15.7.2009 | 13:57
Gömul afturganga á ferð.
Árum saman var sendi íslenska sjónvarpið ekki út í júlí og framundir 1988 ekki á fimmtudögum. Fyrir afslöppun í þjóðfélaginu var þetta ekki svo galið og kærkomið fyrir flesta starfsmenn Sjónvarpsins.
En fréttalega séð var þetta út í hött. Fréttir og fréttatengt efni gerast þegar þeim sýnist.
Hér eru nokkrir atburðir sem hafa gerst í júlí: Bandaríkjaher kemur til Íslands 1951, Bjarni Benediktsson, kona og dóttursonur farast í eldsvoða 1970, Fisher-Spasskí í Reykjavík 1972, opnaður hringvegur 1974, Flugleiðir stofnaðar 1973, menn á tunglinu 1969.
Heimsmeistaramót í knattspyrnu hafa farið fram í júlí og nefna má ótal fleiri dæmi um stórviðburði í júlí og á fimmtudögum.
Meðan Sjónvarpið var í fríi í júlí og á fimmtudögum var reynt að bæta úr þessu eftir föngum en það kostaði alltaf vandræði og mikla fyrirhöfn, annað hvort út á við eða inn á við.
Maður hélt að síðasti móhíkaninn hefði verið fjarlægður þegar Mogginn ákvað að láta undan kröfum tímans og byrja að gefa út blað á mánudögum, en ég get ekki séð betur en að nýr móhíkani hafi verið vakinn upp með því að láta Kastljósið fara í frí í júlímánuði þegar óvenjumikið er að gerast í fréttum.
Að sjálfsögðu verður að draga saman kostnað við Kastljósið ekki síður en aðra dagskrá í Sjónvarpinu þegar harðnar á dalnum fjárhagslega, en uppákoman á Skjá einum, þegar afbragðs efni var "stolið" af Kastljósinu segir að mínu viti það að niðurskurður í Kastljósinu verður að vera flatari en svo að það hverfi af vettvangi á hliðstæðan hátt og Sjónvarpið gerði í heild forðum daga í júlí og á fimmtudögum í skjóli einokunar.
Þótt fólk sé ræst út einhverja daga nú í júlí fyrir Kastljósið, var það svo sem líka gert í gamla daga í júlí og á fimmtudögum.
Það sýnir sig að það breytir litlu að segja sem svo að ræst verði út ef mikið er um að vera. Það breytir því ekki að þegar auglýst er að einhver sé í sumarfríi munu aðrir taka að sér hlutverkið í nútímaþjóðfélagi þegar ástandið æpir á það.
Davíð Oddsson setti Skjáinn á hliðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Samt gerir Stöð 2 ekki neitt, það eru vonbrigði. Þeir hafa fólk, fréttastofu, aðstöðu... en Ísland í dag er sami "Séðogheyrt" þátturinn sem hann hefur verið frá áramótum.
Lára Hanna Einarsdóttir, 15.7.2009 kl. 16:27
Kastlýsingar fóru í frí,
og fólkið tók ei eftir því,
en friðurinn er fyrir bí,
fjóshauginn datt Davíð í.
Þorsteinn Briem, 15.7.2009 kl. 19:21
Er ekki fullmikið að kalla Davíð afturgöngu ?
hilmar jónsson, 15.7.2009 kl. 20:37
Og þó..
hilmar jónsson, 15.7.2009 kl. 20:38
Afturgangan í pistlinum er hinn gamli háttur að fréttir og fréttatengt efni geti farið í frí.
Stoð tvö er einkafyrirtæki en RUV eigum við öll. Ég hef unnið mestalla starfsævi mína hjá þessum tveimur stöðvum og þær eiga miklar taugar í mér.
Ég á góða vini hjá báðum stöðvum og fór reyndar aldrei alveg frá Stöð tvö, því að ég hef með leyfi útvarpsstjóra RUV unnið í hjáverkum um nætur við hnefaleikalýsingar með mínum gömlu starfsfélögum Stöðvar tvö allt frá því ég fór til RÚV 1995.
En síðustu 14 ár hefur RUV verið mín heimahöfn og þar bíða mín verkefni sem ég vonast til að geta klárað. Fyrir þá stöð er ég í sömu viðbragðsstöðu og ég hef verið síðan 1995 þótt ég sé ekki fastur starfsmaður lengur.
Þegar einokuninni var aflétt var ég mótfallinn þessum fríum Sjónvarpsins og vildi veg þeirrar starfsemi RUV sem mestan sem hefur það hlutverk í þágu allra landsmanna að taka þjóðarpúlsinn.
Ómar Ragnarsson, 15.7.2009 kl. 21:44
Já þetta var nú svona meira spaug... Ekki viljum við styggja Davíð.
hilmar jónsson, 15.7.2009 kl. 22:05
Ómar minn og þið hin. Davíð mun ekki koma aftur í pólitík þó hann hafi sparað tromp á hendi, sjálfum sér til framdráttar,(ath. sér til framdráttar!).
Hann þagði yfir því vegna þess að hann var að hugsa um sjálfann sig en ekki þjóðina. þetta finnst mér ekki heilbrigt.
Rúv á auðvitað að hafa kastljós núna frekar en nokkurn tíma. Annars lít ég svo á að rúv með sínu kastljósi og öllu öðru áróðursefni eigi að leggja niður í staðinn fyrir að láta landann borga fyrir pólitíska áróðurinn á þeirri stöð, takk fyrir.
Ég ætla ekki að borga fyrir ruv. ég mun gera mig gjalþrota frekar en að standa skil á þessari rúv upphæð, ekki upphæðarinnar vegna heldur prinnsippsins vegna. þetta er nefnilega andlegt ofbeldi af hendi rúv gagnvart þegnum þessa lands.
Ég finn alltaf leiðir þegar ég tek eitthvað í mig og gefst ekki upp. Sumir hlægja að þessu, en sá hlær best sem síðast hlær .
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 15.7.2009 kl. 23:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.