25.10.2009 | 23:38
Einstakur brautryðjandi burt kallaður.
Ég átti síðast tal við Flosa Ólafsson fyrir nokkrum dögum og það var eins og alltaf gefandi og gaman að tala við hann og skiptast á kviðlingum. Það ískraði í honum húmorinn um elli Kerlingu og tilveruna, - hann var fjallhress.
Ég bloggaði um þetta, grunlaus um það sem í vændum væri.
Sviplegt fráfall hans kemur því sem reiðarslag.
Flosa má telja föður allra þeirra gamanþátta í sjónvarpi hér á landi sem eru gerðir undir forskrift Áramótaskaups og síðar Spaugstofunnar.
Fyrstu tvö ár Sjónvarpsins voru Áramótaskaupin hugsuð sem nokkurs konar skemmtidagskrá með blönduðu og alveg ótengdu efni, bæði léttu, alvarlegu, leiknu, töluðu og sungnu.
Þar heyrðust óskyld dægurlög og óperuaríur í bland.
Þetta var sett fram í svipuðu formi og um skemmtidagskrá á öðrum hátíðisdögum.
Til skaupsins 1967 lagði Flosi stuttan fyrirfram upptekinn grínþátt, gamanóperuna "Örlagahárið."
Þetta frábært brautryðjendaverk í Sjónvarpi og sleginn nýr tónn í sjónvarpi.
Fyrir bragðið var Flosa falið að gera heilt áramótaskaup næsta ár eftir þessari formúlu og henni hefur verið fylgt síðan utan einu sinni.
Flosi er því faðir Áramótaskaupanna og Spaugstofuþáttanna og einstakur brautryðjandi að því leyti.
Sum atriði Áramótaskaupa hans eru hreinar perlur eins og Kröflu"gaggið" sem hann kallaði svo 1976 og óhemju djarft atriði um Geirfinns- og Guðmundarmálin í sama skaupi.
Ég minnist einnig mjög beitts atriðis þar sem Flosi tætti i sundur þá stefnu þingmanna og ráðamanna að koma togara, loðdýrarækt og fiskeldi inn á nánast hvert heimili. Í fullu gildi enn í dag.
Þess utan var Flosi einn allra fremsti hagyrðingur landsins og fór á kostum í spurningaþáttunum "Hvað heldurðu?"
Leiftrandi húmor og ritsnilld auk hæfileika til að skapa eftirminnilegar og sérkennilegar persónur jafnt á sviði sem í kvikmyndum voru landsþekkt.
'
Hann varð fyrst þjóðþekktur fyrir að skapa mjög eftirminnilega persónu í útvarpsleiktriti eftir Agnar Þórðarson, en það var unglingurinn Danni, hinn kærulausi, svali, linmælti og hraðmælti töffari.
Mér finnst viðeigandi að kveðja hann með tveimur kviðlingum.
Ljúfur Drottinn lífið gefur, - /
líka misjöfn kjör /
og í sinni hendi hefur /
happ á tæpri skör. /
Feigðin grimm um fjörið krefur, - /
fátt er oft um svör. /
Enginn veit hver annan grefur. /
Örlög ráða för.
Ég kveð góðan og náinn vin minn í nær hálfa öld með miklum söknuði og bið hans nánustu blessunar.
Athugasemdir
Falleg minningarorð. Ég þekkti ekki Flosa í persónu, en eins og með flesta aðra Íslendinga er ekki hægt annað en að bregða svolítið þegar svo merkur einstaklingur fellur frá. Flosi er húmoristi sem virtist hafa þá náðargáfu að halda alltaf dampi, hvar sem hann kom fram. Ég samhryggist þér.
Roger Ebert (í þýðingu Hrannars Baldurssonar), 26.10.2009 kl. 08:14
hitti ég hýrann hafnfirðing í Hellisgerði. Að aftan og framan og allt um kring. ég er á verði. .Fyrir mörgum árum voru samkynhneigðir að reyna nota orðið "hýr" sem þýðingu á "gay".Flosi fann út úr því,allaveganna hættu hommarnir að nota þetta nýyrði.
Hörður Halldórsson, 26.10.2009 kl. 12:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.