Allir aðilar voru orsakavaldar, mismiklir þó.

70 árum eftir að heimsstyrjöldin síðari hófst greinir menn enn á um það hverjir báru ábyrgð á því að hún hófst og hve mikla.

Hjá vesturveldunum kenna margir Nasistum og Sovétmönnum að jöfnu um það að hún hafi hafist 1. september 1939 með innrás Þjóðverja í Pólland, - eða fyrir réttum 70 árum.

Í Sovétríkjunum var alltaf talað um "Föðurlandsstríðið mikla" 1941-45, rétt eins og ekki hefði verið neitt stríð áður.

Förum aðeins yfir helstu ástæðurnar sem hægt er að kenna einhverjum um og sleppum þess vegna einum orsakavaldinum, sem var heimskreppan, en hana má þó kenna Bandaríkjamönnum um, öðrum fremur.

1.

Óréttlátir og óskynsamlegir Versalasamningar sem ólu á óánægju í Þýskalandi.

2.

Friðþægingarstefna vesturveldanna sem náði hámarki í Munchen í september 1938 þegar Bretar og Frakkar, án nokkurs samráðs við Sovétríkin, gáfu Hitler Súdetahéruð Tékkóslóvakíu á silfurfati, en það jafngilti því að Hitler voru færð yfirráð yfir Tékkóslóvakíu að vild hans, því að með þessum gerningi voru náttúruleg og verjanleg landamæri Tékkóslóvakíu að engu gerð.

Þessir samningar, þegar lýðræðisþjóð í Mið-Evrópu var svikin í tryggðum voru ein af þremur afdrifaríkustu ástæðum stríðsins.

Sovétmenn treystu ekki Vesturveldunum eftir að þau höfðu í augum þeirra sigað herjum Hitlers í austurátt eins og kom á daginn þegar hann tók alla Tékkóslóvakíu 15. mars 1939.

Í raun hófst hin óhjákvæmilega heimsstyrjöld þá, enda hafði styrjöld Japana og Kínverja þegar staðið síðan 1937.  

3. Rússahræðsla og tortryggni Pólverja. Það er lítið minnst á þessa ástæðu, enda voru Pólverjar verr leiknir í stríðinu en nokkur önnur Evrópuþjóð og menn hafa því mikla samúð með þeim. En Rússahræðsla þeirra gerði að engu möguleikana til þess að Rússar gætu hjálpað þeim.

Rússar voru eina þjóðin sem gat látið til sín taka beint á vígstöðvunum í Póllandi í upphafi stríðs, en það gátu þeir ekki nema senda her sinn inn í Pólland.  

4. Sú Machiavelli-pólitík Stalíns að gera bandalag við helsta óvin sinn. Ástæðan var sú að hann óttaðist að í styrjöld í bandalagi við Breta og Frakka myndi allur þungi hernaðarátakanna lenda á Rússum.

Forsenda fyrir hernaðarbandalagi Breta, Frakka og Sovétmanna var að Vesturveldin réðust inn í Þýskaland úr vestri og Sovétmenn færu inn í Pólland úr austri til að berjast við Þjóðverja.

En Vesturveldin höfðu enga sóknaráætlun tilbúna 1939 því að öll hernaðaruppbygging þeirra hafði miðast við að verjast en ekki að sækja. Þetta kom berlega í ljós veturinn 1939-40 þegar svonefnt Sitzkrieg eða Phoney War ríkti á vesturlandamærum Þýskalands og nánast ekkert var þar að gerast þar á meðan Hitler gat sent meginherinn inn í Pólland til að gjörsigra Pólverja og snúa síðan aftur til vesturs.

Stalín vantreysti Bretum og Frökkum og óttaðist að þeir myndu sitja í makindum í slíku stríði á vesturlandamærunum meðan allur þungi stríðsins og mannfall lenti á Rússum.

5. Þetta er auðvitað aðalástæðan: Adolf Hitler. Maðurinn hafði fágæta dávaldsgáfu sem sló öll vopn úr höndum þeirra sem við hann þurftu að hafa samskipti.

Bæði 1938 og 1939 fór yfirmaður þýska herráðssins á fund hans með þau skilaboð frá herráðinu að herinn myndi neita að berjast ef fara ætti í stríð og í bæði skiptin kom yfirmaðurinn öfugur út eftir að Hitler hafði valtað yfir hann.

6.

Eftirgjöf meginþorra þýsku þjóðarinnar sem leiddi hjá sér skelfilega og villimannlega kynþáttahatursstefnu Hitlers. Í raun var þetta hliðstæða friðþægingarstefnu Vesturveldanna 1935-39, - fólst í því að leiða hjá sér það sem var óþægilegt, þora ekki að horfast í augu við við ógnina eða takast á við hana. 

70 árum eftir upphaf stríðsins er til lítils að rífast enn um það hvort ástæða númer 2 eða 4 var aðalástæða stríðsins af hálfu þeirra sem urðu bandamenn 22. júní 1941.

Algengt er að segja að ef stríðið hefði hafist 1938 hefði það verið Hitler í hag, svo vanbúnir hefðu Bretar, Frakkar og Sovétmenn þá verið.

En á móti því mælir, að það var auðvitað mikill ávinningur fyrir Hitler að fá Tékkóslóvakíu á silfurfati, ekki hvað síst vegna þess að þar með komust Þjóðverjar fyrirhafnarlaust langt austur eftir álfunni og fengu sem herfang án þess að hleypa af einu einasta skoti skriðdreka- og vopnaframleiðslu Skodaverksmiðjanna. Það kom sér vel í skriðdrekainnrásinni gegnum Ardennafjöll yfir að Ermasundi í maí 1940.

Líkast til munaði það mestu fyrir Rússa að fá frest, vegna þess að Rauði herinn var í tætlum eftir hreinsanir Stalíns og ekki var hafin framleiðsla á öflugustu vopnum þeirra svo sem T-34 skriðdrekunum.

Eftir situr að langmest mannfall og tjón af völdum stríðsins í Evrópu lenti á Rússum, sem áttu meginþáttinn í því að sigra Þjóðverja þegar á hólminn var komið.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þó að ýmsir punktar hér séu ágætir er greinin í heild að mínu mati rugl.

Skýrasta dæmið um það er eftirfarandi klausa: 

"

3. Rússahræðsla og tortryggni Pólverja. Það er lítið minnst á þessa ástæðu, enda voru Pólverjar verr leiknir í stríðinu en nokkur önnur Evrópuþjóð og menn hafa því mikla samúð með þeim. En Rússahræðsla þeirra gerði að engu möguleikana til þess að Rússar gætu hjálpað þeim.

Rússar voru eina þjóðin sem gat látið til sín taka beint á vígstöðvunum í Póllandi í upphafi stríðs, en það gátu þeir ekki nema senda her sinn inn í Pólland."

Rússar létu til sín taka í Póllandi í upphafi stríðs.  Þeir hernámu þann hluta landsins sem um var samið í samningum þeirra við nazista. Þeir sendu nazistum olíu, korn og aðrar hrávöru alveg fram að þeim degi sem nazistar réðust inn í Sovétríkin.  Þeir létu nazistum í té birgðastöð fyrir kafbáta á Kolaskaga og aðstoðuðu eitt skip þeirra til að komast yfir Íshafið til Kyrrahafs, til árása á skip Bandamanna.

Vissulega var tortryggni í garð Sovétríkjanna af Póllands hálfu, enda ef til vill ekki óeðlilegt sé litið til stríðs ríkjanna 1919 til 1921.

Eftir stendur að Sovétríkín ákváðu að semja við nazista, líklega vegna þess að þeir buðu betur.  Vesturveldin buðu enda ekki upp á neina landvinninga þeim til handa, það gerðu nazistar hins vegar og supu, Pólland, Lettland, Litháen, Eistland og íbúar Bessaribíu seyðið af þeim samningi.  

Ábyrgð Sovétríkjanna er því mikil, þó að vissulega hljóti meginþungi hennar alltaf að lenda á Þjóðverjum.

G. Tómas Gunnarsson, 2.9.2009 kl. 01:32

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég nefni ekki Rússahræðslu Pólverja í ásökunarskyni. Pólverjar hafa um aldir mátt þola miklar búsifjar af hendi Rússa og Rússafælni þeirra er mjög skiljanleg og eðlileg. Ég gæti nefnt dæmi um það hvernig hún er enn lifandi í dag og ekki að ástæðulausu.

Rússafælni Pólverja 1939 var Rússum tvímælalaust einum að kenna. Það breytir því ekki að þessi sama Rússafælni kom í veg fyrir að hernaðarlega væri hægt að koma Pólverjum til hjálpar að gagni 1939. Ég sé ekki að þetta sé neitt rugl, enda get ég vitnað í ýmsa sagnfræðinga sem segja þetta sama.

Pólverjar treystu eðlilega ekki Rússum fyrir því að fara með her um land þeirra, ólíkt Frökkum, sem fengu bæði heri Breta og Bandaríkjamanna til Frakklands í báðum heimsstyrjöldunum.

Stalín hafði áreiðanlega kynnt sér "Mein Kamph" sem og allar ræður Hitlers um það þann höfuðþátt stefnu hans að skapa Þjóðverjum "lífsrými" í austri. Munchenarsamningarnir stefndu Þjóðverjum í austur og sömuleiðis áætluð herför þeirra inn í Pólland sem augljóslega stóð til ef miðað var við kröfurnar sem þeir gerðu á hendur Pólverjum.

Af sjónarhóli Stalíns stefndi í það að hertaka Póllands yrði framhald af hertöku Tékkóslóvakíu á leið Hitlers í átt til "lífsrýmisins" í austri og að þá yrðu þýskar hersveitir komnar langt inn í það land, sem hafði tilheyrt Hvíta-Rússlandi áður en Pólverjum hafði verið fengið það við stofnun póska ríkisins.

Hitler vildi gulltryggja að tveggja vígstöðva staðan úr fyrra stríðinu kæmi ekki upp. Með því að gera Stalín tilboð sem hann gæti ekki hafnað þar sem Rússar fengju drjúgt herfang með lítilli fyrirhöfn, gat hann tryggt sér hlutleysi og aðstoð Rússa og jafnframt gert sér vonir um að Vesturveldin myndu í ljósi þess hve vonlaus staðan væri þá orðin, ekki fara í stríð.

Raunar liður sex klukkustundir frá því að Bretar lýstu yfir stríði þar til Frakkar gerðu það.

Stalín vonaðist til að ef til stríðs kæmi, myndu Öxulveldin og Vesturveldin klóra augun hvor úr öðrum á sama tíma sem Rússar sætu hjá í friði og styrktu stöðu sína.

Á pappírnum voru Vesturveldin með mun stærri herafla en Þjóðverjar, - Frakkar raunar með stærsta her í heimi.

En Stalín og flestir aðrir reiknuðu skakkt, - sáu ekki fyrir hinn skjóta og auðfengna sigur Þjóðverja á Frökkum, sem fór fram úr björtustu vonum Hitlers.

Þegar við metum Munchenarsamningana og samninga Þjóðverja og Rússa 23. ágúst 1939 verðum við að hafa í huga um hvað var að velja.

Í Munchen höfðu Bretar og Frakkar um tvennt að velja:

1. Að láta sverfa til stáls og standa við skuldbindingar sínar gagnvart Tékkóslóvakíu. Það hefði kostað heimsstyrjöld þar sem engir möguleikar voru á að koma í veg fyrir hernám Tékkóslóvakíu vegna þess að engar sóknaráætlanir voru til um innrás í Þýskaland.

2. Að semja og vona að í stað þess að Hitler legði alla Tékkóslóvakíu undir sig með hervaldi léti hann sér Súdetahéruðin nægja.

Gríðarleg hræðsla við hrikalegar afleiðingar stríðs réðu því að úr því að Tékkóslóvakía var töpuð hvort eð var, var leið númer 2 valin.

Stalín átti um þrjá möguleika að velja sumarið 1939.

1. Að sitja hjá og lofa Hitler að komast næstum því hálfa leiðina frá Slesíu til Moskvu í samræmi við stefnumiðið um "lífsrými" handa hinum æðri Aríakynþætti í Mein Kamph og ótal ræðum um þörfina á því að útrýma hinum gyðinglega og barbariska bolsévisma.

2. Að fara með Sovétherinn inn í Póllandi í óþökk Pólverja og mæta Þjóðverjum austan við Varsjá, án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því frá Hitler að Rússar fengju að taka austurhluta Póllands án stríðs við Þjóðverja.

3. Að gera griðasaming við Hitler í ljósi þess að hvort eð er tækju Þjóðverjar allt eða mestallt Pólland. Ná í leiðinni yfirráðum yfir Eystrasaltslöndunum og viðurkenningu á Finnlandi sem áhrifasvæði og geta þannig unnið tíma og frið til að lappa upp á lamaðan Rauða herinn vegna hreinsananna í honum.

Báðir fyrrgreindir samningar byggðust þegar upp var staðið á óskhyggju sem horfði framhjá þeirri staðföstu ætlun Hitlers að ná því fram sem Napóleoni hafði mistekist.

Reynslan af þessu sýnir að meðan að mannkynið er ekki fullkomnara en það er verður að gera ráð fyrir hernaði og að þá nægir ekki aðeins að geta varist, heldur verður líka að vera hægt að sækja.

Það verður að gera ráð fyrir að fyrirbæri eins og Hitler geti aftur komið fram. Af því leiðir að mesta hernaðarógn heimsins stafar af kjarnorkuvopnabúrum sem geta enn eytt öllu lífi á jörðinni oftar en einu sinni.

Á fjórða áratug síðustu aldar vonuðu menn að fyrirbæri eins og Hitler og Stalín gætu ekki hafist til valda í nútíma samfélagi.

Stærstu mistökin voru að horfa fram hjá þessum möguleika og hafa engar áætlanir tiltækar til þess að bregðast við honum.

Ómar Ragnarsson, 2.9.2009 kl. 02:34

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Alan John Percivale Taylor (1906-1990) var enskur sagnfræðingur.

Taylor var vinstrisinnaður en var þó að sönnu aldrei kommúnisti. Hann gagnrýndi stefnu breskra stjórnvalda í ýmsum veigamklum málum, t.d. í utanríkismálum. Á árunum 1957-1963 var hann t.a.m. í fararbroddi í hópi þeirra , sem harðast börðust gegn nýtingu kjarnorku og kjarnorkuvígbúnaði.

Taylor skrifaði bókina "Hitler og seinni heimsstyrjöldin, var stríðið Hitler að kenna?", sem bókaútgáfan Hólar gaf út 2002. Bókin kom fyrst út í Englandi árið 1961 (The origins of the second world war) , afar áhugaverð og fróðleg bók.

Það er athyglisvert sem fram kemur í bókinni, að flestir þeirra sem málum réðu í seinni heimsstyrjöldinni skrifuðu ekki stafkrók um stríðið að því loknu.

"Þar verðum við að láta okkur nægja kjaftasögur frá annars flokks heimildarmönnum, túlkum, skrifstofumönnum í utanríkisþjónustunni og blaðamönnum, fólki sem oft vissi lítið meira en almenningur".

Einnig fer Taylor yfir orsakair fyrri heimstyrjaldarinnar og segir m.a.

"Morðið á Frans Ferdinand erkihertoga varð til þess að Austurríkismenn lýstu yfir stríði á hendur Serbum, herkvaðning Rússa til stuðnings Serbum varð til þess að Þjóðverjar lýstu yfir stríði á hendur Rússum og bandamönnum þeirra, Frökkum. Síðan neituðu Þjóðverjar að virða hlutleysi Belgíu og það varð til þess að Bretar lýstu yfir styrjöld á hendur þeim. Að baki þessum orsökum lágu hins vegar aðrar og dýpri , sem fræðimenn eru ekki enn á einu máli um." 

Ég mæli með þessari bók fyrir alla áhugamenn um heimsstyrjaldirnar á síðustu öld.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.9.2009 kl. 04:38

4 identicon

Á NRK 1 má sjá þessa dagana frábæra sjónvarpsseríu, "The WWII behind closed doors".

Þættirnir eru frá BBC og sýndir á fimmtudögum. Þar á bæ vinna menn sína heimavinnu eins og sjá mátti í fyrsta þætti, sem fjallaði um samning Ribbentrops og Molotovs.

  Varðandi eftirfarandi fullyrðingu Gunnars;  "

Það er athyglisvert sem fram kemur í bókinni, að flestir þeirra sem málum réðu í seinni heimsstyrjöldinni skrifuðu ekki stafkrók um stríðið að því loknu.

"Þar verðum við að láta okkur nægja kjaftasögur frá annars flokks heimildarmönnum, túlkum, skrifstofumönnum í utanríkisþjónustunni og blaðamönnum, fólki sem oft visslítið meira en almenningur".

Winston Churchill skrifaði ítarlega sögu seinni heimsstyrjaldarinnarí sex bindum, sem mikið er vitnað til, ásamt því að hafa skrifað "History of the english speaking people" Fyrir þessi rit fékk hann Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1953.

En þetta var auðvitað sigurvegari að skrifa sína útgáfu af sögunni.

 

 

 

Víðir Gíslason (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 08:55

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar litið er á æviágrip helstu hershöfðingja og stjórnmálamanna sem komu við sögu í heimsstyrjöldinni síðari sést að flestir þeirra skrifuðu um þátt sinn í í henni og sumir mjög ítarlega eins og til dæmis Eisenhower.

Auðvitað sáu allir sinn hlut og sinna manna frá sínum sjónarhóli og að því leyti til er bagalegt að það vanti í þetta skrif helstu forystumanna nasista, sem teknir voru af lífi í Nurnbergréttarhöldunum.

Báðar styrjaldirnar voru í raun óhjákvæmilegar vegna hins mikla vígbúnaðarkapphlaups sem var undanfari þeirra og hugarfarið sem að baki þess bjó, það er að Miðveldin og síðan Öxulveldin töldu sig bera skarðan hlut frá borði í togstreitunni um lönd og auðlindir og þurfa að rétta hann.

Vígvæðing Þýskalands á árunum 1935-40 var slík að ríkið hefði kollvarpast nema að ná undir sig löndum og auðlindum með hervaldi sem borgaði kostnaðinn.

Ómar Ragnarsson, 2.9.2009 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband