Foreldravandamál, ekki unglingavandamál.

Fyrir allmörgum árum var stolið frá mér bíl og hann eyðilagður. Þrír unglingsstrákar voru á ferð. Aldrei fengust neinar skaðabætur fyrir bílinn. Kom ekki svo að sök, hann var lítils virði. 

Ég rabbaði svolítið við lögregluna út af þessu og barst talið að unglingavandamálum.

Lögreglumaðurinn leiðrétti mig. "Yfirleitt eru þetta foreldravandamál en ekki unglingavandamál," sagði hann.

"Unglingarnir sem við erum að fást við um helgar koma flestir af heimilum þar sem foreldrarnir eru að djamma um helgar og skilja unglingana eftir í reiðileysi. Stundum er skást fyrir þessa unglinga að vera ekki heima vegna óreglu og ölvunar foreldranna."

Þetta minnir mig á mál sem kom upp úti á landi fyrir margt löngu þar sem ákveðinn unglingur hafði haldið heilu byggðarlagi í heljargreipum óknytta- og skemmdarverkagengis sem hann stjórnaði með harðri hendi.

"Þetta er í raun ekki afbrotagengi heldur einn unglingur eða réttara sagt ein foreldri," var sagt við mig. "Foreldrar piltsins hafa frá byrjun alið hann þannig upp að mæla allt upp í honum. Það var löngu fyrirséð í hvað stefndi."

Þegar hann framdi fyrsta stóra afbrotið notaði hann byssu til skemmdarverks. Faðir hans sat alla nóttina við að reyna að sarga hlaupið til að koma í veg fyrir að hægt væri að rekja feril kúlnanna."

Nú skal ég ekkert segja um atvikið á Selfossi. Hér í gamla daga þegar strákar voru í sveit óku þeir dráttarvélum og jeppum kornungir um túnin og hvert atvik getur verið öðrum ólíkt.

Ofangreint blogg fjallar því ekki á nokkra lund um greint atvik, þótt það sé með tengingu í frétt um það, heldur um ákveðið svið uppeldismála.  


mbl.is Lét þrettán ára son sinn keyra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sammála þér Ómar, þetta eru oftar en ekki foreldravandamál.

Ásdís Sigurðardóttir, 28.9.2009 kl. 17:35

2 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Hehe,

Hvar endar þetta eiginlega ??

Fyrst leyfir maður stráknum að keyra, og svo skýtur hann allt í tætlur, þegar hann verður eldri !

Börkur Hrólfsson, 28.9.2009 kl. 17:47

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Flest afbrot í heiminum eru framin á Selfossi, miðað við höfðatölu, samkvæmt nær daglegum fréttum á Mbl.is.

Mér kæmi ekki á óvart ef maður yrði drepinn þar fljótlega og sýslumaðurinn á staðnum tæki þvagsýni úr fórnarlambinu með valdi (og Valda lögregluþjóni).

Þorsteinn Briem, 28.9.2009 kl. 18:03

4 identicon

En eru foreldravandamál ekki yfirleitt öldruð unglingavandamál?

Jóhann (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 19:29

5 identicon

Ég sé nú ekki að um alvarlegt afbrot hafi verið að ræða þarna á Selfossi. Margir krakkar hafa fengið að kynnast akstri fyrir bílprófsaldur á þennan hátt og kunna þá pínulítið fyrir sér þegar kennsla hefst hjá ökukennara. Ökukennarinn þarf þá t.d. ekki að eyða mörgum dýrmætum ökutímum sem kosta ca 7500 kr í að kenna nemanum á kúplinguna. Að sjálfsögðu á foreldri ekki að stunda svona lagað í þéttbýli, frekar á afviknari stöðum út í sveit.

valdimar (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 20:26

6 Smámynd: Eggert Jón Magnússon

Sæll Ómar. Segir maður ekki 'reiðuleysi', og þá er átt við að það sé engin reiða á börnunum?

Eggert Jón Magnússon, 28.9.2009 kl. 22:04

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tímarnir hafa líklega breyst. Ég þurfti aðeins að fara í tvo ökutíma 1957 áður en ég tók prófið. Bíllinn sem ég ók var einhver versti ökubíll sem ég get ímyndað mér, stærri gerðin af Wolseley, gamall, þungur í stýri og allur pakkinn.

En hann var nógu líkur Fordson Major dráttarvél í akstri til þess að æfingin af þessari stóru og luralegu dráttarvél kom í góðar þarfir. 

Ómar Ragnarsson, 29.9.2009 kl. 09:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband