26.8.2009 | 20:52
Skammtímaminnið er lúmskt.
Sá málflutningur Maradona er hæpinn að vegna þess að fólk hafi valið hann besta knattspyrnumann allra tíma hljóti hann að vera það. Mýmörg dæmi og sum þeirra nýleg eru um það að í vali á bestu mönnum á hverju sviði nái minni flestra þeirra, sem velja, skammt aftur í tímann.
Ég skal nefna tvö dæmi.
Fyrir nokkrum árum var raðað upp í stórri skoðanakönnun bestu íþróttamönnum Íslands á liðinni öld.
Röðin kom ekki á óvart að mörgu leyti. Ekki var hægt að ganga fram hjá Silfurmanninum Vilhjálmi Einarssyni, sem á elsta frjálsíþróttamet Íslands og jafnaði gildandi heimsmet þegar hann setti það.
En annað vakti athygli mína. Jón Arnar Magnússon lenti við toppinn enda hafði hann einu sinni komist í hóp tíu bestu tugþrautarmanna heims á afrekaskránni og orðið tólfti á einum Ólympíuleikum.
Hins vegar var Örn Clausen talinn vera númer fjórtán. Samt var hann þrú ár í röð einn af þremur bestu tugþrautarmönnum heims á afrekaskránni og fékk silfur á EM 1950 en hefði fengið gull ef keppt hefði verið í samræmi við nýja stigatöflu, sem gilti reynar á heimsafrekaskránni þetta ár þótt hún gerði það ekki á EM.
Örn var meiddur á OL 1952 en aðeins 19 ára gamall varð hann tólfti á ÓL í London 1948.
Örn er eini Íslendingurinn sem hefur átt heimsmet í frjálsíþróttagrein, þ. e. 1000 metra boðhlaupi.
Í landskeppni við Dani og Norðmenn 1951 var Örn langstigahæsti keppandinn og réði úrslitum um það að við unnum þessar þjóðir báðar í keppninni.
Menn segja að samkeppnin hafi ekki verið eins hörð 1950 og hún var um 2000 en það nægir ekki til að útskýra hinn mikla mun á útkomunni í samanburðinum milli Arnar og Jóns Arnar.
Iðkun frjálsíþrótta hefur alltaf verið mjög almenn um allan heim og er tugþraut þar ekki undanskilin. Samkeppnin var því vissulega hörð 1950.
Hitt dæmið er enn meira sláandi og sýnir að jafnvel svokallaðir sérfræðingar eða álitsgjafar geta haft gullfiskaminni.
Í janúar 2003 bað Fréttablaðið helstu sérfræðinga okkar á sviði popptónlistar að útnefna bestu dægurlagasöngvara landsins frá upphafi.
Ekki kom á óvart að Ellý Vilhjálms og Vilhjálmur Vilhjálmsson og frændurnir Haukur og Bubbi Morthens ásamt Björk kæmust þar efst á blað.
Hitt var merkilegra að á lista tæplega 30 söngvara sem komust á blað, þeirra á meðal Jón Ólafsson og ég (!) komst söngvari að nafni Ragnar Bjarnason ekki einu sinni á blað !
Ég man að mér sárnaði þetta mjög en ég vann á þessum tíma nótt og dag við að fullgera myndina "Á meðan land byggist" og hafði því ekki tíma til að skrifa um þetta í blaðið.
Ég sagði við Ragnar þá: Láttu þetta ekki hafa áhrif á þig. Það sem einu sinni var sannanlega gott og meðal þess besta verður það aftur.
Ef ég hefði skrifað þessa grein hefði ég spurt álitsgjafana góðu:
Var það misskilningur hjá þjóðinni að á blómatíma Hauks Morthens keppti hann um hylli hennar sem vinsælasti karlsöngvarinn við Ragnar Bjarnason og hafði Ragnar betur flest árin? Var þetta bara vitleysa?
Treystið þið ykkur til að nefna söngvara sem sungið hefði betur jafnólík lög og Vorkvöld í Reykjavík, Ég er kokkur á kútter frá sandi, Ship-ohoj, Litla lipurtá, Nótt í Moskvu og Rokk og cha-cha-cha ?
Í dag kann það að virðast ótrúlegt að fyrir aðeins sex árum skyldu helstu poppsérfræðingar þjóðarinnar ekki setja þennan stórsöngvara síðustu 55 ára á blað. En nú hefur það gerst að það sem einu sinni var gott og meðal þess besta er orðið það aftur hjá Ragnari Bjarnasyni.
En aftur að sperringnum í Maradona. Hann segir að í Evrópu hafi alltaf verið settir á hann yfirfrakkar sem hömuðust í honum. Eins og það hafi ekki líka verið settir yfirfrakkar á Pele ?
Ég ætla að vísu ekki dæma um það hvor þeirra hafi verið betri, - á erfitt með að gera upp á milli þeirra, - en get þó nefnt það að Pele var fjölhæfari knattspyrnumaður vegna þess hve góður skallamaður hann var og þurfti ekki að nota "hönd Guðs".
Maradona setur ofan í við Pelé | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Einar jafnaði Ólympíumetið, en ekki heimsmetið, ef ég man rétt.
Annars eru svona listar ómarktæki hvað listamenn varðar. Sá sem er vinsæll í dag, þarf ekki endilega að vera mekilegur pappír eftir nokkur ár. Þetta er auðvitað smekksatriði.
Raggi Bjarna sagði einhverntíma við pabba minn þegar hann söng með hljómsveit Bjarna Bö (föður Ragga) að hann væri uppáhalds sönvarinn hans
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.8.2009 kl. 13:31
Vilhjálmur, átti þetta að vera
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.8.2009 kl. 16:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.