Af hverju virðist "tannhjólsaðferð" bannorð á Íslandi.

Alla vikuna dynur í eyrum í umferðarpistlum útvarps beiðni til ökumanna á tveggja akreina vegi að halda sig á hægri akrein til þess að hraðari umferð komist fram úr á vinstri akrein, sem er ætluð til slíks.

Síðan kemur síðdegi föstudags, sunnudags eða í þessu tilfelli mánudags, frídags verslunarmanna, og þá heyrist sú útgáfa af þessu að ökumenn á tveggja akreina 2 plús 1 vegum eru beðnir um að halda sig á hægri akrein til þess að ekki myndist umferðarteppa þar sem vegurinn breytist í einnar akreinar veg.

Ef allt væri eðlilegt í umferðarmálum hér á landi þyrfti hvoruga brýninguna og ég efast um að í nokkru öðru landi þurfi á svona að halda. 

Fyrri beiðnin, um akstur á vinstri akrein, stafar af landlægu hugsunarleysi og tillitsleysi landans.

Síðari beiðnin stafar af því að hér á landi er aldrei talað um svonefnda "tannhjólsaðferð" þar sem vegur þrengist.

Slíkt virðist algerlega fjarlægt Íslendingum, heldur telja þeir sem eru á beinu akreininni sig hafa forgang yfir hina sem eru á akreininni, sem endar.

Á þeirri akrein eru þó örvar, sem vísa ökumönnum veginn á ská inn á beinu akreinina.

Ef hér væri ekið eins og í öðrum löndum myndi "tannhjólsaðferðin" koma af sjálfu sér, þ. e. bílarnir á enduðu akreininni renna inn í röð bílana á beinu akreininni þannig að hver bíll á beinu akreininni hleypir einum bíl af hægri akreininni inn í röðina.

Hér á landi ríkir algert öngþveiti og skipulagsleysi sem veldur slysahættu. Einstaka ökumaður á vinstri akrein stöðvar og hleypir jafnvel mörgum bílum inn á í einu en síðan eru flestir sem engum hleypa inn á.  

Ef við nefnum bílana hægra megin h-bíla og hina v-bíla, verður nýja röðin v-h-v-h-v-h...líkt og þegar tennur í tveimur tannhjólum grípa hver í aðra þar sem tannhjólin koma saman.

Alls staðar sem ég þekki til erlendis kemur þetta af sjálfu sér en hér myndast hins vegar umferðarteppa og í eyrum dynja beiðnir um að allir séu á hægri akrein og enginn á vinstri.

Ein röksemd fyrir því að biðja um þetta er sú að þá verði auðveldara fyrir neyðarumferð að komast áfram.

En þetta hrekkur skammt því að þar sem vegurinn þrengist verður hvort eð er ekkert skárra fyrir neyðarumferðina að komast áfram, enda eru vegaxlirnar, til dæmis á Suðurlandsvegi, stórlega vanræktar af vegagerðinni. 

Hvernir væri nú að hætta þessum ruglingi og tilkynna einfaldlega: "Ökumenn, myndið tannhjól í umferðinni þar sem vegur þrengist úr tveimur akreinum í eina."

Gegn þessu eru kannski þau mótrök að enginn viti hvað "tannhjólsaðferðin" sé.

En hvernig væri þá að byrja að kenna landanum hvað "tannhjól í umferðinni" táknar er og láta fólk spyrja hvað hún tákni þegar það heyrir tilkynningarnar um hana.

Eða á Ísland að halda áfram að vera eina landið í okkar heimshluta þar sem enginn veit hvað "tannhjól" í umferð táknar og aldrei er minnst á þessa aðferð? 


mbl.is Rólegt í umdæmi lögreglu Selfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

athugasemd:

Alla vikuna dynur í eyrum í umferðarpistlum útvarps beiðni til ökumanna á tveggja akreina vegi að halda sig á vinstri akrein til þess að hraðari umferð komist fram úr á hægri akrein, sem er ætluð til slíks. 

Þú ert að snúa þessu óvart Ómar.. við eigum að halda okkur á hægri akrein því sú vinstri er ætluð til framúraksturs. 

annars sammála þér

Óskar Þorkelsson, 3.8.2009 kl. 16:43

2 identicon

Já, smá ruglingur þarna með hægri og vinstri í byrjun, en það er ekki inntak pistilsins. Það er nefnilega hárrétt að svo virðist sem tillitssemi í krafti "tannhjólaaðferðarinnar" sé íslenskum ökumönnum fullkomlega framandi.

Helst þyrftu Íslendingar að keyra í kaotískri umferð í örtröð Asíuborga. Ég hef  sem betur fer mikla reynslu af því og mæli með því fyrir alla sem vilja alvöru þjálfun í akstri. Reyndar hætta flestir Vesturlandabúar sér ekki út í slíka umferð og eru bara til trafala, en þarna þarf bara að halda einbeitingu og snerpu og þá gengur þetta allt upp. Ekki er verra að kunna almennilega að keyra líka, það hjálpar auðvitað.

Kíkið t.d. á þetta myndbrot. Hér er ekki öfgakennt ástand eða eitthvað leikið atriði. Samkvæmt minni reynslu er þetta mjög hófsamt og eðlilegt ástand. Og sjáið, að þeir sem eiga réttinn á aðalbrautinni eru sífellt að hleypa hinum sem vilja beygja í gegn. Þannig er beygjuljós óþarft, því reynsla ökumanna hefur búið til kerfi sem virkar.

Annars myndi þetta aldrei ganga upp.

http://video.google.com/videoplay?docid=-2063667852598904740

Þorfinnur (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 17:50

3 Smámynd: Jón Thorberg Friðþjófsson

Þetta er ósköp eðlilegt drengir, þið eruð á Íslandi. Takið eftir hringtorginu við Þingvallaveg. Þar endar útakstur í vinstri rein, þetta er til líka í Hafnarfirði. Hér í Reykjavík endar útaksturinn til hægri. Hvort er réttara?  Og er þetta víðar svona hér á landi?

Jón Thorberg Friðþjófsson, 3.8.2009 kl. 18:45

4 identicon

Myndin er algjört æði. En hún væri betri með réttum hraða.

Óþarfi að gera hana meira spennandi.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 20:29

5 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Hér á Íslandi myndi þetta alltaf klikka á einu atriði og það er hugsunarhátturinn:

Hinir gera þetta ég þarf þess ekki.

S. Lúther Gestsson, 4.8.2009 kl. 00:28

6 identicon

Einar: Jú, alveg sammála þér, titillinn er villandi. En ég gat ekki breytt því, þetta fann ég á netinu og fannst alveg smellpassa við umræðuna.

Ég bý að þessari skemmtilegu reynslu að hafa keyrt í örtröð Asíulanda, bæði á bílum og mótorhjólum. Auk þess ferðaðist ég mikið í tuk-tuk. Maður þarf að hafa sig allan við, en að sama skapi er frábært að upplifa að umferðin gengur upp þrátt fyrir allt. Ef þú þarft nauðsynlega að "svína" fyrir einhvern til að komast áfram, þá bara gerirðu það og færð ekki reiðilestur fyrir. "Ég á sko réttinn"-viðhorfið er alltof fast í Íslendingum.

Meiri tillitssemi. Meira common sense.

En það er þetta með almenna skynsemi, hún er því miður ekki svo almenn...

Þorfinnur (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 08:26

7 Smámynd: B Ewing

Sá í gær nýlegt myndband sem gert var fyrir Umferðarstofu um þetta mál.  Aftur á móti var ég að sjá þetta myndband í fyrsta sinn og á tíma sem ég er almennt ekki með sjónvarpið í gangi. 

Af hverju var Umferðarstofa ekki búin að koma sér fyrir í öllum helstu auglýsingatímum sjónvarpsrásanna 4-6 vikum fyrr með þessi ágætu myndbönd í stað þess að vera á "sjónvarpsmarkaðstíma*" á Skjá einum eingöngu ?

*Klukkan 16:00 á mánudegi (eftir að flestar ferðahelgar sumarsins eru liðnar).

B Ewing, 4.8.2009 kl. 09:35

8 Smámynd: Einar Indriðason

Annar staður sem "rennilásaaðferðin" eða "tannhjólaaðferðin" þyrfti að vera meira notuð, er við hraðahindranir, þar sem gatan er þrengd niður í eina akrein.  Þó svo að ég reyni að nota "rennilásinn" ef ég get, þá eru of margir úr hinni áttinni sem hugsa:  "ah, hann er að gefa okkur öllum séns" og þetta endar með því að ég gef bara engan séns.

Já, og talandi um hringtorg.  Hvernig má það vera að sumar akreinar frá sumum (tvöföldum) hringtorgum þrengjast niður í eina akrein?  Sem þýðir að umferð frá hringtorginu þarf að "renna saman"?  Og hvernig má það vera, að sumar svona "2falt hringtorg breytist í eina akrein" útfærslan þrengist stundum frá vinstri, og stundum hægri, og stundum... þvert á það sem virðist vera eðlilegt og rétta leiðin?  

Stundum þannig að það virðist vera betra að taka ytri (réttindalausa) hringinn, til að fara aðalleiðina, framhjá útakstri.  Dæmi sem ég man eftir, er hringtorgið fyrir ofan Árbæ í Reykjavík, við Rauðavatn.  Ef þú kemur úr Reykjavík og ætlar austur fyrir fjall, þá eru 2 akreinar inn á tvöfallt hringtorg, framhjá einni afrein, út á 2 akreinar, sem mjókka niður í eina nánast strax.  Og hver á að víkja?  Jú, sá sem kom úr innri hring.

Ekki rökrétt.

Einar Indriðason, 4.8.2009 kl. 10:57

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Tannhjólaaðferðin" er kennd af ökukennurum og í ökuskólum, svo þetta ætti ekki að vera framandi fyrir ökumenn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.8.2009 kl. 11:40

10 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Kannski er það vegna þess að umferðarlögin ná ekki yfir akstur á tveimur akreinum. Hvergi er tekið fram hver á „réttinn“ þar. Það væri til bóta ef í lögum væri sú regla að sá sem er fyrir framan ætti “réttinn“. Þá væri nóg að gefa stefnuljós sem merki um akreinaskipti.

Í dag er það þannig að sá á réttinn sem tekur hann, með valdi ef þarf.

ps. Ómar var auglýst að halda sig á vinstri akrein? Og hver auglýsti þannig ef það var þá gert?

Birgir Þór Bragason, 4.8.2009 kl. 19:27

11 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Einar, hvar er það í umferðarlögunum? Værir þú ekki til í að benda mér á í hvaða kafla og í hvaða grein? Please :)

Birgir Þór Bragason, 4.8.2009 kl. 20:19

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það á ekki að tala um að "eiga réttinn", því það á enginn rétt á einu né neinu. Lögin segja að það skuli "veita forgang", en það getur aldrei orðið þannig í 100% tilvika, allir eiga að sýna aðgát og tillitssemi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.8.2009 kl. 20:36

13 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Ég tala nú samt um að eiga réttinn :) Það auðveldar málið.

Birgir Þór Bragason, 4.8.2009 kl. 20:55

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Forgangsreglan er tiltölulega einföld. Þú átt að veita þeim forgang sem er þér á hægri hönd, nema annað sé tekið fram.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.8.2009 kl. 21:29

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 25. gr. Ökumaður skal hafa sérstaka aðgát við vegamót.

Ökumaður, sem ætlar að aka inn á eða yfir veg, skal veita

umferð ökutækja á þeim vegi úr báðum áttum forgang, ef

það er gefið til kynna með umferðarmerki um biðskyldu eða

stöðvunarskyldu.

Nú ætlar ökumaður að aka út á veg af bifreiðastæði, lóð,

landareign, bensínstöð eða svipuðu svæði eða af götuslóða,

stíg, göngugötu, vistgötu, heimreið eða svipuðum vegi eða

af gangstétt eða vegaröxl og skal hann þá veita umferð í veg

fyrir leið hans forgang.

Þegar ökumenn stefna svo, að leiðir þeirra skerast á

vegamótum, opnum svæðum eða svipuðum stöðum, skal sá

þeirra, sem hefur hinn sér á hægri hönd, veita honum forgang.

Ökumaður, sem á að veita öðrum forgang, skal gefa

greinilega til kynna, að hann muni veita forgang með því að

draga úr hraða í tæka tíð eða nema staðar. Hann má því aðeins

aka áfram, að það sé unnt án hættu eða óþæginda fyrir

önnur ökutæki miðað við, hvar þau eru á vegi, hver fjarlægð

þeirra er og hraði.

Þegar ökumaður ætlar að beygja á vegamótum, ber honum

að veita forgang þeirri umferð, sem á móti kemur, svo

og gangandi vegfarendum [og hjólreiðamönnum],
1) sem fara

þvert yfir akbraut þá, sem hann ætlar að fara á. Sama á við

um akstur yfir eða af akbraut þar sem eigi eru vegamót.

Ökumaður, sem nálgast eða ekur inn á vegamót, skal haga

akstri sínum þannig, að hann valdi ekki umferð á veginum,

sem hann fer yfir, óþarfa óþægindum, ef hann neyðist til að

nema þar staðar. Á vegamótum, þar sem umferð er stjórnað

með umferðarljósum, má ökumaður eigi aka inn á vegamótin

á grænu ljósi, ef honum má vera ljóst af aðstæðum í umferðinni,

að hann muni eigi komast yfir vegamótin, áður en grænt

ljós kviknar fyrir umferð úr þverstæðri átt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.8.2009 kl. 21:52

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakið að ég sneri óvart við hægri og vinstri þegar ég skrifaði pistilinn fyrst og hef nú afmáð þessa vitleysu hjá mér.

Eftir stendur aðalatriðið, þetta með tannjólið eða rennilásinn. Í Kaliforníu er reglan sú við gatnamót þar sem engin umferðarljós eru og einnig þar sem vegir þrengjast að sá á réttinn sem á undan kemur.

Svínvirkar alls staðar. Þetta ætti að gilda hér þar sem tvær akreinar verða að einni.

Hér á landi hefur hins vegar gefist illa að sá eigi forgang á einbreiðri brú sem kemur fyrr að henni. Slys hafa oft hlotist af því að hinir íslensku ökumenn hafa aukið hraðann til þess að verða á undan inn á brúna.

Þegar ég ók um Kolaskaga í Rússlandi 1978 vor alls staðar merki við einbreiðar brýr þannig að sá sem kom úr annarri áttinni ók í áttina að skilti með ör sem sýndi að hann átti forgang og sá sem kom úr hinni áttinni ók á móti ör sem sýndi að hann átti að vægja fyrir bíl sem kæmi á móti.

Ómar Ragnarsson, 5.8.2009 kl. 00:14

17 Smámynd: Karl Tómasson

Ágæti Ómar.

Í hvert skipti sem ég er út í umferðinni reyni ég eftir fremsta megni að nota tannhjólaregluna sem ég heyrði þig tala um fyrir mörgum árum síðan í sjónvarpi.

Eða eru jafnvel liðnir áratugir síðan?

Ég held að þetta fari skánandi hjá okkur íslendingum og það skildi ekki vera að þú eigir einhvern þátt í því minn kæri?

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 5.8.2009 kl. 02:45

18 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Gunnar það er nákvæmlega þessu túlkun sem býr til vandamálið. Að vísu er í raun ekkert um akstur á akreinaskiptum vegum í þessari grein en sú túlkun að sá sem er hægra megin eigi réttinn er vandamálið. Þeir sem „taka“ slíkan rétt neyða þann óörugga sem staddur er á vinstri akrein til þess að gefa eftir. Það jafnvel þó hann hafi verið bíllengd eða bíllengdum fyrir framan þegar hann gaf stefnuljós til hægri.

Eftir stendur að það vantar í umferðarlögin hvernig menn eiga að haga sér á svona vegum.

ps. ég er að sjálfsögðu sammála Ómari um tannhjólamálið. Ég bendi þó á að samlíking við umferð í USA er ekkert sérlega góð því þar eru banaslys um það bil 100% algengari en á Íslandi þannig að eitthvað er að þar í viðbót við það sem er að á klakanum.

Birgir Þór Bragason, 5.8.2009 kl. 07:37

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég sé reyndar ekkert í þessu sem hægt er að mistúlka. Meginreglan er einfaldlega "varúð til hægri", en öllum ökumönnum ber skylda til að sýna varúð og tillitssemi og geta menn misst rétt sinn til bóta ef sú regla er ekki virt, burt séð frá meginreglum í umferðarlögum.

Þið getið skoðað 20.-24. grein IV. Umferðarreglur fyrir ökumenn. HÉR

 21. gr. Þegar ökumaður verður þess var, að ökumaður,

sem á eftir kemur, ætlar að aka fram úr vinstra megin, skal

hann vera með ökutæki sitt eins langt til hægri og unnt er.

Má hann ekki auka hraðann eða torvelda framúraksturinn á

annan hátt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.8.2009 kl. 08:59

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í eina tilfellinu sem meginreglan "varúð til hægri" snýst við er í hringtorgum. Ytri hringurinn veitir þeim innri forgang. Verði árekstur er þó skoðað hvorumegin við miðju bílsinns á ytri akrein, áreksturinn hefur orðið. Ef bíllinn sem er á innri akrein keyrir á bíl á þeirri ytri þegar hann ætlar út úr hringtorginu og lendir aftan við miðju á ytri bílnum, þá er hann að jafnaði bótaskyldur. Eins ef sannað þykir að sá innri sýnir ekki fulla varúð og gefur t.d. ekki stefnumerki á leið út úr hringtorginu, þá getur hann mistt bótarétt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.8.2009 kl. 09:16

21 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Gunnar þetta snýst ekkert um bættur!!! Þetta snýst um að umferðarvélin gangi upp.

Birgir Þór Bragason, 5.8.2009 kl. 10:46

22 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Bótarétturinn virðist samt aðalhvatinn fyrir góðri hegðun í umferðinni. Ef menn lesa umferðarlögin vel og fara eftir þeim þá gengur "umferðarvélin" vel smurð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.8.2009 kl. 11:39

23 Smámynd: Birgir Þór Bragason

humm... Hún gerir það einmitt ekki um það fjallar þessi færsla hjá Ómari. En þó það standi í lögum hvernig á að haga sér á gatnamótum, þá dugar það ekki til:

                úr grein 24
Ökumaður, sem nálgast eða ekur inn á vegamót, skal haga akstri sínum þannig,
að hann valdi ekki umferð á veginum, sem hann fer yfir, óþægindum, ef hann neyðist til
að nema þar staðar. Á vegamótum, þar sem umferð er stjórnað með umferðarljósum, má
ökumaður eigi aka inn á vegamótin á grænu ljósi, ef honum má vera ljóst af aðstæðum í
umferðinni, að hann muni eigi komast yfir vegamótin, áður en grænt ljós kviknar fyrir
umferð úr þverstæðri átt.


Ég endurtek:

Á vegamótum, þar sem umferð er stjórnað með umferðarljósum, má ökumaður eigi aka inn á vegamótin á grænu ljósi, ef honum má vera ljóst af aðstæðum í umferðinni, að hann muni eigi komast yfir vegamótin

Birgir Þór Bragason, 5.8.2009 kl. 12:05

24 Smámynd: Óskar Þorkelsson

það er smámunur á umferð á Reyðarfirði eða í Reykjavík..

Óskar Þorkelsson, 5.8.2009 kl. 12:45

25 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Enda sagði ég " Ef menn lesa umferðarlögin vel og fara eftir þeim.."

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.8.2009 kl. 12:46

26 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Rétt Óskar, þetta er vandamál varðandi ökukennslu á landsbyggðinni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.8.2009 kl. 12:48

27 identicon

Það sem pirrar mig við tannhjólsaðferðina er að stundum þegar ég hleypi einum, þá halda sumir að ég hafi bara skapað opna hraðbraut fyrir hina eftir þeim sem ég hleypti! Bíll eftir þeim sem ég hleypti skýst eftir hinum og jafnvel enn einn reynir að frekjast í viðbót. Þetta veldur því að ef ég lendi í þessu í umferðinni þá gef ég hreinlega bara engum sjens seinna meir, er orðinn of pirraður. :( 

Ari (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 14:15

28 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú munu vera þrettán lögreglumenn á vakt í Reykjavík samkvæmt fréttum þar um og ljóst að sífjölgandi innbrotum verða þeir að sinna og hafa því engin tök á að sjá til þess að umferðarlögum sé fylgt eins og þeim að fara ekki inn á gatnamót nema vera viss um að komast yfir og að gefa stefnuljós tímanlega.  

Ómar Ragnarsson, 5.8.2009 kl. 16:26

29 Smámynd: Hörður Þórðarson

Ég býst við að þetta sé vegna slæms uppeldis. Varla er groddagangur, skammsýni og tillitleysi meðfæddur eignleiki íslendinga...

Hörður Þórðarson, 6.8.2009 kl. 02:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband