"Eitthvað annað"? Getur það verið ?

Allt frá febrúar 2007 var gert grín að því þegar ég minntist á gagnaver sem álitlegri kost en álver í umræðum fyrir kosningarnar.

Menn ypptu öxlum þegar Íslandshreyfingin benti á að hver megavatt myndi skapa margfalt fleiri og betri störf en álver og að starfsemi gagnaveranna yrði án mengunar.

"Eitthvað annað" var sagt í háðstóni. Þessi söngur hefur hljómað árum saman og talað í fyrirlitningar tóni um fjallagrasatínslu og lopalið.

Þó var kjarninn í umræðunni mjög skýr. Ef öll orka landsins yrði seld til sex risaálvera myndi aðeins 2% vinnuaflsins fá þar vinnu og jafnvel þótt samtals 8% vinnuafls landsins yrði tengt álvinnslu þurfti "eitthvað annað" handa hinum 92 prósentunum.

Af hverju rís ekki gagnaver við Húsavík? Þar er þó stór flugvöllur og skammt til Akureyrar, höfuðstaðar Norðurlands?

Það skyldi þó ekki vera vegna þess að fyrir liggja tvær yfirlýsingar og samkomulag um að Alcoa um að allt rafmagn sem fáanlegt er við virkjunum á Norðausturlandi fari í þessa einu verksmikðju. Það er búið að selja Alcoa öll orkugæði þess landshluta og jafnvel Jöiulsárnar í Skagafirði líka.

Iðnaðarráðherra hefur nú lýst því yfir að það verði að endurnnýja viljayfirlýsingar um álverið og geirnegla þetta til framtíðar. Aðilar vinnumarkaðarins gera þetta að skilyrði fyrir stöðugleikasáttmála. 

Nálægt Blönduósi er 150 megavatta virkjun, Blönduvirkjun. Hins vegar er viðbúið að nú verði sagt að vegna gagnaversins verði að virkja Jökulsárnar í Skagafirði og gefa skít í þá möguleika á nýtingu þeirra, sem þegar hefur komist á legg, flúðasiglingarnar.

Enginn minnist á að náttúra þess svæðis sé krónu virði, allt snýst um stóriðjufíknina.  


mbl.is Talið líklegast að risavaxið gagnaver rísi á Blönduósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég kastaði fram eftirfarandi á Eyjunni og geri það líka hér.

"Næstu skref fyrir Norðurlandið eiga að vera:

A) Friða Gjástykki, Skjálfandafljót og Jökulárnar í Skagafirði.

B) Segja upp öllum samningum og viðræðum við Alcoa vegna álversins á Bakka sem aldrei kemur.

C) Halda opnum möguleikanum á stækkun Kröflu og virkjun á Þeistareykjum.

D) Bjóða “einhverju öðru” að kaupa þá orku til að hefja starfsemi í grennd Húsavíkur.

Er þetta málamiðlun sem græningjar og iðnaðarfíklar geta sætt sig við?"

Það er þekkt þróun víða vestanhafs, t.d. í norðvesturríkjunum Oregon og Washington sem svipar í mörgu til Íslands hvað varðar ódýra vatnsorku, að fyrst fyllist allt af skítugum frumvinnsluiðnaði eins og álverum. Síðar komi svo annar og hreinni iðnaður sem bjóði betur í rafmagnið og ýti álverunum út af markaðnum. Þetta er vonandi sú þróun sem er að fara af stað hér á landi.

Bjarki (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 12:47

2 Smámynd: Georg Birgisson

Sæll Ómar,

Mér hefur sýnst að gagrýni manna á álversframkvæmdir á Austurlandi hafi fyrst og fremst verið gegn þeim náttúruskemmdum sem Kárahnjúkavirkjun hafi valdið. Það er orkuframleiðsla með vatnsafli og tilheyrandi stíflum sem mest er verið að gagrýna.

Þá skiptir litlu máli í hvað orkan er notuð og ekkert betra að byggja stíflur fyrir gagnver. Gagnaver af þessari stærðargráðu er líka stóriðja.

