7.11.2009 | 18:16
Hús, fullt af játningum fjöldamorðingja.
Ég hef áður vitnað í bókiina "Nazism at war" sem lýsir betur en nokkur önnur bók sem ég hef lesið hvað lá að baki þeim mikla harmleik sem Seinni Heimsstyrjöldin var.
Það sem stendur upp úr eru beinar tilvitnanir í ræður Hitlers við ýmis tækifæri og bókina "Mein Kamph" sem á sínum tíma var gefin út á Íslandi þegar nasisminn var í hvað mestum uppgangi í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar.
Þegar þessar tilvitnanir eru lagðar saman kemur út alveg ólýsanlega viðbjóðsleg röð játninga kaldrifjaðs og tryllts fjöldamorðingja sem allt til hins síðasta leit á það sem hlutverk sitt að útrýma öllum "óæðri" kynþáttum sem hann skilgreindi sem slíka.
Á lokamánuðum stríðsins beindist grimmd þessa manns gegn hans eigin þjóð sem hann taldi hafa brugðist sér og ætti ekki betra skilið en að farast í eldslogum síðustu mánaða þessa hræðilega stríðs.
Í stað þess að jafna húsið í austurríska bænum Braunau við jörðu þar sem þessi glæpamaður ólst upp, ætti þvert á móti að útbúa þar safn þar sem fólk gæti lesið af stórum skiltum játningar hans um útrýmingarstríð, - ekki bara játningarnar varðandi útrýmingu Gyðinga, Slava, Sígauna og svertingja, heldur hans eigin þjóðar í lok stríðsins.
Spila mætti búta úr æsingaræðum hans þar sem þetta kom fram og varpa ljósi á þá einstæðu villimennsku sem Hitler mælti fyrir um.
Útrýmingarbúðirnar í Auswitch eru varðveittar og hið sama á að gera við önnur ummerki um fyrirbæri í mannkynssögunni sem eigi að verða víti til varnaðar.
Ég var einu sinni spurður um það hvað ég myndi velja, ef ég mætti verða viðstaddur flutning á tveimur ræðum úr mannkynssögunni.
Mitt svar var að það yrði annars vegar Fjallræða Krists og hins vegar sú ræða Hitlers, sem haldin hefði verið með stórkostlegastri umgjörð, til dæmis í Nurnberg.
Þannig fengist samanburður á hinu besta og hinu versta á þessu sviði.
Óttast hverjir kaupi heimili Hitlers | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hitler fyllir margar blaðsíður í sögubókum samtímans. Flestar fjalla þær um illsku og fjöldamorð (réttilega) sem hann stóð fyrir ( einkennilega virðist það þó vera að ofjarl Hitlers í viðbjóði, stalín, hefur ekki fengið sömu útreið í þessum sömu bókum. kommúnistaflokkurinn ætti réttilega að vera jafn illa séður og nasistaflokkurinn í siðuðum samfélögum, þ.e.a.s ef glæpir flokksins eru viðmiðið fyrir óþoli almennings)
Hitler var þó vissulega afsprengi umhverfis síns, Þýska þjóðin hafði verið beitt hroðalegum órétti sem hafði skelfileg áhrif á líf alþýðu þessa fyrrum sterka lands.
Weimar tilraunin/stjórnin (samfylking Þýskalands, fyrirgefðu Ómar, þú ert eini maðurinn í flokknum sem hef virðingu fyrir) gerði lítið sem ekkert (enda kannski lítið hægt að gera), því snéri þjóðin sér að einstaklingum sem komu með svör, einnig heift (þjóðin var reið) og að lokum forystuhæfileika.
Þessa kosti fann Þýska þjóðin í einum manni.. og.. the rest is history !!
P.S... umræddur einstaklingur hét ekki jóhanna von stonemask !!
runar (IP-tala skráð) 7.11.2009 kl. 18:57
Það er frekar lítið að marka söguna þar sem hún hefur ávallt verið hönnuð eftirá til að réttlæta fjöldamorð og eignaupptöku og fjársvik og ekkert hefur breyst.
Baldur Fjölnisson, 7.11.2009 kl. 21:08
Furðulegt má það telja að þetta hús hafi ekki verið brennt og rifið fyrir löngu. En vel hönnuð og vel byggð hús eiga ekki að gjalda fyrir það, hvaða illmenni kunna að hafa alið æsku sína eða hluta lífs síns í því. Á t.d. að brenna eða rífa Hótel Borg af því að nokkru fyrir stríð gistu þar mjög þekktir en umdeildir Ítalir sem sjálfsagt má telja hafi komið nálægt fjöldamorðum og myrkraverkum? Það dytti engum heilvita manni í hug. Eða á að jafna við jörðu Bessastaði þar sem þar bjuggu mestu kúgarar íslensku þjóðarinnar á einokunartímanum? Það dytti heldur engum heilvita manni í hug.
Það er hreint ótrúlegt hversu mikil áhrif einn maður hefur komist upp með. Fjöldi Þjóðverja tóku þennan vandræðagemling, Adolf, með fögnuði. Hann reyndist ákaflega glúrinn við að æsa upp lýðinn og afla sér vinsælda sem var oft á kosntnað þeirra sem voru varkárari. Hann hafði um sig hirð sem tilbúin var að verja foringja sinn og bera blak af honum ef einhver efasemd var uppi. Persónudýrkunin fór með heila þjóð beint í glötunina.
Eigum við ekki íslenska hliðstæðu þó í vægari mynd sé? Margir stjórnmálamenn okkar hafa verið umdeildir. Voru t.d. Jónas frá Hriflu og Ólafur Thors ekki umdeildir hvor á sinn hátt? Hvað með Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson? Áttu þeir ekki báðir meginþátt í afar umdeildum ákvörðunum? Sá fyrri er beinlínis guðfaðir kvótabrasksins sem leiddi af sér skelfilega þróun þar sem við komumst fram að hengiflugi glæpsku og fjármálaspillingar. Ekki er séð fyrir endann á þeim ósköpum. Báðir vissu eða vita máttu að einkavæðing bankanna var gjörsamlega misheppnuð og allt stefndi í glórulausa vitleysu.
Kannski mætti koma fyrir í þessu þekkta húsi í Austurríki rannsóknarstofnun í múgæsingu þar sem draga mætti einhvern lærdóm af mistökunum miklu. Kannski meginmistökin hafi verið fólgin í því að leyfa ekki þessum lítt kunna skiltamálara að spreyta sig á í listsköpun, myndir hans frá ungum listaárum hans, benda til að hann hefði sjálfsagt orðið öllu friðsamari borgari ef hann hefði fengið inngöngu í listaskólann þar sem áhrifamenn af gyðingaættum fóru með ákvörðunarvaldið. Þessu verður sennilega seint svarað.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 8.11.2009 kl. 10:32
Hitler var skrumari "par excellence" og komst upp með lýgilega glæpi. Hann á sér enga afsökun, og þótt að blóðslóðin eftir Stalín hafi ef til vill verið jafn þykk, þá var plottið ekki eins hressilegt.
Það sem gerir hitler einstakan, er sú slátrunarstefna sem hann viðhafði alveg frá fyrsta degi stríðsins, þar sem að "einsatzgruppen SS" hófu taumlausa slátrun á almennum borgurum að baki víglínunnar. Tilrauna-loftárásir á varnarlausa bæi hófust einnig á fyrsta degi, 1.Sept 1939.
Plottið var einnig réttlæting á hernaði, þar sem fölsuð voru átök milli pólskra og þýskra hermanna til að afsaka þýska íhlutun. Fyrstu fórnarlömb seinna stríðs voru því þýskir hegningafangar sem voru dressaðir upp í pólska einkennisbúninga, og svo skotnir til bana.
Hitler beitti öllum ráðum frá upphafi, og ákvarðanir voru oftar en ekki raktar beint til hans. Þegar yfirmaður þýsku leyniþjónustunnar (Abwehr), Canaris hét hann, - komst að því hvað átti sér stað í Póllandi, þá rauk hann á fund Hitlers, ólgandi af bræði. Hann var stoppaður af Keitel (ein af "hægri höndum" Hitlers) og bent á að halda sig á mottunni, fyrirmælin um útfærslu komu beint frá foringjanum sjálfum. Canaris átti eftir að svíkja lit síðarog var hengdur af Hitlers mönnum í stríðslok.
Í hernaði beitti Hitler nánast öllum hrylling sem hægt var að nota. Fyrst beygði hann Varsjá með eldsprengjuárásum, og í sókn á Vesturvígstöðvunum var það sama upp á teningnum. Rotterdam var rústað, saklausar Norðurlandaþjóðir hernumdar, og það var reynt að beygja Breta til hlýðni með sama sniði, - árásum á óbreytta borgara.
Rússlandsinnrásin var sérhönnuð til að tortíma herjum Sovétmanna frekar en að bara sigra þá, enda mannfallið með ólíkindum. Og svo gekk "aftökubatteríið" á fullum snúning allt stríðið.
Helförin er svo það sem toppar flest. Stærstu búðirnar voru reyndar Birkenau (Auscwitz II), en þar er bara smá spotti á milli.
Þarna var ég 1998, og mun ALDREI jafna mig. Það er alveg nýr skilningur að skoða svona batterí, og dettur mér ekki hug að efast um að það hafi verið leikur einn að brytja niður milljón manns þarna,- afköst allt að 24.000 á sólarhring.
Það sem kannski er sérstakast við Hitler, er að með þessu morðæði þá innsiglaði hann sín eigin örlög. Staðfestu Churchills má að hluta til rekja til þess að hann þurfti ekkert að velkjast í vafa um að andstæðingur hans var fullköminn óþverri. En synd hvað margir saklausir þurftu að líða, og skylda okkar að gleyma þessari sögu ekki, heldur læra af henni.
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.11.2009 kl. 11:29
Hitler hefur algera sérstöðu meðal hans líkra af einræðisherrum að yfirlýsingar hans voru ótvíræðar um útrýmingu "óæðri kynþátta."
Yfirlýsingar Hitlers hvað snerti hernaðinn í Sovétríkjunum snerust ekki bara um að heimilt væri að skjóta formálalaust hvaða þá foringja og liðsmanna hersins sem mönnum sýndist, því að um stríðið giltu engin lög, heldur þyrfti að útrýma forystu- og stjórnarmönnum hersins með tölu.
Mér líst vel á hugmynd Mosa um rannsóknarstofnun í múgæsingu.
Ómar Ragnarsson, 8.11.2009 kl. 13:28
Ég gleymdi einu, - það rifjaðist upp þegar þú nefndir formálalausar aftökur á foringjum og liðsmönnum rússneska hersins.
Þetta átti sér byrjun í Póllandi, þar sem Þjóðverjar aflífuðu bæði liðsforingja og háskólamenn í forgangi. Menntamenn í Pólskri herþjónustu voru reyndar yfirleitt sjálfkrafa liðsforingjar.
Háskólinn í Krakow er einhver elsti háskóli í Evrópu. Þjóðverjar tóku alla prófessora skólans af lífi, ef ég man rétt þá voru þeir á annað hundrað.
En Rússar áttu líka sinn leik eftir að hafa tekið sína sneið af Póllandi, og það voru fjöldamorðin í Katyn skógi. Þarna var sama sniðið á meira en 20.000 liðsforingjar teknir af lífi, og þrætt fyrir þar til síðustu uppgreftrar áttu sér stað nálægt Smolensk, þar sem talan hoppaði upp í 20.000 hið minnsta. Þá baðst Pútín afsökunar.
Áður höfðu Þjóðverjar fundið einhver 4.000 lík í framsókn sinni í austurátt, og var áróðursmaskínan ekki sein að nýta sér það.
Sitthvor gerandinn, sama aðferðarfræðin.
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.11.2009 kl. 14:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.