25.9.2009 | 22:48
Flæðandi minningar í Laugadalshöll á morgun.
Það hefur verið mjög gefandi að vera viðstaddur æfingar á afmælistónleikum Ragnars Bjarnasonar, sem verða haldnir tvívegis á morgun, klukkan fjögur um daginn og síðan um kvöldið.
Flytjendur og efni eru frá öllum tímum, allt frá fyrsta laginu sem til er með Ragnari frá 1953 til nýrra laga, sem verða frumflutt á tónleikunum.
Þegar um svo fjölbreytt efni er að ræða frá svo löngu tímabili er ekki að efa mikið minningaflóð verður í hugum tónleikagesta.
Eitt atriði tónleikanna felst í að á skjá koma myndir af tónlistarfólki og samstarfsfólki Ragnars í gegnum tíðina sem ekki er lengur á meðal okkar og á meðan verður spilað lagið "Memories".
Af þessu tilefni verður frumfluttur texti við lagið "Memories" sem er sérstaklega tileinkaður þessu fólki og ég ætla að taka mér það bessaleyfi að birta hann hér ef einhver vill undirbúa sig undir að njóta þessa lags og annarra á þessum tónleikum.
MINNINGAR.
Minningar, -
myndir birtast huga mínum í.
Minningar, -
andlitin sem birtast enn á ný.
Liðin tíð, - hin ljúfu ár,
þeir léttu tónar, björtu brár, -
nú vitjar mín það allt sem áður var
og langar stundir sækja að mér ljúfar minningar.
Ég hugsa´um þau sem hurfu´á braut
og hlýju veittu´í sælu´og þraut
og gáfu´okkur af sjálfum sér
með söng og tónum fagrar minningar.
Minningar.
Þau hverfa aldrei munu´úr huga mér.
Minningar, -
svo ljóslifandi lýsa þér og mér.
Minningar.
Minningar.
Glöð og sæl á góðri stund
þau gefa munu endurfund
á andans ferð um ókunn lönd
er okkur ber á leið til eilífðar.
Minningar, -
lýsa´upp það sem verður, er og var.
Minningar, -
öll á sömu leið til eilífðar.
Minningar.
Athugasemdir
Reynt að syngja, og finnst mér það tekst nokkurn.
MaggaInga (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 23:11
Er þetta ekki eitthvað brogað?
Ég hugsa´um það sem hurfu´á braut
Á þetta ekki að vera Ég hugsa' um þá sem hurfu' á braut
eða
Ég hugsa' um það sem hvarf á braut?
Eins og þetta er, er þetta einna líkast innsláttarvillu og þú skrifar betra mál en svo.
Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 13:29
Þetta var meinleg innsláttarvilla, "ð" í staðinn fyrir "au", en auðvitað var átt við "þau", sem birtust á myndunum og horfin eru á braut. Búinn að leiðrétta þetta núna, en athugasemd þín, Þorsteinn, átti svo sannarlega við meðan þessi villa var þarna.
Ómar Ragnarsson, 27.9.2009 kl. 01:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.