8.10.2009 | 22:47
Sálfræðin í íþróttunum.
Markvarslan í leik Vals og Akureyrar í kvöld minnir mig á eftirminnilegan leik markvarðar fyrir 38 árum, árið 1971.
Íslendingar léku þá landsleik við Rúmena, sem voru heimsmeistarar í handknattleik.
Í síðari hálfleik brá svo við að Hjalti Einarsson, landsliðsmarkvörður, lokaði íslenska markinu nær hálfan síðari hálfleikinn.
Ég minnist þess að við hlið mér stóð Þorsteinn Björnsson, markvörður Fram, og þegar Hjalti hafði varið sjöunda skot heimsmeistaranna í röð, sagði Þorsteinn við mig: "Þetta getur ekki gengið svona áfram. Þeir skjóta alltaf hægra megin á hann og hann fer alltaf í það horn og ver, jafnvel alveg út við stöng.
Það er náttúrulega klikkað hjá honum að reikna alltaf fyrirfram með skoti frá þeim þeim megin.
Ég skil ekkert í Rúmenunum að að skjóta alltaf á hann þar." Þeir hljóta að sjá að hann tekur alltaf sama sénsinn og fara að breyta til og skjóta í hitt hornið. "
Í næstu sókn Rúmena skaut besta skyttan þeirra í hitt hornið, alveg út við stöng.
En viti menn: Hjalti fór í það horn og varði glæsilega og hefði ekki getað gert það nema vegna þess að hann veðjaði á það fyrirfram að skotið yrði í það horn !
Eftir á að hyggja sýnist mér að Hjalti hafi verið farinn að hugsa svipað og Steini og það á alveg réttu augnabliki.
En við þetta var eins og mátt drægi úr Rúmenunum.
Á meðan Hjalti hélt áfram að loka markinu söxuðu Íslendingar á forskot þeirra úr fyrri hálfleik og í lokin tókst íslenska landsliðinu að ná jafntefli, 14:14.
Heimsmeistarar höfðu þá ekki skorað svo fá mörk í landsleik svo lengi sem elstu menn mundu.
Það var í fyrsta sinn sem Íslendingar biðu ekki ósigur í leik við heimsmeistara í handbolta.
Hjalti hafði brotið þá niður sálfræðilega með frammistöðu sinni og er fágætt að einn leikmaður í flokkaíþrótt hafi ráðið svona miklu í leik við sjálfa heimsmeistarana. Þó er þess að gæta að stundum er sagt að markvörður í handbolta geti verið á við hálft liðið.
Hjalti var valinn íþróttamaður ársins 1971 út á þetta og ég játa að ég, sem var þá íþróttafréttamaður Sjónvarpsins, greiddi honum ekki atkvæði í það sæti, fannst ekki að einn landsleikur réttlætti það og tók annan íþróttamann fram yfir hann, sem átti jafnari afreksferil allt árið.
Um það má deila enn í dag og enn í dag velti ég því fyrir mér hvort Hjalti hafi "lesið" skyttur Rúmena svona ótrúlega vel eða hvort það var bara grís að hann skipti um horn um leið og þeir.
Þess má að lokum geta að ég upplifiði það sjálfur tvívegis tíu árum seinna hvernig hægt er að brjóta niður skæðan mótherja sálfræðilega og veit af eigin reynslu að slíkt getur hrifið og ráðið úrslitum í jafnri og harðri keppni.
Bubbi dró nánast úr okkur lífsneistann" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég man vel eftir þessum landsleik við Rúmena, þá 11 ára gamall. Stemningin var ótrúleg í höllinni og í okkar liði á þessum tíma voru nokkrir frábærir handboltamenn; Geir Hallsteinsson, Björgvin Björgvinsson, Axel Axelsson, Ólafur H. Jónsson og Einar Magnússon og svo Hjalti auðvitað. Hjalti átti marga góða leiki á þessum árum en þessi toppaði allt.
9 árum seinna, sumarið 1980 var ég á Interrail-ferðalagi með Gussa, bróðir tengdasonar þíns, og við skruppum m.a. til Lignano á Ítalíu sem var þá vinsæll sólstrandarstaður íslendinga. Þar kynntumst við við Hjalta sem var þar í sumarfríi með fjölskyldu sinni. Það var gaman að hlusta á hann segja frá þessum leik og fleiri sögum úr handboltanum. Mjög gaman.
Gunnar Th. Gunnarsson, 9.10.2009 kl. 00:05
Bubbi er fallinn...
Minnir óneitanlega á ákveðna fyrirsögn í blaði hér um árið.
.Bubbi dró úr okkur lífskraftinn. Hefði ekki verið í lagi að orða þetta svona aðeins ...hmmmmm
hilmar jónsson, 9.10.2009 kl. 16:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.