Það er því spurning hvað sé þetta "eitthvað annað" sem Íslandshreyfingin lagði til. Er það, eitthvað annað en álframleiðsla,  eitthvað annað en orkufrekur iðnaður, eitthvað annað en vatnsorkuver eða eitthvað annað? Það er lítil speki hjá Íslandshreyfingunni að leggja til að gera "eitthvað annað" og  benda svo á "hvað sem er" sem þetta "eitthvað annað".

Það sem er efnahagslífi okkar fyrir bestu er að gera "hitt og þetta" því aukin fjölbreytni eykur stöðugleika. Þó álver lækki þá heldur gagnavinnsla kannski sínu striki og öfugt. Mikilvægt er fyrir landið að nýta sýnar auðlindir og orka er ein af okkar auðlindum. Hinsvegar hefði ég viljað sjá meiri fjölbreytni í nýtingu hennar og meiri áherslu á þekkingu.

Staðsetning gagnavera og álvera á íslandi byggir hvortveggja á lágum orkukostnaði en ekki gæðum íslenskrar framleiðslu eða hugviti. Hærra hlutfall starfa miðað við orku hjá gagnverum mun valda því að þau munu eiga erfiðara með að hækka laun. Það er því alls ekki víst að þessi fjölgun starfa komi fram í vel launuðum störfum á Íslandi. Gagnaver eiga, eðli máls samkvæmt, auðvelt með að láta starfsfólk vinna í fjartenginum t.d. frá Asíu. Þannig væri í raun verið að nota íslenska orku til að auka vinnu í Asíu.

Þó svo að ég fagni því að gagnaver auki fjölbreytni í íslensku atvinnulífi þá held ég að við ættum að  fagna rólega og sjá hver ávinningurinn er af fyrsta gagnaverinu.

Ég er fylgjandi því að nýta orkulindir Íslands en ég er ósammála þeirri nálgun stjórnvalda að nota samninga um orkuverð til að stýra því hvernig orkuauðlindir okkar eru nýttar. Landsvirkjun hefur samið við álver um raforku á mun lægri verðum en almennur iðnaður nýtur. Nú er samið við gagnaver á sama hátt. Þannig byggjast upp álver og gagnaver. Fróðlegt væri að sjá hvaða iðnaður og störf myndu skapast ef iðnfyrirtæki hefðu almennt aðgang að raforku á svipuðum verðum þeim sem álver og gagnaver fá.

Georg Birgisson, 15.8.2009 kl. 12:58

3 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Ómar það var hér fyrir stuttu forsvarsmaður hollensks gagnavers og boðaði byggingu stórs gagnavers á Norð-austurlandi. Ef álverið á Bakka og þetta gagnaver verða reist þá blasir við að það verður að virkja Arnardal til viðbótar við virkjanir í Skjálfandafljóti og gufualfsvirkjanirnar

Í Húnavatnssýslum eru til áform um virkjun innst í Vatnsdal.  

Guðmundur Gunnarsson, 15.8.2009 kl. 12:58

4 identicon

Þarf ekki einnig að hafa í huga flutningsgeta þessarra sæstrengja sem eru nú til staðar??

Það er alveg ljóst að þeir koma ekki til með að anna einhverri gígantískum upplýsingaveitum erlendis ef gögnin eru sótt frá íslandi...... þannig að það hlýtur að vera þörf á nýjum strengjum...

Magnus Jonsson (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 14:57

5 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Jú það er verið að bæta sambandið yfir til Evrópu, en bæta þarf við ljósleiðarastreng til Ameríku og eins hefur komið fram hjá gagnaversfyrirtækjunum að þau reikni með streng norður frá okkur þar sem ísinn sé að minnka á norðurpólnum og það séu ekki mörg ár í það að við verðum miðpunktur með tengingum milli Ameríku - Asíu og Evrópu. Reiknað er með að þá verði hér eins mikið af gagnaverum og við séum tilbúinn að selja orku til.

Þessir aðilar eru tilbúnir til þess að fjármagna orkuverin og þá kemur enn upp sú spurning hvort við séum ekki bara tilbúinn að selja þeim svo sem eins og nokkur vatnsföll og gufusvæði t.d. að Fjallabaki þar sem hægt er að framleiða jafnmikla orku og Þjórsá gefur af sér.

Guðmundur Gunnarsson, 15.8.2009 kl. 15:33

6 identicon

Sæll Ómar

Þú endurtekur í grein þinni þá staðreyndavillu að gagnaver séu án mengunar. Það er ósatt því mengun af gagnaveri er talsverð. Líftími þeirra tækja sem nota þarf í gagnaveri er stuttur eða milli 1 - 3 ár. Að þeim tíma liðnum þarf að farga tölvum og viðeigandi búnaði. Þau hráefni sem notuð eru í tölvum eru enn sem komið er aðeins að litlu leyti endurvinnanleg en valda hins vegar miklum eitrunaráhrifum í náttúrunni. Einnig má benda á að þessi búnaður er ekki framleiddur hér innanlands þannig að mikil aukning yrði á innflutningi þessara tækja með tilheyrandi mengun og eins þarf að flytja tækjabúnaðinn utan til eyðingar.

Jónas Yngvi Ásgrímsson

Jónas Yngvi Ásgrímsson (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 16:59

7 identicon

Sæll Ómar.

Einu langar mig að koma á framfæri við þessa umræðu. Það er að í gagnaveri eru frekar fábreytileg störf. Prívat og persónulega fagna ég því, en bendi á um leið að þeir sem munu fá störf í gagnaverum verða upp til hópa rafiðnaðarmenn, verkfræðingar og tölvunarfræðingar. Það er heldur fábreytilegri flóra starfsmanna en t.d. álver býður upp á.

Einnig er rétt sem Jónas bendir á að rusl frá gagnaverum er gífurlegt, og þá af sílíkoni, áli, kopar og plasti. Við þyrftum að koma okkur upp verulega góðum förgunaraðferðum fyrir þannig áður en gagnaverin taka til starfa.

En ef við horfum á málið út frá heiminum, þá er mjög gott að gagnaver rísi á íslandi, þar sem þau þurfa minni kælingu hér (minna af ógeðisefnum í loftkælingar o.þ.h.) og vegna þessa munu þessi gagnaver eyða minna rafmagni en sambærileg gagnaver erlendis.

Ég er þó þeirrar skoðunar að gagnaver hér sé alger snilldarhugmynd, þar sem mér hefur fundist vanta fjölbreytileika í stóriðju hér. Næst ættum við að pæla í t.d. fullvinnsluver (t.d. fyrir ál) einhversstaðar á landinu. Með því áframhaldi losnum við smám saman við að vera háð sveiflum í einangruðum atvinnuvegum.

kveðjur,

Gunnar Guðmundsson

Gunnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 17:22

8 identicon

sæll ómar

Ég er sammála allri þinni náttúrusýn. Takk fyrir allt það sem þú hefur gert. Gagnrýni þín á stjórnvöld hefur verið aðdáunarverð.

En mig langaði að kommentera á gagnaverið. Málið er að, og það hefur nú heldur betur sýnt sig, að við Íslendingar erum fúskarar, höfum ekki menningu fyrir fagmennsku eða alþjóðlega vinnuhætti. VIð erum ruddar sem koma úr sveit og sjó. Það er því ekki góð hugmynd að við séum að fást við mikilvæg gögn í tölvuverum og passa uppá að upplýsingaveitur sem eiga að þjóna alþjóðasamfélaginu virka. Okkur skortir fagmennsku, skipulagshæfni og framtíðarsýn. "Þetta reddast" virkar ekki í flóknari atvinnuvegum, sem og tölvugeiranum.

Það er því etv. betur viðeigandi að Íslendingar sjá um að selja rafmagn fyrir álbræðslu og pólverjar bræða ál í þeim störfum sem skapast. Þetta verð sem við fáum fyrir rafmagnið getum við svo notað til að borga skuldir óreiðumannavinahóps Sjálfstæðisflokksins.

Einn svartsýnn og deprimeraður. (og engan skal undra)

tommi (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 22:51

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kosturinn við gagnaver er að þau þurfa miklu minni orku hvert um sig en álverin, sem verða að vera minnst 340 þúsund tonn til að vera arðbær.

Ég er ekki talsmaður þess að gagnaver verði svo stór að þau noti jafn mikla orku og risaálver, heldur þess að hægt sé að fá fram ávinning í atvinnusköpun án hinna gríðarlegu fórna sem hinn "orkufreki iðnaður" hefur í för með sér, samanber nafnið "orkufrekur iðnaður", sem er mest orkubruðl sem mögulegt er.

Ómar Ragnarsson, 16.8.2009 kl. 01:56

10 identicon

Fagna ber því að nýir atvinnumöguleikar skjóta upp kollinum og breikka undirstöður Íslensks efnahagslífs. Gagnaverum líka. Ég spyr mig samt áður en ég hoppa hæð mína af fögnuði; hvað þekkjum við til gaganavera? Þegar hafa komið fram athygliverðar upplýsingar hér á blogginu þínu sem slá nú heldur betur á dýrðarljómann sem þú bregður upp og grunar mann að þú hafir ekki haft fyrir því að kynna þér gagnaver ofan í kjölinn áður en þú bloggaðir, en ég kann að hafa rangt fyrir mér hvað það varðar. En þá skautaðir þú líka nokkuð léttilega fram hjá þessum alvarlegu umhverfisþáttum, umhverfispostulinn sjálfur.

Annað sem ég spyr mig er; hve langlíf svona ver verði? Tæknin breytist hratt á tölvuöld og það sem er nýjast og fullkomnast í dag hefur ný tækni leyst af hólmi á morgun. Verður þannig með gagnaverin? Ef svo hvað gera Blönduósingar við 128 hektara af gagnaverum? Byggingar sem rúma átta knattspyrnuvelli? Varla held ég að Ungmennafélag Austur Húnvetninga hafi þörf fyrir átta slíka.

Það má þó allavega segja álverum það til málsbóta að við höfum hátt í hálfraraldar reynslu af einu slíku og ekki er útlit fyrir annað en að það geti átt einhverja áratugi eftir enn.

Það kann að vera að gagnaver séu „eitthvað annað“ lausnin sem þú hefur leitað að svo lengi og þá er vel. En mér sýnist nú að full snemmt hafi verið hjá þér að lofa meyna, morguninn enn ekki komin.

Ég vona samt svo sannarlega að allir þættir varðandi gagnaver reynist hagkvæmir, líftíminn verði langur og að því gefnu þá verði slík reist hér. En það er ekki sannfærandi að falla fram í lotningu í hvert sinn sem einhver frétt um að einhver ætli að gera eitthvað einhversstaða birtist og hrópa; Sagði ég ekki! Þarna er þetta eitthvað annað!

Ég minni í því sambandi á svipaða færslu hér fyrr í sumar en þá mærðir þú annað ver sem allt átti að leysa eða fiskverksmiðju Bakkavararbræðra með 750 störf.

Hvernig líður því máli annars Ómar?

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 01:59

11 identicon

Ég er soldið hræddur um að Ómar hafi hér fallið í ,,bara eitthvað annað en álver" gildruna án þess að kynna sér hvað þessi gagnaver eru.

Gagnaver er hægt að staðsetja á Íslandi vegna þess að það skiptir ekki máli hvar gagnagrunnarnir eru staðsettir...það er hægt að nálgast gögnin hvaðan sem er í heiminum. Þessi staðreynd gerir það einnig að verkum að það eru mjög fá störf sem verða til á Íslandi í tengslum við þessa starfsemi. Gagnaverunum er meira og minna stjórnað erlendis frá og aðeins örfáir starfsmenn verða hér á landi. Case in point....Verne byrjaði árið með 4 starfsmönnum. Í dag starfar þar einn starfsmaður og annar í verktöku í 50% starfi. Öllu er stjórnað frá Bandaríkjunum og þeir eru að innrétta yfirgefin hús uppá velli fyrir starfsemina.

Gagnaverin eru því nánast það sama og flytja orkuna úr landi....lítill sem enginn virðisauki verður eftir á Íslandi.

Annað dæmi....stórtölvuvinnsla á vegum norrænna háskóla sem var fjallað um í fréttum í vor. Háskólarnir ætluðu að flytja tölvurnar til Íslands og það eina sem Íslendingar áttu að leggja til á móti var ókeypis rafmagn!!!

Í blöðunum um helgina var fjallað um stórkostleg áform um uppbyggingu á gagnaverum sem áttu að vera á stærð við 10 fótboltavelli!! Hvar er umhverfisvitundin Ómar! Það verður algerlega ómetanlegt og einstakt landsvæði á stærð við 10(!!) fótboltavelli sem hverfur undir skemmur sem innihalda vélbúnað sem er fullur af þungmálmum á borð við kadmíum og cesíum og góðmálmum á borð við gull og silfur og þarf að farga að notkun lokinni eða endurvinna með aðferðum sem kalla á gífurlega mengun.

Má ég þá frekar biðja um álver....álverðið er komið í 2000 dollara tonnið!! 

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 18:21

12 identicon

Það getur vel verið að þetta sé allt satt og rétt sem sagt hefur verið hér um umhverfisáhrif þess að framleiða og síðar farga tölvubúnaði. Það er samt alltaf verið að vinna í umbótum á því sviði sem felast í notkun á öðrum efnum sem eru vænlegri til endurvinnslu. En mér finnst það dálítill skortur á heildarsýn að stilla þessu upp við hliðina á álveri og segja "sko, þetta er alveg jafn glatað!" vegna þess að öll umhverfisáhrif álvinnslu eru á margföldum skala á við gagnaverin. Þá er ég að tala um heildarferlið frá báxítvinnslunni í námunum, flutningunum á hráefnin yfir hálfan hnöttinn, orkufrekri vinnslunni á Íslandi með þeim eiturefnum sem losuð eru í loft og vatn þar og svo flutningi álsins um langan veg á markaðina. Já og svo að lokum þá staðreynd að lítið af álinu skilar sér til endurvinnslu þegar líftíma afurðanna lýkur. Það er ekkert samanburðarhæft í þessu við framleiðslu og síðan förgun á tölvubúnaði þó að það sé auðvitað vandamál sem þarf að takast á við líka. Ef maður teygir sig svona langt til þess að meta umhverfisáhrif ólíkra atvinnugreina þá komumst við einfaldlega að því að það er engin atvinna án umhverfisspjalla, því miður. Hvað ætli það sé mörgum þúsundum tonna af steinolíu brennt í heiðhvolfinu til þess að koma erlendum ferðamönnum til Íslands á hverju ári? Ætli það sé ekki meira sóað af óendurnýjanlegum auðlindum jarðar á þeim vígvelli frekar en í framleiðslu á tölvudóti fyrir gagnaver Húnvetninga.

Störfin eru ekki mörg en þó fleiri pr. megawatt en tíðkast í álverunum.

Bjarki (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 15:27

13 Smámynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson

Þegar verið er að velta upp hugmyndum um atvinnuþróun þá er ósanngjarnt að ætlast til þess að menn séu með á takteinum alla kosti og galla hugmyndarinnar. Vissulega voru spenntir fyrir möguleikum gagnavera en það eru bara engir kostir sem eru fullkomnir. Í stað þess að gera lítið úr þeim sem koma með hugmyndir þá er betra að koma saman og finna galla og kosti hugmyndanna og vega þá og meta. Gunnar bendir t.d. á að ef við komum upp gagnaveri þá þurfum við að koma okkur upp endurvinnslustöðum sem geta tekið við tölvubúnaði úr gagnaveri. Góð viðbót og bætir þar að auki við störfum hér innanlands.

Þó svo að ég sé ekki alltaf sammála Ómari og skoðunum hans þá tek ég ofan fyrir honum og hans baráttu. Mig langar líka til að benda á að Ómar er einn af þeim fáu sem hafa komið með tillögur að verkefnum í stað álvera.

Jónas Yngvi Ásgrímsson, 17.8.2009 kl. 16:58

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég byggi það sem ég segi um gagnaver á ítarlegri yfirferð yfir þau mál á fyrsta alvöru fundinum sem haldinn var um þau á útmánuðum 2007. Þar kom fram að enginn útblástur væri frá þeim en í honum felast aðal umhverfisáhrif álvera.

Komi í ljós að þær upplýsingar, sem hingað til hafa verið teknar trúanlegar, hafi verið rangar að hver orkueining skili mun fleiri störfum í gagnaveri en í álveri, væri gaman að fá nánar að vita um það,

Ómar Ragnarsson, 18.8.2009 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband