31.8.2009 | 12:12
Enginn lærir af öðrum.
Helstu stórveldi heims hafa reynt að vinna stríð í Afganistan, Bretar, Sovétmenn og nú Bandaríkjamenn. Öllum hefur mistekist af sömu ástæðu. Þetta er stórt land með einstaklega fjöllóttu og erfiðu landslagi og hentar því afar illa fyrir þann hernað sem stórveldunum gagnast best að heyja.
Hernaðarsigurinn á Írökum byggðist á elstu hernaðaraðferð í heimi. Óvinurinn hafði safnað saman herliði sínu á opnu sléttlendi þar sem yfirburðir í formi vígvéla og tækni gerðu kleift að vinna sigur á einfaldasta hátt hernaðarsögunnar, að drepa eins marga óvini og hægt var í stórorrustum.
Í Afganistan eru aðstæðar gerólíkar. Um 30 milljónir íbúa í 648 þúsund ferkílómetra landi njóta þess hagræðis að vera vanir hinu erfiða fjallalandslagi og vera á heimavelli þegar erlent stórveldi sendir þangað hermenn sem koma úr gjörólíku umhverfi og hafa hvorki vilja né getu til að aðlaga sig framandi umhverfi.
Í Afganistan getur erlenda herliðið hvergi knúið fram sigur með því að láta sverfa til stáls á afmörkuðum vígvöllum í stórorrustum. Þarna er háður skæruhernaður þar sem talíbanar eru dreifðir, liggja í launsátri, gera skyndiárásir og eru horfnir aftur á augabragði.
Afganistan hefur reynst vettvangur fyrir meting milli stórveldanna. Nú ætla Bandaríkjamenn að gera það sem reyndist Sovétmönnum um megn en nota samt um margt svipaðar aðferðir og þeir gerðu á níunda áratugnum, sem sé að ná algerum völdum í krafti yfirburða, sem felist í vígvélum og herbúnaði.
Þótt vígvélar og herbúnaður Bandaríkjamanna taki fram þeim hertólum, sem Sovétmenn höfðu, skiptir það ekki máli þegar í ljós kemur enn og aftur, að þessi herbúnaður hentar ekki til stríðs af því tagi sem háð er í þessu stríðshrjáða landi.
Yfirburðir í vígtólum dugðu ekki í Víetnam því að Vietkong hafði valið sér vígvöll sem hentaði ekki innrásarhernum.
Sama virðist vera að gerast í Afganistan.
Breyta verður um stefnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
ég er sammála síðasta ræðumanni í lang flestu atriðum í þessu bloggi. mundi samt vilja setja spurningarmerki um hvort stríðið sé ekki enn í gangi í Írak.
svona til að víkka sjóndeildarhringin hjá okkur, þá er hægt að velta fyrir sér útkomu víetnamstríðsins frekar. sumir fræðimenn tala um að í raun hafi bandaríkin unnið stríðið eða réttara sagt fengið það út úr stríðinu sem þeir ætluðu sér upphaflega. uppreisnir kommúnista eða annarra minnihlutahópa landanna í kring koðnuðu niður eða urðu aldrei nein alvöru ógn við yfirráðum bandaríkjanna á svæðinu sem eitt sinn gekk undir nafninu Indochina.
el-Toro, 31.8.2009 kl. 12:49
Það er rétt hjá þér Ómar, að hernaðaraðferðir BNA eru rangar miðað við aðstæður, en það er lítil dæmi um það að hlutinir eiga eftir að breytast. Ég hef áhuga á stríðssögu og ég hef tekið eftir því að mannkynið fór úr návígi yfir í stórbardaga og svo yfir í tæknihernað (einföldun) - en fáir (við stjórnvöld) hafa gert sér grein fyrir því að í Afganistan verður ekki hægt að sigra með tækni og nýjum vopnum. Frekar eru það upplýsingar og breytingar á mannréttindum sem gætu gert mestu breytingarnar þar í landi.
Menntun kvenna væri eitt af þessu...
Margrét Þórðardóttir (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 12:57
Ómar, situr Íslandshreyfingin bara þegjandi hjá á meðan að Samfylkingin styður sölu auðlindannan okkar til Kanada??
Baldvin Jónsson, 31.8.2009 kl. 14:10
Margrét hitti naglan svo sannarlega á hausin með breytingum á mannréttindum í landinu. en ekki má sitja við það. það þarf að bæta innviði samfélagsins s.s. atvinna, heilsugæslu, öryggi og skóla. þetta eru allt hlutir sem hefðu verið hægt að vinna í þessi ár í stað þess að eyða þessum svakalegum fjárhæðum í stríðsrekstur.
það fyrsta sem þarf að gera til að Afganistan fari að blómstra er að losna við Karzai og stríðsherrana sem sitja um hvert embættið á fætur öðru og blóðmjólka alla þá peninga aðstoð sem berst að utan. einnig mundi opíum framleiðsla minnka í afganistan til muna ef Karzai mundi fara frá völdum. því hann heldur hlífðarskyldi yfir opíum framleiðendunum, enda bróðir hans einn af aðal höfuðpaurunum í þessum viðskiptum sem sáust varla þegar Talibanar stjórnuðu landinu.....ekki það að ég hafi haft mikið gott um Talibana hreifinguna að segja.
el-Toro, 31.8.2009 kl. 14:39
Baldvin, Veistu af hverju var klappað fyrir Ómari og félögum á síðasta landsfundi samfylkingarinnar???
hérna fann ég littla frétt á heimasíðu samfylkingarinnar sem ég gluggaði í.
http://www.samfylkingin.is/Fr%c3%a9ttir/ArticleType/ArticleView/ArticleID/139/
el-Toro, 31.8.2009 kl. 14:53
Þetta snýst ekkert um að vinna nein stríð heldur að teygja lopann í þeim til hins ítrasta enda stríð og hergagnaframleiðsla risabísness og stóreigendur pólitíkusa og herir jafnframt risavaxin atvinnuleysisgeymsla þannig að hagsmunir hernaðarmaskínunnar og pólitískra eigna hennar fara alveg saman. Opinberi áróðurinn sem notaður er til að ljúga þetta fram er síðan algjörlega einskis virði. Það er guð og föðurlandið og frelsi og lýðræði en alltaf hefur það samt snúist um efnahagsleg atriði í gegnum söguna, fæðu og orku og auðlindir. Það hefur alltaf verið auðveldara að ræna aðra en strita sjálfur fyrir auðnum og hafa hin skrautlegustu sjortkött verið notuð til að koma því í kring.
Áttunda áratugnum komust sósíalistar til valda í Afganistan og hófust strax handa um að brjóta upp einokunarmafíu landeigenda og dreifa eignum þeirra til landslýðsins þannig að hann gæti bjargað sér. Þetta tiltæki hefur ítrekað endað með hroðalegum hörmungum frá latnesku Ameríku til Asíu þegar CIA og bandar. herinn hefur skorist í leikinn fyrir einokunarmafíu sína í pólitísk-viðskipta-hernaðarmaskínunni. Það eru mjög svo gildar ástæður fyrir því að sérstök heilaþvegin gögn þessarrar maskínu hér á landi hafa hamrað á því að við eigum ekki að pæla í hinu liðna heldur ávallt horfa fram á veginn.
Baldur Fjölnisson, 31.8.2009 kl. 19:06
Sósíalistastjórnin þarna var síðan að hruni komin í lok áttunda áratugarins og Rússarnir gripu til þess ráðs að hernema landið til að reyna að halda henni gangandi. Þeir tóku auðveldlega flugvöllinn í Kabúl en aðeins þremur dögum seinna var mergð af skriðdrekum mætt á svæðið. Hvernig gat það gerst? Leiðin frá Sovétríkjunum var jú og er einstaklega fjöllótt og ógreiðfær. Jú, á sjöunda áratugnum lögðu bandarísk og sovésk fyrirtæki afbragðs vegi þarna í gegn með fullkomnum brúm og allt hentaði þetta fullkomlega þungaflutningum. Þegar þið gerið ykkur grein fyrir því að þið vitið ekkert umfram það sem áðurnefnd mafía vill að þið vitið þá vonandi skiljið þið hvers konar viðskiptadrifið sjónarspil er í gangi.
Baldur Fjölnisson, 31.8.2009 kl. 19:21
Ég ætlaði að fara að tjá mig um þetta en sé að Baldur er búinn að segja það sem mér býr í brjósti.
Takk fyrir góða færslu, Ómar of ágæta athugasemd, Baldur.
"Þetta snýst ekkert um að vinna nein stríð heldur að teygja lopann í þeim til hins ítrasta enda stríð og hergagnaframleiðsla risabísness og stóreigendur pólitíkusa og herir jafnframt risavaxin atvinnuleysisgeymsla þannig að hagsmunir hernaðarmaskínunnar og pólitískra eigna hennar fara alveg saman."
Ég hef grun um að Bandaríkjamenn hafi lítinn áhuga á að ná "algerum völdum á þessu svæði. Það væri slæmt fyrir hergagnaframleiðendur...
Hörður Þórðarson, 31.8.2009 kl. 19:26
Bandar.menn eru frægir fyrir að tapa stríðum sem þeir "vinna". Og það er reglulega farið úr einu svindlinu í annað ef við skoðum söguna. Um miðjan áttunda áratuginn skipti td. bandar. herinn alveg um felubúninga, hætti með frumskógamynstrið og tók upp sandgulan lit sem betur hentar í eyðimörkum.. Síðan tók við ásókn í olíu sem Allah hafði staðsett undir landsvæðum fylgismanna sinna, fáránleg terrorhollywoodsjó og tryllingslegar og algjörlega siðlausar stríðslygar. Þannig að þið ættuð að sjá mynstrið í þessum viðskiptum.
Baldur Fjölnisson, 31.8.2009 kl. 19:36
Í fullkomnum heimi myndu hergagnaframleiðendur fylla allar vörugeymslur af vopnum og síðan hætta starfsemi þegar ekki væri hægt að viðhalda þeirri bólu lengur. En því miður hefur það ekki gengið þannig fyrir sig, þvert á móti. Sannleikurinn er nefnilega einskis virði á þeim vettvangi og allt gert til að koma fram sínum hagsmunum og sérhannaðar og heilaþvegnar pólitískar skækjur notaðar til að villa um fyrir lýðnum. Og við höfum hér heima svo sem orðið fyrir barðinu á skyldri lygamaskínu sem hefur stolið landinu og flutt það út og verið varin á meðan og er enn af keyptum leppum í pólitík og ruslveitum. Þetta er sama mentalítetið, sama hugmyndafræðin. Við ættum að vera farin að átta okkur á aðferðafræðinni á hinum ýmsu sviðum hvort sem um er að ræða hergagnaframleiðslu, bóluefni eða skuldapappíraskím.
Baldur Fjölnisson, 31.8.2009 kl. 19:56
Baldvin spyr um stefnu Íslandshreyfingarinnar varðandi sölu auðlinda okkar til útlendinga.
Svarið er einfalt. Frá upphafi, í gegnum kosningabaráttuna 2007 og í mörgum samþykktum Íslandshreyfingarinnar síðan, - líka eftir að hún gekk til liðs við Samfylkinguna, - hefur það höfuðstefnumál Íslandsheyfinginarinnar verið áréttað að ALLAR auðlindir okkar til lands og sjávar verði ávallt í öruggri eign þjóðarinnar.
Þetta hefur verið margítrekað.
Þessar samþykktir hafa ekki farið hátt vegna þess að í fjölmiðlunum fá þær einfaldlega ekki pláss.
Að undanförnu hef ég æ ofan í æ bloggað mjög ákveðið um þetta efni. Það þarf enginn að velkjast í vafa um stefnu Íslandshreyfingarinnar í þessu máli.
Ómar Ragnarsson, 31.8.2009 kl. 23:39
vel og rétt að orði komið hjá Baldri. hergagnaframleiðendur, peninga-oligorkar og olíufurstar í bandaríkjunum eru ríki innan ríkis, land án landamæra og allt þar í kring.
el-Toro, 1.9.2009 kl. 11:24
Ómar minn kæri, ég var ekki að spyrja um stefnu Íslandshreyfingarinnar. Hana þekki ég ágætlegt eftir veru mína þar.
Ég var að spyrja hvers vegna heyrist ekkert frá Íslandshreyfingunni um málið annað en stöku blogg hjá þér?
Er þetta ekki stórmál? Nógu stórt til þess að Íslandshreyfingin ræði það og sendi frá sér ályktun sem dæmi?
Baldvin Jónsson, 1.9.2009 kl. 16:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.