7.10.2009 | 10:27
Ó, það voru indæl stríð.
Fyrir 43 árum var sýndur í Þjóðleikhúsinu söngleikurinn "Ó, þetta er indælt stríð." Í því var fjallað á beinskeyttan hátt um hinn nöturlega veruleika styrjalda, - meðal annars það hvernig sumir gátu hagnast á stríði.
Í 66 ár högnuðust Íslendingar gríðarlega efnahagslega á stríði þótt við færðum miklar mannfórnir á sjónum í heimsstyrjöldinni síðari.
Sú styrjöld veitti hins vegar þvílíku fjármagni inn í þjóðarbúskapinn hér, að 10. maí 1940 markaði meiri þáttaskil í sögu þjóðarinnar og hag hennar á síðustu öld en nokkur annar dagur.
Flugvallalaust land fékk skyndilega tvo stóra flugvelli að gjöf og annað var eftir því. Þrátt fyrir að við værum eina þjóðin sem hafði grætt peningalega á stríðinu fengum við meiri Marshallhjálp miðað við fólksfjölda en nokkur önnur þjóð.
Bandamenn samþykktu stofnun lýðveldis.
Í hönd fór Kalda stríðið þar sem það voru ríkir hagsmunir fyrir stórveldin og nágrannaþjóðir okkar að hér væri aðstaða fyrir herlið.
Við nýttum okkur þessa aðstöðu vel, gátum farið í fjögur þorskastríð við Breta og spilað á veru okkar í NATÓ til að halda þeim á mottunni svo að þeir gátu aldrei nýtt sér aflsmuninn sem fólst í fallbyssum herskpa þeirra.
Í fyrsta þorskastríðinu 1952 var að vísu ekki beitt hefðbundnum vopnum heldur efnahaglegum. Þá sáu Rússar sér hag í því að koma okkur til hjálpar, eyðilögðu með því efnahagslegan vopnabúnað Breta, sem þeir beittu gegn okkur, og höfðu áreiðanlega lúmskt gaman af.
Við fengum sérkjör varðandi flug til Bandaríkjanna og ýmsa aðra fyrirgreiðslu.
Þegar Kalda stríðinu lauk hvarf þessi aðstaða okkar en íslenskir ráðamenn áttuðu sig ekki á því.
Nú er liðinn sá tími sem það skipti gríðarlegu máli fyrir nágrannaþjóðir okkar að hafa okkur góða.
Lán, sem við þurfum til að komast yfir erfiðasta hjalla hrunsins verða ekki gefins, hvorki hjá AGS né öðrum.
Enn eru þeir til sem sakna Kalda stríðsins og þeirrar aðstöðu sem það veitti okkur á ýmsum sviðum.
En sá tími er liðinn og ég held að það hafi ekki verið hollt fyrir okkur hvernig við höguðum okkur og högum okkur reyndar enn þegar við ætlum að ganga á rétt milljóna Íslendinga, sem eiga eftir að byggja þetta land með því að eyðileggja á skammsýnan hátt mestu verðmæti landsins í lengd og bráð.
Nú verðum við að horfast í augu við þann nöturlega veruleika að við höfum ekki lengur sérstöðuna sem Heimsstyrjöldin og Kalda stríðið gáfu okkur.
Innst inni hugsa kannski margir: Ó, það voru indæl stríð. En framundan er barátta þar sem við verðum að meta stöðu okkar kalt og spila úr því eftir bestu getu.
Umheimurinn var í efnahagslegu fíkniefnapartíi þar sem okkur þótti gaman að geta svallað með þeim stóru og svelgdist á í græðgisfíkninni.
Drykkurinn var eitraður og við vorum flutt á gjörgæsludeild AGS og alþjóðasamfélagsins þar sem ekkert fæst ókeypis, heldur verður að dæla upp ólyfjaninni. Við fórum verst út úr svallinu líkt og þegar þeir minnstu troðast á flóttanum þegar kviknar í húsinu.
Það er svosem ekki alvont, því að það er byrjun á þeirri efnahagslegu fíkniefnameðferð, sem við verðum að fara í með utanaðkomandi aðstoð, þótt okkur þyki það slæmt. Það hlaut að koma að því að við vöknuðum upp við vondan draum.
Við verðum að vega og meta vel hvernig nauðsynleg aðstoð verði veitt okkur svo að okkur farnist sem best.
Við erum hluti af alþjóðasamfélaginu og getum ekki gert þetta ein, annars hefðum við hafnað lánum frá Færeyingum og Pólverjum, sem hafa sýnt okkur hverjir bestu vinir okkar eru í raun.
Höfum ekkert við AGS að gera | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Við, við í svalli Ómar minn?
Ekki má nú setja alla þjóðina í sama bát. Mörg okkar leyfðu sér nú ekki annað en kannski fara aðeins oftar til útlanda. Ævintýraborginar að sjá. Ég óska því amk. sjálfur eftir að verða ekki sakaður um svall.
Og nágrannar mínir margir segjast einmitt ekki vilja greiða skuldir svallara. Húsnæðisskuldir, bílaskuldir.
Sigmar Þormar, 7.10.2009 kl. 10:42
Skemmtilegur pistill hjá þér Ómar og að mestu leyti réttur. Ég vil þó gera athugasemd við lokaorðin. Þú segir:
Sem samfélag getum við staðið ein, en það er ástæðulaust ef við eigum vini. Á meðan gjaldeyrissköpun okkar er meiri en gjaldeyrisþörfin, getum við staðið efnahagslega ein og óstudd.
Sú hugsun, að við þurfum að safna meiri erlendum lánum, er fáránleg og hættuleg. Það er þessi hugsun fremur en annað, sem komið hefur okkur í koll. Þeir sem þekkt hafa tímana tvenna í efnahagsmálum, þekkja muninn á því að vera skuldugur og hins vegar að vera í góðum álnum. Þetta er munurinn á því að vera þræll og húsbóndi. Höfum við lært nokkra lexíu af efnahagshruninu ?
Loftur Altice Þorsteinsson, 7.10.2009 kl. 10:49
Ég er að tala um heildartölur, ekki þau tugþúsunda Íslendinga sem ekki tóku þátt í svallinu.
Í gróðærinu þegar eðlilegt hefði verið að þjóðin borgaði niður skuldir sínar, fjörfölduðust heildarskuldir heimila og fyrirtækja í landinu.
Ómar Ragnarsson, 7.10.2009 kl. 13:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.