"Shit! - Hvað þetta var illa lesið!"

Svona endaði lestur fréttar á Bylgjunni núna í hádeginu um Hjálparsjóð hjartveikra barna og gamla Landsbankann. Ekki í fyrsta skipti og ekki það síðasta sem orð fara í loftið í ljósvakamiðli sem ekki var ætlunin að færu lengra.

Þetta voru ósköp saklaus mistök og einkar heimilisleg. Fjölmiðlafólk er jú bara mannlegt eins og allir aðrir og það er bara til að létta lundina að heyra svona orð koma óvart frá hjartanu.

Sjálfur lenti ég í mun verra í síðasta fréttatíma Sjónvarpsins fyrir sumarfrí 1980. Ég hafði unnið að því hörðum höndum allan daginn að skrifa fréttina um kjör Vígdísar Finnbogadóttur sem forseta Íslands en áttaði mig á því í þann mund sem ég var að lesa síðustu setninguna að ég hafði gleymt að segja frá hjúskaparstöðu forsetans. 

Emil Björnsson fréttastjóri hafði tekið alla fréttamenn í gegn hvað það varðaði að við héldum okkur við forna hefð þess efni að karlar kvæntust en konur giftust.

"Þetta er enginn vandi og einungis spurning um æfingu og vana. Munið það og æfið þið það svo að þetta verði ykkur eðlilegt, að ef talað er um karlkyn er viðkomandi kvæntur eða ókvæntur en ef um kvenkyn er að ræða er viðkomandi giftur eða ógiftur.

Ég hafði æft mig svo lengi í þessu að ég þurfti ekki neinnar umhugsunar við heldur bætti við fréttina þessari aukasetningu í lokin: "Hinn nýi forseti er ókvæntur"!  Samanber orð Emils: "Ef talað er um karlkyn er viðkomandi kvæntur eða ókvæntur en ef um kvenkyn er að ræða er viðkomandi giftur eða ógiftur."

Ég datt í þá gryfju að hafa æft mig of vel og sagði eins og vélmenni: Hinn nýi forseti (karlkyns orð) er ókvæntur."

Auðvitað varð allt vitlaust út af þessu og ekkert hægt að gera, enda næsti fréttatími ekki fyrr en eftir mánuð.

Þegar ég kom upp á fréttastofu glóðu allar símalínur og ég hafði ekki við að biðjast afsökunar á þessum arfa slæmu mistökum.

Loks var svo komið að mér fannst ég mér farið að líða eins og kínverskmum kommúnista við að játa og játa og gafst upp á þessu. Ákvað að svara í síðasta sinn og fara síðan af vettvangi og sleikja sárin.

Þá hringi ævareið kona sem hellti sér yfir mig. "Já, en kæra frú, svaraði ég, ég var bara að segja sannleikann. Orð mín um að forsetinn sé ókvæntur eru óhrekjanleg sannindi."

"Að þú skulir ekki skammast því að vera svona óforskammaður" hvæsti konan reiða.

"Nei," svaraði ég. "Ég stend við orð mín nema að þú getir sannað að Vigdís hafi verið við konu kennd og sé kvænt."

Konan skellti bálreið á og ég flúði. Nú, tæpum þrjátíu árum síðar, sé ég að ég var óafvitandi langt á undan minni samtíð þegar ég talaði um þann möguleika að til væri hjúskapur tveggja aðila af sama kyni.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ómar þó - hahahaha - góður!

Guðmundur Jónsson, 2.9.2009 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband