8.7.2009 | 14:42
Farþeginn lét tækin í té.
Það er ekki einsdæmi að farþegi hafi átt þátt í því að standa að viðgerð flugvélar. Snemma á sjöunda áratugnum átti ég að fara með tíu manna farþegavél Flugsýnar til Vestmannaeyja.
Vélin var myrkvuð þegar við farþegarnir fórum inn í vélina og settumst í sætin. Síðan leið og beið og ekkert gerðist nema að flugstjórarnir voru eitthvað að bjástra frammi í vélinni.
Loks kom annar þeirra í dyrnar og sagði yfir farþegahópinn: "Er nokkur hérna með vasaljós?"
Ég játti því og lánaði honum vasaljós sem ég hafði í hrakfarapoka svonefndum sem ég tók snemma að hafa með mér á ferðum mínum, þótt ég væri þá ekki byrjaður að fljúga sjálfur, - notaði það ef ég lenti í vandræðum af ýmsu tagi.
Áfram bjástruðu flugmennirnir dágóða stund en síðan kom annar þeirra aftur í gættina og spurði: "Er nokkur hérna með skrúfjárn?"
Ég játti því og lét hann nú hafa allan pokann.
Þeir gerður sér greinilega gott úr því, því nokkru síðar kom hann aftur með pokann, þakkaði fyrir lánið og síðan var sett í gang.
Tvívegis hefur það komið fyrir að ég hafi þurft að fara að hluta til útbyrðis úr flugvél til að gera við hana á flugi en það er efni í annan pistil.
Farþegi gerði við flugvélina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar, ég skora á þig að koma með pistilinn sem þú nefnir í lok þessa. Þetta eru svo svakalega skemmtilegir pistlar hjá þér!
Bestu kveðjur,
Stefán Þór
Stefán Þór Helgason (IP-tala skráð) 8.7.2009 kl. 14:50
Tek undir með Stefáni Þór, þetta er eitthvað sem ég vil fá að lesa.
Maður hefur heyrt ýmsar sögur um þig og þínar flugferðir (og raunar ökuferðir líka), sumu er örugglaga logið upp á þig og annað fært í stílinn (enda á góð saga aldrei að gjalda sannleikans) en það er alltaf mest gaman að heyra og lesa svona þegar það kemur frá fyrstu hendi.
Einar Steinsson, 8.7.2009 kl. 16:59
Skrítnasta flugferð sem ég hef lent í er með flugfélaginu Vængjum frá Reykjavík í Holt í Önundarfirði á almennu farþegarými. Flugvélin var full og var einn farþeginn mjög kulvís. Ekki var hægt að hita farþegarýmið vegna þess 90% farþega að tiltölu voru hænur og tveir hanar. Þegar við vorum yfir Snæfellisnesi var kulvísi farþeginn tekinn mjög að skjálfa, kom flugmaðurinn þá með teppi afturí og vafði hann inn í þannig að úr varð strangi með þeim orðum að hann væri hræddur um að hænurnar dræpust ef að hann hækkaði hitann.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 8.7.2009 kl. 20:45
Og hvað var fleira í pokanum en skrúfjárn og vasaljós, Ómar ?
Gæti þetta ekki verið viðskiptahugmynd: Að selja tilbúna hrakfarapoka ?
Lana Kolbrún Eddudóttir, 9.7.2009 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.