13.11.2009 | 12:26
Sómaslagsmál, léttar nauðganir ?
Stundum er komist óheppilega að orði og skringilega þegar rætt er um það, sem er fyrir sumum þáttur í hversdagslegum viðfangsefnum.
Þannig var komist þannig að orði í frétt af ölvun, ólátum og átökum í Reykjavík í nótt að það hefði verið "sæmilegur erill" hjá lögreglunni.
Orðið "sæmilegur" er eitthvað sem ekki er skömm að heldur sómi. "Sæmilegur afli" er afli fiskiskips sem er nógu mikill til þess að hann sé ekki til skammar.
Næsta stig notkunar orðsins "sæmilegur" varðandi það sem miður fer að næturlagi gæti verið að viðkomandi laugardagskvöld hafi verið "sæmileg" slagsmál eða jafnvel sómaslagsmál.
Ég minnist þess eitt sinn þegar tekið var svonefnt "lögreglutékk" að morgni á fréttavakt í Sjónvarpinu sagði varðstjórinn að þetta hefði verið róleg nótt, bara svona "slagsmál, smá pústrar og léttar nauðganir."
Þetta var að sjálfsögðu ekki haft eftir, vegna þess að varðstjóranum var vorkunn þótt hann skrikaði aðeins á tungunni, því að helgina áður höfðu menn stórslasast í slagsmálum og alvarlegar nauðganir átt sér stað.
Athugasemdir
Hjá lögreglunni er sem sagt munur á "léttri nauðgun" og "alvarlegri nauðgun".
Svona eins og á léttöli og öli í Sjónvarpinu, þar sem í góðu lagi er að auglýsa öl ef hægt er að sjá þar "Léttöl" með stækkunargleri.
Þorsteinn Briem, 13.11.2009 kl. 13:15
Stundum berast fréttir af grófum nauðgunum, einsog þær séu til af ljúfari sortinni.
Arngrímur Vídalín (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 18:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.