Impregilo, gott og vont.

Í nýrri bók um Kárahnjúkavirkjun tekur Friðrik Sophusson upp hanskann fyrir Imgpregilo og telur að Íslendingar hafi ómaklega vegið að fyrirtækinu og ekki látið það njóta sammælis, - dæmt það miklu harðara en önnur fyrirtæki.

Sumt af því sem Friðrik segir er rétt eins og til dæmis það að ekki hafi verið rétt hjá Íslendingum að líta með fyrirlitningu á fyrirtækið vegna þess að það kom frá Suður-Evrópu. 

Í ljós kom að tækni- og vélabúnaður Impregilo var í fremstu röð og átti sinn þátt í að yfirleitt tókst að klára þetta áhættusama og erfiða verkefni án þess að kostnaður við það færi enn meira fram úr áætlun en hann gerði. 

Fyrirtækið hafði á sínum snærum mjög færan mann til að útskýra verkefnið í þeim kynnisferðum sem ég fór á svæðið, en hann var yfirverkfræðingur þar og hefði því ekki getað sinnt þeim störfum almennt og daglega. Miðað við stærð verkefnisins í jafn litlu landi og okkar var full ástæða til að fá innlendan mann til að sjá um samskipti við innfædda og það sýnir kannski hofmóð Impregilo að kvarta yfir því. 

Ég tel hins vegar að gagnrýni á meðferð fyrirtækisins á starfsmönnum sínum hafi verið réttmæt og þarf ekki annað en að bera hana saman við vinnubrögð Bechtel á Reyðarfirði til að sjá muninn.

Upphaflega var því lofað að Íslendingar fengju 80% starfa við verkefnið en útlendingar 20% en þetta varð öfugt. 

Impregilo flutti inn verkamenn frá fjarlægum löndum eins og Portúgal og Kína og einkum heyrði ég magnaðar sögur af því hvernig það fór með Kínverjana.

Þeir voru að sjálfsögðu vanir fáránlega lélegum kjörum og létu sig því hafa vinnuaðstæður sem engir aðrir hefðu þolað, til dæmis í göngunum þar sem bormenn lentu mánuðum saman í verstu hremmingum vegna misgengis.

Engin hætta er á að þessir menn muni bera vitni um sín kjör, - þeir komu og fóru og hurfu í kínverska mannhafið.

Mér finnst það móðgun við íslenska eftirlitsmenn að gera því skóna að aðfinnslur þeirra hafi ekki verið réttmætar.  Þvert á móti undruðust margir það langlundargeð sem þeir sýndu gagnvart aðbúnaði og framkomu verktakanna við starfsmenn.

Ég undanskil verktakafyrirtækið Suðurverk þar sem ég heyrði aldrei neitt annað en gott um góða stjórn og vinnubrögð. Af samskiptum við starfsmenn Landsvirkjunar og Ístaks hef ég ekkert nema gott að segja.

Bechtel sýndi og sannaði í framkvæmdunum á Reyðarfirði hvernig hægt er að ná árangri í öryggismálum sem er í sérflokki og til eftirbreytni og lærdóms fyrir íslenska verktaka. Gildir þá einu þótt haft væri í flmtingum eystra að stundum skráðu menn meiðsli, sem þeir urðu fyrir á vinnustað, sem meiðsli á heimili sínu eða utan vinnusvæðisins.

Öryggisráðstafanir Bechtel stungu í stúf við það ábyrgðarleysi sem til dæmis var sýnt við vinnu fyrir neðan Fremri-Kárahnjúk og kostaði eitt af þeim mannslífum sem glötuðust við þessa framkvæmd.

Ég vísa einfaldlega í skýrslurnar um þetta slys fyrir þá sem vilja kynna sér þetta. 

Friðrik fer hörðum orðum um norrænu fyrirtækin sem buðu í verkið og hurfu frá því og tel ég það mjög ómaklegt. Forráðamenn þessara fyrirtækja sáu þá gríðarlegu áhættu og mikla fórnarkostnað sem verkið bauð upp á og fáir hafa lýst betur en lögfræðingur Landsvirkjunar í bréfi hans til þeirra sem héldu fram kröfum vegna vatnsréttinda.

Ég hef áður vitnað í þessa lýsingu og þegar hún er lögð saman við álit nefndar um Rammaáætlun vegna virkjana sést eðli Kárahnjúkavirkjunar mjög vel.

Forráðamenn norrænu verktakanna sýndu ábyrgð og yfirvegun sem fór að sjálfsögðu í taugarnar á íslenskum ráðamönnum og Impregiló. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er fjarri lagi hjá þér með norrænu verktakana, Ómar. Tvískinnungurinn og hræsnin í þeim var yfirgengileg og ástæðan fyrir því að þeir hættu við, voru fyrirhugaðar ofsóknir umhverfisverndarsamtaka í Noregi og Svíþjóð (að undirlagi íslenskra umhverfissamtaka, Árna Finnssonar o.co.) á hendur þeim, ef þeir voguð sér að taka þátt í verkefninu.

Sænski verktakinn, sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir, fékk þó hluta af verkinu sem undirverktaki, en svíarnir gerðu allt til þess að það færi ekki hátt í umræðunni. M.a. skröpuðu þeir af og máluðu yfir merkingar á vinnuvélum sínum sem þeir notuðu á svæðinu.

Það var engu lofað í sambandi við 80% Íslendinga og 20% útlendinga, það var einungis reiknað með þessu hlutfalli... eða vonast eftir því. Staðreyndin var hinsvegar sú að Íslendingar höfðu ekki áhuga á því að vinna þarna við erfiðar aðstæður, vegna þess að þeir gátu fengið "eðlilega" vinnu í heimahögunum.  Og Kínverjarnir voru ekki hlunnfarnir þarna frekar en aðrir. Þarna var unnið samkvæmt íslenskum lágmarkstöxtum og engin lög brotin hvað það varðar.

Ég talaði við marga Íslendinga sem unnu þarna og þeir sögðu allir sem einn að þó ýmislegt væri að athuga við framkomu Ítalskra yfirmanna við undirmenn sína (því stéttskipting var mikil og Íslendingar ekki vanir slíku), þá var umfjöllun fjölmiðla oft og tíðum ýkjur og bull, sérstaklega Baugsfjölmiðlanna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.10.2009 kl. 15:12

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hét ekki sænski verktakinn NCC?

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.10.2009 kl. 15:15

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Í bókinni kemur fram að NCC málaði yfir merkingar á vélunum sínum. Annars voru samskipti allra góð þarna Ómar og ég var aldrei að við gætum ekki fengið þær upplýsingar sem við vildum. Það var þá frekar við okkur að sakast.

Haraldur Bjarnason, 13.10.2009 kl. 15:44

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég ítreka það sem ég segi hér fyrir ofan í pistlinum um góð samskipti mín við alla aðila á Kárahnjúkasvæðinu. Í þeim kynntist ég mörgu afbragðsfólki sem er vant að vinna það vel og samviskulega sem því er falið.

Ómar Ragnarsson, 13.10.2009 kl. 19:05

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Einhverjir Portúgalar kvörtuðu og því var slegið upp með stríðsfréttaletri í Baugsmiðlunum. Ræðismaður þeirra kom sérstaklega hingað til lands til að tala við mennina og einnig við trúnaðarmenn á svæðinu og vinnuveitendur þeirra.

Ef ég man rétt þá lognaðist þetta mál útaf en Baugsmiðlarnir fjölluðu ekki um það svo ég muni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.10.2009 kl. 00:01

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þú virðist vera búinn að gleyma því þegar fulltrúar Vinnueftirlitsins sátu dögum saman á fundum út af aðbúnaðarmálunum. Var það bara út af engu?

Ómar Ragnarsson, 14.10.2009 kl. 15:39

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nei, það var ekki út af engu. Það var vegna tröllstórra fyrirsagna í DV, Fréttablaðinu og Stöð 2 og ekkert að því að rannsaka það. En hvað kom út úr rannsókninni?

(Ekki það að ég efi  að einhversstaðar hafi verið pottur brotinn)

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.10.2009 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband