Kreppan getur orðið til góðs.

"What goes up must come down", eða "það sem fer upp hlýtur að koma aftur niður". Þetta blasir við eftir að sápukúlan íslenska gróðærið sprakk eftir að þeir sem héldu að hún gæti þanist út endalaust sprengdu hana að lokum. 

Kannski var kreppan það besta sem gat hent úr því sem komið var, þótt hún hefði kannski mátt vera minni. Hún knýr okkur til endurmats og nýsköpunar.

Í dag hef ég þreifað á einu dæmi um þetta, notkun íslenskra orkugjafa fyrir samgöngutæki á landi og sjó. Þegar skortur er á gjaldeyri hlýtur það að vera kostur að orkugjafinn komi beint úr sorphaugum landsins eða frá innlendum orkuverum. 

Þessir orkugjafar geta sem sé verið fleiri en einn en metanið hefur ýmsa kosti sem ekki liggja í augum uppi. Þótt ég hefði talið mig fylgjast ekkert verr með þessum málum en gengur og gerist áttaði ég mig á því í dag að ég hafði verið haldinn ákveðnum fordómum og vantrú, sem byggðist á því að vita ekki nógu mikið um notkun metans á bíla. 

Ástæðan er ökuferð sem ég er í ásamt Einari Vilhjálmssyni sem hann hefur sem markaðsstjóri fyritækisins Metans í samvinnu við Sorpu og N1.

Ætlunin er að í fyrsta sinn verði bíl ekið heilan hring á hringveginum á íslenskum orkugjafa eingöngu, sem þar að auki er mjög umhverfisvænn, með aðeins örlítið brot af útblæstri á co2 miðað við bensín.

Við förum hringinn aðeins víðari, komum við hjá Sorpu í Álfsnesi, á N1 stöðvunum í Borgarnesi, Staðarskála, og á Blönduós, Sauðárkróki og í Varmahlíð en heilsuðum einnig upp á Hallbjörn Hjartarson í Kántríbæ á Skagaströnd og rallkappa sem voru leggja í hann í Skagafjarðarralli.

P1010095

Ferðin gengur vel, við erum nú á Akureyri og þar voru þessar myndir teknar í kvöld. 

Nokkrar viðbárur gegn notkun metans sem við höfum heyrt á ferð okkar:

1. Þetta kostar svo miklar breytingar og viðbætur við búnað bíla.

Rangt.

Í Borgarnesi hittum við Úlfar Ágústsson frá Ísafirði sem var á bíl af sömu gerð og okkar og þegar vélarhúsin voru opnuð á báðum bílunum kom í ljós að Úlfar þurfti nánast að leita að því sem væri breytt á okkar bíl.

P1010096

Það er um 25 sentimetra langt og þunnt stykki ofan á vélinni sem leiðir metanið inn í brunahólfin í stað bensíns.

Síðustu ár hafa bílar verið framleiddir sem notandinn getur ráðið hvort gangi fyrir bensíni eða metani.

2. Viðbótarbúnaðurinn er svo þungur, svo sem metangeymirinn og metanið.

Rangt. Viðbótarþyngdin er að aðeins 40 kíló.

3. Það er svo dýrt að kaupa búnað til að bíllinn geti gengið á metani.

Rangt ef dæmið er reiknað út frá notkunartíma bílsins.

Viðbótarbúnaðurinn kostar á bilinu 400 til 700 þúsund krónur, en metanið er meira en tvöfalt ódýrara en samsvarandi magn af bensíni. Í

ferð frá Reykjavík til Akureyrar og til baka aftur sparar bíleigandinn um 9000 krónur. Ríkið sparar 4000 krónur í gjaldeyri. Útblástur óæskilegra efna hverfur að mestu.

Segjum að eigendur bíls séu með yfirdrætti og ætli á fimm árum að vinna bug á honum. Þá myndu þeir græða 1,4 milljónir króna á þessum fimm árum til þess að nota til þess að eyða yfirdráttarlánunum.

4. Þessir metanbílar komast svo stutt á hverri hleðslu.

Rangt.

Gott dæmi um það er þessi ferð okkar.

Við erum búnir að aka á fimmta hundrað kílómetra í dag eftir áfyllingu í Reykjavík og það er enn drjúgt eftir á geyminum.

Bíllinn er þungur því erum þrjú í honum með mikinn farangur og vegna þess að engin áfyllingarstöð er enn á landinu nema í Reykjavík og við ætlum allan hringinn, drögum við aukaeldsneyti í kerru.

Auk þess er hægt að hafa metanbílana þannig búna að þeir geti gengið bæði á metani og bensíni.

Í því tilfelli væri hægt að aka á metaninu þar til það klárast og fara restina á bensíni.

Um næstu helgi verður sett upp metan-áfyllingarstöð á Akureyri og það verður vonandi fyrsta skrefið í því að metanvæða eldsneytissölurnar á Íslandi líkt og þegar hefur verið gert erlendis svo sem á Ítalíu. 

5. Það er svo mikið og dýrt verkefni að setja á fót framleiðslustöðvar fyrir metan að það mun aldrei borga sig.

Rangt.

Fyrir hreina tilviljun hittum við Úlfar Ágústsson frá Ísafirði í Borgarnesi eins og áður sagði, en hann er vel kunnugur sorpeyðingarmálum vestra.

Hann lyfti brúnum þegar Einar fræddi hann um metanið því að hann sagði að sorpeyðingin vestra væri svo rándýr, að menn væru að sligast undir henni og það yrði að draga þann kostnað frá þegar dæmið væri reiknað í heild. Þegar dæmið er reiknað út til lengri tíma litið frá hagsmunum Íslands sem heildar verður það hagstætt.  

6. Það eru yfirleitt stórir og þungir bílar sem ganga fyrir metani. Betra væri að kaupa minni bíla í staðinn.

Rangt.

Það er hægt að metavæða jafnt litla bíla sem stóra.  

Ótalinn er sá kostur innlendra orkugjafa að auka orkuöryggi landsins. Eins og er mun liklega engin ein breyting á orkunotkun leysa orkuvanda þjóðanna. En metannotkunin getur átt stóran þátt í því eins og fleira að leiða Íslendinga inn í þann tíma sem við verðum algerlega óháðir innflutningi á eldsneyti.

Þess vegna er ég bjartsýnn um framtíð Íslands ef við kunnum að fara með þessi mál af framsýni.   

 


mbl.is Ísland skipi sér á ný í fremstu röð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Ómar-

Þú er kominn á gamalds aldur og ættir ekki að vera skrifa svona pistil örþreyttur eftir akstur. Ég vona að þið skiptist á við stýrið, þú og Einar.

Sofðu rótt á Akureyri.

Það vita allir, sem hugsa eitthvað, að við verður sjálfbær um bifreiðaorku á næstu 10 árum.  (Þetta á ekki við ríkisstjórnina)

Eggert Guðmundsson, 24.7.2009 kl. 23:56

2 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Sæll Ómar. Frábært framtak hjá ykkur Einari. Góða ferð og vonandi verður metan "væðingin" hröð og góð hér eftir.

Guðmundur St Ragnarsson, 25.7.2009 kl. 02:15

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Er hægt að breyta dísilbílum til að ganga fyrir metani?

Arinbjörn Kúld, 25.7.2009 kl. 05:44

4 identicon

Tek undir með honum Guðmundi með metanvæðinguna, og Arinbjörn á metan.is er sagt frá tvíorkubíl sem gengur á Dísil og metan. sjá hér

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 09:01

5 identicon

Frábært framtak hjá ykkur Ómar !  Gangi ykkur vel.

Hans Snorrason (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 09:02

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Metanvæðing dísilbíla gengur vel en er aðeins á eftir bensínbílunum.

Ég pípi á allt tal um að vera "örþreyttur" og að geta ekki drullast til að aka í einum rykk stutta bæjarleið milli Reykjavík og Akureyrar án útskiptingar.

Geri það reyndar reglulega að aka einn miklu eldri og erfiðari bílum milli Kárahnjúka og Reykjavíkur í sambandi við kvikmyndagerðina um Örkina án þess að þurfa einhverja sjúkraaðstoð við það.

Ómar Ragnarsson, 25.7.2009 kl. 09:13

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Þar sem í upphafi notkunartímabils metans á höfuðborgarsvæðinu er aðeins ein dreifingarstöð fyrir metan eru fyrstu bílarnir fluttir inn með fjölorkuvélum (bi-fuel).

Slík ökutæki bera fullt vörugjald skv. lögum nr. 38/2000 en með breytingunum sem gerðar voru á lögunum árið 2005 er veittur fastur afsláttur af hverju ökutæki, kr. 240.000."

Metanbílar

Þorsteinn Briem, 25.7.2009 kl. 11:13

8 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Frábært framtak Ómar!

Anna Karlsdóttir, 25.7.2009 kl. 18:07

9 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Ómar minn, ég man nú eftir hvíta Prinsinum þínum. Að allir bílar og allar stórar vélar séu hákar er nú ekki alveg rétt eins og við vitum. 6 cyl. vél sem gengur á 1600 snúningum og er með 1-2 blöndunga þarf alls ekki að eyða meira en 4 cyl. vél. 8cyl. dieselvél dregur 22tonn á 1400 snúningum(Scania) Farartæki sem bara draga sig sjálf er OK en um leið og þú hleður  upp í hámarks hleðslu fer eiðslan upp úr öllu. En ekki ef þú ert með aðeins of stóra vél Þetta veit Wolfang

Eyjólfur Jónsson, 25.7.2009 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband