Vandað til vinnubragða.

Vonandi er það á undanhaldi að pólitík liti embættisveitingar á þann veg, að jafnvel umsækjandi sem af matsmönnum er talinn einna síst hæfur til að gegna embættinu, sé ráðinn og gengið framhjá þeim umsækjendum, sem hæfastir máttu teljast. 

Vonandi er sá tími að líða að flokksskírteini séu mönnum mest til framdráttar.

Þegar fyrsti Þjóðleikhússtjórinn var valinn, var ekki valinn leikhúsmaður til þess starfa, heldur skólamaður sem merkilegt nokk var með réttan flokkslit Framsóknarflokksins, sem þá var í stjórn.

Að vísu reyndist hinn fyrsti Þjóðleikhússtjóri furðu vel hvað snerti rekstur og stjórn leikhússins.

Það réttlætir samt ekki umdeilanlegar ráðningar í embætti þótt betur fari en á horfist.

Í slíkum tilfellum er þeirri spurningu samt sem áður ósvarað hvort annar hefði getað gegnt starfinu enn betur.  

Dæmi um að ræst hafi úr mannaráðningu með pólitískum lit var mjög svo umdeild ráðning Pálma Hannessonar í embættir rektors M.R. í tíð Jónasar frá Hriflu.

Pálmi reyndist hins vegar svo sannarlega vandanum vaxinn og varð einn af virtustu og bestu rektorum þess skóla, enda afburðamaður á ýmsa lund.

Hann varð harmdauði þegar hann féll skyndilega frá og það myndaðist ákveðið tómarúm í skólanum við brotthvarf hans.  

Þar sem lengst var gengið erlendis í flokkslituðum embættisveitingum, svo sem í Sovétríkjunum sálugu, hafa vafalaust ýmsir einstakir embættismenn samt staðið sig býsna vel þótt það væri skilyrði að vera félagi í Kommúnistaflokknum og í náðinni hjá valdaklíku hans.

Kolbrún Halldórsdóttir var talin einn þriggja hæfustu umsækjendanna, sem sóttu um starfið, og menntamálaráðherra, flokkssystir hennar, hefði því getað rökstutt ráðningu hennar á þeim grundvelli og sagt sem svo að Kolbrún ætti ekki að gjalda stjórnmálaskoðana sinna.

En hún kaus að vanda til vinnubragða svo sem kostur var í vandasömu vali og tók til greina þær sjálfsögðu kröfur sem þjóðin verður að gera til þeirra, sem falið hefur verið að vinna störf í hennar nafni. Er það vel.  


mbl.is Tinna áfram Þjóðleikhússtjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: corvus corax

Árni spillti Matthiesen hefði hiklaust ráðið flokkssystur sína fyrir hönd Björns Bjarnasonar spillingarkóngs íslenskra stjórnmála fyrr og síðar ...og svo bara rifið kjaft ef einhver dirfðist að gagnrýna ráðninguna. Það þarf enginn að segja manni að VG-liðið hafi ekki legið í Katrínu að ráða Kolbrúnu sem hefði verið pólitískt og faglegt klúður. En Katrín stóð í lappirnar ...í þetta skiptið. Húrra fyrir henni!

corvus corax, 30.9.2009 kl. 12:13

2 Smámynd: hilmar  jónsson

Hannes Hólmsteinn ráðinn prófessor við Háskólann..nei hvernig læt ég..það var ekki pólitík

hilmar jónsson, 30.9.2009 kl. 12:17

3 Smámynd: Offari

Ég er að vinna með manni sem eitt sinn sat í sveitarstjórn og var að ráða í störf fyrir sveitarfélagið.  Málið var að hann réði það fólk sem hann þekkti og treysti til starfa, og vissulega þekkti hann sína flokksfélaga vel. Það var engin athugasemd gerð við val hans en trúlega hefði eitthvað verið sagt núna.

Í flestum tilvikum finnst mönnum best að ráða þá sem menn þekkja til en að taka séns á að prufa einhverja óþekkta.

Offari, 30.9.2009 kl. 12:30

4 identicon

Það er samt svo að mannráðningar á vegum ríkis og sveitarfélaga er ennþá þannig að störfum er ráðstafað fyrirfram. Það þarf ekki endilega að vera pólitískur samerji heldur vinur eða samkomulag þeirra sem við stjórnvölin sitja.

Ég hef skjalfest dæmi um þetta en geymi mér það og geymi vel.

Björn S. Lárusson (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 16:09

5 identicon

Kolbrún var reyndar ekki talin ein af hæfustu umsækjendunum í umsögn Þjóðleikhúsráðs. Þar voru Tinna og Þórhildur taldar hæfastar, allir aðrir umsækjendur sagðir hæfir.

Hinsvegar kallaði Þjóðleikhúsráð enga umsækjendur í viðtal, sem rýrði umsögn ráðsins verulega. Umsækjendur voru það fáir, að hefði hefði verið einfalt að kalla þá alla til viðtals.

Þorfinnur (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 20:53

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kolbrúnu var kippt inn í toppinn eftir viðtöl við sérstaka nefnd Menntamálaráðuneytisins að viðstöddum sérfræðingi í mannauðssstjórnun eins og það heitir víst.

Ómar Ragnarsson, 30.9.2009 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband