Nei, hvað segið þið? "Eitthvað annað"?

Djúpivogur liggur utan við áhrifasvæði álversins á Reyðarfirði og ruðningsáhrifin af framkvæmdunum fyrir austan voru neikvæð fyrir Djúpavog og fleiri byggðarlög.

Ruðningsáhrif er það kallað þegar mikill fjáraustur og einblíning á eina risastóra fjárfestingu ryður öllum öðrum fjárfestingarmöguleikum í burtu.

Þeir sem að slíku stóðu töluðu síðan í fyrirlitningartóni um "eitthvað annað" þegar færð voru rök að því að fénu hefði verið betur varið á annan hátt.

Það hefur lengi verið lenska fyrir austan að tala niður til fólksins á Djúpavogi. Auk hæðnitónsins um "eitthvað annað" kölluðu sumir Hornfirðingar Djúpavog Kongó og átti sú líking líklega að tákna hvað þorpið væri lítið og afskekkt, útundan og vanþróað.

En nú hefur fólkið þar sýnt að "eitthvað annað" er bæði til og auk þess raunhæft.

Auk vatnsútflutnings er verið er að leggja að því drög að skemmtiferðaskip hafi þar viðkomu, enda er það stórlega vanmetin auðlind sem felst í því að laða ferðamenn að fallegum stöðum, þar sem hægt er að kynnast merkilegum lífsháttum og atvinnuháttum heimamanna.

Ég hef margbent á gildi strandveiðanna í þessu efni og mun blogga von bráðar um það sem ég kalla "sjortara-ferðamennsku" eða "skammdvalar-ferðamennsku" sem er að mínum dómi of mikið ráðandi hér á landi utan þjónustunnar við skemmtiferðaskipin. 

Hún miðast fyrst og fremst við þrönga hagsmuni sterkra aðila á höfuðborgarsvæðinu og hamlar meiri fjölbreytni sem getur komið sem viðbót við "skammdvalarferðamennskuna".   


mbl.is Djúpavogshreppur í vatnsútflutning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verð að leiðrétta þig Ómar.

Hornfirðingar hafa ekki kallað Djúpavog Kongó útaf því sem þú hélst.. heldur vegna þess að í gamla daga var þarna blökkumaður að barna konur.

  Svo vil ég benda þér á að Höfn er miku afskettari staður en Djúpivogur svo við hefðum nú ekkert efni á að setja eitthvað útá það við Kongóbúana

Andri (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 15:26

2 identicon

Þakka góðan pistil Ómar. Verð þó að leiðrétta þig með Kongó- nafngiftina. Hún er tilkomin vegna þess að litarháttur innfæddra á Djúpavogi þótti frekar dökkur á sínum tíma. Samskipti innfæddra við Baskverja og Blámenn voru víst á stundum nokkuð náin. Söguskýringin um meintan Afro-íslenskan uppruna fyrrverandi forsætisráðherra og misheppnaðs seðlabankastjóra má einnig rekja til Kongó.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 15:27

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Aldrei hef ég heyrt talað niðrandi um Djúpavogsbúa hér eystra og þetta með "Kongó" var ekki sett fram á sínum tíma í niðrandi merkingu.... hélt ég.  A.m.k. fékk ég þá skýringu á sínum tíma að nafnið hefði komið til vegna þess að svartur skipbrotsmaður hefði ílengst þarna og eignast afkomendur. S.s., góðlátlegt grín, en slíkt er þekkt um allt land, að gera grín að nágrönnum sínum.

En segðu mér Ómar, hvaða neikvæðu ruðningsáhrifa gætti á Djúpavogi, vegna álvers og virkjanaframkvæmda hér eystra?

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.9.2009 kl. 15:30

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég biðst afsökunar á því að hafa misskilið nafngiftina "Kongó" á sínum tíma.

Það er gott að þetta var sett fram sem góðlátlegt grín. 

En öllu gamni fylgir þó einhver alvara. Ég er áreiðanlega ekki sá eini sem vissi ekki um tilefni nafngifrtarinnar og hún hljómaði ekki jákvætt í mínum eyrum.

Það sem ég á við varðandi neikvæð áhrif, Gunnar, byggist á því að hafa komið stöku sinnum til Djúpavogs undanfarin tíu ár. 

Þegar ég kom þangað næstu árin á undan 2002 varð ég var við það að margir þar trúðu því að stóriðjuframkvæmdirnar yrðu lyftistöng fyrir öll sveitarfélögin eystra og biðu því eftir því að uppgangurinn hæfist.

Þegar ég kom þangað á fyrstu árum framkvæmdanna heyrði ég hins vegar annað hljóð, - vonbrigði yfir því að ekkert væri að gerast og samdráttur á staðnum.

Það var auðvitað engin furða, - það hafði nánast ekkert verið hugsað um neitt annað en stóriðjuna fyrir austan, og þess vegna gerðist auðvitað ekkert annað.

Ég held að það sé ekki tilviljun að fyrst nú, þegar útséð er um að jákvæð fáhrif af álveri og virkjun verði nokkur á Djúpavogi, er fólkið þar farið að líta til annarra hluta, - að gera "eitthvað annað".

Ég óska fólkinu á Djúpavogi til hamingju með það sem það er að gera. Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær, segir máltækið.  

Ómar Ragnarsson, 8.9.2009 kl. 16:11

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er einhver ímyndun í þér Ómar. Nefndu mér einn Djúpavogsbúa sem hélt að álvers og virkjanaframkvæmdir myndu gera eitthvað fyrir þá.

Samdrátturinn hefur verið viðloðandi smærri byggðarlög á Íslandi lengi og það breyttist ekkert á Djúpavogi. Vissulega hafa komið uppgangstímar, en þeir eru háðir uppsveiflum í sjávarútvegi... yfirleitt. Sama þróun hefur haldið þar áfram, hvorki meiri né minni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.9.2009 kl. 16:18

6 Smámynd: Gísli Gíslason

Nafngiftin Kongó er tilkomin eins og fyrr greinir vegna erlendrar "íblöndunnar" eða kynbóta á svæðinu. 

Einn þekktasti einstaklingurinn  er Hans Jónatan, sem var kynblendingur sem fluttist til Íslands (Djúpavogs) trúlega árið 1816. Um hann má lesa hér:  http://www.simnet.is/hansjonatan/afmaeli.html  Saga hans og uppruni ásamt afkomendum er því skráð af Helga Már Reynissyni, einum afkomenda hans.

Ég býst við að þekktasti afkomandi Hans Jónatans sé Ívar Ingimundarson atvinnumaður í knattspyrnu, en Jakob Sigurðsson fyrrv landsliðsmaður í hanbolta er einnig afkomandi sem og Ingimundur Sigfússon sendiherra eða fyrrv sendiherra afkomandi hans og margir fleiri þjóðþekktir einstaklingar.  Held samt að Davíð Oddsson sé ekki í þessari ætt. 

Á sama tíma og verið var að virkja fyrir austan var undirbúið stofnun Háskóla seturs á Egilsstöðum. Það var byggt upp stórfellt fiskeldi í Mjóafirði, sem því miður gekk ekki. Ferðaþjónusta hélt áfram að vaxa og m.a. fjölgar skemmtiferðaskipum.  Það stenst því ekki að fullyrða að Austfirðingar hafi ekki hugað að annarri uppbyggingu á meðan á uppbyggingu Kárahnjúka og byggingu álvers stóð.   Ég held að austfirðingar fangi allri uppbyggingu og álver og Kárahnjúkar eru engin hindrun á aðra uppbyggngu.

Gísli Gíslason, 8.9.2009 kl. 16:50

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hans Jónatan "birtist sem starfsmaður verslunarinnar Örums & Wolf á Djúpavogi um 1816."

"Hans Jónatan, sem fæddist 1784 á eyjunni St. Croix í Karíbahafi í Vestur-Indíum, var þræll dansks aðalsfólks að nafni Schimmelmann, en Major General Ludvig Heinrich Von Schimmelmann var landstjóri Dana í Dönsku Vestur-Indíum á þessum tíma."

Dæmdur í þrældóm fyrir 200 árum


Ættarvefur Hans Jónatans

Þorsteinn Briem, 8.9.2009 kl. 16:58

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Héldu íbúar í Stykkishólmi að álverið á Grundartanga gerði eitthvað fyrir þá?

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.9.2009 kl. 17:10

9 identicon

Djúpivogur er stórfallegt bæjarstæði. Því miður liggur fyrir bæjarbúum sömu örlög og nágranna þeirra í norðri, Breiðdalsvík, að atvinnutækifærum fækkar stöðugt og á endanum verður ekkert eftir.

Þetta er sorgleg þróun og orsök hennar er (nánast) aðeins ein... kvótakerfið !!!

runar (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 17:21

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú segir í pistlinum Ómar; "...þegar færð voru rök að því að fénu hefði verið betur varið á annan hátt."

Hvaða fé ertu að tala um? Lá eitthvert fé ónotað hjá ríkissjóði... eða einhverjum öðrum sem hægt hefði verið að nota í "eitthvað annað"?

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.9.2009 kl. 17:23

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Varla átti Landsvirkjun að fá lánaða peninga erlendis frá, til þess að setja í "eitthvað annað"... er það?

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.9.2009 kl. 17:24

12 identicon

Gunnar: Neikvæð áhrif á Djúpavogi voru fyrirséð og var t.a.m. minnst á þessi áhrif í skýrslu hagfræðistofnunnar til skipulagsstofnunnar árið 2001. Var þá talað um að þeir sem annars hefðu fengið vinnu t.a.m. í landbúnaði myndu vilja söðla um og flytja upp á Hérað, eins og það var orðað. Var í sömu hendingu minnst á bættar samgöngur til að gera austurland að einu atvinnusvæði og man ég eftir umræðu þess efnis.

Það fé sem Ómar talar um er það fé sem fór í þessar framkvæmdir í heild sinni. Þ.e. tilkostnaður við hvert starf og einnig arðsemi þess fjár sem sett var í verkefnið. Hvort lántakandinn er ríkið sjálft eða ríkisfyrirtæki skiptir ekki máli.

Þórður Ingi (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 18:12

13 identicon

Hún er að verða aðdáunarverð eljan hjá Gunnari Th. að andmæla Ómari.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 20:04

14 identicon

þetta er ansi áhugaverð umræða. Þeir Djúpavogsbúar sem ég þekki, og eru þeir þónokkrir, eru alls ekki í bölmóð og svartsýni yfir stöðu sinni á Austurlandi, þvert á móti. Djúpivogur hefur ýmislegt sem aðrir þéttbýliskjarnar hafa ekki, t.d. einstök tækifæri í ferðaþjónustu með Löngubúð, Ríkarði Jónssyni, Papeyjarferðum, Hótel Framtíð og fl., þar var verið að vígja fyrir nokkrum dögum stórkostlegt útilistaverk eftir engan minni en Sigurð Guðmundsson, einn flottasta listamann Íslands. Skemmtiferðaskipum hefur fjölgað á Djúpavogi vegna gríðarlegrar undirbúningsvinnu heimamanna. Gífurlegur fjöldi ferðamanna, íslenskra og erlendra, kemur til Djúpavogs á hverju ári og fer þeim fjölgandi.

Kongóbúar eiga stóran part í hjörtum okkar Austfirðinga og köllum við þá Kongóbúa með hlýju og vináttu en ekki með fyrirlitningu. Ég hvet þig Ómar til að fara á Djúpavog, ræða við heimafólk sem vinnur ötullega að uppbyggingu staðarins og berst fyrir tilverunni. Skrifaðu svo pistil um Kongó og álversáhrif.

Góðar stundir.

Ingunn (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 20:12

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"..þeir sem annars hefðu fengið vinnu t.a.m. í landbúnaði myndu vilja söðla um og flytja upp á Hérað, eins og það var orðað."

Töpuðust störf í landbúnaði vegna álversins? Er slæmt að fólk hafi tækifæri ril að söðla um? ...Flytja upp á Hérað??

Bættar samgöngur... vissulega, með Fáskrúðsfjarðargöngum. Frábær samgöngubót sem seint hefði orðið að veruleika nema vegna álversframkvæmdanna

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.9.2009 kl. 20:38

16 identicon

"Töpuðust störf í landbúnaði vegna álversins?"

Já, eftir að framkvæmdir hófust minnkaði umfang t.d. matvælavinnslu á Austurlandi, en það ætti ekki að koma neinum á óvart því það er alþekkt staðreynd í hagfræði að t.d. uppgvötun nýrra auðlinda getur rutt út þeim atvinnugreinum sem fyrir eru.

Þórður Ingi (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 21:08

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Störf sem töpuðst í matvælavinnslu á Austurlandi, höfðu ekkert með álverksframkvæmdir að gera. Þú ert eflaust að tala um Kjötkaup á Reyðarfirði.... akkúrat ekkert með álverið að gera.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.9.2009 kl. 21:20

18 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Gunnar Th., í Peningamálum frá 2001 sagði að stýrivextir og gengi krónunnar yrðu að hækka til að búa til slaka í hagkerfinu til að rýma fyrir stóriðjuframkvæmdunum.  Á venjulegu máli þá þýðir þetta að háir vextir og há króna drógu kraftinn úr atvinnulífinu, juku atvinnuleysi og fluttu fólk úr einni atvinnugrein í aðra en skapaði ekki ný störf.

Úr Peningamálum:

“Hækkun gengis í aðdraganda [stóriðju]framkvæmdanna er því eðlileg og var Seðlabankinn og fleiri reyndar búnir að spá því að svo myndi verða.  Gengishækkunin er reyndar hluti af markaðsviðbrögðum hagkerfisins vegna framkvæmdanna.  Um leið hjálpa þau hagkerfinu til að rýma fyrir þeim án kollsteypu í efnahagsmálum.  Gengishækkunin dregur úr verðbólgu og eykur slaka í hagkerfinu áður en framkvæmdirnar hefjast af fullum krafti og því myndast minni spenna í hagkerfinu en ella” (Pm2003/1, bls 35)

“Ofangreind hækkun gengis kemur hins vegar ekki í stað vaxtahækkana af hálfu Seðlabankans, enda byggist hún að hluta á væntingum um þær.” (Pm2003/1, bls 35)

 

Lúðvík Júlíusson, 8.9.2009 kl. 22:32

19 Smámynd: Benedikt V. Warén

Bættar samgöngur fyrir Djúpavog er endurbættur vegur yfir Öxi.  Jarðgöng er vissulega fyrsti kostur, en hann er jafnframt dýr kostur, sérstaklega eins og árar á Íslandi í dag.  Endurbættur vegur yfir Öxi mun bæta alla aðdrætti á Djúpavogi og einfalda þeim lífið á margan hátt.  Enda líta þeir mjög til Héraðs, sem þess staðar sem áhugaverðastur er að sameinast, ef sá póllinn verður tekinn í hæðina. 

Göngin til Fáskrúðsfjarðar hafa lítið með daglegt amstur Djúpavogsbúa að gera, þó styttir það vissulega leiðina á endastöðina, - sjúkrahúsið í Neskaupstað.

Benedikt V. Warén, 8.9.2009 kl. 22:40

20 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er einmitt að hæla íbúum Djúpavogs fyrir það sem þeir hafa verið að gera á síðustu árum og óska þeim alls hins besta. Þeir gefa gott fordæmi fyrir aðra landsmenn.

Ómar Ragnarsson, 8.9.2009 kl. 23:08

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Drógu kraft úr atvinnulífinu, segir þú Lúðvík. Ástandið á vinnumarkaði á Íslandi 2002-2008, kallaði ekki á sérstaka styrkingu hans. Þensla og vinnuaflsskortur var frekar vandamálið.

En það er rétt hjá þér að stýrivextum var haldið háum, þó menn deili reyndar um hve framkvæmdirnar fyrir austan áttu mikla sök á því. T.d. olli húsnæðisbólan á höfuðborgarsvæðinu margfalt meiri þenslu í þjóðfélaginu heldur en Kárahnjúkar. Fjármagnið sem bankarnir dældu í hagkerfið með "ódýru" erlendu og innlendu lánsfé, var um 1.400 miljarðar, eða sjöföld umsvifanna í heild fyrir austan, Kárahnjúkar + álver.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.9.2009 kl. 23:47

22 Smámynd: Benedikt V. Warén

Málið er ekkert flókið.  Fólk á Austurlandi var víða að gera "eitthvað annað", löngu áður en ákvörðun var tekin um virkjanir og stóriðju.  Á Vopnafirði reyndu menn fyrir sér í fiski- og loðdýrarækt.  Á Borgarfirði var Álfasteinn og gönguferðir um víknaslóð.

Á Héraði reyndi sómamaðurinn Svenni frá Hafursá að koma á ferðum inn á jökul með snjóbílnum Tanna, og margir minnast þeirra daga með sælubros á vör, þó þeir hafi á stundum komist í hann krappann. 

Á Héraði var einnig rekin Skóverksmiðjan Agila og Prjónastofan Dyngja.  Hótel hafa verið byggð og rekstur þeirra oftast í járnum, en nokkuð góður síðustu ár.  Farþegaskip á Lagarfljóti er með hallarekstur ár eftir ár. 

Frekari lenging flugvallarins á Egilsstöðum útheimti þrotlausa vinnu við að sannfæra sveitarstjórnar-, úgerðarmenn og þá sem vinna í ferðageiranum um möguleikana.  Sú vinna var hrópuð í hel af mönnum í Ejafirði, enda samfylkingaráðherrann með næmari heyrn þar sem fleiri atkvæði voru til húsa.  Þar fór verkefni ráðherrans þvert á sérfræðingavinnu sem áður hafði verið unnin, þar sem Egilsstaðaflugvöllur þótti koma best út og ætti því að leggja meira í að lengja hann.  Annar flugvöllur var pólitískt betur til þess fallinn að skila atkvæðum í hatt samgönguráðherra.  þá vantaði ekki fjármuni til verkefnisins.

Á Seyðisfirði hefur verið byggt á forni frægð.  Smátt og smátt er verið að gera upp gömlu húsin þar og allskonar viðburðir hafa séð dagsins ljós, og er Alla Borgþórs fremst meðal jafningja á að koma ímsum atburðum á "koppinn". 

Fín söfn er að finna á Austurlandi, tækniminjasafn, stríðsminjasafn, sjóminjasöfn, náttúrugripasöfn, steinasöfn, byggðasöfn, svo fátt eitt sé upp talið.  Þetta eru verkefni nokkurra undangenginna ára.

Svona er lengi hægt að telja, en því miður eru mörg þeirra fyrirtækja horfin, sem ég nefndi hér að framan og voru að gera "eitthvað annað" og önnur sem ekki voru nefnd einnig.

Að þessu skráðu, skal það fúslega játað, að ég verð alltaf jafn dapur og gramur við það að lesa greinar og pistla, þar sem gefið er ítrekað í skin að það eina sem austfirðingar séu færir um að hugsa og taka þátt í, - sé virkjun og stóriðja.  Þetta er ekki bara rangt, þetta ber þess einnig berlega vitni að sá sem setur slíkt á þrikk er annað hvort illa að sér í málefninu, eða er hliðra sannleikanum.  Hvortveggja er slæmt. 

Benedikt V. Warén, 9.9.2009 kl. 00:19

23 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gengi íslensku krónunnar var alltof hátt mörg undanfarin ár, sem olli því að tekjur bæði sjávarútvegsins og ferðaþjónustunnar hér voru mun minni en þær hefðu getað verið. Og þessar atvinnugreinar eru stundaðar í nánast öllum bæjarfélögum landsins, öfugt við stóriðjuna.

Verð á aflakvótum hækkaði einnig verulega, bankarnir hér tóku veð í kvótunum og útlendingar eiga núna bankana. Verð á óveiddum þorski innan ársins var svipað og fékkst fyrir veiddan þorsk á fiskmörkuðunum hér og þá var eftir að bæta við útgerðarkostnaðinn til dæmis launum, olíu og veiðarfærum.

Íslenska ríkið á að selja sjálft allar veiðiheimildir á Íslandsmiðum til eins árs í senn fyrir mun lægra verð en þær hafa verið seldar undanfarin ár, og leggja ágóðann í samgöngu- og hafnarbætur um allt land, ferðaþjónustunni, sjávarútveginum og landslýð öllum til hagsbóta.


Ríkið getur "innkallað" allar veiðiheimildir hér á 20 árum, 5% á ári, og því lagt sífellt meira fé til samgöngubótanna.

Þorsteinn Briem, 9.9.2009 kl. 01:36

24 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Gunnar Th, eins og Steini Briem bendir réttilega á þá þurftu úflutningsfyrirtæki, þám ferðaþjónusta, að þola tekjuskerðingu síðustu ár.  Rekstrarumhverfi þeirra varð verra, vaxtarskilyrði slæm og fjárfesting lítil.

Þó að ríkið hafi ýtt undir alls kyns bólur í hagkerfinu þá gerir það ekki hlut stóriðjustefnunnar að engu.  Hún krafðist hærri stýrivaxta og sterkari krónu sem drógu úr samkeppnishæfni innlends efnahagslífs um allt land, einnig á Austurlandi.

Nú þegar krónan er búin að lækka og endurspeglar raunverulegt verðmæti sitt þá verða öll þau tækifæri sem ekki var hægt að notfæra, vegna of sterkrar krónu, arðbær.

Lúðvík Júlíusson, 9.9.2009 kl. 02:28

25 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það talar engin um að krónan endurspegli rétt verðmæti sitt í dag, hún er of verðlítil. En háa gengi hennar hafði einnig jákvæð áhrif fyrir almenning. Innfluttar vörur voru ódýrari og fólk ferðaðist sem aldrei fyrr.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.9.2009 kl. 08:59

26 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eg set spurningamerki við þá skýringu að Djúpivogur hafi verið eða sé kallaður af sumum "congo" vegna þess að blökkumaður hafi verið þar á fyrri tíð.

Set visst spurningarmerki við það.

Helst á að það sé eftiráskýring.

Eg er ekkert frá því að eitthvað geti verið til í upphaflegu skýrinu Ómars að nafngiftin skýrskoti til einangrunar o.s.frv.

Þetta þyrfti hins vegar að rannsaka betur og eg er eigi að fullyrða  neitt þessu viðvíkjandi.  Aðeins að segja að sannanir vantar þessu viðvíkjandi.

Auk þess er mín tilfinning að nafnið "congo" sé frekar nýtilkomið.  En rins og áðurer nefnt þá er frekari rannsókna þörf.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.9.2009 kl. 11:20

27 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

 Þegar mamma fór að vinna á Djúpavogi, fimmtán ára gömul, heyrði hún þetta nafn og fékk þá skýringu að hún væri tilkomin út að niðjum Hans Jónatans.

Nafngiftin "Kongó" er því a.m.k. þekkt þarna rétt um 1960.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 9.9.2009 kl. 12:32

28 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

*út af*

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 9.9.2009 kl. 12:33

29 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ok.  Reyndar þegar eg tala um að nafngiftin sé "frekar nýleg" þá meina eg sona um 1950-1970

En allavega samkv. þessari heimild hefur þá þegar verið farið að tengja nafnið við umræddan blökkumann.  Það óneitanlega styrkir að nafngiftin sé tilkomin vegna þeirra tengingar.

Eg er samt ekki enn endanlega sannfærður.  Fyrst og fremst vegna þess að mér finnst það dáldið langsótt.  Þá er eg að reikna með að nafngiftin sé frekar nýleg (50-70) og ég er bara ekkert viss um að margir hafi vitað ða verið að spekúlera þí því á þeim tíma að blökkumaður hafi búið á Djúpavogi.  Eg hef heldur aldrei orðið var við að fók væri eitthvað dekkra yfirlitum en gerist og gegur á þessu svæði.

Eg mundi etv. leita að eða athuga hvort landið Kongó hefði einhverntíman mikið verið í fréttum á Íslandi og rekja upphaf nafngiftarinnar til þess tíma.  En þá vantar að vísu afhverju það var sérstaklega tengt við Djúpavog.

Það var dáldið í tísku fyrr á árum að staðir á Austfjörðum væru uppnefndir.  Norfjörður var kallað Moskva,  Seyðisfjörður Kristjanía o.s.frv.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.9.2009 kl. 13:11

30 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sem betur fer erum við Íslendingar blandaðir öðrum þjóðum að einhverju leyti, þrælum sem höfðingjum.

Þannig var langamma mín dóttir Friðriks C.S. Grönvold, sem var danskur verslunarþjónn á Djúpavogi árið 1860, fæddur í Halse í Jótlandi árið 1834, og afi hálfsystur minnar var hollenskur landstjóri í Austur-Indíum.

"Á 19. öld var eingöngu stór hluti Afríku eftir til skiptanna og síðbúnar Evrópuþjóðir sem áttu ekki greiðan aðgang að sjó, svo sem Belgía, Ítalía og Þýskaland, hófu kapphlaup sitt; Belgía náði Kongó, Ítalía Abyssiníu og Þýskaland sölsaði undir sig suðvesturhluta Afríku, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Loks má ekki gleyma nýlenduveldi Dana. Danir réðu ekki eingöngu yfir Noregi, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, heldur einnig sykureyjunum St. Croix [þar sem ofangreindur Hans Jónatan fæddist], St. John og St. Thomas í Karabíska hafinu."

Nýlendustefnan - Vísindavefurinn

Þorsteinn Briem, 9.9.2009 kl. 15:26

31 identicon

Ekki gleyma heldur að ruðningsáhrif eru jákvæð en ekki neikvæð í efnhagslegu tilliti og ekki síst í velferðarlegu tilliti.

Ruðningsáhrif þýðir það eitt að til eru að verða nýir og nútímalegri atvinnuvegir sem geta greitt starfsmönnum hærri laun (og því hverfa starfsmenn úr öðrum greinum), og lánveitendum og fjárfestum hærri vexti og arð (og því hverfur fjármagn úr öðrum greinum). Eftir stendur samfélag sem er betur statt í efnahagslegu tilliti. Oft hafa ruðningsáhrifin jákvæð áhrif á aðra atvinnuvegi sem verða að taka sig á í samkeppninni við hinn nýja.

Og þeir sem kenna álverinu um þensluna eru illa læsir í hagfræði. Í stað þess að grípa til mótvægisaðgerða einsog hvatt er til í peningamálaskýrslunni frá 2001 þá einkavæddi ríkið bankakerfið, afnám bindiskylduna, afnám hátekjuskatt, lækkaði virðisaukaskatt, lækkaði tekjuskatt fyrirtækja, lækkaði tekjuskattsprósentuna, hækkaði persónuafslátt og hækkaði lánshlutfall íbúðalána. Bara lækkun bindiskyldunnar eitt og sér gerði það að verkum að 400 milljarðar af nýju lánsfé ruddist útá markaðinn á 2 árum. Í þessu liggur hin raunverulega ástæða þenslunnar og eignabólunnar.

Innstreymi erlends fjármagns vegna álversframkvæmda er bara örlítið brot af því sem hingað streymdi vegna erlendrar lántöku bankanna og útgáfu jöklabréfa. Það má meira að segja færa rök fyrir því að nettó innstreymi vegna álversframkvæmda hafi verið mjög lítið vegna þess að þetta fór jafnóðum út aftur í kaup á aðföngum, t.d. vélbúnaði, og launagreiðslur til erlendra starfsmanna. Það þarf því að teygja sig ansi langt til þess að kenna álversframkvæmdum um styrkingu krónunnar. Hinsvegar framleiðir álverið núna ál til útflutnings einsog það sé enginn morgundagurinn og hjálpar því til við að reisa gengið aftur nú þegar allt er hrunið.

En varðandi Djúpavog. Vonandi gengur þeim vel og þetta hafi verið hugsað til enda. Mér finnst hinsvegar soldið skrítið að selja ,,auðlindina" svona óunna úr landi. Þetta er soldið einsog að selja fiskinn óunninn úr landi eða rafmagnið í gegnum kapal. Það verða ekki til mörg störf og virðisaukinn ekki mikill. En gott og vel, það er ekki einsog það sé skortur á vatni á Íslandi. Hættan er hinsvegar sú að einhver af þessum stórhættulegu útlendingum sem eru út um allt sjái sér leik á borði og kaupi íslenskt vatn í tankskipi og tappi því svo á flöskur erlendis og selji undir ,,íslensku" merki. Þá verður virðisaukinn eftir þar því vatnið hundraðfaldast í verði við það eitt að vera sett í plastflösku og uppí verslunarhillu.

Ég óttast það líka að svona útflutningur muni aldrei standa undir sér nema gengið sé í þeim lægðum sem það er í dag. Þá rætist draumur margra þess efnis að íslendingar verði ,,framleiðsluþjóðfélag", hlekkjaðir við saumavélar við að framleiða lopapeysur handa erlendum ferðamönnum sem hingað koma til þess að berja augum fátækustu þjóð vestur evrópu undir merkjum ,,menningartengdar ferðaþjónustu"

..og hana nú! 

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 16:49

32 identicon

Magnús þetta var merkilegur fyrirlestur í hagfræði.

Í fyrsta lagi: Eru öll ruðningsáhrif jákvæð? Hvað með tæknilegt atvinnuleysi? Eða þau áhrif sem hafa komið til tals hér að uppgvötun nýrra auðlinda (s.s. olíu) ryðji út þeim atvinnugreinum sem fyrir eru? Þetta er hvort tveggja þekkt í hagfræði. (Bendi á skrif t.d. Þorvaldar Gylfasonar sem hefur velt upp spurningunni hvort olíuauðlind sé böl eða blessun sbr. Nígeríu)

Í öðru lagi, þú telur upp allt það sem varð þess valdandi að peningar streymdu út í íslenskt hagkerfi. Þegar peningar flæða út í hagkerfið veldur það undir venjulegum kringumstæðum verðbólgu og rýrir verðgildi gjaldmiðils, gagnvart öðrum gjaldmiðlum einnig. Samt sem áður hélst krónan gríðarlega sterk á þessum tíma. Það varð spákaupmönnum ljóst þegar ákveðið var að fara út í Kárahnjúkavirkjun að gríðarlegt, fyrirsjáanlegt innstreymi gjaldeyris fylgdi í kjölfarið sem setti mikinn þrýsting á krónuna. Auk þess var vitað mál hvenær þessu innstreymi lyki og því var auðsótt mál að taka stöðu í krónunni og spila þannig inná gengishagnað, sem enn frekar ýkti upp sveiflurnar.

Þær erlendu lántökur bankanna sem þú nefnir fóru fyrst og fremst í erlendar fjárfestingar og komu því ekki inn í íslenskt hagkerfi.

Og það að álverið framleiði ál til útflutnings. Það verður sáralítið eftir af þeim gjaldeyri eftir í landinu, þetta er erlent fyrirtæki, sem kaupir aðföng erlendis frá og selur á erlendum markaði. Hér verða eftir launagreiðslur og (alltof ódýr) raforkusala.

Þórður Ingi (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 17:08

33 identicon

Sæll Þórður...gott innlegg. 

Nei...reyndar hef ég ekki lesið grein Þorvaldar ,,Olíulindir: böl eða blessun sbr. Nígería"....ætli ég bíði ekki bara eftir "Olíulindir:böl eða blessun sbr. Noregur"

En ég sé að þú ert alveg með þetta á hreinu varðandi þensluvaldandi aðgerðir stjórnvalda, áhrifa þeirra á verðbólgu osfrv. Það sem vantar er bara næsti kafli, peningamálastefna með verðbólgumarkmiði og stýritæki Seðlabanka, vextirnir. Þegar verðbólgan fór af stað hækkaði SB vextina og þar með var komið fóður fyrir vaxtamunaviðskiptin. Erlendur gjaldeyrir streymdi inní hagkerfið, þenslan óx, SB hækkaði vextina meira, meiri erlendur gjaldeyrir streymdi inn og þenslan óx enn meira...osfrv...osfrv...

Af því að þú hefur gaman af skrifum hagfræðinga get ég bent á skrif Jóns Daníelssonar og Ásgeirs Jónssonar um peningamálastefnu með verðbólgumarkmið í litlum opnum hagkerfum með sjálfstæðan gjaldmiðil.

Málið er einfaldlega að við þurftum ekki álversframkvæmdirnar til þess að hér færi allt í kalda kol...stjórnvöld og bankarnir sáu alveg um þetta fyrir okkur. Framkvæmdirnar fyrir austan er bara smáræði í dæminu öllu.

Varðandi hvort allar erlendar lántökur bankann hafi farið í fjárfestingar erlendis. Gengisbundin lán íslenskra heimila og fyrirtækja voru 1.700 milljarðar fyrir fall bankanna (sjá hér). Heildarlántaka bankastofnana erlendis var um 10.000 milljarðar á sama tíma. M.ö.o, u.þ.b. 17% af lántökunni var endurlánað innanlands til neyslu og fjárfestinga. þetta er soldið þenslufóður ekki satt ? 

Framreiknaður stofnkostnaður Kárahnjúkavirkjunar, með 7% frammúrkeyrslu, er 130 milljarðar. Ég er ekki með nýjar tölur varðandi Fjarðaál en þegar samningar voru undirritaðir var áætlað að stofnkostnaðurinn væri 85 milljarðar svo við skulum bara tvöfalda þá tölu til gamans. Þá er kostnaðurinn samtals um 300 milljarðar.

300 milljarðar annarsvegar og 1700 milljarðar hinsvegar. Það segir allt sem segja þarf. 

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 23:31

34 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Upphaflegu tölurnar voru 200 miljarðar versus 1.400 miljarðar. Framkvæmdirnar eystra eiga því 13-14% af þenslu og vaxtamálum.

Að gagnrýna þróun skattkerfisins í valdatíð Sjálfstæðismanna, er út í hött, þegar tekið er tillit til aðstæðna í þjóðfélaginu á þeim tíma.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.9.2009 kl. 00:47

35 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef einungis hefði verið um framkvæmdir eystra að ræða, ásamt                          "eðlilegri "byggingastarfsemi á höfuðborgarsvæðinu, þá var þensluvaldurinn hlutfallslega minni nú en þegar ráðist var í framkvæmdir við Búrfellsvirkjun. Að því leyti til er Kárahnjúkaverkefnið, næst stærsta verkefni íslensku þjóðarinnar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.9.2009 kl. 00:53

36 Smámynd: Pétur Sig

Já en, einu ómalbikuðu spottarnir á hringveginum eru við Kongó, beggja vegna. Það sýnir áhugaleysi fólks í garð þessa sæta bæjarfélags best. Kirkjan þeirra er líka svo undur undur blá...

Pétur Sig, 11.9.2009 kl. 22:39

37 identicon

http://djupivogur.is/fuglavefur/    Vil bara benda á þennan góða vef  þeirra í "Kóngó".  Það er afar gaman að skoða fugla á Djúpavogi og nágrenni

Auður M (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband