Hver sem er getur orðið fyrir svona.

Við búum nú í þjóðfélagi þar sem hver sem er getur orðið fyrir árás hvenær sem er og hvar sem er. 

Sjálfur upplifði ég fyrir tveimur árum árás af svipuðum toga og gerðist í Reykjanesbæ en sem betur fer hafði árásarmaðurinn ekkert morðvopn í höndum. Hef sagt áður frá þessu en þetta er enn umhugsunarvert. 

Ég var akandi á mjög hægri ferð þegar bíll fór fram fyrir mig og stansaði spölkorn fyrir framan mig. Út úr honum kom maður hlaupandi beint framan að bílnum, sem ég var á, öskrandi með hnefann á lofti og æðissvip í andliti. Mér heyrðist hann hrópa: "Ég drep þig, helvítið þitt!" 

DSC00132

Hann ætlaði að ráðast að mér vinstra megin, en vegna þess að bíllinn, sem ég var á, (sjá mynd) er með sneggsta stýri bílaflotans, tókst mér eldsnöggt að beygja til vinstri svo að maðurinn kom að bílnum hægra megin.

Þar sló hann með krepptum hnefanum í gegnum rúðuna á hurðinni og mölbraut hana, en náði ekki til mín.

Það hefði hann hins vegar gert ef hann hefði komist að mér bílstjóramegin.  

Ég komst undan en glerbrot og blóðslettur höfðu dreifst um framsætið við hliðina á mér. Málið er óupplýst en tryllingur og æði þessa manns gleymast mér ekki.

Ég er bílafrík en á svona augnabliki hverfur allt annað en árásarmaðurinn svo að ég man alls ekki hvernig bíllinn var, sem hann kom úr.

Bíllinn, sem ég var á, er af mjög sjaldgæfri gerð, og ég hef því ekki enn sett í hann rúðu í stað þeirrar sem brotin var. En gapandi gluggi bílsins minnir mig á þetta óhugnanlega atvik.   

 


mbl.is Árásin án nokkurar viðvörunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Varstu nokkuð í ,,umferðar og hraða stjórnun" eins og á rússajeppanum í sumar ? Þá gerðirðu nú marga brjálaða.

Börkur Hrólfsson, 28.9.2009 kl. 10:08

2 Smámynd: Offari

Eru beinar rúður í bílnum? Ef svo er ætti Íspan að geta skorið fyrir þig samlímda rúðu. Ég þekki ekki hvot þeir geti skorið perlugler.  Vonandi færðu rúðu. Ég er nefnilega bíladellukarl eins og þú bara meira fyrir stóru bílana.   Minnsti bíllinn minn er Bjalla og stærsti 12 metra Scania rúta.

Offari, 28.9.2009 kl. 11:22

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var að koma upp brekku eftir aðrein inn á breiðustu braut landsins á leið frá Ræsishúsinu austast í Ártúnshöfðahverfinu og var á bíl, sem var minnsti bíll landsins á sinni tíð.

Þetta var klukkan tíu að kvöldi, nánast engin umferð, ég einn á þessari aðrein og þrjár akreinar auðar vinstra megin við mig.

"Umferðarstjórnun" mín á Rússanum á norðurleið í sumar fólst í því að víkja sem allra best fyrir umferðinni, sem kom á eftir mér og greiða fyrir framúrakstri hennar með því skipuleggja akstur minn fyrirfram.

Í sumum tilfellu fólst það í því að víkja strax út í kant og hægja á mér meðan umferðin fór fram úr mér og auka síðan hraðann aftur þegar framúrakstri var lokið.

Ég byrjaði að gera þetta oftar eftir að það kom tvívegis fyrir að bílstjórar sem komu á eftir mér, virtust vera sofandi yfir því að ég vildi að ég færi fram úr þeim og ætluðu síðan allt í einu að þrusa fram úr þegar heil lína og blindhæð voru framundan og bílar að koma á móti handan hennar, sem þessir bílstjórar höfðu ekki séð, þótt ég hefði séð þá.

Það tíðkast nefnilega allt of mikið að bílstjórar "lesi" ekki veginn framundan á meðan það er hægt.

Það var aldrei flautað á mig og þaðan af síður gerði ég neinn "brjálaðan", heldur var talið að sú lipurð að ég viki hratt og vel út á kant með stefnuljósum og hægði vel á mér á stundum bæri vott um að ég væri ekki "normal íslenskur bílstjóri" og hugsanlega ölvaður.

Ómar Ragnarsson, 28.9.2009 kl. 14:18

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég skal viðurkenna að á þeim tíma sem ég varð fyrir árásinni var það ekki "in" að vera á minnstu og ódýrustu bílum landsins og getur þess vegna vel verið að ég eigi að því leyti til sök á þessari árás að vekja gremju þeirra sem töldu sem stærsta og dýrasta bíla vera það eina sem sækjast bæri eftir.

Ómar Ragnarsson, 28.9.2009 kl. 14:23

5 identicon

Ég hef farið víða - og upplifað ýmislegt. Meira að segja verið hluti af, því sem "heilbrigt" fólk tekur "glæpamannasamfélagið". (Ég hef notað kannabis - ólöglegt "vímuefni" skv. lögum, sem þó hefur hjálpað mér gegnum mínar þjáningar síðasta einn og hálfan áratuginn.)

Ég hef ALDREI verið hræddur, að ganga gegnum "miðbæinn"; ég hef aldrei óttast náunga minn; ég hef ALDREI orðið fyrir árás, né heldur hef ég þurft - eins mikil gunga og ég í raun er - að þurfa að verja sjálfan mig.

Fyrir um 20 árum síðan, þurfti ég, sem barþjónn, að takast á við tvær konur, sem áttu víst eitthvað ósagt við hvor aðra; fyrir 20 árum tókst mér að tala þær niður. Fyrir 20 árum, tókst mér að tala hvern þann sem æsti sig á mínum fyrrum vinnustað niður, án þess að til átaka kom.

Ofbeldi - að mínu mati - er ofmetið; meira að segja merkismenn kynda undir því, með orðum sínum. Blaða- og fréttamenn nærast á því, enda hefur lögreglan matað þá á viðbjóðnum gegnum árin - og í raun magnað upp ofbeldið (að mínu mati) frekar en að tala það niður og gera lítið úr því.

Sæmi rokk - sá ágæti lögreglumaður - sagði eitt sinn (og þetta er ekki orðrétt, heldur fært í stílinn): "Það borgar sig ekki að taka á þessum einstaklingum með offorsi, heldur er betra að tala þá niður og róa." (Hver sem kann að rannsaka slíka hluti, mun staðfesta þessa "söguskoðun" mína.)

Ég er ALLS EKKI að gera lítið úr þinni reynslu, Ómar; það er bara til viðbjóðslegra ofbeldi en þú hér lýsir - og ég VEIT að þú veist það!

Skorrdal (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 16:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband