Alparnir eru í Mið-Evrópu.

Á ferðalagi um Norðurland í dag heyrði ég sagt við Mývatn að ætlun þess sem talaði væri að fara í ferðalag til "Norðlensku Alpanna", Tröllaskaga. Hafði aldrei heyrt þetta fyrr.

Áður hafa fjöllin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar fengið nafnið "Vestfirsku Alparnir."

Ísland þarf að mínu mati ekki á slíkum heitum að halda vegna þess að þau lýsa minnimáttarkennd sem brýst fram í yfirlæti. Þeir sem hafa skoðað firðina á vesturströnd Noregs, fjöllin á Grænlandi handan Grænlandssunds og sjálfa Alpana í Mið-Evrópu átta sig á þvílíkum stærðarmun þeirra og hinna svonefndu "Alpa" hér á Íslandi, að heitin"Vestfirskir Alpar" og "Norððlenskir Alpar eru brosleg.

Aðeins 285 kílómetra frá Hornströndum gnæfa við himin 3700 metra há fjöll upp af Blosserville-ströndinni.

Hæsta fjall hinna svonefndu "Vestfirsku Alpa" er aðeins 998 metra hátt !

Þegar komið er til baka til Hornstranda eftir flug yfir að Grænlandsströnd segir maður við sjálfan sig: "Hornbjarg úr djúpinu rís" - hvað?  534 metrar á hæð ! 

Og tindar hinna sönnu Alpa í Mið-Evrópu ná upp í meira en 4800 metra hæð.

Á hinn bóginn á Ísland gnægð náttúrufyrirbæra sem eru einstæð á heimsvísu.

Hinn eldvirki hluti Íslands er talinn í hópi 40 mestu náttúruundra heims.

Grímsvötn eru talin í hópi sex merkilegustu sýnilegra eldfjalla heims.

Við eigum að halda á lofti því sem raunverulega er meðal mestu náttúrugersema heims en ekki að rembast við að nefna fjöll nafni sem vísar á ofurstærð sem þau standa ekki undir heldur virkja hjákátleg fyrir bragðið.

Skátarnir á skátamótinu hrifust af eldfjöllum Suðvesturlands sem mögnuðum náttúrufyrirbærum þar sem stærðin skipti ekki máli heldur eðli þeirra, lögun og fegurð án tillits til stærðar.

"Hornbjarg úr djúpinu rís" er dýrleg setning í ljóði Kristjáns frá Djúpalæk sem lýsir djúpum tilfinningum þess sem kanna að meta það án þess að því sé líkt við Alpana.

Hornbjarg, Hælavíkurbjarg og Látrabjarg eru þrjú stærstu fuglabjörg Evrópu og eiga enga keppinauta í þeirri álfu hvað það snertir. Ketildalir við Arnarfjörð og Drangaskörð eru fágæt náttúrufyrirbæri sem ég veit ekki að eigi samsvörum í Evrópu.

Öll þessi fyrirbæri eru á Vestfjörðum þau þurfa engin stækkunarheiti því að Vestfirðir standa alveg undir sér án þess. 

Setjum sem svo að milli tveggja fjarða á Austfjörðum væri fjallaskagi sem væri um 300 metra hár og menn færu að kalla þau "Austfirska Tröllaskagann". Myndi Norðlendingum ekki finnast það hjákátlegt?  

 

 


mbl.is Íslensku fjöllin lítil og sæt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Þetta er auðvitaðhárrétt hjá þér. Þeir sem  tala um norðlensku og vestfirsku  Alpana hafa  greinilega  aldrei séð Alpafjöll eða  Grænlandsfjöll.

Eiður Svanberg Guðnason, 25.7.2009 kl. 22:59

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Tröllaskaginn er á allan hátt fallegri og merkilegri en Alparnir. Þar er nú ólíku saman að jafna. Það tók okkur Kristján tófuspreng þó ekki nema klukkutíma að skottast frá Skíðadalsá upp á Dýjafjallshnjúkinn í 1.445 metra hæð.

Tröllaskaginn
- Fjallaskíðun á heimsmælikvarða


Hæstu fjöll Tröllaskagans

Þorsteinn Briem, 26.7.2009 kl. 00:10

3 Smámynd: Ár & síð

Í fyrra ókum við um hæsta fjallaskarð Alpanna, Col de la Bonette, þar sem maður kemst mest í 2802 metra hæð. Það eitt ætti að segja nokkuð um mikilfengleik þessa einstaklega glæsta og hrikalega svæðis.
Matthías

Ár & síð, 26.7.2009 kl. 10:00

4 identicon

Mikið er ég sammála þér núna. Við þurfum alls ekki á þessum heitum að halda. Við höfum svo margt annað sem er stórfenglegt og íslenskt. Fjöllin eru falleg en þau eru engir Alpar.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband