Stærðin skiptir víst máli !

Mál Frakklandsforseta varðandi það að reynt sé að láta hann sýnast sem hæstan er ekki út í loftið.

Eitt af lögmálum fréttaviðtala í sjónvarpi tengist hæð viðmælenda. Þetta lögmál lærði ég af reynslunni og ég hef sett það fram svona:

Þegar tekið er sjónvarpsviðtal skal þess gætt að sá sem talað er við, þurfi ekki að horfa upp á við, til dæmis ef fréttamaðurinn er hávaxinn. Ef viðmælandinn þarf að horfa upp á við minnkar áhrifavald /myndugleiki/ traust á honum. (Authoritet).

Best er að viðmælandinn horfi aðeins niður á við og tali þannig niður til fréttamannsins í bókstaflegri merkingu. Við það eykst áhrifavald hans.  

Þið skulið ekki gera grín að þessu lögmáli. Manneskjurnar eru ekki fullkomnari en það að þessi sjónrænu sjónrænu, sálrænu áhrif eru í fullu gildi.

Fréttamaðurinn á að beygja sig, lækka eða standa fyrir neðan tröppu til þess að viðmælandinn fái að njóta sín. 

Þetta minnir mig á gamla sögu af Jónasi Þorbergssyni, útvarpsstjóra og Helga Hjörvari útvarpsmanni, en þeir áttu í harðvítugum deilum og voru litlir vinir. 

Helgi var þá feikna vinsæll og með afbragðs karlmannlega og þróttmikla útvarpsrödd, og vegna þess að fólk aðeins heyrði í honum en sá hann ekki, héldu flestir að þetta væri maður mikill vexti.

Gamall sveitungi Jónasar, Framsóknarbóndi framan úr afdal, kom til Reykjavíkur og var á gangi með honum nálægt Alþingishúsinu í átt að bækistöðum RUV, sem þá voru í gamla Landssímahúsinu við Austurvöll. 

Þá mættu þeir nokkrum þingmönnum, fyrstum Ólafi Thors. "Hver er nú þetta?" spurði dalabóndinn. 

"Þetta er Ólafur Thors" svaraði Jónas.

"Já, þetta grunaði mig, nógu er hann nú spjátrungslegur en samt nokkuð reffilegur," sagði bóndinn. 

Þegar næsti þingmaður kom út, spurði bóndinn: "Hver er nú þetta?"

"Þetta er Hermann Jónasson," svaraði Jónas. 

"Já, það er ekki að spyrja að því hvað hann er myndarlegur og glæsilegur" sagði bóndinn. 

Í þeim svifum gekk þar út Helgi Hjörvar. "Hver er nú þetta?" spurði bóndinn. 

"Þetta er nú Helgi Hjörvar," svaraði Jónas. 

"Helgi Hjörvar?" spurði bóndinn forviða. "Er hann virkilega svona lítill?"

"Nei," svaraði Jónas, "hann er miklu minni." 

Ég þekki leigubílstjóra sem í gamla daga var dálítið gassafenginn í akstri og lenti stundum í því að lögreglan stöðvaði hann.

Hann sagði að það hefði munað miklu í orðahnippingum sínum við lögguna að láta hana ekki koma að bílnum og standa og horfa niður á sig í gegnum framgluggann, heldur hefði hann alltaf flýtt sér að opna dyrnar og standa uppi á þröskuldinum og horfa niður á lögregluþjóninn. 

Í fyrsta þættinum "Á líðandi stundu" fór Agnes Bragadóttir niður í Íslensku óperuna og tók fyrsta sjónvarpsviðtal sitt, sem var við Jakob Frímann Magnússon.

Hún sagði þegar hún kom til baka: "Guð, þegar ég stóð andspænis honum fékk ég í hnén." 


mbl.is Stærðin sögð skipta máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Adolf Ingi, íþróttafréttamðaður ætti að standa uppá einhverju þegar hann tekur viðtöl. Þegar hann tók viðtal við Fúsa í handboltalandsliðinu eftir einhvern leikinn á ÓL í fyrra, þá var eins og fúsi hefði misst eitthvað á gólfið og væri að leita að því, þegar hann talaði við Dolla litla

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.9.2009 kl. 23:48

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fúsi (Rússajeppiinn) er tröll að vexti og að standa andspænis honum skapar ákveðna stemningu sem ég tel að sjónvarpsmaðurinn eigi að skila til áhorfenda með því að lofa Fúsa að njóta stærðarinnar.

Ég stend því með Adolfi Inga í þessu máli og tel ekki rétt af sjónvarpsmanni að hækka sig í viðtali við Fúsa. 

Öðru máli myndi gegna í viðtali við Guðmund landsliðsþjálfara eða Jóhann Inga (litla vísi). 

Í því tilfelli á að hækka viðmælandann, hans vegna. 

Ómar Ragnarsson, 7.9.2009 kl. 23:54

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ekki skal ég rengja þetta hjá þér Ómar, þú er með mikla reynslu á þessu sviði. Þarna er sálfræðinni beitt af mikill snilld og ekki að ástæðulausu 

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.9.2009 kl. 00:44

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Vonandi gengur yfirleitt betur að beita þessu lögmáli í sjónvarpsviðtölum en í þessu myndskeiði:

http://www.youtube.com/watch?v=YMLheJ-ZINA&feature=related

Theódór Norðkvist, 8.9.2009 kl. 04:02

5 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Aldrei þurfti De Gaulle af hafa áhyggjur af þessu.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 8.9.2009 kl. 09:05

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ekki heldur Clinton.

Ómar Ragnarsson, 8.9.2009 kl. 12:47

7 Smámynd: Jens Guð

  Chaplin gerir grín að þessu í Einræðisherranum. 

Jens Guð, 8.9.2009 kl. 13:26

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Stúlkan sem kokkar á skjánum er gott dæmi um lélega beitingu myndavélar, maður horfir alltaf niður til hennar og það gerir þáttinn verri. Góð pæling hjá þér.

Ásdís Sigurðardóttir, 8.9.2009 kl. 14:40

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Myndbandið sem ég vísaði til er úr Einræðisherranum.

Theódór Norðkvist, 8.9.2009 kl. 16:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband