Gott mál að fegra grafreitinn.

Þegar myndin "Örkin" verður sýnd mun fólk fyrst sjá fyrir alvöru hvað hvilir undir þeim grafreit náttúrdjásna og verðmæta sem sökkt hefur verið í hið auruga Hálslón.

Ég hef að undanförnu fylgst með gerð útilistaverksins Hringiðu og litist vel á.

Ekki veitir af að reyna að ganga eins vel frá og unnt er eftir það umhverfislega ódæðisverk sem framið var þegar Hjalladal var sökkt.

Þetta minnir mig á mögnuð ummæli hins ógleymanlega tannlæknis, Hauks Clausens heitins, þegar gamall maður hikaði við að borga honum mikla peninga fyrir það að láta gera almennilega við tennur sínar.

Haukur sagði: "Þetta er tilboð sem þú getur ekki hafnað, að ég taki kjaftinn á þér þannig í gegn að þú getir smælað framan í heiminn það sem eftir er í stað þess að bæði kveljast og vera þér til háborinnar skammar hvern einasta dag ."  

"Ég á kannski skammt eftir ólifað", stundi sá gamli, "og hvers vegna ætti ég þá að fara að eyða síðustu fjármunum mínum í þetta?

"Jú," svaraði Haukur, "þú getur allavega huggað þig við það að verða fallegt lík."  

Gamli maðurinn hafði ekkert um það að segja hvað hann yrði gamall og um var að ræða óhjákvæmileg ævilok hans.

Íslendingar höfðu hins vegar allt um það að segja hvort hvort Hjalladalur fengi að lifa eða yrði drekkt. Þess vegna er svo erfitt að hugga sig við það að þetta svæði "fallegt lík" því að lifandi hefði svæðið innan við Kárahnjúka boðið upp á margfalt meiri náttúrufegurð og útivistarmöguleika í einstæðum listaverkasal Jöklu, sem hefur verið drekkt í drullu.   


mbl.is Hringiða við Hálslón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú hefur furðulega kímnigáfu Ómar. Að kunna að meta þennan aulabrandara tannlæknisins.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 14:52

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, Íslendingar höfðu einmitt allt um það að segja, hvort Hjalladalur yrði kaffærður eða ekki. Álit þjóðarinnar og Alþingis var alveg ljóst í þeim efnum.

Útivistarmöguleikarnir á svæðinu eru meiri í dag en fyrir virkjun.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.8.2009 kl. 15:16

3 Smámynd: Samúel Úlfur Þór

Ég er nú ekki sammála með að útivistamöguleikarnir séu þarna meiri eftir virkjun en fyrir virkjun. Mér vitanlega hefur landsvirkjun eignað sér ýmsa slóða og vegi þarna í kring og ekki má almenningur lengur aka þessa vegi. Hvort það hafi eitthvað breyst síðan 2007 veit ég ekki. Nóg var af möguleikum til að ferðast og skoða á þessu svæði áður en því var sökkt í leirinn... Þó þetta svæði hafi vissulega verið svolítið "falið" fyrir almenningi.

kkv, Samúel

Samúel Úlfur Þór, 22.8.2009 kl. 15:54

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þarna voru engir vegir áður nema seinfærir slóðar fyrir jeppa að Snæfelli. Landsvirkjun lagaði þá slóða töluvert þegar fyrirtækið rannsakaði svæðið fyrir um 20 árum síðan. Landsvirkjun hefur gert alla vegi þarna og þeir eru öllum opnir, svo framarlega ekki sé hætta vegna vinnu við lokafráganginn.

Í dag er vegur bundin slitlagi að Kárahnjúkum og hann hefur verið öllum opinn frá upphafi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.8.2009 kl. 16:15

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þjóðin fékk aldrei að kjósa um Kárahnjúkavirkjun. Tillaga VG um þjóðaratkvæði var fellt á þingi 2003.

Einn þingmaður sagði að það mætti alls ekki gerast að þjóðaratkvæði færi fram um þetta samhliða Alþingiskosningunum því að þá myndi Kárahnjúkamálið skyggja á önnur mál.

Skrýtin lýðræðisást, þetta.

Enn og aftur láta menn eins og að það sé útllokað að skapa hæfilegt aðgengi að náttúruperlum nema eyðileggja sem mest af þeim fyrst.

Í öllum þjóðgörðunum 25 sem ég skoðaði erlendis í tengslum við gerð myndina "Á meðan land byggist" var skapað aðgengi án atbeina virkjunaraðila og menn gláptu á mig þegar ég sagði þeim að á Íslandi væri það talin forsenda fyrir slíku að virkja á svæðinu.

Ómar Ragnarsson, 22.8.2009 kl. 16:59

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fellst ekki á að hreinskilin og beinskeytt orðaskipti þess magnaða mannvinar og velgjörðamanns margra, Hauks Clausen, hafi verið neinn "aulabrandari."

Haukur var þar að auki enginn auli í neinu sem hann tók sér fyrir hendur eins og dæmi frá ævi hans sanna.

Ómar Ragnarsson, 22.8.2009 kl. 17:02

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það talar engin á Íslandi, mér vitanlega, um að ekki sé hægt að skapa góðar samgöngur í óbyggðum, nema virkjað sé. Víðast hvar er það bara ekki raunhæft, og alls ekki á Kárahnjúkasvæðinu. Það væri pólitískt sjálfsmorð fyrir stjórnmálaflokk að eyða miklum fjármunum í slíkt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.8.2009 kl. 18:54

8 Smámynd: Benedikt V. Warén

Ómar, þjóðin fékk ekki heldur að kjósa um ESB, sem er þó langt um stærra mál.

Benedikt V. Warén, 22.8.2009 kl. 22:30

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það hefði verið nauðgun á lýðræðinu ef kosið hefði verið um Kárahnjúka þegar áróðursbombur öfganáttúruverndarsinna dundu á þjóðinni. Um 2/3 hlutar þjóðarinnar voru á móti framkvæmdunum á þeim tíma en dæmið snerist fljótlega við þegar almenningur áttaði sig að ekki var allt sem sýndist í málflutningi verndarsinnanna.

Þjóðaratkvæðagreiðslur er hægt að misnota herfilega.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.8.2009 kl. 22:37

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Þjóðaratkvæðagreiðslur er hægt að misnota herfilega." "Nauðgun á lýðræðinu."

Dásamlegar setningar hjá þér, Gunnar minn, hrein gullkorn.

Gaman að sjá álit þitt á því beinasta lýðræði sem hægt er að hugsa sér. Fólkið má ekki ráða sjálft, heldur verður að hafa vit fyrir því.

Ómar Ragnarsson, 23.8.2009 kl. 00:10

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú skilur þetta ekki, sé ég.

Ef kjósa á um kosti og galla virkjanaframkvæmda, þá þurfa að liggja fyrir upplýsingar um kosti og gallana. Hver á að veita þær upplýsingar? Öfga-náttúruverndarsinnar, sem hika ekki við að notast við blekkingar og ýkjur? Samtök sem svífast einskis og telja réttlætanlegt að halla réttu máli, af því ófæddar kynslóðir eiga það skilið?

Það íróníska við frasann frá ykkur um ófæddu kynslóðirnar, væri auðvitað að þær virkjuðu þetta allt saman án þess að blikka auga, þegar við erum komnir undir græna torfu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2009 kl. 06:17

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Opiberir aðilar gætu ekki rekið "kosningabaráttu í þjóðaratkvæðagreiðslu af þessu tagi. Opinberir aðilar myndu varla voga sér að fara með staðreyndavitleysur í slíkri kosningabaráttu. Opinberir aðilar myndu sennilega gefa út umhverfismatið í einhverskonar bæklingsformi. Umhverfissamtök geta hinsvegar hagað sér með eins ábyrgðarlausum hætti og þeim þóknast og fengju jafnvel ferfallt húrra fyrir vikið frá "kjósendum" sínum. Fylgjendur þeirra munu ekki refsa þeim fyrir áróðursbrögð, jafnvel þó rangt sé haft við.... allt fyrir málstaðinn.

Eitthvað er nú brogað við lýðræðið þegar ýkjur og bull hafa vinninginn. Það kalla ég nauðgun á lýðræðinu og misnotkun.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2009 kl. 06:32

13 identicon

Gunnar nú hljómar þú hreinlega KJÁNALEGA. Hvernig dettur þér í hug að setja á prent að hægt sé að misnota þjóðaratkvæðagreiðslur herfilega og að þær séu nauðgun á lýðræðinu?

 Með því að halda svona fram ertu að fullyrða að Íslendingar séu fávitar upp til hópa sem ekki geta greint kjarnann frá hisminu (öfgarnar frá staðreyndum) auk þess sem þú ert að mínu mati að ofmeta stórlega slagkraft ÖFGAnáttúruverndarsinna og þá á sama tíma að venmeta slagkraft ÖFGAframkvæmdasinna, ÖFGAvirkjunarsinna og öfgaAUSTFIRÐINGA. (ákvað að nota orðið "öfga" við alla þessa hópa þar sem þín skilgreining er greinilega að þeir sem hafa skoðun á málum flokkist sem ÖFGAmenn).

Hvað finnst þér þá um þá misnotkun á þjóðaratkvæðagreiðslu (Alþingiskosningum) að ráðast í framkvæmd sem samkvæmt öllum könnunum á þeim tíma naut ekki fylgis nema minni hluta þjóðarinnar en hægt var að hamra í gegn á þingmeirihluta?

Að lokum langar mig að vitna í þin orð: "Ef kjósa á um kosti og galla virkjanaframkvæmda, þá þurfa að liggja fyrir upplýsingar um kosti og gallana." Þetta er nefnilega algjörlega kjarninn sem þarf að vera í allri umræðu um virkjunarframkvæmdir.  UPPLÝSINGAR UM KOSTI OG GALLA ÞURFA AÐ LIGGJA FYRIR, fyrr er ekki hægt að taka upplýsta ákvörðun, hvorki á þingi né í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er nefnilega eitthvað brogað við lýðræðið þegar ákvarðanir eru teknar út frá ófullnægjandi upplýsingum og á það jafnt við u: "þegar ýkjur og bull hafa vinninginn" og þegar aðeins er sagður hálfur sannleikurinn.

Er svo ekki rétt að reyna að halda umræðum um svona mál á einhverjum vitrænum grunni í stað upphrópana um nauðganir, öfgar og misnotkun, jafnvel þó menn séu ekki sammála öllu sem fram kemur.

Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 08:07

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ástæðan fyrir því að ég nota orðið "öfga-náttúruverndarsinni", er sú að ég tel að nánast allir Íslendingar séu náttúruverndarsinnar, en aðeins lítill minnihluti er á sömu skoðun og forystufólk og talsmenn þeirra umhverfissamtaka sem starfa á Íslandi.

Þegar óróður var hvað harðastur gegn Kárahnjúkum, þá sýndu skoðanakannanir að um 2/3 þjóðarinnar var á móti framkvæmdunum. Ef kosið hefði verið þá um málið, þá hefði það verið fellt. Stjórnvöld gerðu lítið sem ekkert til að halda úti áróðri með framkvæmdunum. Mikill meirihluti alþingismanna (tæp 90%) voru með framkvæmdunum, eftir að hafa kynnt sér þær gaumgæfilega. En þingmenn eru mis fastir fyrir gegn háværum þrýsti og minnihlutahópum og þrátt fyrir að vera vel upplýstir, þá voru afar fáir sem vildu blanda sér í opinbera umræðu um málið.

Þegar upplýsingar um málið birtust smátt og smátt á tiltölulega löngum tíma, þá fækkaði þeim sem trúðu áróðri umhverfissamtaka og þegar framkvæmdir hófust var góður meirihluti þjóðarinnar fylgjandi framkvæmdunum.

 Er það merki um fagurt lýðræði þegar linnulausum bull áróðri er dælt yfir þjóðina rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hefur svo úrslitaáhrif á niðurstöðu kosninganna? Það var einmitt nákvæmlega það sem gerðist í Hafnarfirði þegar stækkuninni í Straumsvík var hafnað með örfáum atkvæðum. Daginn fyrir kosningar var bæklingur borinn í öll hús í Hafnarfirði með rakalausum þvættingi. Opinberir aðilar sem tala vildu fyrir málinu, gætu aldrei leyft sér slík vinnubrögð.

Þjóðaratkvæðagreiðsla getur auðveldlega snúist upp í andhverfu lýðræðisins í sumum málum. Náttúran er ekki klippt og skorin í flokka: "þetta má en hitt ekki". Í slíkum tilfinningamálum getur eitt óheiðarlegt áróðursbragð rétt fyrir kosningar, gjörbreytt stöðunni. Það kalla ég að nauðga lýðræðinu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2009 kl. 11:51

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allir Íslendingar eru náttúruverndarsinnar, segur þú, Gunnar minn.

Og þá þarf ekki að ræða þessi mál frekar. Þess vegna getur slík þjóð ekki gert neitt annað en að vernda náttúruna með því að umturna henni með virkjanaframkvæmdum.

Náttúruverndarþjóðin tók Rauðhólana í nefið, gott mál það.

Náttúruverndarþjóðin vildi sökkva öllum Þjórsárverum upp úr 1960.

Náttúruvendarþjóðin sótti það fast að veita Skjálfandafljóti í Kráká og sökkva Laxárdal í drullu um 1970.

Náttúruverndarþjóðin verndaði stórbrotin náttúruundur Hjalladals með því að sökkva honum í drullu.

Náttúruverndarþjóðin vill endilega að ekkert jarðvarmasvæði á Reykjanesskaga verði látið óvirkjað.

Náttúruverndarþjóðin vill orkustefnu sem krefjast mun virkjana allra háhitasvæða og stórfljóta landsins, þeirra á meðal á Torfajökulssvæðinu og í Kerlingarfjöllum.

Náttúruverndarfyrirtækin Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun hafa þegar lagt inn umsóknir um þetta sem tryggir að þau geti keppt um það að koma þessu í framkvæmd.

Náttúruverndarsinninn Kristinn Pétursson vill að Jökulsá á Fjöllum verði virkjuð til að minnka umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar og á sér vafalaust mörg skoðanasystkin.

Náttúruverndarþjóðin stefnir ótrauð að því að stúta Dynk, Gljúfurleitafossi og Kjálkaversfossi í Þjórsá og sökkva Kýlingum og stóru svæði við Landmannalaugar.

Náttúruverndarþjóðin vill hjálpa Bandaríkjamönnum til þess að þeir geti varðveitt jarðhitann og vatnsaflið í Yellowstone án þess að virkja einn einasta hver eða sekúndulítra af vatsnafli.

Það gerir náttúruverndarþjóðin með því að virkja í staðinn á mun verðmætari hliðstæð svæði á Íslandi.

Náttúruverndarþjóðin vill virkja Jökulsárnar í Skagafirði og Skjálfandafljót. Flúðasiglingar í Skagafirði eru ekki mikils virði.

Nátturuverndarþjóðin óttast að erlendir ferðamenn muni eyðileggja íslenskar náttúruperlur og vill því vera fljót til að umturna þessum svæðum fyrst með virkjunum.

Náttúruverndarþjóðin getur auðvitað ekki gert neitt rangt í náttúruverndarmálum. Þess vegna er núverandi virkjanastefna rétt og getur ekki verið annað.

Náttúruverndarþjóðin verður að gera þetta því að að afkomendur hennar munu hvort eð er gera það.

Íslendingar eru miklir frelsisunnendur. Þess vegna var sú stefna rétt að frelsið væri óheft þegar bankasápukúlan blés upp.

Stjórnendur Sovétríkjanna voru miklir jafnréttissinnar og friðelskandi. Kommúnisminn byggðist á þessu tvennu og Friðarverðlaun Lenins voru sönnun þessa.

Þess vegna var óhugsandi að þeir gætu gert neitt sem væri rangt í mannréttindamálum eða á hernaðarsviðinu.

Það voru friðelskandi kristnar þjóðir sem stóðu fyrir tveimur heimsstyrjöldum á síðari öld. Er það því bara ekki lýgi að þær hafi verið háðar?

Ómar Ragnarsson, 23.8.2009 kl. 19:43

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mikið af þessu eru nú ýkjur Ómar minn.

En hvað er "alvöru" náttúruvernd? Að gera þetta harðbýla land óbyggilegt vegna ofurástar á hverri þúfu? Er það gildismatið sem við eigum að hafa að leiðarljósi?

Þegar ég fæddist voru íslendingar að mig minnir um 160 þúsund. Lífsafkoman var ein sú fábrotnasta sem þekktist í hinum vestræna heimi, en hún dugði samt þokkalega þá, að hluta til vegna fámennisins. Við vorum áratugum á eftir nágrannaþjóðunum í iðnvæðingu, ferðaiðnaði og nánast öllu öðru en fiskveiðum.

Nú er þjóðin tvöfalt fjölmennari og við höfum þurft að horfa í kringum okkur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2009 kl. 22:33

17 identicon

Gunnar það er rétt sem þú segir að þjóðinni hefur fjölgað og við höfum þurft að horfa í krinugm okkur, en höfum við í raun HORFT Í KRINGUM OKKUR?

 Ég held því miður að það sé meinið að það höfum við ekki gert, heldur nær eingöngu horft í EINA ÁTT og gleymt að horfa í kringum okkur eftir öðrum og fjölbreyttari leiðum. Maður þarf ekki annað en að líta til frænda okkar Dananna til að sjá að það er hægt að komast áfram og skapa störf og verðmæti án þess að ganga stöðugt á náttúruauðlindir, en jafnframt tryggja lífskjör sem eru með því besta sem gerist í  heiminum.

Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 12:49

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvaða náttúruauðlindir geta Danir gengið á?? Þeir hafa engar efnislegar náttúruauðlindir en þeir hafa annað sem við Íslendingar höfum ekki og það er staðsetningin. Að vísu hafa þeir auðvitað landbúnaðinn, fiskveiðar í Norðursjó og lítlsháttar olíu.

Kaupmannahöfn hefur verið um aldir miðstöð viðskipta í Norður-Evrópu. Þeir hafa því langa hefð fyrir því að þurfa að bjarga sér án náttúruauðlinda eins og við Íslendingar höfum þurft að gera.

Iðnaður er enn að slíta barnsskónum á Íslandi og viðskiptasnilldin okkar fór nú eins og hún fór. Stóriðjan hér er alls ekki eina svarið sem við höfum til bættra lífskjara, en hún er mjög góður grundvöllur fyrir "eitthvað annað". Þegar álverið á Bakka og í Helguvík verða komin á koppinn þá verður kominn tími til að staldra við í þeim geira.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.8.2009 kl. 13:19

19 identicon

Það er einmitt málið Gunnar, þeir hafa ekki náttúruauðlindir en geta samt haldið uppi lífsgæðum fyrir borgara sína sem teljast ein þau allra bestu í heiminum. Það er nákvæmlega það sem ég var að benda á, ef maður horfir ekki bara í eina átt (virkjanir og stóriðja) þá er hægt að ná ótrúlega langt með því að virkja mannvitið.

Ég vil samt endilega taka fram að ég er á þeirri skoðun að á Íslandi eigi menn að gera hvoru tveggja og ég er alls ekki á móti skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda, svo fremi nýtingin byggist á allra bestu upplýsingum um áhrifin til langs tíma litið. Ég er hins vegar algjörlega á móti náttúruauðlindanýtingu eins og þeirri sem átti sér stað við Kárahnjúka, þar sem framkvæmdin stóðst ekki umhverfismat en var samt þröngvað í gegn af stjórnvöldum með undanþáguundirskrift umhverfisráðherra.

Hjalti FInnsson (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 15:56

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hún stóðst umhverfismat eftir breytingar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.8.2009 kl. 21:45

21 identicon

Það er sorglegt að heyra öfgamannin Gunnar úthúða öllum þeim sem eru á öndverðu meiði við hann. En þessi aðferð er vel þekkt meðal öfgavirkjunarmanna, og var notuð óspart hér á Austurlandi í aðdraganda Kárahnjúkaglapræðisins, að lítilækka andstæð sjónamið með gífuryrðum og sleggjudómum. Og svo talar hann um öfgar, bull og lygar, sumum ferst  íllilega.

HStef (IP-tala skráð) 26.8.2009 kl. 17:13

22 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég reyni þó a.m.k. að færa rök fyrir máli mínu. Fer lítið fyrir því af þinni hálfu

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.8.2009 kl. 18:07

23 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Ekki hef ég athugað það en því var stungið að mér að eitt væri athyglisvert við hringiðuna við Hálslón það er að listamaðurinn hefði gleymt þeirri staðreynd að  hringiður á norðurhjára snúast í hina áttina ?

Jón Aðalsteinn Jónsson, 26.8.2009 kl. 20:51

24 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Listamaðurinn sagði frá því í fréttunum að margir kollegar hans væru ósáttir við hana fyrir að taka þetta verk að sér.

Getur það virkilega verið að andstæðingar þessarar framkvæmdar leggi fæð á þá sem voga sér að vinna fyrir Landsvirkjun? Þurfa listamenn sem ekki vilja samþykkja andstöðu við virkjunina að sitja undir skoðanakúgun og einelti?

Neeeeei... þannig haga þeir sér varla

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.8.2009 kl. 23:28

25 identicon

Ef það eru rök að segja alltaf, að þeir sem hafa aðra skoðun en þú og þá auðvitað ranga,: að þeir bulli, ljúgi, ýkji og séu öfgafullir,  þá eru ansi rökfastur. Þú virðist eiga bágt með að viðurkenna  aðra lifsýn heldur en þína, virkar  þröngsýnn einstefnuöfgamaður sem kemur alls ekki  auga á  fegurð  landsins, sjáandi blindur eins og margir ofsaöfgavirkjunarsinnar eru.

HStef (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 18:28

26 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hef aldrei gagnrýnt þá sem finnst að ekki hafi mátt fórna því sem fórnað var við Kárahnjúka. Sú skoðun á fyllilega rétt á sér.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.8.2009 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband