Hugrakkur unglingur segir sannleikann.

Mesta örlagastund í lífi mínu var í frumsýningarpartíi eftir vel heppnaða Herranótt, sem var sú fyrsta sem ég lék í. 

Þegar dálítið var liðið á partíið fékk ég á tilfinninguna að ég væri utangátta vegna þess að vín var haft um hönd en ég hafði fram að því aldrei bragðað vín. Allir voru svo skemmtilegir en ég fann mig ekki.

"Ætlarðu ekki að vera með og fá þér einn?" spurði einhver. Í rælni tók ég við glasi, fullu af víni og hélt því fyrir framan mig. Mér leið ekki vel. Ég skynjaði þrýstinginn á að ég yrði að verða maður með mönnum í samkvææminu og fá mér sopa.

Satt að segja ætlaði ég þarna að fá mér fyrsta sopann og vera ekki svona einn og utangátta.

Bara í þetta eina sinn og standa mig síðan betur gegn þessu næst.  

Ég skil ekki enn í dag af hverju ég hætti við þegar ég hafði lyft glasinu að vörum mér og gerði mér upp erindi fram á salerni.

En þetta var mesta örlagastundin í lífi mínu. Ef ég hefði byrjað þarna hefðu verið meiri líkur en minni til þess að ég hefði ekki lifað það að komast á þrítugsaldur.

Ég var svo sem nógu villtur án áfengis á þessum árum og ég hafði gert mér grein fyrir því vegna áfengisvandamála á heimili foreldra minna að yfirgnæfandi líkur væru á því að ég myndi ekki ráða við Bakkus.

Í sjónvarpsfréttum í kvöld heyrði ég kjarkmikinn ungling segja svipaða sögu og fannst ákaflega vænt um það. Hann tók með því áhættuna af óþægilegum viðbrögðum skólafélaga sinna sem væru ekki ánægðir með frásögn hans, sem þó var aðeins staðfesting á ótal líkum sögum kynslóð fram af kynslóð.

Þegar glasið var á braut kom smám saman í ljós að ég gat alveg orðið jafn kátur án áfengis og öll hin og þetta var byrjunin á því að eiga auðvelt með að falla með trukki inn í glaðra og góðra vina hóp 

Ég get ekki stært mig af því að hafa staðist freistinguna í partíinu forðum daga því að ég ætlaði að taka sopann en það var eins og einhver ósýnileg hönd bægði glasinu frá mér. Það var verndarhönd.

Ef ég hefði tekið fyrsta sopann fyrir 52 árum hefði sá unglingur sem kom fram í fréttinni í kvöld aldrei orðið til.  

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fallega skrifað, Ómar, góð og lærdómsrík saga. Og við þökkum Guði fyrir þig.

Jón Valur Jensson, 10.11.2009 kl. 01:42

2 identicon

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 08:43

3 identicon

Ég ber MIKLA virðingu fyrir þér Ómar, ekki bara vegna þess að ég hef þekkt þína sögu, sem þú segir hér frá - heldur einnig vegna þess, að þú þekkir þín takmörk (eða þau takmörk sem þekkja má; er ekki viss um að Frúin væri mér sammála...)

En, þau, sem ekki hafa sama sjálfsaga og þú hefur sýnt í þessum efnum - eiga þau skilið þetta: http://moggablogg.skorrdal.is/18.html

Ég veit þetta er "gömul" frásögn - en hún er hvorki einsdæmi, né eitthvað sem gerðist bara í "gamladaga"...

Skorrdal (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 11:33

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Æðruleysisbæn fíkla (ég er að eigin dómi óvirkur alkóhólisti) er þríþætt:

1. Sætta sig við það sem ekki er hægt að breyta.

2. Breyta því sem hægt er að breyta og þarf að breyta.

3. Hafa vit tll að greina þarna á milli.

Sýnist svo auðvelt en er svo erfitt og mistekst svo oft.

Ómar Ragnarsson, 10.11.2009 kl. 13:22

5 identicon

Falleg reynslusaga og öðru vísi þar sem hún er saga þess sem ekki féll. Sögur þeirra (okkar) sem féllu eru algengari og dapurlegri.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 14:16

6 identicon

Sæll Ómar. Þú átt heiður skilinn fyrir að "edrúmennskuna", eins og Bubbi mundi segja. 

Ég minnist þess að þú hafir einhverntíma sagt sögu af því þegar einhver kall hafi boðið þér eitthvað hóstasaft eða eitthvað sem þér hafi þótt alveg sérdeilis gott og hressandi. Það hafi svo komið á daginn síðar meir að þarna hafi verið um Jagermeister að ræða.

Jonni (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 18:24

7 identicon

Þetta hefur alltaf verið svona. Var örugglega enn verra hér í den, ef eitthvað er, enda hétu hlutirnir ekki einelti á þeim tíma.

Ég man að það var ítrekað reynt að ota að mér áfengi frá 12 ára aldri. Sem betur fer held ég að aldurinn hafi hækkað hvað þetta varðar.

Að sama skapi er ég mjög stoltur yfir því að hafa staðist þrýstinginn svo árum skipti. Smakkaði ekki áfengi fyrr en orðinn 18 ára, sem þótti mjög óvenjulegt á þeim tíma. Og þá voru menn reyndar löngu hættir að reyna að eiga við svona þrjóskan pilt, þannig að ákvörðunin var mín.

Þetta er eitt það mikilvægasta í uppeldinu, að hvetja börnin okkar til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og láta ekki undan þrýstingi af þessu tagi.

 Annars sá ég ekki fréttina og veit ekki hvor þeirra var til viðtals... Skiptir svo sem ekki öllu máli :)

Þorfinnur (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 18:27

8 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Það er víða sem ætlast er til þess að menn drekki vín til þess að falla inn í hópinn. Þetta þekkist m.a. í iþróttahreyfingunni. Gott innlegg.

Sigurður Þorsteinsson, 10.11.2009 kl. 21:04

9 identicon

Það sem gerir unglingana þyrsta,
þrýstingur frá heilalausum her.
Sá sem ekki tekur sopann fyrsta,
sigrar heiminn; Já sem betur fer.
Jón bóndi.

Jón bóndi (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 01:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband