslagi frá þér (eða var það sjónvarpsþáttur?) þar sem þú grést fögrum tárum yfir því gróna landssvæði sem færi undir Blöndulón. Varstu búinn að gleyma því?

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.7.2009 kl. 22:58

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fréttaflutningur minn af Blönduvirkjun var byggður á nákvæmlega sömu grundvallargildum og fréttaflutningur minn af Kárahnjúkavirkjun.

Ég fjallaði jöfnum höndum um kosti og galla þessara virkjana beggja, sýndi það sem fórnað var og það sem vannst. 

Ég grét ekkert svo ég muni eftir yfir neinu í hvorugt skiptið. Munurinn var hins vegar sá að þegar ég sýndi hvað færi undir Blöndulón tóku menn því sem sjálfsagðri þjónustu upplýsinamiðils en þegar ég gerði það sama varðandi Eyjabakka og síðar Hjalladal ætlaði allt vitlaust að verða. 

Raunar sé það nú að þú og fleiri hafa tekið umfjöllun mína um það sem færi undir Blöndulón sem grát minn yfir því og andstöðu við þá virkjun. 

Ég keypti þá virkjun fyrir þær forsendur sem gefnar voru að hún væri nauðsynleg sem varaskeifa ef umbrot yrðu á virkjanasvæðinu fyrir sunnan. Það væri ekki gott að hafa öll eggin í sömu körfu. 

Á þessum tíma plagaði rafmagnsleysi landsmenn og venjuleg not þeirra og ég söng í gamanvísum um Hjölla rafmagnslausa. 

Fyrir nokkrum árum las ég fróðlega bók um Blönduvirkjun og það rennir stoðum undir það að hægt hefði verið að hafa lónið mun minna eins og Páll Pétursson og fleiri vildu. 

En á þá var ekki hlustað. 

Gegn rökunum um að 25% vatnsins til Kárahnjúkavirkjunar komi frá "Kelduárveitu og tilheyrandi lónum" endurtek ég það sem ég bendi á í pistli mínum um það hvernig þetta vatn er notað yfir sumartímann til að hægt sé að safna í Hálslón öllu vatninu í ánum á vatnasviði Jöklu á Brú. 

Það blasir við að upphaflega átti miðlunin að verða hlutfallslega jafn mikil úr lónunum og samsvaraði vatninu sem í þau rann, þ. e. 25% á móti 75%. 

Eyjabakkalón 500 gígalítrar og Hálslón 1500 gígalítrar. 

Síðan fundu menn þá lausn að sleppa Eyjabakkalóni og nota Hálslón hær eingöngu. 

Það var engin smábreyting. 3,5 % á móti 96,5% í stað 25% á móti 75%. 

Án Kelduárlóns var hægt að reka virkjunina á fullu í vetur og veita rafmagni um byggðalínu vestur um vegna þess að Sultartangavirkjun var úti. 

Þetta var hægt og verður hægt áfram vegna breyttra forsendna varðandi vatnsrennsli sem stafar af því að veturinn leggst seinna að og það vorar betur en var á kuldaskeiðunum sem lagðar voru til grundvallar. 

Ómar Ragnarsson, 8.7.2009 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband